Fögnum fjölbreytileika - krefjumst mannréttinda

Fögnum fjölbreytileika - krefjumst mannréttinda

‘Ég fæ mig ekki til að tigna hómófóbískan Guð og ef mér yrði boðin vist á hómófóbískum himnum myndi ég afþakka með orðunum - Nei takk, ég vil frekar fara á hinn staðinn.’
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
29. september 2013

Kristin kirkja í heiminum er margbreytileg og fjölbreytt. Okkar lúthersk-evangelíski meiður er minnihlutarödd í hinni stóru kirkju, en af þeim þriðjungi mannkyns sem telst kristinn eru aðeins um 3% lúthersk. Þessi fjölbreytileiki kristinnar kirkju er í senn styrkur hennar og veikleiki. Fjölbreytileiki kirkjunnar verður til þess að fleiri geta fundið sér stað í samfélagi lærisveina Jesú og veikleiki hennar er sá að afstaða kirkna til trúarlegra og siðferðilegra mála getur tekið á sig myndir öfganna á milli. Þessi sami veruleiki birtist í Þjóðkirkjunni en söfnuðir og sóknarprestar hafa ákveðið kenningalegt sjálfstæði, þó þeir séu bundnir af lútersk-evangelískum játningum.

Afstaða kristinnar kirkju til hinsegin fólks er jafnframt fjölbreytt en meirihluti kristinna kirkjudeilda álíta samkynhneigð synd. Sú afstaða er í flestum tilfellum sett fram með þeim rökum að Biblían fordæmi samkynhneigð og að Guð elski syndarann, í þessu tilfelli hinsegin fólk, en fordæmi eða hati syndina, sem eru hinsegin ástir. Þeir textar Biblíunnar sem notaðir eru til að fordæma samkynhneigð eru annarsvegar úr Mósebókum Gamla testamentisins og hinsvegar úr bréfum Páls postula.

Þá texta Gamla testmentisins sem notaðir eru til að réttlæta andúð á samkynhneigð er að finna í lagabálkum gyðingdóms en mörg þeirra laga eru okkur fullkomlega framandi, enda skrifuð í ritdeilu við kanverska Móloksdýrkun fyrir 3.000 árum. Þau lög hafa aldrei verið haldin í heiðri í kristinni hefð. Það vægi sem að þessir textar Mósebóka hafa fengið til að fordæma hinsegin fólk er nýtilkomið og sprettur af þörf kristinna manna til að upphefja gagnkynhneigðarhyggju á kostnað þeirra sem ekki passa inn í mótið. Pálsbréfin standa okkur nær en afstaða Páls til samkynhneigðar í Rómverjabréfi og Fyrra Korintubréfi er langt frá því augljós. Páll fordæmir kynhegðun grísk-rómverskrar menningar, meðal annars drengjaást (pederastíu) og vændi karla, en gerir ekki ráð fyrir að um jafningja-ástarsamband tveggja einstaklinga af sama kyni geti verið að ræða.

Notkun Pálsbréfa í baráttu gegn fólki einskorðast ekki við samkynhneigða, en textar Páls hafa verið notaðir af kristnum mönnum til að réttlæta þrælahald, kynþáttahyggju, nú síðast apartheid í Suður-Afríku, og kúgun kvenna, samanber boð hans um að konur eigi að þegja á safnaðarsamkomum. Afstaða Páls til þrælahalds og kvenna er ekki einföld og á einn veg, frekar en afstaða hans til samkynhneigðar, en notkun slíkra texta af kristinni kirkju gegn samkynhneigðum er hinsvegar á einn veg, til fordæmingar.

Það er sannfæring mín að sá boðskapur kristinna manna í samtímanum að samkynhneigð sé synd, sé valdbeiting og mannréttindabrot. Sú afstaða réttlætir og veldur gríðarlegri þjáningu í heiminum og kyndir undir ofsóknir og ofbeldi á hendur hinsegin fólki. Í ljósi sögunnar mun hún flokkast með stuðningi kirkna við þrælahald, kynþátta-aðgreiningu (apartheid) og kvenfyrirlitningu.

Íslenskt samfélag má vera stollt af því að hafa horfst í augu við ofbeldisfulla fordóma sína á þeim 35 árum sem liðið hafa frá stofnun Samtakanna 78. Í dag tekur þriðjungur þjóðarinnar þátt í hátíðarhöldum Hinsegin daga og það er mikill minnihluti sem heldur uppi eða styður fordóma í þeirra garð. Sá minnihluti talar því miður oft í nafni Jesú Krists og réttlætir sig á grundvelli þeirrar guðfræði að Guð elski syndarann en hati syndina.

Sú elska sem byggir á því að þú sem einstaklingur afneitir sjálfum þér og gerir lítið úr ást þinni til annara, er ekki elska heldur valdbeiting. Ást sem byggir á jafningjatengslum er guðleg og heilög, í hvaða mynd sem hún birtist, en valdbeiting og ofbeldi getur aldrei byggt á jafningjatengslum. Þess vegna getur kristin kirkja samtímis fagnað hinsegin fólki og ástum þeirra en fordæmt kynlífsþrælkun, barnaníð og kynbundið ofbeldi. Það er ekki synd að elska en það er synd að fordæma ást annarra og slík fordæming veldur og réttlætir ofbeldi gegn hinsegin fólki.

