Kirkjueignir og afdrif þeirra – grunnþáttur í samskiptum ríkis og kirkju

Kirkjueignir og afdrif þeirra – grunnþáttur í samskiptum ríkis og kirkju

Því féllst kirkjuþing 2009 á að gera viðaukasamning við kirkjujarðasamkomulagið til eins árs um tímabundna breytingu á samkomulaginu. Fram kemur í samningnum að þetta er gert vegna sérstakra aðstæðna í ríkisfjámálum.
fullname - andlitsmynd Þorbjörn Hlynur Árnason
01. október 2012

Forsagan

Eins og öllum ætti að vera fullkunnugt stóð jarðnæði kirkjunnar um aldir undir þjónustu hennar. Hvort heldur sem var hin almenna prestsþjónusta, þjónusta við fátæka og allslausa, eða sú þjónusta sem staðirnir Hólar og Skálholt veittu með skólahaldi sínu.

Eignamyndunin byrjaði snemma. Á þjóðveldisöld lögðu höfðingjar, eignamenn og aðrir velmegandi verulegar eignir til kirkjunnar, svo hún hefði starfsgrundvöll og burði til þjónustu. Þetta tilllegg var nú ekki alveg óeigingjarnt, enda höfðu höfðingjarnir með þessar eignir að gera, fóru með þær nánast að vild, höfðu af þeim meiri arð, vegna tíundarlaganna, en ella og gátu nýtt sér þær sem eins konar skattaskjól.

Þegar kirkjuvaldið svo eflist á 13. öld kemur fram krafa um forræði kirkjunnar. Spunnust þá mikil átök milli kirkju og höfðingja, er lauk með sáttagjörð á Ögvaldsnesi í Noregi árið 1297, fyrir milligöngu Noregskonungs. Í kjölfarið efldist kirkjuvald mjög.

Segja má að kirkjueignirnar hafi skiptst í fjóra megin flokka. Kirkjujarðir, er voru eignir einstakra kirkna og voru afgjöld af þeim notuð til að kosta laun sóknarpresta. Stólsjarðir voru eign biskupsstólanna í Skálholti og á Hólum og stóðu þær undir starfsemi biskupsembættanna, skólahaldi og fleiru er varðaði staðina. Þá voru kristsfjárjarðir; jarðir gefnar Jesú Kristi til uppihalds fátækum. Loks voru það eignir klaustranna.

Við siðbót tók konungur undir sig eignir klaustranna og eftir niðurlagningu biskupsdæmanna og sameiningu í eitt stifti undir stjórn Biskups Íslands í Reykjavík, um aldamótin 1800 hurfu stólsjarðirnar í ríkishirslur Danakonungs.

Í þessum orðum verður einkum fjallað um kirkjujarðirnar og laun presta. Eins og áður er sagt, stóðu kirkjujarðirnar að mestu undir launum presta. Það fyrirkomulag hélst að breyttu breytanda fram til ársins 1907.

Lög um sölu kirkjujarða og laun sóknarpresta frá 1907 mörkuðu skil í samskiptum ríkis og kirkju á sínum tíma, og eru sennilega ein afdrifaríkasta lagasetning um málefni kirkjunnar á síðustu öld. Með nokkurri einföldun er hægt að segja, að lagasetningin hafi falið í sér samkomulag milli ríkis og kirkju um breytt fyrirkomulag á launum presta og féllst kirkjan á tiltekna ráðstöfun, og sínu leyti afsal á jarðeignum kirknanna í landinu. Með lögunum var stofnaður prestlaunasjóður er átti að greiða til einstakra embætta þá upphæð er á vantaði til að ná ákveðinni launaupphæð. Þannig var áfram gert ráð fyrir því, að einhvern hluta launanna tækju prestar undir sjálfum sér, sbr. 21. gr. laga um laun sóknarpresta. Þar segir:“Þar sem tekjur þær, sem prestur tekur undir sjálfum sjer samkv. 5.gr. hrökkva eigi fyrir launum hans, ávísar prófastur honum af sóknartekjum í prestakalli hans eða af niðurjöfnunargjaldi svo miklu sem hann þarf. Hrökkvi sóknartekjurnar eða niðurjöfnunargjaldið eigi, greiðir prófastur presti það sem á vantar, af þeirri fjárhæð er hann fær úr prestslaunasjóði samkvæmt 22. grein

