Tímamótaárið 2015, Biblíufélagið og kosningaréttur kvenna

Tímamótaárið 2015, Biblíufélagið og kosningaréttur kvenna

Á þessu ári minnumst við tveggja atburða sem höfðu mikil áhrif á menningu og hugsunarhátt þjóðarinnar. Annars vegar stofununar Hins íslenska biblíufélags, sem heldur upp á 200 ára afmæli sitt á þessu ári og aldarafmælis kosningaréttar kvenna til Alþingis, sem reyndar var takmörkunum háður miðað við það sem nú er.

Textar: 5. Mós 4:29-31; Fil 4:11-13; Lúk. 10:38-42.

Við skulum biðja: Drottinn Guð, verndari allra sem á þig vona, við biðjum þig: Léttu af okkur áhyggjunum um framtíð okkar og kenndu okkur að horfa til þín og treysta gæsku þinni allar stundir fyrir son þinn Jesú Krist. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegan þjóðhátíðardag. Lýðveldið Ísland hefur nú hafið göngu sína inn í áttunda áratuginn. Nokkrar kynslóðir hérlendis hafa lifað í sjálfstæðu og frjálsu landi og muna ekki annað. Lýðveldið er ungt ef miðað er við veraldarsöguna, en komið til ára sinna ef miðað er við mannsævina. Í lok styrjaldar, hinnar síðari er kennd var við heiminn fagnaði þjóðin lýðveldinu, í rigningunni á Þingvöllum. Veðrið kom ekki að sök því gleðin ríkti í sál og sinni. Skáldkonan Hulda átti sigurljóðið um ættjörðina sem allir lærðu, ekki bara þá heldur næstu áratugina. Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, og norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð?

Já, þetta fallega land okkar er uppspretta helstu tekjulindar okkar nú um stundir, fjöllin, dalirnir og norðurljósin, sem berast nú um allan heim í formi ljósmynda.

Á þessu ári minnumst við tveggja atburða sem höfðu mikil áhrif á menningu og hugsunarhátt þjóðarinnar. Annars vegar stofnunar Hins íslenska biblíufélags, sem heldur upp á 200 ára afmæli sitt á þessu ári og aldarafmælis kosningaréttar kvenna til Alþingis, sem reyndar var takmörkunum háður miðað við það sem nú er.

Hlutverk hins íslenska biblíufélags hefur frá upphafi verið að sjá þjóðinni fyrir hinni helgu bók á íslenskri tungu. Stofnun félagsins leiddi til almennari Biblíueignar en áður hafði þekkst. Biblían hefur verið þýdd á íslenska tungu nokkrum sinnum, en síðasta heildarútgáfa nýrrar þýðingar kom út á því herrans ári 2007. Hefur biblíumálið haft mikil áhrif á mótun og varðveislu íslenskrar tungu, sem nú er sögð vera í útrýmingarhættu og er það umhugsunarefni okkar og komandi kynslóða hvort við viljum viðhalda tungumálinu og bregðast við, svo það deyi ekki út?

Það voru glaðar konur sem saman komu hér úti á Austurvelli fyrir 100 árum í kjölfar undirskriftar konungs að lögum um kosningarétt kvenna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði þá í hátíðarræðu: „Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á alþingi.“ Þannig var framtíðarsýn hennar. Við erum hér 100 árum síðar og berum þessi orð saman við þann veruleika sem við lifum í dag. Margt hefur áunnist á einni öld, en baráttunni er ekki lokið frekar en annarri mannréttindabaráttu sem fram fer hér og víða um heim. Þá hafði verið unnið að því í 30 ár að fá viðurkenndan kosningarétt kvenna. Nú er baráttan önnur. Ungar konur hafa undanfarið berað brjóst sín til að varpa ljósi á kynjamisrétti í hversdagsleikanum og sögum af kynferðisofbeldi hafa konur deilt á samfélagsmiðlum.

Kristnar konur hafa leitað fanga í Biblíunni til að styrkja sjálfsmynd sína og auðga líf sitt. Á þar síðustu öld var uppi kona ein í Bandaríkjunum, Elísabet Cady Stanton að nafni. Hún hafði brennandi áhuga á því að rétta hlut þeirra sem minna máttu sín og eitt af því sem hún tók sér fyrir hendur var að endurskoða Biblíuna út frá sjónarmiðum kvenna. Biblían hefur svo mikil áhrif, sagði hún, að hún mun alltaf móta afstöðu fólks. Við verðum þess vegna að gæta að því hvað hún segir í raun og veru um konur. Hún safnaði saman hópi lærdómskvenna, sem höfðu menntast á ýmsum sviðum. Þær völdu kafla í Biblíunni, sem snertu konur. Biblía þessi, sem nefnd hefur verið kvennabiblían er tímamótaverk, þar sem allar sögur hennar um konur eru hafðar með, m.a. sagan um Mörtu og Maríu, sem lesin var frá altarinu hér í dag. Þannig hafa sögur Biblíunnar sem fjalla um konur fengið meira vægi og á það sinn þátt í því að konur gegna nú þjónustu í okkar kirkju til jafns á við karla og láta til sín taka víða í samfélaginu.

