Líkaminn er góður

Líkaminn er góður

Ég sagði að kirkjan birtist sem ein líkamshræddasta stofnun vestrænnar menningar. Þó skorar kvikmyndaiðnaðurinn hærra á þeim skala, sem býður upp á fjöldaframleidda afþreyingu sem gengur út á stöðuga ögrun við líkama fólks og heilsu.

Verk í Vídalínskirkju

Í dag er opnuð sýning Steinunnar Þórarinsdóttur sem ber yfirskriftina Bergmál. Viðfangsefni Steinunnar er fyrst og síðast mannkynið. Manneskjan. Enda er það heillandi viðfangsefni og höfuð viðfangsefni kristinnar trúar. Kristur var boðberi umhyggju Guðs fyrir manninum, gleði hans yfir manninum og þrá hans eftir því að sjá mennina vaxa og blómstra. Ég finn það um leið og þessi sýning kemur upp að hún kallar á sterk viðbrögð. Fyrstu viðbrögð flestra þegar komið er að kirkjunni eru þau að þeim þykir notalegt að láta útilistaverk sem ber heitið Hreyfing taka á móti sér. Það stendur hér úti fyrir dyrum sem eins konar kirkjuvörður og ber með sér andblæ kyrrðar. Þegar inn í forstofuna er komið erum við minnt á samstöðu manna í verkinu hennar Festi. Þegar ég sá það verk kom fyrst upp í huga mér sunnudagaskólalag sem ég ólst upp við sem barn og hljóðar svo: Við setjumst hér í hringinn og hendur mætast þá því systkin öll við erum og engum gleyma má. Því Jesús elskar alla og alla jörð á hann. Hann veitir okkur vini og verndar sér hvern mann. Í mínum huga kallar þetta verk á hlýjar tilfinningar innra með mér. Þegar við svo komum inn í kirkjurýmið og horfum hér upp að altarinu á helgasta stað kirkjuskipsins blasa þar við uppi í kórnum tveir líkamar sem kallast á við tvo aðra hér á austurveggnum. Enda heitir verkið Bergmál.

Myndlistarsýning 2 Ég finn strax að öll smærri verkin á þessari sýningu njóta mikillar velþóknunar og fólk sér margt í þeim og tjáir sig með einkar jákvæðum hætti um þau, en verkin hér í kórnum hafa kallað á sterk viðbrögð og mörgum finnst þau ögra sér og trufla sig verulega. Þetta á ekki síst við um eldri hluta bæjarbúa. Það hefur farið ómældur tími í það hjá okkur prestunum að leitast við að umfaðma þessi viðbrögð og ræða þær tilfinningar sem vakna með okkur. Sumir segja “Ég vil ekkert láta snúa í mig bakinu þegar ég kem til kirkju!” Og ein fermingarstúlka kom til mín eftir fermingartíma og sagði: Jóna, á það að vera þannig þegar maður er búinn að biðja bænirnar sínar í kirkjunni og opnar augun að þá sér maður bara tvo rassa?!” Þannig má segja að sterkustu viðbrögðin hafi komið frá elstu kynslóðinni og svo yngri kynslóðinni. Fyrir mig sem prest eru bestu fréttirnar þær að þetta hreyfir við öllum sem koma í kirkjuna. Og það er það sem mér þykir auðvitað spennandi. Þessi verk hreyfa við fólki. Það er þetta sem maður þráir sem leiðtogi í safnaðarstarfinu, - ekki endilega að ögra heldur að fólk sé vakið til umræðu um kirkju og kristni. Ég hef ekki talað meira um guðfræði í langan tíma en þessa viku eftir að verk Steinunnar komu hér upp. Krafan sem ég finn snúa að mér er þessi: “Hvernig ætlar þú að kynna þetta sem guðfræðingur og prestur?!” Og það má því segja að nú sé kátt í höllinni. Af öllu því sem blasir við okkur í veröldinni, hvað er þá stórkostlegra en mannslíkaminn? Hvað er fullkomnara? Þetta er maðurinn, skapaður í Guðs mynd, skapaður sem karl og kona, skapaður sem musteri heilags anda. “Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði?” spyr Páll postuli á einum stað. (1. Kor. 6.19) Líkami okkar er svo máttugur af því að hann miðlar því sem við meinum. Með líkamstjáningu segjum við jafnvel það sem við höfum ekki gert okkur grein fyrir sjálf að við hugsum. Og þess vegna er það hlutverk kirkjunnar að minna fólk á að vera líkamlega meðvitað og rækta með sér heilbrigða líkamsmenningu. Þegar barn er borið til skírnar, eins og hann Marek Ari hér í dag, er því heitið samstöðu og vernd, og það gerist með táknrænum hætti með líkamlegri snertingu, signingu, vatnsaustri og yfirlagningu handa í bæn. Í skírninni er verið að segja við barnið að það skuli njóta öryggis vegna þess að það eigi okkur öll að. Þetta gerum við með áþreifanlegum hætti í Jesú nafni vegna þess að hann bauð okkur að gera það. Við lútum barninu og þjónum þörfum þess. Og þjónustan við skírnarbarnið er fyrst og fremst líkamleg. Þannig er kristinn maður krafinn um að mæta lífinu með virðingu fyrir líkamanum, heilsu hans og öryggi. Og nú er að hefjast undirbúningur fyrir hátíð holdtekningarinnar, jólin sjálf, þar sem Guð gerist maður í líkama, einn af okkur. Kirkjan verður að þora að vera heilög og kannast við að hún trúir á upprisu holdsins sem þýðir m.a. að við tökum líkama okkar í sátt. Við erum ekki bara andleg, heldur einnig líkamleg. Jesús Kristur gaf okkur líkama sinn og því er kirkjan staðurinn sem tekur við veruleika mannanna með húð og hári. Kirkjan á að virða þær tilfinningar fólks sem beinast að líkamanum, hún á að umfaðma ástina og alla mannlega þrá. Þó er það svo undarlegt að ef nokkur stofnun óttast mannslíkamann þá er það kristin kirkja eins og hún hefur birst okkur gegnum aldirnar. Einkennismerki kristninnar er, eins og allir vita, nakinn og mannslíkami á krossi. En samt er kirkjan einhver líkamshræddasta stofnun veraldar. Þvílík kaldhæðni! En um leið er þetta áskorun til okkar sem kristinna manna að samþykkja líkamann í trú okkar eins og Jesús Kristur gerði.