Prestlaunasjóðurinn átti að fá tekjur sínar af fasteignum prestakallanna, sóknartekjum (preststíund, offur, lausamannsgjald, lambsfóður, dagsverk) og framlögum úr landssjóði.

Kirkjujarðasjóðurinn, sem kveðið er á um í lögunum um sölu kirkjujarða frá 1907, tengist prestlaunasjóðnum með skýrum hætti.  Í 15. grein laganna segir: „Andvirði seldra kirkjujarða og ítaka skal leggja í sjerstakan sjóð, er nefnist kirkjujarðasjóður, og stendur beint undir landsstjórninni.“ Ennfremur segir í 16. grein: „Eign kirkjujarðasjóðsins skal ávaxta sem óskerðanlegan höfuðstól, og skal árlega leggja við við innstæðuna 5% af árstekjunum, en að öðru leyti ganga vextirnir í prestlaunasjóð, til að launa sóknarpresta þjóðkirkjunnar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum tíma. Óhætt er að segja að það hafi runnið sérlega hratt í byrjun, því það fyrirkomulag prestlauna er löggjafinn hugðist tryggja með kirkjujarðasjóði og prestlaunasjóði, raskaðist fáeinum árum síðar vegna efnahagsþrenginga; sjóðirnir rýrnuðu, verðmæti þeirra fylgdi ekki verðlagsþróun – enda tími verðtryggingar ekki runninn upp. Svo fór að prestlaunasjóður var orðinn afllaus og ónýtur og var afnuminn með lögum árið 1921. Áður hafði það gerst, með launalögum árið 1919 að, ákveðið var að prestar þægju föst laun úr ríkissjóði, sem aðrir embættismenn.

Áfram voru þó í gildi lög um sölu kirkjujarða og kirkjujarðasjóð. Kirkjujarðasjóður lifði allt fram til ársins 1970, óvarinn, óverðtryggður og peningalítill, enda stóðu kirkjujarðir undir Landbúnaðarráðuneytinu á þessu tímabili; þannig oft seldar ábúendum fyrir smánarvirði, iðulega í pólitísku greiðaskyni. Þess má þó geta að ábúendur guldu oftast einvörðungu fyrir landið. Sjálfir áttu þeir ræktanir og húsakost og fasteignamat á landi jarðanna afar lágt, nema ef um verðmæt hlunnindi var að ræða.

Samningur kirkju og ríkis 1997

Staðan var því þessi allt til ársins 1997. Prestar fá laun sín úr ríkissjóði líkt og aðrir embættismenn. Kirkjujarðirnar fara undir Landbúnaðarráðuneytið og er farið með þær sem ríkisjarðir og ákvæði laga um ríkisjarðir gilda um þær. Margir embættismenn í stjórnarráðinu og meirihluti stjórnmálamanna, var þeirrar skoðunar að kirkjujarðirnar væru í raun ríkiseign.

Þess vegna eru lög um kristnisjóð 1970 afar mikilvæg. Þar er ákvæði um að andvirði seldra kirkjujarða rennur til kristnisjóðs. Enda er þá hinn lúði kirkjujarðasjóður lagður niður, galtómur.  Mikilsvert ákvæði - lögfestur sá skilningur að kirkjujarðirnar séu kirkjueign, eða í það minnsta eitthvað sem kirkjan eigi tilkall til.

Engu að síður var það svo að tengsl milli prestslauna og kirkjujarðanna voru í raun engin. Fjárlög hverju sinni tóku mið af lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma. Prestslaunin voru því tiltölulega óvarin.

