Áfram Ísland

Áfram Ísland

Þegar fólk þorir getur allt gerst. Magnea er kölluð til að þora að lifa, foreldrarnir einnig, afarnir og ömmurnar. Við sem einstaklingar og þjóð erum kölluð til að láta ekki ósigra og vonbrigði fortíðar og nútíðar hefta okkur heldur láta vaða.

Nýr forseti og nýr meðlimur Guðsríkins. Við höldum í dag hátíð þjóðar. Forseti lýðveldisins hefur verið kjörinn. Það eru mikil tímamót eftir að sami forseti hefur verið á Bessastöðum í fimm kjörtímabil, í tuttugu ár. Ég hlakka til innsetningar nýkjörinn forseta og vænti þess að hann standi með þeim gildum sem þjóðsöngurinn, þjóðmenningin og þjóðarhefðin tjá.

Magnea Sigurborg Og Magnea Sigurborg er hinn nýi borgari himnaríkis. Hún mun ekki aðeins muna fæðingardag sinn heldur einnig skírnardag. Hún var skírð daginn sem Guðni Th. Jóhannesson, forsetinn með guðsnafnið, var kjörinn. Brosið hennar Magneu er hrífandi – hún er vonarkona. Eins og öll börn heimsins er hún borin til stórvirkja. Sagt var um Jón Vídalín, eitt af stórmennum íslenskrar sögu, að hann væri: Ingenio ad magna nato – borinn til stórvirkja. Það er nú ljómandi lífseinkun fyrir hina mögnuðu Magneu líka – að hún sé borin til stórvirkja. Öll börn eru borin til stórvirkja, að lifa vel. Það er okkar að tryggja að aðstæður sé góðar og styrkur veittur til stælingar.

Söngur þjóðar Þetta eru merkilegir dagar sem við lifum nú. Stór hluti þjóðarinnar hefur hrifist með í fótboltabylgjunni. „Ó Guð vors lands“- þjóðsöngurinn hefur verið sunginn hástöfum af tugþúsundum – ef ekki hundruðum þúsunda á liðnum vikum. Fyrir okkur - sem ekki höfum verið í Frakklandi - hefur verið dásamlegt að vera í stórum hópi í heimahúsum, EM-stofum, eða á Ingólfstorgi og taka þátt í söngnum. Vinur minn, sem býr erlendis en var á Íslandi nú í vikunni, vildi syngja þjóðsönginn kórrétt fyrir einn landsleikinn. Ég bauð upp á þjóðsöngsþjálfun til að tryggja að allt yrði við hæfi. Við vorum í Flatey á Breiðafirði og þöndum raddböndin í kapp við gargandi kríur og skrækjandi stelkarnir ruku upp við kraftmikil sönghljóðin. Ég mæli með slíkum söng, það er gaman að syngja með kríum, þessum stjörnum eilífðar.

Rauð, hvít og blá í Politiken Þjóðsöngurinn hefur slegið í gegn og Ferðalok líka. Tugþúsundir Íslendinga hafa smitað sönggleðinni frá áhorfendapöllunum í Frakklandi, í stjónvarpi og á netmiðlum. „Ó, Guð vors lands – ó lands vors Guð.“ Margir hafa skrifað á netinu hvað söngurinn er áhrifaríkur. Af því Ísland hefur verið litla þjóðin í fótboltanum, Davíð á móti Golíötum knattspyrnunnar, hafa margir farið að halda með Íslandi. Danski fjölmiðillinn, Politiken, varð opinber stuðningsaðili Íslands á EM. Það er gleðilegt að Danir, sem voru súrir gagnvart undanvillingunum við lýðveldisstofnun, skuli taka svo klára, opinbera afstöðu. Svo einbeittur er stuðningurinn að einn stafur í nafni Politiken, var í marga daga í íslensku fánalitunum. Og til að danskir söngvarar kynnu fleira en að kyrja “vi röde og vi er hvide” og gætu tekið þátt í undrinu fengu þeir það verkefni að læra þjóðsönginn! Því var íslenskur kór í Kaupmannahöfn, Staka, fenginn til að syngja og svo var þýðingin textuð og íslenski þjóðsöngurinn varð söngur Politiken. Danir og allir stuðningsmenn um allan heim gátu farið í skyndinámskeið og síðan sungið af hjarta: Ó, Guð, vors lands, ó lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans þínir herskarar tímanna safn….“ Þessari notendavænu vefútgáfu þjóðsöngins hefur síðan verið miðlað og deilt um allan heim og verið notuð til að þjálfa, krydda, kynda upp stemmingu og gleðja.

Civil religion En hvað er söngur þjóðar? Hann er tákn fyrir Ísland, tákn fyrir sögu, land, náttúru – líf þessa fólks sem býr í þessu landi. Söngurinn er tákn fyrir allar Magneur og allt fólk í þessu landi. Og ef einhverjir vildu þjóðsönginn feigan er andláti söngsins frestað um langan tíma. Þjóðsöngurinn sló í gegn.