Af sögunni um heimsókn Jesú til þeirra systra Mörtu og Maríu má margt læra. Þar kemur fram hið hefðbundna hlutverk kvenna í gegnum aldirnar, þar sem konur eru í þjónustuhlutverki og sinna því vel. Þar koma líka fram áhyggjur sem við mannfólkið þekkjum vel því öll viljum við standa okkur vel í þeim hlutverkum sem okkur hafa verið falin. Í dag vitum við að þjóðfélagið gæti ekki gengið ef konur tækju ekki fullan þátt í atvinnulífinu til jafns við karla.

Á þjóðarheimilinu eru hlutverkin mörg eins og á öðrum heimilum. Hjá fámennri þjóð verða allir að leggja sig fram um að láta hlutina ganga. Ein stétt styður aðra og kallar á samvinnu og gagnkvæma virðingu og skilning. Marta sem í mörgu mæddist þorði, vildi og gat talað við gest sinn um það sem henni bjó í brjósti varðandi verkaskiptingu á heimili sínu. Svarið sem hún fékk var ekki það svar sem hún vænti. Svarið vakti með henni nýja hugsun.

Ný hugsun er það sem þarf til að breyta hlutunum, bæta þá og framkvæma. Frá hugsuninni koma orðin og verkin. Spurning er hvort heimurinn þurfi nýja hugsun til að takast á við vanda sinn og verkefni. Ný hugsun sameinar frekar en sundrar. Og það er það sem við Íslendingar þurfum. Við sem eigum hér heima. Við þurfum að minnast þess að landið er okkur gefið, ekki til að eyða því heldur til að nýta það og bæta. Eins og við eigum að hlúa að landinu eigum við að hlúa að mannlífinu, því í mannfólkinu liggur auður okkar. Umhyggja fyrir hvert öðru, samkennd og vilji til að láta gott af okkur leiða ættu að móta viðhorf okkar og framgöngu alla. Marta treysti gesti sínum fyrir hugsunum sínum og vonbrigðum. Traust er forsenda þess að samkennd náist og friður ríki. Það hefur margoft komið fram undanfarin ár að vantraust hefur ríkt hér á landi milli stofnana og almennings, milli ráðamanna og almennings. Það þarf nýja hugsun og vilja til að breyta því. Traust er grundvallaratriði til að mannlíf þrífist í landinu. Á því byggist framtíð þessarar þjóðar.

Við höfum val eins og María forðum. María valdi góða hlutskiptið sagði Jesús. Hún valdi. Hún, konan mátti velja. Það eru góðu fréttirnar. Hún mátti velja. Hún mátti brjótast út úr hefðum samfélagsins og setjast við fætur meistarans. Taka sér stöðu lærisveinsins. Hún þurfti ekki bara að bera fram veitingarnar, hún mátti líka ræða við Jesú. Og það er gleðiboðskapur kristindómsins, hvort sem við erum kvenkyns eða karlkyns. Við höfum val. Við höfum frelsi til að velja. Það er vissulega mikil ábyrgð sem felst í því frelsi.

En hvað valdi María? Hún valdi góða hlutskiptið. Góða hlutskiptið er að gefa sig alla/n í að hlusta á orð Jesú, meistarans frá Nasaret, frelsarans, sem sigraði dauðann og illskuna og gefur okkur von um eilíft líf. Hann er fyrirmynd okkar og leiðtogi, sem við getum treyst og lært af. Í mannlegum samskiptum og framgöngu allri.

Þekking og aðgangur að upplýsingum er meiri nú en áður í sögu mannkynsins. Heimur þeirra Mörtu og Maríu var þrengri en við búum við í landi okkar nú. En boðskapurinn sem María nam af vörum meistarans sem kominn var í heimsókn á jafnmikið erindi við okkur í dag og þá. Jesús áfellist ekki Mörtu fyrir athafnir sínar, heldur amstrið sem lætur hana fara á mis við það sem máli skiptir.

Fyrir 100 árum stóðu konur á Austurvelli og fögnuðu kosningarétti ti Alþingis. Í dag standa konur á Austurvelli og berjast gegn kynbundu ofbeldi. Hvaða baráttumál skyldi vera á dagskrá á Austurvelli eftir 100 ár. Ef til vill er það rétturinn til að mega iðka trú sína og sýna hana í verki. Afhelgunin sem á sér stað í hinum vestræna heimi á ef til vill eftir að koma okkur í koll. Þegar trúarþekkingunni er haldið frá komandi kynslóðum. Það er eitt af meinum samfélags okkar þessi hræðsla við trú, einkum kristna trú.

Góða hlutskiptið, sem María valdi er að hafa aðgang að trúnni, að kirkjunni, að Orði Guðs, að öllu því sem Guð gefur til að við getum orðið hamingjusamir einstaklingar. En besta hlutskiptið er að hugarfar okkar mótist af traustinu til Guðs og sonar hans Jesú Krists. Það virkar bæði í einkalífi okkar og starfi. Á góðum dögum sem erfiðum. Í æsku okkar og elli. Í lífi okkar öllu. Guð blessi Ísland og gefi okkur gleði og frið á hátíðisdegi þjóðarinnar.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.