Samninginn um kirkjujarðir og launagreiðslur til presta og launagreiðslur starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 1997 má rekja til þess, að haustið 1990 ákveður ríkistjórnin að skerða sóknar- og kirkjugarðsgjöld vegna niðurskurðar í ríkisútgjöldum. Þessum tillögum mótmælti kirkjustjórn og kirkjuþing kröftuglega, enda sóknargjöld félagsgjöld þjóðkirkjumanna, þótt innheimt séu með tekjuskatti.

Undir þessi mótmæli tóku að minnsta kosti tveir þingmenn stjórnarandstöðu. Vorið 1991 tók ný ríkisstjórn við völdum og urðu þessir þingmenn annars vegar fjármálaráðherra og hins vegar Dóms- og kirkjumálaráðherra. Á þessum tíma starfaði ég sem biskupsritari. Skömmu fyrir kirkjuþing 1991, áður en fjárlög næsta árs voru lögð fram, kynnnti aðstoðarmaður Dóms- og kirkjumálaráðherra kirkjustjórninni áform um áframhaldandi skerðingar á sóknar- og kirkjugarðsgjöldum. Undrun, voru fyrstu viðbrögð okkar og enn mótmælti kirkjuþing. 

Nýr Dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti þá í ræðu sinni á þinginu að hann hyggðist stofna til viðræðna milli ríkis og kirkju um kirkjujarðirnar og afdrif þeirra, á grundvelli skýrslu kirkjueignanefndar frá árinu 1994. Þetta útspil Þorsteins Pálssonar mátti túlka sem tilraun til sáttargjörðar.

Álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1994 er mikil að vöxtum og engin leið að rekja efni hennar hér.  Megin niðurstöður hennar er erfitt að draga saman í fáum orðum. Engu að síður er nefndin þeirrar skoðunar, að kirkjujarðirnar séu ótvíræð kirkjueign. Nefndin metur það svo, að þrátt fyrir lagasetninguna árið 1907 hafi ekki orðið breyting á grunneignarréttarstöðu kirkjujarðanna. Í álitinu segir, bls 112: „Þessi miklu og nánu tengsl veraldlega valdsins við kirkjueignirnar er þá stofnuðust, jafngilda engan veginn því, að landssjóður, síðar ríkissjóður, hafi sjálfkrafa eignast þær jarðeignir sem hér um ræðir. Eigi verður heldur séð að þjóðkirkjan sem stofnun hafi þá, né síðar, eignast slíkan rétt til eignanna, sem kæmi í stað hinnar fornu skipunar á kirkjulegum sjálfseignarstofnunum. Hið sama á við gagnvart Kirkjujarðasjóði, sem stofnaður var árið 1907, að eigi verða séð rök eða heimildir til að líta á hann sem eiganda kirkjujarðanna, þótt andvirði seldra kirkjujarða rynni í hann, og á þetta jafnframt við um Kristnisjóð, sem stofnaður var 1970, en hinn síðarnefndi sjóður er, hvað varðar andvirði seldra kirkjujarða, eins konar arftaki hins fyrrnefnda, þótt sjóðirnir séu ekki sambærilegir að öðru leyti.

Á árinu 1992 voru skipaðar viðræðunefndir ríkis og kirkju um kirkjueignir er áttu að starfa á grundvelli álits kirkjueignanefndar frá 1984, líkt og áður segir. Í nefnd ríkisins sátu ráðuneytisstjórar Dóms- og kirkjumála, Fjármála-, og Landbúnaðarráðuneyta og veitti Þorsteinn Geirsson þeirri nefnd forstöðu. Með þeirri nefnd störfuðu einnig og sátu fundi, eftir atvikum, deildar- og skrifstofustjórar í þessum ráðuneytum. Af hálfu kirkjunnar mynduðu viðræðunefnd sr. Þórhallur Höskuldsson, formaður, sr. Jón Einarsson, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason og sr. Þórir Stephensen. Síðla árs 1995 féllu þeir sr. Þórhallur og sr. Jón frá, langt fyrir aldur fram. Blessuð sé minning þeirra góðu manna. Í þeirra stað var í nefndina skipaður sr. Halldór Gunnarsson. Við formennsku í nefndinni tók sr. Þorbjörn Hlynur Árnason.

