Leikreglurnar og bænin

Leikreglurnar og bænin

Það er mín sannfæring að fegurðin og friðurinn komi með bæninni. Þegar við köfum inn í okkar innsta kjarna. Bænin er nefnilega uppspretta bættra samskipta, virðingar og samstöðu sé hún beðin af einlægni hjartans og í auðmýkt.

Veistu, að eitt sinn varst þú aðeins draumur. Fallegur draumur í huga Guðs. Draumur sem rættist. Guð dreymir nefnilega stóra og fallega drauma og hann hefur háleyt markmið. Í hans augum ert þú ekki einhver tilviljun og því síður eins og hvert annað óhapp, aðskotahlutur í þessari veröld, slys eða mistök. Í hans augum ert þú óendanlega dýrmæt sál. Verðmæti sem verða ekki afmáð eða þurrkuð út. Hefurðu gert þér grein fyrir að það er enginn eins og þú. Þú ert undursamleg sköpun Guðs. Guðs sem er kærleiksríkur andi sem elskar þig út af lífinu. Honum þóknast ekki dauði nokkurs manns. Hann sem er lífið sjálft! Gleymdu því ekki. Hann sem kom til að fyrirgefa syndir okkar og gefa okkur líf um eilífð. Hann sem sagði, ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Ég lifi og þér munuð lifa! Og, Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. – Toppiði það!

Guð er ekki einhver refsivöndur eins og sumir halda og vilja meina. Í honum er einmitt fólgin lausn, hin varanlega lausn sem mannkynið þráir og er alltaf að leita eftir. Hjá honum og fyrir hann er það líf sem við vorum sköpuð til. Við erum að tala um höfund lífsins, sem síðan sendi okkur son sinn til þess að frelsa okkur og fullkomna áætlun sína.

En hvað þá eiginlega með þessi boðorð sem engin virðist skilja og því síður geta farið eftir? Eru þau ekki bara til að bregða fyrir okkur fæti og gera lífið leiðinlegra? Eru þau ekki frá einhverjum ströngum refsandi hefnigjörnum Guði sem vill sýna okkur fram á hvað við erum smá og ófullkomin?

Nei, aldeilis ekki. Hann sendi okkur þau af því að við erum börnin hans, Guðs börn, hefurðu áttað þig á því, og vegna þess að hann ber umhyggju fyrir okkur, vill okkur vel, elskar okkur út af lífinu.

Setjum við börnunum okkar ekki einhverjar leiðbeindandi reglur svo þeim farnist vel í samskiptum? Fylgum við þeim ekki í skólann fyrstu dagana? Ekki hendum við þeim bara út og segjum svona, komdu þér í skólann krakki, sama hvernig þú ferð að því, reyndu að finna hann, og ef þú ert heppinn þá kemstu kannski einhvern tíma aftur heim.

Við kennum börnunum okkar að fara yfir götu, líta til hægri og vinstri og hvernig sé farsælast að fara að samkvæmt reynslu áranna, þótt vissulega sé ekkert öruggt. Við brýnum fyrir þeim að fara ekki upp í bíl með ókunnugum, einhverjum sem vill gefa þeim sælgæti og bjóða þeim í bíltúr. Við kennum þeim að bíða í röð, ryðjast ekki fram fyrir. Brjóta ekki rúður, rispa ekki bíla, hrinda ekki gömu fólki. Við sendum þau ekki út í búð og segjum þeim að fanga sem mest af vörum hvernig sem þau fara að því af því okkur vanti þær. Við kennum þeim að þau megi ekki taka hluti sem náungi þeirra á án samþykkis.

Varla er það vegna þess að við viljum bregða fæti fyrir þau. Nei, það er að sjálfsögðu vegna þess að við elskum þau. Við kennum þeim leikreglur samfélagsins og viðtekna og viðurkennda mannasiði svo þau hreinlega verði tekin gild í samfélaginu og plummi sig á sem bestan hátt.

Öll siðuð þjóðfélög taka mið af þessum boðorðum og byggja lög sín og reglur á þeim a.m.k. í stærstum dráttum.

