Jóladagur í Gaulverjabæ

Jóladagur í Gaulverjabæ

Við fögnum jólum á fögrum degi þegar jörðin er frá því að vera grá í rót og yfir í alhvítt, kannski ekki miklar fannir en þó dregur það sig saman.
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
28. nóvember 2017

Við fögnum jólum á fögrum degi þegar jörðin er frá því að vera grá í rót og yfir í alhvítt, kannski ekki miklar fannir en þó dregur það sig saman. Það sýnist vera meira hér austur um og þá má búast við enn meiri gleði barnanna að hella sér út í snjóhúsagerð eða búa til snjókarla og svo er auðvitað betra færi fyrir sleðana í meiri snjóum. Það gæti hafa dugað vel hinum alþjóðlega jólasveini með hreindýrin sín, hinum heilaga Nikulási og forystuhreindýri hans, Rúdólfi. En þar erum við líklega komin nær þeim aðstæðum sem þeir þekkja af eigin raun fyrir austan frá Hornafirði og uppá Hérað þar sem Rúdólfurnar og Rúdólfarnir ganga lausir. Aðlögunarhæfni þessara sagna af gjafmilda jólasveininum eru lítil takmörk sett. Ekki er snjór um allar jarðir og lönd og þá svífur hann bara si sona um loftin blá til að hitta góðu börnin eða – ef þau eru sofnuð – að læða í skó þeirra eða sokk einhverju sem gleður þau. Það er nefnilega fátt betra í þessum heimi en glöð börn. Við viljum öll að þau verði glöð og beri ástina áfram sem þeim er sýnd og iðki ævinlega kærleika þann sem þeim er kenndur með brjóstviti móðurinnar. En við viljum líka að þau læri að rækta með sér þá eðlislægu réttlætiskennd sem þeim er í blóð borin. Fátt er einmitt verra en að brjóta niður réttlætiskennd barna. Ef ekki er hlúð að henni og hún styrkt með góðu uppeldi er meiningin stigið ofaná aðlögunarhæfni þeirra og þau rugluð í leit að þroska í lífi og trú. Heilagur Nikulás var góður maður og virtur biskup á sinni tíð og gaf fordæmi fyrir mörgum öldum sem enn er fylgt á fjölmörgum heimilum. Það eflir trú á hið góða og mig rennur í grun að það hafi ekki alltaf verið öld hins góða í lífi allra þjóða á þessum ríflega þúsund árum án þess að illur skuggi hafi of oft skyggt þar á. Við þurfum svosem ekki að fara lengra en í stríðssöguna til að sjá að stríð, sem alltaf eru vond, leitast við að drepa niður hið góða og jafnvel að útrýma því eða útiloka áhrif þess. Og því meigum við aldrei gleyma að það hefur verið reynt með mikilli þjáningu. Baráttan fyrir hinu góða er því alltaf bara barátta réttlætis, sáttargjörðar og friðar. Við skulum ekki halda að það hafi verið friður í öllum löndum þegar Nikulás fór á stjá í fyrsta sinn og við skulum heldur ekki halda að barátta Nikulásar hafi borist út á öllum torgum stórborganna á sama tíma einsog hvert annað stríð. Þetta var barátta sem hann hóf með þeim hljóða hætti að snúa sér að næsta barni sem þurfti að gleðja með gjöf. Baráttan er ekki einhvers staðar úti í heimi heldur er hún alltaf hér heima hjá okkur. Sagt er að sá bjargi heiminum sem bjargi einu barni. Sá lýsir upp veröldina sem tendrar eitt kerti í myrkinu. En svo barst þessi siður út vegna þess að hið góða skapaði fordæmi. Aðrir breyttu eftir hinum góða og þá var það orðið allt þorpið áður en fólk vissi af. Engin prédikun gat haft svo mikil áhrif sem ein gjöf í litla hönd sem gefin var með óskýrðum hætti af því að góðvildin þekkir ein sínar leiðir að hjarta barnsins. En þegar þorpið og sveitin hafði farið að eftirdæmi hins góða kom það skýrar og skýrar í ljós að það þarf meira en foreldri til að ala upp börnin. Það þarf í raun heilan bæ til að ala upp eitt barn. Og svo fáum við aftur í þessa mynd hina alþjóðlegu vídd að heimurinn okkar, þökk sé samskiptamiðlum nútímans, er orðinn að einu risastóru þorpi. Við þurfum æ betur að huga að því hvaða áhrif allir í þorpinu, heimsþorpinu, eru að leggja til uppeldis á okkar barni eða barni náungans. Hvernig er heimsþorpið að ala upp börnin í flóttamannabúðunum og fátæktarhverfunum í þorpinu okkar eða bara á hverju því heimili sem býr að nettengingu við alla aðra í sögum og frásögnum, myndum og hugmyndum, tali og athugasemdum? Hvað erum við að kenna börnunum okkar á þessum tímum og þá á ég við öll þau börn sem heyra til þorpinu okkar og sveit þar sem allt mannkyn er í einni sveit?