Samningaviðræður tóku heil fimm ár og lauk loks með samningi í janúarmánuði árið 1997. Þetta er vissulega langur tími og skýrist að hluta til af því að nokkurn tíma tók að fá heildaryfirsýn yfir málaflokkinn. Þá urðu til margvísleg úrlausnarefni sem þurfti að fjalla um. Meðal þeirra var sú krafa er viðræðunefnd kirkjunnar setti fram í upphafi, að sölur einstakra kirkjujarða í umsjá Landbúnaðarráðuneytisins yrðu stöðvaðar á meðan viðræður stæðu yfir og ósamið væri um endanlega niðurstöðu. Okkur þótti óeðlilegt að verið væri að selja úr þessu eignasafni áður en heildarniðurstaða lægi fyrir; slíkt myndi rýra samningsstöðu kirkjunnar. Oft var hart tekist á um þetta, enda gat viðræðunefnd ríkisins vísað til ákvæða ábúðarlaga er heimiluðu leiguliðum á ríkisjörðum að leysa til sín ábýlisjarðir sínar á fasteignamatsverði, eftir tuttugu ára samfellda búsetu. Þar sem ekki reyndist unnt að stöðva söluferli tókst þó að semja um hærra verð en fasteignamat gerði ráð fyrir, enda hafði þar kristnisjóður ríkra hagsmuna að gæta.

Þá fór mikill tími í umfjöllun um ákvörðun þáverandi Landbúnaðarráðherra að selja Garðabæ land Garðakirkju á Álftanesi, fyrir verð er viðræðunefnd kirkjunnar taldi langt undir markaðsvirði lands á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma, þótt um verulega upphæð væri að ræða.

Samhliða þessum viðræðum var unnið að gerð frumvarps til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Það varð að samkomulagi við Dóms- og kirkjumálaráðherra að gengið yrði frá samkomulagi um kirkjueignirnar og það fellt inn í frumvarpið, eftir því sem við gat átt. Þannig yrði ekki einvörðungu um tvíhliða samning milli ríkis og kirkju að ræða, heldur yrðu megin ákvæði samningsins einnig lögfest. Samningar voru loks frágengnir í ársbyrjun 1997. Þeir voru síðan samþykktir af aukakirkjuþingi og ríkisstjórn og, líkt og áður segir, festir í lög með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Til glöggvunar birtist hér samningurinn í heild sinni.

Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997.

Mættir eru af hálfu ríkisins Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson og Stefán Eiríksson. Af hálfu kirkjunnar eru mættir Þorbjörn Hlynur Árnason, Þórir Stephensen og Halldór Gunnarsson. Þorsteinn Geirsson setti fundinn. Fyrir fundinum liggja eftirfarandi drög að samkomulagi:

..........

Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar:

1. gr.

Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð. Umsýsla og ráðstöfun umræddra eigna fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

2. gr.

Íslenska ríkið skuldbindur sig til þess, á þeim grundvelli sem að framan greinir, að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Þá skuldbindur ríkið sig til að setja reglur um umgengni á kirkjustöðum.

3. gr.

1. Ríkissjóður greiði laun:     a. Biskups Íslands og vígslubiskupa.     b. 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar.     c. 18 starfsmanna biskupsembættisins.

2. Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 prests til viðbótar því sem greinir í b-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 lækkar talan í b-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.

3. Fjölgi prestum um 10, sbr. það sem greinir í 1. mgr., skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 starfsmanns biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í c-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um 10, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar talan í c-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.

4. Um ráðningar þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

5. Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.

6. Greiðslur til kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu 8 ár, upphæð er svarar til fastra árslauna 1 sóknarprests.