Við erum fyrirmyndir barnanna okkar. hvort sem okkur líkar það betur eða ver. Það sem við aðhöfumst, segjum og gerum, hefur ákveðin áhrif sem skila sér með einhverjum hætti og geta haft mótandi áhrif á jafnvel komandi kynslóðir. Hafiði velt því fyrir ykkur?

Við erum svo langt í frá að vera fullkomin. – Kannski sem betur fer. En fyrir hvað viljum við standa og láta minnast okkar fyrir? Hvaða áhrif viljum við hafa á afkomendur okkar? Hvað viljum við í rauninni skilja eftir okkur þegar við hverfum héðan?

Ert þú foreldrið, afinn eða amman sem vissir alltaf allt best, varst með stöðugar aðfinnslur, kröfur og bara óþægilega nærveru. Eða varst þú foreldrið, afinn eða amman sem gafst þér tíma til að leika við barnið þitt eða barnabarn, tala við það, sýna því skilning, ýta undir áhuga þess og styrkleika á þeirra forsendum, þótt þú finndir þig jafnvel hálf untan gáttar og hugsanlega gjörsamlega vanhæfan? Varst þú þessi hrokafulli og skilninglausi – eða auðmjúki, skilningsríki og hjálpsami, sá sem hlustaðir og miðlaðir reynslu eftir að hafa sett þig inn í hugarheim barnsins eða viðkomandi?

Jesús gaf okkur nýtt boðorð. Og flókið var það: Elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað ykkur, skulið þið líka elska hvert annað.

Hann vill anda á okkur kærleika sínum og gefa okkur nýtt hjarta. Hann gaf okkur alla sína elskusemi sem við megum þiggja og njóta, rækta með okkur og koma síðan áfram svo fleiri fái notið. Boðorð sem ræktað er innanfrá en ekki sett upp sem skilti utanfrá.

Jesús er þess megnugur að fyrirgefa syndir okkar. Og hann er þess megnugur að reisa okkur við þegar okkur finnst við vera að koðna niður og við það að gefast upp. Hann segir einfaldlega,: Barnið mitt, stattu upp. haltu áfram, ég verð með þér í gegnum þykkt og þunnt. Treystu mér. – Vertu hughraustur, ég hef sigrað heiminn, og sjálfan dauðann. Vertu í mér, þá verð ég í þér í baráttunni og áreiti daganna.

Og hann óskar þess og biður að við mættum bera ávöxt með lífi okkar Það í rauninni á að vera köllun okkar í lífinu að bera ávöxt. Ávöxt til heilla, ekki til óhamingju. Í umhverfinu, meðal samferðamanna og ekki síst afkomendum okkar börnum og barnabörnum til blessunar.

Guð hefur prýtt þig með einhverju sem enginn gerir betur en þú. Því að þér er ætlað ákveðið hlutverk í þessari hrjáðu og köldu veröld sem við búum í. Það að vera samferðafólki þínu til blessunar, sjálfum þér til heilla og Guði til dýrðar.

Við erum pílagrímar á ferð í þessari veröld. Samferða í gegnum ævigönguna, á heimleið, ætlað að uppörva hvert annað, standa saman, uppörva og styðja hvert annað. Líklega er okkar eini tilgangur í þessari veröld eftir allt, það að elska hvert annað.

Ef þú vilt njóta blessunar í þessum heimi skaltu leitast við að vera til blessunar. Spurðu sjálfan þig stöðugt, hvað get ég gert í dag til þess að fólkinu mínu, skóla- eða vinnufélögum, þeim sem ég á samskipti við, samferðafólki mínu öllu, geti liðið sem best? Og gerðu svo eitthvað í málunum.

   Það gerum við væntanlega meðal annars og ekki síst með því að virða náungann og standa með honum. Vera uppörvandi og hvetjandi. Gleðja með þægilegu og nærgætnu viðmóti. Með því að vera styðjandi og umvefjandi án þess að vera yfirborðskenndur eða yfirþyrmandi. Með því að bjóða góðan daginn, heilsa glaðlega og faðma nett ef því er að skipta.

