Hugrekkið

Hugrekkið

Þegar þú horfir á rammann á leikvangi lífsins þá skaltu muna að besti þjálfarinn stendur þér við hlið og leiðbeinir þér. Hann bregður yfir þig skikkju hugrekkisins og segir við þig: ,,Þú átt leik".
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
15. júní 2008

Unglingar voru á handboltaæfingu í íþróttahöllinni á Húsavík um daginn. Tvö lið voru að spila og tóku mark á hvort öðru. Leikgleðin var í fyrirrúmi hjá báðum liðum í sókn og vörn. Það var farið inn úr hornunum, af línunni en flottast þótti mér þegar stokkið var upp fyrir utan punktalínu og skotið var á markið. Ég dáðist að sprengikraftinum í krökkunum. Ég sá ekki betur en þar væru hávaxnir unglingar á ferð og flugi, framtíðar landsliðsmenn. Markverðirnir vörðust fimlega þar sem þeir köstuðu sér milli stanganna. Öðru hvoru glumdi boltinn í netmöskvum rammans svo undir tók í salnum. Þess á milli var skotið framhjá og netið umhverfis rammann tók boltann í sínar greipar. Þjálfarinn var með flautuna og gætti þess að leikurinn færi fram samkvæmt leikreglunum. Hann veitti hvorki áminningu,tiltal, né rak út af. Allir virtust leggja sig fram um að fara að leikreglunum. Ég tók eftir því hversu þjálfarinn lagði sig fram um að kenna krökkunum. Þolinmæðin skein í gegn í fari hans. Stundum stöðvaði hann leikinn og sagði krökkunum til og svo héldu þau áfram að leika sér, börn vonarinnar. Ég sá ekki betur en þau lærðu sína lexíu í þessum æfingatíma.

Lífið utan íþróttahallarinnar á sínar leikreglur sem við þekkjum mæta vel. Okkur gengur hins vegar misjafnlega vel að halda þær. Þar eru að vísu engar hliðarlínur og þverlínur, punktalínur og vítapunktar eins og við þekkjum úr íþróttasalnum. Leikvangur lífsins er hlykkjóttur, mjór og breiður, langur og hár og svo djúpur að við sjáum þar vart handa okkar skil. Að sönnu er varúðar þörf á vegferð okkar í gegnum lífið. Þá er gott að geta notið aðstoðar og leiðsagnar engla í mannsmynd til að geta náð upp á toppinn þar sem heiðríkjan og víðsýnið ríkir. Við veittum þeim kannski ekki athygli síðast. Það er nú mannlegt. Við skulum muna að við erum aðeins fólk. Það er sumum nægilega mikil köllun í sjálfu sér og miða þá allt við sig. Ber ekki veraldarsagan hins vegar vitni um það að manneskjan hafi beðið skipbrot? ,,Vér erum veikburða fæddir”, eins og óþekktur maður sagði, ,,og eigum skammt að lifa, geta vor er skorðuð, máttur og hreysti sem brunninn kveikur, vonir brigðular, ævin óviss, skilningurinn takmarkaður, þekkingin í molum, skoðanir reikular”. Ég tel að verkefni okkar sé að segja skilið við lestina áður en við skiljum við. Það er lífstíðarverkefni. Í ljósi þess ætti okkur að vera ljóst að við þurfum á hjálp að halda þegar við förum fram úr á morgnana.

Þegar þú horfir á rammann á leikvangi lífsins þá skaltu muna að besti þjálfarinn stendur þér við hlið og leiðbeinir þér. Hann bregður yfir þig skikkju hugrekkisins og segir við þig: “Þú átt leik. Reyndu að hitta í markið. Þó að þú hittir ekki þá máttu reyna aftur. Taktu mark á mér, það verður þér til góðs og gæfu á víðsjárverðum leikvangi lífsins”. Hann vill fyrir alla muni að þú hittir í mark í lífinu því að þú ert barn vonarinnar.

Þessi þjálfari minnir ætíð á sig. Taktu virkilega mark á honum því að hann tekur mark á þér.