Textar dagsins tala inn í þetta samhengi með skýrum hætti. Í Jóhannesarbréfi er því haldið fram að boðorð kærleikans sé öllum boðorðum æðri og að sá sem þykist tala af kærleika en hefur hatur í huga geti ekki staðið í ljósinu. Þar segir: ,,Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er ennþá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls.”

Guðspjallið segir sögu ungs manns sem kemur til Jesú og er í ótta um þá himnavist sem býður okkar að þessu jarðlífi loknu. Hann spyr Jesú: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Svar Jesú er í fyrstu að rifja upp grunnþætti boðorðanna 10 og sannfærður um eigið ágæti svarar ungi maðurinn „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Þá segir að Jesús hafi litið á drenginn með ástúð og sagt við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.

Veraldleg völd okkar í þessu lífi eru misjöfn og mismikil. Völd geta byggt á athygli, fegurð, hæfileikum, áhrifastöðu eða peningum og öllum völdum fylgir ábyrgð. Ungi maðurinn í guðspjalli dagsins bjó yfir miklum eignum og því fylgir vald. Krafa Jesú í samræðum þeirra er sú að hann láti af valdi sínu og beiti því öðrum til góðs og hryggð mannsins sprettur af því að hann skortir hugrekki til að láta af völdum. Jesús gefur okkur þannig innsýn í mannlegan ótta, sem lætur okkur safna og beita völdum til að upphefja okkur sjálf á kostnað annara, og það er nær ógjörningur að láta af slíkum ótta án þess að hafa fyrst upplifað og fengið að sjá, að á bakvið líf okkar í þessum efnisheimi er kærleiksrík hendi Guðs. „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki […] auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga [...] en Guði er ekkert um megn.“

Um þessa helgi njótum við heimsóknar manns sem hefur gríðarleg völd, en hann er erfingi eins farsælasta sjónvarpstrúboðs sögunnar og er metinn á annan milljarð íslenskra króna. Enda hafa auglýsingar og íburður komu hans borið þess merki. Þjóðkirkjan hefur auglýst þennan viðburð, nokkrir þjóðkirkjusöfnuðir taka þátt í hátíðinni og hann segist í kastljósviðtali vera hér í boði 80% kirkna landsins (Kastljós 27. September 2013). Þær kirkjur hafa ekki verið uppgefnar en sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju hefur lýst því yfir opinberlega að hann er ekki hér í okkar boði og við leggjum ekki nafn okkar við þann boðskap sem hann prédikar. Guðfræði þessa manns er amerísk bókstafshyggja sem er íslensku þjóðkirkjunni fullkomlega framandi, menningarlega, stjórnmálalega og guðfræðilega.

Samkirkjulegt samstarf er af hinu góða en slíkt samstarf þarf að byggja á jafningjagrundvelli og ef umræða á að eiga sér stað þarf hún að eiga hlutlægan grundvöll. Guðsríkið er okkur hulið og því er ólíklegt að einhver ein kirkjudeild búi yfir algildum sannleika, en það er von kristinnar kirkju að geta endurspeglað réttlæti og kærleika Guðs í þeim fjölbreyttu myndum sem hinar ólíku kirkjur þjóna Guði og náunganum í kærleika Krists.

Þegar kemur að grundvallar mannréttindum má engar málamiðlanir gera og afstaða kirkjunnar í heiminum til samkynhneigðar er stóra synd hennar í samtímanum. Sá boðskapur að samkynhneigð sé synd, sundrar fjölskyldum, réttlætir ofbeldi og eyðileggur mannslíf hinsegin fólks. Ef fordæming samkynhneigðar er meðal forsenda þess að teljast kristinn í augum þessa manns þá fell ég ekki undir þá skilgreiningu.

Regnbogafáni mannréttindabaráttu hinsegin fólks blaktir hér við hún í dag og í kvöld opnum við dyrnar upp á gátt og höldum regnbogamessu. Þar fögnum við fjölbreytileika manneskjunnar og ástarlífi hennar og krefjumst mannréttinda með því að tala gegn hatursorðræðu og ofbeldi í garð hinsegin fólks. Sú von sem byggist á karllægri gagnkynhneigðarhyggju er of þröngt skilgreind til að hægt sé að bjóða öllum taka þátt í hátíðarhöldunum.

Að lokum vil ég halda á lofti orðum Desmond Tutu, aldraða erkibiskupsins í Suður-Afríku, en hann er einn verndara alþjóðlegs átaks sem að Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu Þjóðanna hefur sett á laggirnar undir yfirskriftinni Free & Equal. Átakinu er ætlað að berjast gegn fordómum og lagasetningum sem mismuna hinsegin fólki um allan heim. Á stofnfundinum líkti hann afstöðu kristinna til samkynhneigðar við þá sem á sínum tíma vörðu aðskilnaðarstefnu svartra í Suður-Afríku og um þá guðfræði segir hann:

‘Ég fæ mig ekki til að tigna hómófóbískan Guð og ef mér yrði boðin vist á hómófóbískum himnum myndi ég afþakka með orðunum - Nei takk, ég vil frekar fara á hinn staðinn.’