Við skuldum börnunum okkar aðgerðir

Við skuldum börnunum okkar aðgerðir

Með vilja, trú og von í verki er hægt að búa börnunum okkar sem nú vaxa upp lífvænlegt umhverfi og hamla gegn loftslagsbreytingum sem ógna vistkerfum jarðarinnar. Sem bæði móðir og amma hefur þessi ábyrgð okkar sem eldri erum legið mér þungt á hjarta. Til þess að hamla gegn þessum breytingum þurfum við að standa með lífinu í öllum myndum þess.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. nóvember 2018

Með vilja, trú og von í verki er hægt að búa börnunum okkar sem nú vaxa upp lífvænlegt umhverfi og hamla gegn loftslagsbreytingum sem ógna vistkerfum jarðarinnar. Sem bæði móðir og amma hefur þessi ábyrgð okkar sem eldri erum legið mér þungt á hjarta. Til þess að hamla gegn þessum breytingum þurfum við að standa með lífinu í öllum myndum þess. Göngum með gleði til þeirra breytinga á lífs- og framleiðsluháttum sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja frið og sátt við móður jörð! Látum Gullnu regluna, grundvöll kristinnar siðfræði, einnig ná til jarðarinnar og komandi kynslóða, sem eiga kröfu á að við hlúum að lífinu!

Framangreint er kjarni þess sem fram kom á norrænum fundi lúterskra höfuðbiskupa sem haldinn var í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar laugardaginn 20. október sl. Ég boðaði til fundarins í því skyni að ræða viðbrögð og viðnám gegn yfirvofandi loftslagsvá á heimsvísu og á Norðurslóðum sérstaklega. Auk mín sátu fundinn Antje Jackelén, erkibiskup í Uppsölum og í Svíþjóð, Helga Haugland Byfuglien, biskup presis, höfuðbiskup í Noregi, Tapio Luoma, erkibiskup í Turku og Finnlandi og Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup. Vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti, Solveig Lára Guðmundsdóttir og Kristján Björnsson, voru einnig þátttakendur á fundinum.

Umhverfismál snúast líka um siðferði

Biskuparnir ræddu þá staðreynd, sem ekki verður umflúin, að hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar af hennar völdum setja vistkerfi jarðar úr skorðum. Þar með er þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst í framkvæmd Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna stefnt í voða. Framundan er afturför leggi mannkynið ekki á sig taumhald og snúi frá ósjálfbærri orkunýtingu og neysluháttum. Fram kom á fundinum að niðurstaða t.d. sænsku kirkjunnar væri sú að „grænir“ framleiðslu- og lífshættir þyrftu ekki að bitna á hagsæld og gætu þar á ofan bætt lífsgæði og vellíðan.

Biskuparnir voru sammála um að lúterskar kirkjur á Norðurlöndum skyldu gera varðstöðu um lífið á jörðinni í öllum sínum myndum að verkefni sínu á næstu árum. Það er af þeirri ástæðu að hlýnun umfram 1.5 – 2 gráður mun hafa skaðleg áhrif á lífsskilyrði manna, gróðurs og dýra þannig að öll önnur málefni bera óbætanlegan skaða af. Rísa þarf upp gegn lögmáli ósjálfbærrar samfélagsþróunar með nýju fagnaðarerindi þar sem lífið er sett í öndvegi og kostnaðurinn við spillingu lífríkisins er ódulinn.

Rétt er að minna hér sérstaklega á ákall frá þingi umhverfisnets evrópskra kirkna, ECEN sem haldið var í Katowice í Póllandi í byrjun þessa mánaðar: „Vísindin segja okkur hvað er að gerast; trúin segir okkur af hverju við eigum að bregðast við. Við verðum að grípa til aðgerða núna ef við viljum að lífið á jörðinni eigi sér vonarríka framtíð.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Í nýrri vísindaskýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna er fullyrt að ráðrúm til þeirrar umbreytingar sem Parísarsáttmálinn frá 2015 kallaði á sé aðeins rúmur áratugur. Hvert og eitt okkar getur tekið smáu og táknrænu skrefin, kolefnisjafnað ferðalög sín, minnkað sóun, flokkað úrgang og dregið úr notkun umbúða og plasts. Smáu skrefin eru mikilvæg því þau gefa vísbendingu um að við séum að vakna til alvörunnar og til stuðnings við umbreytinguna. Það eru hinsvegar stjórnvöld, alþjóðasamtök, hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem verða að taka stóru skrefin og setja markmið og mörk sem duga.

Kirkjuþing hefur samþykkt umhverfisstefnu og aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Þar er m.a. ákveðið að frumkvæði æskulýðshreyfingar þjóðkirkjunnar að hætta allri notkun einnota umbúða í söfnuðum fyrir lok yfirstandandi árs. Endurheimt votlendis í Skálholti verður fylgt eftir með sambærilegum aðgerðum, ásamt skógrækt og landgræðslu, á prestsetursjörðum. Gefin hefur verið út handbók um umhverfisstarf í söfnuðum og undirbúinn farvegur fyrir umhverfisvottun á starfi stærri safnaða. Þau skref sem tekin hafa verið undir merkjum „Grænnar kirkju“ eru lítil og munu ekki skipta sköpum í hinu stærra samhengi. En þau sýna að þjóðkirkjan lætur sig náttúruvernd varða og leitast við að sýna í orði og verki að hún tekur loftlagsmálin alvarlega.

Einkennisorð þjóðkirkjunnar eru: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Við biðjum fyrir því að allir sem á Íslandi búa vakni til vitundar um nauðsyn þess að umbreyta lífsháttum þannig að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd náist. Við boðum lífsmáta sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar og notkun skaðlegra umbúða. Við þjónum náttúrunni, meðal annars með endurheimt votlendis, skógrækt, landgræðslu og vistvænni starfsemi í söfnuðum kirkjunnar um land allt. Við skuldum börnunum okkar lífvænlega framtíð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. október 2018