Á tímamótum

Á tímamótum

Við þurfum að þekkja okkar eigið fólk, sýna þjóðinni traust, trúnað og virðingu, leyfa henni að finna að það eru gleðidagar í trúarsamfélaginu, það eru líka gleðidagar í mótlætinu því að trúnni fylgir alltaf gleði, einnig í sorginni, sem undirstraumur.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
16. apríl 2012

Af leikmannastefnu 2012

Inngangur

Kirkjualmanakið segir okkur að gleðidagar standi nú yfir, svo nefnist tíminn frá páskum til hvítasunnu. Það er gott að hafa í huga, reyndar hvarflar hugurinn þá einnig til hins eftirminnilega titils sem séra Bjarni Jónsson dómprófastur valdi á ævisögu sína: „Hver dagur var hátíð“.

Gleðin lýtur engum fyrirmælum og verður ekki fyrirskipuð og heldur ekki ákveðin af öðrum. Engu að síður er gott að minnast þess að kirkjuárið á sér forna sögu og byggir á trúarmenningu aldanna þar sem gleðin var hátt skrifuð, trúmenningu sem við Íslendingar tileinkuðum okkur forðum og eigum enn.

Það er ánægjulegt að fá að bjóða leikmannastefnu velkomna hingað í Kjalarnessprófastsdæmi, það er gleðiefni og hátíð. Þetta er þó ekki efni leikmannastefnu að þessu sinni heldur vísar yfirskrift hennar í aðra átt sem skýtur kannski ýmsum skelk í bringu. Þar er spurt hvort hvort íslenska þjóðkirkjan standi á krossgötum. Hvað sjálfan mig varðar er ég sannfærður um að svo sé, þjóðfélagið allt stendur á tímamótum og þjóðkirkjan einnig. Þar er að ýmsu leyti um sömu tímamót að ræða en að öðru leyti eru þau ólík. Hvorki ríki né kirkja hefur siglt lygnan sjó undanfarið, þar eru stofnanir sem báðar hafa átt undir högg að sækja um skeið. Mér hugnast betur að tala um þjóð og trú en ríki og kirkju; þjóðkirkja er kirkja þeirrar trúar sem fólkið játar.

Söguleg upplausn

Ég tel að íslenskt þjóðfélag standi á tímamótum sem eiga sér sögulegar forsendur. Þær eru í stuttu máli sú upplausn sem varð hér á landi í síðari heimsstyrjöld þegar þjóðlíf og menning var eins og rifið upp með rótum og nýjum jurtum plantað af handahófi þar sem áður var blómlegt vistkerfi. Þar var ekki um að ræða vöxt eða þróun eins og gerist við eðlilegar aðstæður heldur skyndilegar breytingar sem hafa haft langtímaáhrif.

Svipuðu máli gegndi um þjóðkirkjuna. Einnig í hennar málum varð upplausn rótgróinna hefða miður gott vegarnesti til þeirra áratuga sem í hönd fóru. Einnig þar varð síðari heimsstyrjöldin og allt sem henni fylgdi örlagavaldur í nútímasögu þjóðkirkjunnar. Upplausn í trúarmenningu þjóðarinnar varð afdrifarík fyrir þjóð og trú. Í einföldu máli lýsir upplausnin sér sem uppflosnun þeirra fornu róta sem þjóðkirkjan og íslensk trúarhefð hafði átt í mið-evrópsku og dönsku trúarumhverfi allt frá því fyrstu biskupar okkar voru vígðir þar á miðöldum og til síðari heimsstyrjaldar. Hér var þráður aldanna slitinn nánast á svipstundu og afleiðingarnar urðu alvarleg upplausn í trúarmenningu þjóðarinnar. Hvergi hefur þessi nútímasaga þjóðkirkjunnar verið skoðuð til hlítar.

Líkt og þegar hreiðri fuglsins er grandað fer hann jafnskjótt á stúfana og leitar að nýjum stað þar sem hann getur hreiðrað um sig og búið lífi framtíðarinnar skjól og athvarf. Í nútímasögu þjóðkirkjunnar myndaðist hér tómarúm þar sem sambönd guðfræðinga, presta og kirkjuleiðtoga beinast á aðrar slóðir en áður. Og með þeim berast áhrif til landsins frá ýmsum trúarlegum menningarsvæðum: frá Kanada (voru reyndar fyrir) og Bandaríkjunum, frá Svíþjóð, frá Bretlandseyjum og síðast en ekki síst frá Vatíkaninu í Róm. Áhrifin voru glöggum mönnum sýnileg á ýmsum sviðum, m.a. í klæðnaði þeirra, í embættisbúningi og skrúða, í kirkjusiðum sem taka miklum breytingum, fyrst hægt en síðar með afar rótttækum hætti. Safnaðarhugsun, kirkjuskilningur og kirkjuskipan fær allt nýjan svip. Sumir vilja fríkirkju, aðrir sterka miðstýrða páfakirkju, enn öðrum fannst anglíkanska hefðin sniðug og sænska lúthersk-anglíkanska hákirkjuhefðin átti marga formælendur og áhrifamikla.

