Kristni og íslam - þriðji og síðasti hluti

Kristni og íslam - þriðji og síðasti hluti

Það er allt of langt mál að ætla sér hér í þessum litlu pistlum að rekja átakasögu íslam og kristni allt frá árinu 622 og til dagsins í dag (samkvæmt hinu kristna tímatali). Hitt er næsta víst að þessi náskyldu heimstrúarbrögð hafa tekist á allar þessar aldir, eða nær væri að segja að fylgendur þeirra hafi tekist á. Og gera enn.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
29. janúar 2015

Það er allt of langt mál að ætla sér hér í þessum litlu pistlum að rekja átakasögu íslam og kristni allt frá árinu 622 og til dagsins í dag (samkvæmt hinu kristna tímatali). Hitt er næsta víst að þessi náskyldu heimstrúarbrögð hafa tekist á allar þessar aldir, eða nær væri að segja að fylgendur þeirra hafi tekist á. Og gera enn.

Kannski er það vegna þess hversu skyld þessi trúarbrögð eru, og lík. En um leið svo óskaplega ólík. Og kannski er það vegna þess að öll takast þau á um sömu kjarnasvæðin, sama fólkið upphaflega. Enda Jerúsalem ein helgasta borg þeirra beggja, - og musterishæðin helgasta hæð gyðingdóms kristni og islam.

Ég rakti að nokkru þessa miklu átakasögu í tveim bókum sem út komu árið 2005. “Ragnarök” hét önnur og “Hin mörgu andlit trúarbragðanna” hin. Vísa ég þeim sem áhuga hafa á sögunni á þær.

Margt er líkt með skyldum segir málshátturinn og það sama á við um íslam og kristni. Bæði eru runnin undan rótum gyðingdóms að hluta og gyðingar, kristnir og múslímar líta allir á Abraham sem ættföður sinn – rekja sögu sína aftur til ættföðursins Abrahams sem segir frá í Fyrstu Mósebók. Sonur Abrahams Ísak varð ættfaðir gyðinga og kristinna, en Ísmael, annar sonur Abrahams, ættfaðir múslíma.

Kristni og íslam eru eingyðistrúarbrögð eins og gyðingdómur, játa trú á aðeins einn Guð, að aðeins einn Guðs sé til. Hann er skapari himins og jarðar og allt hvílir í hendi hans, um það eru múslímar og kristnir á sama máli.

Að lokum mun Guð dæma heiminn á Dómsdegi og eyða hinu illa.

Í Kóraninum, trúarriti múslíma, ber Guð, sem nefnist Allah meðal múslíma, 99 heiti sem lýsa mörgum hliðum hans. Sömu heiti má finna í kristinni og gyðinglegri trúarhefð. Guð er “Hinn almáttki, hinn blessaði, hinn algóði, hinn miskunnsami” og svo framvegis.

Múslímar hafna aftur á móti þrenningarkenningu kristninnar, það er að segja þeirri kenningu að Guð sé einn en að hann birtist á þrennan hátt, sem Faðir og skapari heimsins, Sonurinn Jesús Kristur sem gerðist maður, dó á krossi og reis upp frá dauðum, og Heilagur andi sem er Guð meðal mannanna. Telja múslímar að þetta sé í raun trú á þrjá Guði en ekki einn, því 1+1+1 = 3. Kristnir menn segja aftur á móti að Guð sé 1x1x1=1.

Maðurinn samkvæmt íslam er þræll Allah og ber að hlýða honum í einu og öllu. Allt er í hendi Allah og örlagahyggjan því sterkur þráður í íslam. En samkvæmt kristninni trú er maðurinn skapaður í mynd Guðs, ber að leitast við að vera Guði líkur og vinna með honum að hinu góða. Sem samverkamaður Guðs í heiminum.

Englar birta vilja Guðs bæði samkvæmt íslam og kristni. Gabríel erkiengill er helsti boðberi Guðs í Kóraninum og Biblíunni. Og djöfullinn er höfuðandstæðingur Guðs, bæði í Biblíunni og Kóraninum. En ekki Guði líkur nér guðlegur á nokkurn hátt, heldur eins og skuggi Guðs.

En það sem í raun og veru greinir íslam frá kristni er trú kristinna manna á að Jesús sé Kristur, Messías, hinn Smurði, eða með öðrum orðum, Sonur Guðs, Guð af Guði. Og að Sonur Guðs hafi gerst maður, fæðst af konu á ákveðnum tíma og stað.

Múslímar líta á Jesú sem einn af spámönnunum eins og Abraham, Ísak, Jakob eða Múhameð. Og virða hann sem slíkan. En hafna því að hann sé Guð.

Um leið hafna þeir því að Jesús hafi dáið vegna synda okkar og risið upp frá dauðum og að hann hafi með upprisu sinni opnað öllum sem á hann trúa leið til hins eilífa lífs. Eða með öðrum orðum, þá hafna múslímar þeirri frelsun sem felst í dauða og upprisu Jesú.

Þetta hefur áhrif á hvernig þessi trúarbrögð líta á allt annað

Maðurinn frelsast með réttlátum verkum samkvæmt íslam, með því að hlýða Allah, Guði, og fela honum örlög sín en fyrir trú á Jesú Krist samkvæmt kristinni trú.

Jesús er opinberað Orð Guðs á jörðinni samkvæmt kristni, en textinn í Kóraninum er Orð Guðs samkvæmt íslam. Þess vegna gera kristnir menn myndir af Jesú, því hann er Orð Guðs sem varð maður. Múslímar gera aftur á móti engar myndir en skrautskrifa aftur á móti textann, orðið sem birtir Orð Guðs í Kóraninum.

Bæn kristinna manna er persónulegt samtal við Guð sem varð maður. Bæn múslíma er athöfn sem sýnir hlýðni þeirra við Allah, skapara alls.

Þó er örlagahyggjan ekki alls fjarri öllum kristnum mönnum og telja sumir að Guð hafi þegar ákveðið hverjir skuli frelsast til trúar og hverjir ekki.

Svon mætti lengi telja upp ágreiningsefnin.

En það sem aftur á móti sameinar öll hin Abrahamísku trúarbrögð, trúarbröðgðin sem komin eru frá Abraham, gyðingdóm, kristni og íslam, er umhyggjan fyrir náunganum og ábyrgðin gagnvart þeim sem minna mega sín.

Að hjálpa náunganum er kjarnaatriði gyðingdóms, kristni og íslam, miskunnsemin og réttlætishyggjan.

Að leitast við að gera hið rétta, láta réttinn ríkja í heiminum. Láta réttlæti Guðs ríkja.

Það er kjarni hinna 10 boðorða gyðinga og kristinna, Gullnu reglu Jesú og ein af fimm grunnsúlum trúarkeningar múslíma.

Og um það að láta réttinn ríkja í heiminum munu fulltrúar þessara þriggja náskyldu megintrúarbragða vonandi sameinast í framtíðinni.

Því sú er helsta von heimsins um frið.

Með þeirri frómu ósk læt ég þessum vangaveltum um íslam og kristni lokið að sinni.