Ertu drottning?

Ertu drottning?

Ekki láta þitt eigið hefðarsæti neinum öðrum eftir heldur taktu skref í áttina að eigin frelsi, með því að fikra þig út úr því sem heldur þér niðri. "Vinur, flyt þig hærra upp!" eru orðin sem Jesús talar til þín í dag.
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
30. september 2012
Flokkar

Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

Lúk. 14.7-11

Konan á flugvellinum heldur á fagurlagaðri stórri svartri krukku með rauðu loki. Þegar hún sest niður til að bíða eftir afgreiðslu, heldur hún krukkunni í fanginu, nálægt sér. Í krukkunni er aska mannsins hennar, sem lést af slysförum í öðru landi. Líkaminn hans var brenndur og nú er askan hans á leiðinni heim.

Konan heldur á duftkerinu í leigubílnum að heimili þeirra og nú þarf að finna réttan stað fyrir kerið. Staðurinn sem verður fyrir valinu er við stórt upplýst fiskabúr. Þegar konan lítur á búrið blasir duftkerið við, svart og glansandi, með gullfiska syndandi í bakgrunninum. Konan lítur oft á kerið því á einhvern hátt er það maðurinn hennar sem er þarna. Kerið verður miðpunktur í íbúðinni - og skipar hefðarsætið í henni.

Í sorgarferlinu sem konan upplifir, fer hún í gegnum minningarnar um manninn sinn. Sumar eru góðar og aðrar eru erfiðari. Og við sjáum að þegar konan stendur frammi fyrir erfiðu minningunum, fer duftkerið á hreyfingu. Hún vill ekki lengur hafa það í hefðarsæti í íbúðinni - af því að hún er reið manninum. Þegar hún kemst af því að hann hafi átt í ástarsambandi við aðra konu stuttu áður en hann lést, tekur hún kerið, strunsar með það út og kastar því í ruslatunnuna. Með því tjáir hún hvernig henni líður yfir svikum mannsins. Þar sem hún getur ekki sagt honum það beint, af því að hann er dáinn, grípur hún til þess að fjarlægja hlutinn sem kemst næst því að vera hann - dufkerið með ösku hins látna.

Þessi saga er úr nýrri bíómynd sem nú er sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, Drottningin af Montreuil. Þetta er hugljúf mynd sem sýnir falleg samskipti sögupersónanna sem einkennast af hjálp og umhyggju. Myndin sýnir m.a. hvernig manneskjur hjálpa hverri annarri að halda áfram að lifa, elska og gleðjast, eftir að sorgin knýr dyra og óvæntir erfiðleikar dynja yfir.

Nánd og samhjálp er það sem við getum alltaf gefið. Nánd og samhjálp skapa tengsl og það eru gæði tengslanna sem við eigum sem skilgreina gæðin í lífinu. Athygli okkar er meir og meir vakin á því hvað tengsl eru mikilvæg fyrir manneskjuna til að vera heil og hamingjusöm. Vond og erfið tengsl skaða og kreppa, og virka eins og eitur sem dregur líf og mátt úr líkamanum af því að hann notar alla sína orku til að bregðast við eitrinu. Við áttum okkur betur og betur á því að erfið tengsl í barnæsku og uppvexti verða að þungum farangri í lífinu öllu, sé ekkert að gert.

Eitt einkenni - eða jafnvel sjúkdómur - sem slæm tengsl fæða af sér er meðvirkni. Meðvirkni getur birst í lífinu á ólíkan hátt en henni má t.d. lýsa svona: Við höfum lélegt sjálfsmat sem verður til þess að við dæmum okkur sjálf og aðra miskunnarlaust.  Við leynum því eða bætum það upp með því að reyna að vera fullkomin og bera ábyrgð á öðrum, reynum að stjórna því hver niðurstaðan verður á ófyrirsjáanlegum atburðum og verðum reið, þegar hlutirnir ganga ekki upp eins og við viljum eða tölum illa um aðra og slúðrum í stað þess að horfast í augu við hlutina og hreinsa til. (Vinir í bata, algengt hegðunarmynstur).