Upplausnin fólst í því að áhrifin voru ekki samhæfð og áttu sér sjaldnast rætur í hugarheimi þjóðarinnar enda var hún ekki spurð um breytingarnar eða hversu æskileg þessi nýju og framandi áhrif væru. Var hún spurð um breytingar á helgisiðum, var almennur vilji fyrir stefnumörkunum sem gerðar voru í skjóli valds og áhrifa hinna valdamiklu?

Við erum því á tímamótum, bæði sem þjóð og sem kirkja. Slíkir tímar eru ekki aðeins uggvænlegir heldur einnig spennandi – en þeir eru ekki alltaf gleðidagar, þeir eru átakatímar.

Horft til rótanna

Á þessum upplausnar- og átakatímum er mér tvennt efst í huga: Annars vegar (a) íslensk trúarmenning en hins vegar (b) rætur þeirrar trúarmenningar í siðbótarhreyfingu Marteins Lúthers.

Það er þekkt söguheimspeki, kennd við Ágústínus kirkjuföður, að tímanum megi skipta í þrennt: fyrst er það fortíðin sem varðveitir rætur og sjálfsmynd manns og samfélags, þá er það framtíðin þangað sem hugur mannsins stefnir og vonin leiðir hann, í þriðja lagi er það líðandi stund, þar sem maðurinn vinnur með hvort tveggja. Skorti hann ræturnar veit hann ekki lengur hver hann er, skorti hann framtíðarsýn skortir líf hans og starf tilgang. Líðandi stund er því skilyrt af því sem var og verður.

Tímamót eru þegar að kreppir í því sem snýr að hinu liðna, að sjálfsmyndinni, að hefðum og sögu. En hún lýsir sér einnig í ótta við framtíðina: hvert stefnum við, ekki aðeins á morgun og ekki aðeins til nokkurra ára heldur hvert er markmiðið, hver er tilgangurinn „með öllu striti mannsins“ svo vitnað sé til Prédikarans Salómons í Gamla testamentinu.

Í því sambandi eru fyrstu viðbrögðin iðulega þessi: Nú þurfum við að gera eitthvað. En væru ekki skynsamlegri viðbrögð fólgin í þessu: Nú þurfum við að skilgreina okkur að nýju, nú þurfum við að fara að líkt og skipstjórinn þegar hann veit ekki hvert halda skal, hann skoðar áttavitann, hann spáir í dýptarmælinn, hann rýnir í sjókortin. Með öðrum orðum: hann reynir að átta sig á því hvar hann er, hann gerir staðarákvörðun.

Ættum við ekki að einbeita okkur að því á næstunni að gera staðarákvörðun, rifja upp hver við erum, finna rætur okkar og sjálfsmynd sem þjóðkirkja? Var síðari hluti tuttugustu aldar ekki tímabil sívaxandi hraða á öllu, þar sem aðeins var spurt einnar spurningar: hvernig verður allt meira og hraðara, hærra og stærra eða lengra og lengra? Varð ekki eitt og annað eftir, t.d. spurningin um ræturnar?

Hvernig er íslensk trúarmenning í því ljósi? Er það kirkjumenning, iðkuðu Íslendingar trú sína í kirkjuhúsum? Dálítið, en mest á heimilum. Hér þróaðist að mínum dómi alveg sérstök trúarmenning sem notar orðið kirkja mjög sparlega, en orðið trú þeim mun meira. Hér hefur reyndar allt breyst, trúin hefur stofnanavæðst, orðið kirkja hljómar í eyrum fólks eins og orð sem tengist stofnun en ekki trú, lífsgildum og mannúð.

Leyndardómur siðbótarinnar

Framundan er tækifæri til að skoða ræturnar, það er fimm alda afmæli siðbótarinnar sem haldið verður hátíðlegt um allan hinn lútherska heim árið 2017. Það gæti orðið eitt af okkar stóru tækifærum, ekki til að snúa Íslendingum til trúar að nýju heldur til að viðurkenna trú þeirra, hlú að trú þeirra, hlusta á trú þeirra, en einnig upplýsa, fræða, opna tækifæri eða með öðrum orðum: ná sambandi við þjóðina að nýju, rækta þá trúarmenningu sem er til staðar undir niðri.