4. gr.

Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess.

5. gr.

Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Kirkjuþings, svo og samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

.........

Til skýringar vilja fundarmenn taka fram að með kirkjujörðum er í samkomulagi þessu átt við jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með öðrum sambærilegum hætti, og hafa verið í umsjón ríkisins frá árinu 1907, sbr. lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, og lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, og Álitsgerð kirkjueignanefndar 1984. Með orðalaginu ,,og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja" er m.a. átt við kirknaítök, réttindi á afréttum o.fl. sem fylgja og fylgja ber umræddum jörðum í hverju tilviki.

Undir þetta samkomulag falla ekki eftirtaldar jarðeignir:

     a. Klausturjarðir: Fram kemur í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 að ekki verði séð að íslenska kirkjan eigi nú neina lagalega kröfu til klausturjarðanna. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið klausturjarðir.      b. Stólsjarðir: Umræddar jarðir voru seldar kringum aldamótin 1800. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið stólsjarðir.      c. Prestssetur: Eins og tekið er fram í samkomulaginu þá falla prestssetrin og það sem þeim fylgir ekki undir þetta samkomulag. Prestssetrasjóður hefur á höndum umsjón og umsýslu umræddra jarða, sbr. lög nr. 137/1993, um prestssetur. Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar fjalli síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna.      d. Kristfjárjarðir og fátækrajarðir: Eignarréttarstöðu jarða sem falla undir þessa skilgreiningu er ekki á einn veg háttað. Þær eignir sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaga falla ekki undir þetta samkomulag. Aðrar kirkjujarðir sem eru með kristfjárkvöðum eða fátækrakvöðum falla undir samkomulagið, en með þeim formerkjum þó að sannanlegar kristfjár- eða fátækrakvaðir sem á þeim hvíla halda gildi sínu. Hreinar kristfjár- eða fátækrajarðir falla ekki undir þetta samkomulag.

Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar starfi áfram og fjalli sameiginlega um eignar- og réttarstöðu þjóðkirkjunnar í heild sinni. Í samkomulaginu er fyrirvari um samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings, svo og Alþingis, á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Frumvarpið og samkomulag þetta verður lagt fyrir ríkisstjórn 14. janúar n.k. og fyrir kirkjuþing sem hefst 21. janúar n.k. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja efnisatriði þessa samkomulags. Kirkjumálaráðherra gerir ráð fyrir að leggja frumvarpið fram á Alþingi á yfirstandandi þingi, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings á þessu samkomulagi.

Fundarmenn eru sammála um framangreind drög, og rita nöfn sín því til staðfestingar undir fundargerð þessa.

Reykjavík, 10. jan. 1997.

Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson, Stefán Eiríksson, Þorbjörn Hlynur Árnason, Halldór Gunnarsson og Þórir Stephensen.
Þarna er um að ræða samning milli íslenska ríksins og þjóðkirkjunnar. Líkt og fram kemur í fyrri hluta greinarinnar er ítrekað að finna í áliti kirkjueignanefndar frá 1984 þá skoðun að kirkjujarðirnar séu eign einstakra lénskirkna. Það var eindregin krafa samninganefndar ríkisins, að samið yrði við þjóðkirkjuna, að samningsaðili af þeirra hálfu yrði einn. Á þetta féllst viðræðunefnd kirkjunnar, enda vandséð hvernig hefði átt að koma samningum í höfn með öðru móti. 

Að öðru leyti skýrir samningurinn sig um flest sjálfur. Nokkuð var tekist á um gildistíma samningsins. Sjónarmið viðræðunefndar kirkjunnar var að hann yrði ótímabundinn, enda um að ræða óendurkræfa afhendingu eigna. Samninganefnd ríkisins vildi aftur á móti hafa inni í samningnum ákvæði um að hann hefði ákveðinn gildistíma. Því hafnaði viðræðunefnd kirkjunnar alfarið. Þó var sú málamiðlun gerð, að setja í 5. gr. ákvæði um endurskoðun á 3. gr., það er að segja að samningsaðili, hvor um sig geti óskað eftir endurskoðun að liðnum 15 árum frá undirritun.