Myndlistarsýning 3 En svo er það líka svo einkennilegt að við lifum í menningu sem hatar mannslíkamann. Getur verið að áhrif þessarar menningar sé ástæða þess að við upplifum slíka ögrun í verkum Steinunnar hér í dag? Ég sagði að kirkjan birtist sem ein líkamshræddasta stofnun vestrænnar menningar. Þó skorar kvikmyndaiðnaðurinn hærra á þeim skala, sem býður upp á fjöldaframleidda afþreyingu sem gengur út á stöðuga ögrun við líkama fólks og heilsu. Það þykir hvíld í því að geta á síðkvöldum horft á fólki tortímt í sjónvarpinu og það auðmýkt með hótunum. Auk þess höldum við á lofti afbakaðri líkamsímynd og setjum okkur sjálfum oft fótósjoppuð viðmið um útlit sem er mannslíkamanum óeðlilegt. Skilaboð nútímans eru skýr: ‘Þú skalt ekki halda að þér sé óhætt, því að líkami þinn er ekki eins og hann á að vera. Fyrr eða síðar mun hann svíkja þig með því að veikjast og deyja. Þú og líkami þinn eruð og munuð alltaf vera óaðskiljanlegir óvinir.’ Það er vart búið að ausa barnið vatni fyrr en þau skilaboð dynja á því að það sé ekki í lagi með það eins og það er. Og svo höfum við mannfólki innbyggða andúð á öllu sem kemur frá mannslíkamanum. Líkamsvessar þykja ógeðslegir og allt er gert til að forðast þá og fela. En sannleikurinn er sá að í helgisögum kirkjunnar gegnir líkaminn, já mannslíkaminn, hins vegar lykilhlutverki. Og allt sem um Jesú varð frá fæðingu til dauða og upprisu er tjáð með tilvísunum í líkamleg gæði. Frásagnir af Jesú þegar hann snertir fólk sem var talið óhreint og ekki var tilhlýðilegt að snerta, eru fjölmargar. Hann var alltaf að lýsa líkamann hreinan. Hann læknaði konuna með blóðlátin og eins líka holdsveikt fólk. Hórseka konan vætir fætur hans með tárum sínum og þerrar með hári sínu, hann hrækir í moldina, gerir leðju úr hrákanum og smyr í augu blinda mannsins og hann nærir og mettar mannfjöldann í óbyggðum. Loks tekur hann brauðið í síðustu kvöldmáltíðinni og segir: „Takið og etið, þetta er líkamin minn sem fyrir ykkur er gefinn.” Svo heldur hann á kaleiknum og segir: „Drekkið allir hér af, þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir alla til fyrirgefningar synda.”

Myndlistarsýning 4 Allt það sem Jesús gerði er ein alsherjar staðfesting á gæðum og gildi hins líkamlega lífs og sjálf altarisgangan er boðun líkamlegra gilda. Samt hefur kristin kirkja ekki náð að sigrast á líkamsótta sínum og hótanir tíðarandans smeygja sér stöðugt inn í líf hennar og störf. (Óbein tilvitnun úr bókinni ,,Af heilum hug“ s. 234-236) Við hér í Vídalínskirkju skulum þakka fyrir þessa ákvörðun listanefndar og listakonu að setja öll þessi verk sem tjá veruleika líkamans inn í guðshúsið okkar. Vegna þess að það hjálpar okkur og styður okkur í því að taka líkama okkar í sátt og það minnir okkur á að kirkjan er líkami Krists. Við erum einn líkami. Þessi sýning mun einmitt hjálpa okkur við það að minna okkur á að við erum einn líkami og það opnar líka augu okkar fyrir því að kirkjan er lifandi samfélag. Listaverkin hennar Steinunnar eru dýrmæt, en það eru allir þessir lifandi líkamar sem sitja hér í dag sem eru stórkostlegustu listaverkin og það dýrmætasta af öllu í augum Guðs sem kallar okkur til þess að vera öll eitt í honum. Páll postuli segir í bréfi sínu til Efesusmanna: „Einn er líkaminn og einn andinn, eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Sérhver okkar þáði af Kristi sína náðargjöf og frá honum er sú gjöf komin að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar” og hann hefði mátt bæta við ‘og sumir listamenn’ “Þeir eiga að fullkomna hina heilögu á láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.” “Við eigum að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.” (Efesus. 4) Amen.