Á þessum þjóðhátíðartíma söngs, forseta og barna framtíðarinnar er vert að minna á að þjóðsöngvar gegna ekki aðeins almennu stemmings- og samstöðu-hlutverki, heldur hafa líka trúarlegt hlutverk (um þetta má lesa hjá þeim ágæta Robert Bellah). Gildir einu hvort texti þeirra vísar til Guðs, trúarstefs eða ekki. Hlutverk þjóðsöngva varðar helgun og gildi þjóðar. Flestir, sem ekki eru algerlega trúarlega laglausir eða ljóðrænt flatir, geta skynjað eða tengst einhverju í “Ó, Guð vors lands.” Skáldpresturinn Matthías Jochumsson orti svo vítt og einnig svo breitt að fleiri en kristnir trúmenn geta sungið og tekið undir. Líka múslimar, hindúar og efahyggjumenn geta samsinnt boðskap þjóðsöngsins einmitt vegna breiddar og kredduleysis hans. Því er hann vel fallinn til að þjóna táknhlutverki þjóðsöngs, líka á tímum trúarlegs fjölbreytileika. Aðeins grunnhyggnir efnishyggjumenn (sem eru bókstafshyggjumenn og slíka vantar jafnan sveiflu) munu ekki geta samþykkt glans og inntak söngsins.

Og vissulega eru hraðar skiptingar í textanum, sem flengist slysalaust frá kyrru hins titrandi társ til skartsækinna sólkerfa, sem raða sér í krans! Þessi stóri söngur lyftir draumum, vonum og tilfinningum hvað svo sem á gengur og hvernig sem ósigrar hafa leikið fólk. Söngurinn er vonarsöngur þvert á táknmál áfalla og dauða. Íslendingar spunnu úr sögu, náttúru og möguleikum eitthvað rismikið og seiðandi til að minna á möguleika og opnun. Íslenski þjóðsöngurinn er ekki hernaðar- eða sigursöngur eins og margar þjóðir búa við – söngur sem miklast af því að kúga eða sigra aðra. Öndvert öllu oflæti fyrr og síðar er í þessum texta Íslendinga minnt á hið forgengilega og skammæi lífsins. Og þar er jafnvel að finna sorgarvinnu sem heppnast. Það er því raunsætt áfram Ísland í þessum texta.

Láttu vaða Í guðspjallstexta dagsins er sagt frá mönnum sem voru búnir að strita en án árangurs. Þeir voru eins og fótboltamenn sem tapa öllum leikjum. Og svo kemur maður til þeirra sem segir þeim að láta vaða. Og þegar fólk þorir getur allt gerst. Magnea er kölluð til að þora að lifa, foreldrarnir einnig, afarnir og ömmurnar. Liðið okkar í Frakklandi er hvatt til að láta ekki ofurefli trufla sig. Við sem þjóð erum kölluð til að láta ekki ósigra og vonbrigði fortíðar og nútíðar hefta okkur heldur láta vaða.

En göslaragangur hefur aldrei skilað árangri til lengri tíma. Aðeins það sem máli skiptir ber ávöxt. Og líf nýbura þessa lands verður ekki gott, nema foreldrarnir leggi lið, ali vel upp, stæli til átaka og til að nýta gáfur og hæfileika til góðs. Nýr forseti verður ekki farsæll nema hann þjóni í góðri sátt við gildi þjóðar, menningar og hefðar og vilja fólksins í landinu. Hann þarf að vera eins og Pétur í fiskisögunni miklu, þora að verða við kalli til þjónustu. Líf okkar sem einstaklinga verður ekki farsælt nema við göngumst við hlutverkum okkar og leyfum hinu mikilvæga að verða í lífi okkar. Niðurstaðan af reynslunni á vatninu var eins og í þjóðsöngnum. Fiskimennirnir fengu stóra vinninginn, fengu netin full af lifandi afla, gerðu sér grein fyrir hvað skipti máli. „Ó Guð vors lands, ó lands vor Guð.“ Og þeir fylgdu þessum Jesú Kristi sem opnaði augu þeirra og sýndi þeim eðli og tilgang lífsins.

Áfram Ísland og … Ekki veit ég hvernig fótboltaleikurinn annað kvöld fer. Íslendingar eru þegar aðalsigurvegar EM óháð úrslitum í leiknum við Englendinga. Ég mun syngja þjóðsönginn af krafti þó engar verði kríurnar. Vinir mínir á Friðriksbergi munu einnig þenja sín raddbönd – og syngja kórrétt. Og við ættum að blessa nýjan forseta því köllun hans er að lúta lífsgildum - sem og Guði lands og þjóðar. Landsleikir geta verið skemmtilegir, skírnir eru dásamlegar og stórkostlegasta lífshlutverk okkar er að fylgja Jesú Kristi í öllum veiðiferðum ævinnar. Áfram Ísland.

Amen.

Hallgrímskirkja 27. júní, 2016. 5. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Magnea Sigurborg Pálsdóttir skírð, en foreldrar hennar eru Karen Lind Ólafsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson. Niðurstöður forsetakosningar lágu fyrir og orðið ljóst að Guðni Th. Jóhannesson var valinn og EM-ævintýri Íslendinga hélt áfram.

Guðspjall: Lúk 5.1-11 Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.