Það sem skiptir hér verulegu máli er 2. gr. Þar er ákvæði þar sem ríkið skuldbindur sig til að greiða laun presta og starfsmanna biskupsembættisins. Ekkert endurskoðunarákvæði gildir um þessa grein.  Endurskoðunarákvæðið í 5. gr. tekur einvörðungu til fjölda embætta og starfa sem kveðið er á um í 3. gr. Þess má geta, að árið 1997 voru prestsembættin 135 og starfsmenn biskupsstofu 15.

Það var skoðun viðræðunefndar kirkjunnar að þarna væri um mjög ásættanlegan samning að ræða.  Ekki var farið út í útreikninga á raunvirði jarðasafnsins miðað við fjölda jarða árið 1907. Það hefði reynst afar flókið viðfangsefni. Þá hundrað árum síðar var jarðaverð lágt, hækkaði síðan mjög á tímabili, á svokölluðum góðæristíma, en hefur hríðfallið síðan. Þess í stað var gengið út frá þeirri sögulegu staðreynd að kirkjujarðasafnið og arður af því stóð undir kirkjulegri þjónustu við almenning á Íslandi. Það var viðmiðið sem gengið var út frá.

Blikur á lofti. Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Af framansögðu má sjá að unnt verður að óska eftir endurskoðun á 3. gr. samningsins eftir aðeins tvö ár.

Þar til á síðasta ári fékk þessi samningur að vera í friði, og ekki hróflað við honum af hálfu ríkisins. Enda er hér um að ræða tvíhliða samning milli lögaðila sem staðfestur er með sérlögum er ganga lengra en fjárlög hvers árs.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 2010 kom hins vegar fram krafa um lægra framlag en samningurinn kveður á um, um allt að 160 milljónum króna. Eins og allir vita var þá og er nú neyðarástand í fjármálum ríkisins. Uppi voru höfð orð um að ef kirkjan yrði ekki við þessum óskum, þá yrði samningurinn einhliða felldur úr gildi með lögum. Það hefði verið afar slæmur kostur fyrir alla. Því féllst kirkjuþing 2009 á að gera viðaukasamning við kirkjujarðasamkomulagið til eins árs um tímabundna breytingu á samkomulaginu. Fram kemur í samningnum að þetta er gert vegna sérstakra aðstæðna í ríkisfjámálum. Þá segir í 2. gr. viðaukasamningins, „.... eru aðilar sammála um að ofangreind skerðing á framlagi ríkisins vegna 3. gr samkomulagsins, leiði ekki til riftunar kirkjujarðasamkomulagsins".

Þessi viðaukasamningur felur vissulega í sér skerðingu á launum samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu. Engu að síður felst í honum viðurkenning af hálfu Alþingis á samningnum frá 1997. Þá þingmenn er nú sitja á þingi og sátu á þingi árið 1997 má telja á fingrum annarar handar. Það þing er nú situr viðurkennir þannig samninginn frá 1997. Í því pólitíska andrúmslofti er nú er má þannig telja þessa niðurstöðu nokkurn varnarsigur fyrir kirkjuna.

Mikið hefur verið rætt um aðskilnað ríkis og kirkju. Margt hefur þar verið sagt af litlu viti og enn minni þekkingu. Það er miður hversu margir þingmenn, sem þó eru bundnir af ákvæði stjórnarskrár um þjóðkirkjuna, vita lítið um sögu og eðli sambands ríkis og kirkju.