Sú trúarhugsun sem Íslendingar búa að er lúthersk í sínu innsta eðli vegna þess að hún tekur leikmanninn alvarlega eins og hann er. Hún tók húsbóndann alvarlega og fól honum húspostilluna í hendur, hún tók móðurina alvarlega og fól henni trúaruppeldi barnanna, sömuleiðis afann og ömmuna, hún tók kennarann alvarlega og fól honum dýrmætt hlutskipti í okkar samfélagi, hún treysti yfirvaldinu, stjórnmálamanninum til góðra hluta (og gerði hann í reynd að „neyðarbiskupi“ í upphafi siðbótartímans á meginlandinu), hún treysti hreppstjóranum til að vísitera með prófastinum hverja sókn landsins um aldir. Þannig mætti lengi telja. Hér er dýrmæt trúarmenning, ég nota það orð: trúarmenning, því að trúin á sér menningu og menningin á sér djúpar rætur í trú þar sem sjálfsskilningur mannsins ákvarðast endanlega, þar sem svörin við dýpstu spurningum hans ráðast. Hér í Kjalarnessprófastsdæmi hefur alla tíð ríkt mikill, heilbrigður metnaður, hér var héraðsnefnd fyrst stofnuð í nútímaskilningi og hér var héraðssjóður fyrst stofnaður. Hvort tveggja breytti miklu um kirkjulegt starf. En þvert á það sem margir halda voru þetta ekki nýjar hugmyndir, þetta voru meðal elstu hugmynda siðbótarinnar. Við erum að tala um uppistöðurnar í kirkjuskipan Kristjáns konungs þriðja sem Alþingi samþykkti árið 1541 þar sem dregið var úr miðstýringu biskupsstólanna, en starfið heima í héraði eflt og aukið, bæði í sóknunum þar sem sóknarpresturinn átti nú að leggja áherslu á prédikunina, á eigin túlkun og eigin trúarvitnisburð – og í prófastsdæmunum þar sem prófastar fengu alveg nýtt umboð, kirkjustjórnin er færð heim í hérað. Kirkjustarfið heima fyrir, í kirkju og á heimilum, er það sem allt snýst um.

Þessi kirkjustjórnarsýn hefur verið að skerpast að nýju í nágrannalöndum okkar. Og þannig er hin almenna stjórnsýsla einnig, bæði hér á landi og um víða veröld í lýðræðisríkjum (eða viljum við ekki lýðræðið, kannski einveldið heldur?): verkefni sem áður heyrðu beint undir ráðuneytin, eins og skólakerfið svo eitthvað sé nefnt, eru nú komin heim í hérað.

Þessi þróun verður að gerast í þjóðkirkjunni, hún þarf að verða þátttökusamfélag, kirkja hins almenna prestsdóms, kirkja siðbótarinnar á tuttugustu og fyrstu öld – því að þannig er hún í sínu innsta eðli. Það sjáum við þegar við horfum til rótanna. Um þetta snýst trúarmenning okkar.

Það ætti hverjum að vera ljóst, sem hefur fylgst með kirkjumálum, að kirkjuþing var mikil framför – átt er við lögin frá 1997 – það var stórt skref til lýðræðis en með lýðræðinu er leikmaðurinn kallaður til ábyrgðar á stjórnun og stefnumörkun, þar er hann kallaður til að vera yfir stjórnsýsluna settur.

Til farsællar siglingar

Þannig hugsanir þurfa að fara um hug okkar í náinni framtíð: að finna aftur ræturnar, að læra aftur að skilja þessa þjóð og vinna með henni, að móta kirkjuskipan og stjórnsýslu á þeim grunni sem lagður er í trúarmenningu okkar, auk þess sem stuðst er við bestu þekkingu samtímans í stjórnsýslu. Málið er ekki: hvað eigum við að gera, heldur hver erum við, hvers eðlis er trúarmennnig þessarar þjóðar. Þannig hugsar „kallinn í brúnni“: frumskilyrði farsællar siglingar er að vita hvar skipið er statt, þegar það liggur ljóst fyrir er framhaldið barnaleikur einn. Þetta veit hann. Þarna erum við núna, á krossgötum, hvergi annars staðar.

Á vegamótum horfir ferðamaðurinn fyrst um öxl og skimar yfir farinn veg, síðan horfir hann fram. Hve langt er síðan við horfðum um öxl, hversu langt er síðan við rýndum í trúarmenningu okkar, í sérkenni þeirrar kristni sem hefur mótast af landi og þjóð hér á norðurslóðum? Á tímamótum þarf að spyrja slíkra spurninga og gefa sér tíma til þess. Þá meina ég að skoða trúarmenninguna með hliðsjón af okkar eigin samtíð, af líðandi stund í anda Ágústínusar, í þeim tilgangi að finna ræturnar og þar með okkur sjálf.

Við þurfum ekki hókuspóskumeistara sem segjast geta snúið heiminum til trúar á nokkrum dögum. Við þurfum að þekkja okkar eigið fólk, sýna þjóðinni traust, trúnað og virðingu, leyfa henni að finna að það eru gleðidagar í trúarsamfélaginu, það eru líka gleðidagar í mótlætinu því að trúnni fylgir alltaf gleði, einnig í sorginni, sem undirstraumur. Trúin er það sem gefur lífi mannsins merkingu, það er mesta gleðin sem hver maður getur óskað sér í þessum heimi, þá er hver dagur hátíð.

Flutt á leikmannastefnu í Keflavík, 13. 4. 2012.