   Það er að sjálfsögðu enginn að tala um að við þurfum öll að vera eins eða með sömu skoðanirnar, fjarri því.    Þeir sem þurfa alltaf að eiga síðasta orðið í öllum málum og samskiptum, þeir sem þykjast alltaf vita allt best, eru með yfirlæti og allt á þurru, sjálfselskir og tillitslausir, sama um náungann, sérhlífnir og sjálfumglaðir, sífell neikvæðir og með allt á hronum sér, verða einfaldlega ekki til blessunar.

Það að einsetja sér að vera til blessunar svo hún verði með tímanum áreynslulaus eða alla vega áreynslulítil er spurning um vilja. Því þarf að taka ákvörðun um að vera til blessunar. En vittu að það kostar þolinmæði, úthald og aga.

Það sem dregur úr okkur er að við erum sífellt að láta umhverfið segja okkur hver við erum. Hættum að nota náungann, tíðarandann eða umhverfið sem viðmið hver við erum. Gerum heldur Guð að þeirri mælistiku. Í ljósi mannlegs veruleika líður okkur nefnilega allt of oft eins og sandkorni á strönd sem treðst undir í átroðningi daganna. En í augum Guðs erum við sem lítil fögur óendanlega dýrmæt perla sem enginn fær afmáð og ekkert getur eytt. Perla sem okkur er falið að gæta, hlúa að og pússa þar til yfir lýkur.

Þar sem auðmýkt, bræðra- og systralag, fyrirgefning og þakklæti ræður ríkjum, þar býr fegurðin.

   Þannig er kærleikurinn. Hann spyr ekki um ágóða eða endurgjald. Hann er umvefjandi og leitar sátta og friðar.

   Það er mín sannfæring að fegurðin og friðurinn komi með bæninni. Þegar við köfum inn í okkar innsta kjarna. Bænin er nefnilega uppspretta bættra samskipta, virðingar og samstöðu sé hún beðin af einlægni hjartans og í auðmýkt.

Við erum kölluð til verka, góðra verka. Við erum samt eitthvað svo skelfing ólík með misjafnar skoðanir, en ómissandi hlutverk. Við erum öll kölluð til að vera hendur og fætur frelsaerans, Jesú Krists í þessum heimi. Kölluð til að sjá fólk með augnaráði hans, mæta því af skilningi og með opinn faðminn. Kölluð til að hlúa að, breyta og bæta. Vera trú í stóru og smáu. Því að konungur lífsins hefur krýnt okkur með sinni eilífu lífsins kórónu. Við erum einfaldlega kölluð til að hlusta og sjá þau sem á vegi okkar verða með hjartanu, eins og það vill nú vefjast fyrir okkur og reynst okkur flókið.

Til að ná ofangreindum markmiðum tel ég einfaldlega farsælast að lifa í bæn. Því bænin stuðlar að samstöðu og friði. Hún meðal annars skerpir einbeitinguna, eflir hugmyndaflugið og eykur athygli svo markmið okkar verða skýrari. Hún mýkir hjartað, dregur úr öfund og mildar áföll. Hún stuðlar að kærleika, vekur von og eykur bjartsýni.

Bænin er einfaldlega eitthvað það fallegasta sem til er.

Fegurðin býr þar sem fyrirgefning, réttlæti og friður faðmast. Og fegurðin er fingrafar Guðs í þessum heimi, og þú þar með talið!

Því tel ég eitt mikilvægasta verkefni allra uppalenda á öllum tímum að kynna bænina fyrir börnunum sínum og barnabörnum. Kenna þeim að grípa til hennar svo hún verði þeim áreynslulaus og eðlileg með tíamanum. Því betra nesti og lífsförunaut tel ég ekkert jafnast á við.

   Því er svo mikilvægt að gera það að sjálfsagðri ómissandi og áreynslulausri reglu að kenna börnum bænir og biðja með þeim og fyrir þeim, án þess að gera það að öfgum.

Ljúfi Jesús láttu mig, lífs míns alla daga, lifa þér og lofa þig, ljúft í kærleiks aga.