Um leið og ég nefni mannkyn allt hlýtur það að skapa hugrenningartengsl við það sem hefur áhrif á mannkyn allt. Sá mikli skari sem fylgir Kristi á okkar tímum hefur aldrei verið stærri og aldrei í fleiri löndum en núna. Enn vex Kristni og þó ekki með neinum ofsa heldur hægt og sígandi. Það er engu líkara en allir noti Andrésaraðferðina en það er boðun maður á mann. Það er sagt að heilagur Andrés hafi ekki prédikað á torgum eða látið á sér bera þannig að hann höfðaði til alls lýðsins heldur gekk hann á milli og hafði áhrif á fólk sem hann hitti með orðum sínum, viðhorfi og trú. Og þegar Andrésaraðferðin er notuð reynir mest á þá samkvæmni sem þarf auðvitað alltaf að vera á milli orða og verka.
Vegna umræðunnar um Nikulás hér á undan er rétt að nefna hvað það er gaman að Nikulás var biskup í Myra á fjórðu öld en Myra er í Litlu Asíu í bæ sem heitir núna Demre og er í Tyrklandi. Og sá biskup sem hefur kynnt sig sem eftirmann Andrésar postula, sem var fyrsti lærisveinn Jesú og þar áður lærisveinn Jóhannesar skírara, er kallaður patríarki og þjónar í Miklagarði. Lengi var Mikligarður kallaður Konstantínobel eftir Konstantínusi mikla sem þar ríkti og stjórnaði Rómverska heimsveldinu þaðan. En það var einmitt Konstantínus mikli sem gerði kristni að löglegri trú í Rómarveldi öllu og hann gerði hana reyndar að viðurkenndri trú fyrir alla þegna heimsveldisins og þessi patríarki sem núna þjónar þar í bær heitir Bartólómeus og situr sem eftirmaður Andrésar postula og er æðstur þjónandi presta í allri Rétttrúnaðarkirkjunni, grísku og rússnesku. Og þarna situr hann í Miklagarði sem heitir í dag Istanbúl og er kristni þar þó í miklum minnihluta af sögulegum ástæðum. Þar stendur enn kirkjan Hagia Sophia sem er núna safn, bæði með kristnum myndum og yfirskrift Islam af því hún hefur bæði verið kirkja og moska. Og hér er ég að rekja þetta allt til að tengja saman heilagan Nikulás sem skapaði fagurt eftirdæmi sem góður fylgismaður Jesú Krists og þjónn hans í sama landi og eftirmaður Andrésar postula þjónar enn í dag. Og það var gaman fyrir okkur Íslendinga að hafa fengið þennan merka patríarka í heimsókn í október og það fylgir því áhrif að spjalla við þann mann vegna þeirrar öflugu prédikunar sem hann flytur fyrir friði og réttlæti í heiminum, umhverfisvernd og ábyrgð í loftlagsmálum, kannski af því að hann talar í krafti kirkju sem telur ríflega 300 milljónir og kannski af því að þá finnur maður hvað áhrif af fagnaðarerindi Jesú Krists skipta mikinn fjölda barna svo miklu máli. Og við finnum að þegar hann beitir áhrifum í samskiptum sem kalla má maður á mann eru það raunveruleg og mikil áhrif. Það hefur skipt miklu um útbreiðslu fagnaðarerindisins af því að þessi staða skiptir miklu í trúarlífi og næringu þess í baráttunni fyrir því góða og fagra. Og landið og þorpin þar í Litlu Asíu eiga sögu um marga baráttu fyrir trú og kærleika sem oft hefur farið illa en oftar þó styrkt hjörtu þeirra sem trúa