Þjóðkirkjan er sjálfstæð stofnun og samband við ríkið er einkum formlegt. Þó hefur kirkjan nokkra sérstöðu miðað við önnur þjóðkirkjulög. Um hana gildir sérstakt stjórnarskrárákvæði og þá einnig margnefnd lög um stöðu, stjórn og starfshætti. Það er alls ekki óeðlilegt, að gefnum lútherskum kirkjuskilningi, að veraldlega valdið hafi aðkomu að kirkjunni með einhverjum hætti, umfram önnur trúfélög, enda er um að ræða lang fjölmennasta trúfélag landsins sem hefur skyldur hvað varðar trúarleg og menningarleg efni við þjóðina  alla. Það er fráleitt sem haldið hefur verið fram, og hver hefur tuggið upp eftir öðrum gagnrýnislaust, að mannréttindi séu brotin eða sniðgengin með núverandi fyrirkomulagi á sambandi ríkis og kirkju. Með því er verið að gengisfella mannréttindahugtakið og draga úr því nauðsynlega vigt. Vel er hægt að túlka 62. grein stjórnarskrárinnar sem almennan stuðning við starfsemi trúfélaga í landinu; eins og viljayfirlýsingu um að starfsemi trúfélaga og tilvist sé af hinu góða. Þetta má rökstyðja með því að sóknargjöld, eru innheimt af ríkisvaldinu, með tekjuskatti og útdeilt til allra skráðra trúfélaga. Þetta er í reynd mesti stuðningur ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna – þó þetta fyrirkomulag geri það að verkum að ríkið getur leyft sér að skerða sóknargjöldin. Önnur trúfélög njóta þannig góðs af því fyrirkomulagi er ríkir. Þetta er meira jafnræði en er að finna á hinum Norðurlöndunum.

Brátt getur komið til endurskoðun á hluta kirkjujarðasamkomulagsins. Rétt er að kirkjan fari að undirbúa sig rækilega fyrir þá vinnu.  Þá mun reyna á margt.  Til dæmis verður tekist á um merkingu hugtaksins „endurskoðun“.  Hvað merkir það í þessum samningi?  Víst er að af hálfu ríkisins mun vera farið fram á verulega fækkun embætta frá því sem núverandi samkomulag kveður á um. En hugtakið endurskoðun hlýtur að fela í sér ákveðin mörk. Ef kemur fram krafa um fækkun embætta og starfa sem nemur helmingi, eða allt að tveimur þriðju, svo eitthvað sé nefnt, jafngildir það kröfu um uppsögn eða ógildingu samningsins. Á það verður vart fallist.

Þá ber að nefna ákvæði 3. gr. um fjölgun eða fækkun í þjóðkirkjunni og breytingar er sjálfkrafa verða á samningnum hvað það varðar. 

Einhliða uppsögn af hálfu ríkisins getur vart gengið. Það myndi jafngilda eignaupptöku. Með samningnum 1997 lét kirkjan af hendi eignasafn sitt gegn greiðslu prestslauna og annarra starfsmanna kirkjunnar. Ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignaréttarins hljóta því að taka til þessa samnings og gefa honum skýra vörn.

Vonandi bera menn gæfu til að bera sig þannig að, að sómi verði að niðurstöðunni. Í gegn um tíðina hefur verið sótt að kirkjueignunum og þær rýrnað verulega fyrir atbeina konungsvalds og síðar íslenskra stjórnvalda. 

Hvernig sem fer með samband ríkis og kirkju; hvort heldur evangelísk-lúthersk kirkja verður áfram þjóðkirkja með sérstöku stjórnarskrárákvæði þar um, eða ekki, verður ekki séð annað en að kirkjujarðasamkomulagið fái staðið. Þetta er samningur milli tveggja lögaðila sem stendur svo lengi sem almennar reglur eru virtar.

Því fer fjarri að íslenska þjóðkirkjan njóti einhverra forréttinda með kirkjujarðasamkomulaginu. Það setti einfaldlega skorður við linnulausri ásælni ríkisvaldsins í þau verðmæti er sannalega voru kirkjunnar með réttu, og tryggði jafnframt fjárhagslega undirstöðu kirkjulegrar þjónustu á Íslandi.