Afneitun, einangrun, stjórnsemi og röng sektarkennd geta verið einkennandi fyrir slæm tengsl og trufluð samskipti fjölskyldunnar. Þannig samskipti gera okkur vonlítil og hjálparlaus og geta skilað sér í því að við lifum lífinu sem fórnarlömb og löðumst að öðrum fórnarlömbum í ástar- og  vináttusamböndum okkar.  Við ruglum saman ást og vorkunnsemi og höfum tilhneigingu til að elska fólk sem við getum vorkennt og bjargað. Í meðvirkninni erum við annað hvort yfirmáta ábyrgðarfull eða ábyrgðarlaus. Við reynum að leysa vandamál annarra og væntum þess að aðrir beri ábyrgð á okkur. Þetta gerir okkur kleift að forðast að athuga nánar okkar eigin hegðun.

Skaðinn sem slæm tengsl vinna í lífinu okkar er óumdeildur. Það er hins vegar bara á ábyrgð okkar sjálfra að vinna okkur út úr vítahring meðvirkni og slæmra tengsla. Það á bæði við um tengsl við fólk sem við eigum samskipti við hér og nú, og við þau sem ekki eru lengur á meðal okkar.

Konan sem missti manninn sinn og fleygði duftkerinu í ruslið, sá sig reyndar um hönd og bjargaði kerinu, rétt áður en sorphirðan átti leið um. Hún var ekki tilbúin að farga líkamsleifum eiginmannsins á þennan brútal hátt, þegar til kom, þótt hún væri honum reið. Duftkerið rataði því aftur inn í íbúðina, í hefðarsætið, hjá fiskabúrinu.

Guðspjall dagsins fjallar um hefðarsæti og þá sem veljast í það. Hefðarsætið er best, það lýsir velferð og vellíðan, sterkri stöðu og frelsi. Það er eftirsóknarvert að fá að sitja í hefðarsæti. Og hér kemur áskorun dagsins - sem guðspjallið vekur með mér og ég vil deila með ykkur: Í þinni eigin veislu, í þínu eigin lífi, á enginn nema þú sjálf eða þú sjálfur að sitja í hefðarsætinu. Það er þér ætlað og það passar fullkomlega utan um rassinn á þér.

Leiðin í hefðarsætið getur hins vegar þvælst fyrir okkur - alveg eins og líf í slæmum tengslum og meðvirkni getur hindrað okkur í því að vera frjáls. Því segi ég þér: Ekki láta þitt eigið hefðarsæti neinum öðrum eftir heldur taktu skref í áttina að eigin frelsi og eigin hefðarsæti, með því að fikra þig út úr því sem heldur þér niðri. "Vinur, flyt þig hærra upp!" eru orðin sem Jesús talar til þín í dag.

Í myndinni Drottingin af Montreuil vísar titillinn til spakmælis frá Jamaíka um að þegar ekkja kemst yfir eiginmanninn, verður hún drottning! Myndin sýnir okkur þetta ferðalag konunnar, sem á skondinn og óhefðbundinn hátt vinnur úr sorginni sinni með aðstoð og umhyggju annarra, og verður þannig drottningin í lífinu sínu. Drottningin af Montreuil. Það er ekki lengur duftkerið sem skipar hefðarsætið í lífinu hennar - heldur hún sjálf.

Þversögnin sem guðspjallið bendir okkur á er að til að geta setið í okkar eigin hefðarsæti, þurfum við að lítillækka okkur sjálf, eins og Biblían orðar það. Lítillækka þýðir ekki að gera lítið úr eða að við séum ómerkileg. Það vísar frekar til þess sem við getum kallað vanmátt okkar gagnvart aðstæðunum sem við getum ekki stjórnað - og eigum þess vegna ekki að reyna að stjórna. Með því að játa þennan vanmátt og stíga út úr vondum tengslum og inn í umhyggjusöm og ábyrg tengsl getur þú sest í hefðarsætið í lífinu þínu. Þá verður þú drottning.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun. Um aldir alda. Amen.