og lofað þeim að lifa í von um frelsi og lifa samkvæmt því réttlæti sem Guð einn getur skapað. Í þessu landi bjó líka María guðsmóðir með Jóhannesi postula, sem var lærisveinninn sem Jesú elskaði, einsog hann er kallaður, af því hann gekk móður Jesú í sonar stað og annaðist hana á efri árum hennar. Við elskum allar sögur af Maríu móður Guðs og alveg sérstaklega á hátíð ljóss og friðar þegar hún var sú fyrsta að heyra og sjá hirðana falla fram í lotningu fyrir nýfædda barninu og varð sú fyrsta, með Jósef, verndara vinnandi stétta, að heyra af vörum vitringanna frá Austurlöndum að með Jesú var fæddur frelsari heimsins, æðstur allra kónga, æðstur presta heimsins og sá sem færði mestu fórnina fyrir okkur, að taka á sig synd og dauða mannkyns svo að við gætum lifað frjals og að eilífu í Guði. En það var einmitt María sem skynjaði þetta allt og geymdi á besta stað, geymdi það í hjarta sínu að Guð varð maður í fæðingu Jesú og að það þess vegna sem hann var Kristur Drottinn, fæddur á jörðu til að frelsa hvert barn í heimsþorpinu mikla. Og þessi sama María er mikils metin fyrir hlutverkið sem henni var falið og við tengjumst henni á beinan hátt í Gaulverjabæ af því að hér á staðnum var kirkjan frá öndverðu helguð Maríu guðsmóður, trú hennar og lífi sem hún helgaði sig algjörlega. Það gerði hún vegna þess að sonur Guðs var kominn til að breyta veröld manneskjunnar varanlega.
Í upphafi vorum við að tala um sjóinn og svo kom sleðinn og þá skelltum við okkur í vetrartúr um dali og hálsa trúarinnar. Enginn af þeim háu tindum kristinnar trúar og þjónustu var bara góður í sjálfum sér. Þau byggja öll á þeim kærleika sem er forsenda allrar kirkju. Það er sá kærleikur sem Kristur fágaði í sálu manneskjunnar og það er ást af sömu rót og við syngjum um sem aldinið sem út er sprungið. Það er kærleikurinn sem ríki Krists byggir á af því að það var Drottinn sjálfur sem reisti þetta ríki í hjörtum okkar og þá er það hér. Kærleikurinn, réttlætið, friðurinn, eilífðin og sáttin er hér. Það er því ekki lítið sem felst í sigurhátíðinni sem jólin vísa til. Við horfum til hátíðar jólanna í þessu ljósi sem hið eiginlega musteri trúarinnar, hinnar eiginlegu kirkju Krists, og það er ekki fjarlægt okkur heldur harla nærri. Það er líka satt sem Einar Ben segir um þetta samhengi í Hnattasundi: „Musteri Guðs eru hjörtun sem trúa.“ Það er svar hans við seinasta ljóðinu á undan í síðustu ljóðabók þjóðskáldsins:
Ég vissi ei himin né heim, sem ég mat.
Mitt hjarta var kalt sem steinn.
En þó bar mitt eðli eilífa þrá
undrið mikla að skynja og sjá,
sem aldrei leit annar neinn.
Nema núna höfum við öll fengið að líta það undur sem er undur jólanna, undur gleðinnar, undur þess mikla kraftaverks og þeirrar frelsunar sem gerðist með fyrstu jólunum og við sjáum í barninu, barni Maríu, barninu sem okkur er falið að umvefja kærleika Krists, barninu í okkar eigin hjarta. Hreyfi jólin öll þau hjörtu og skapi gleðilega hátíð hér og heima.