Á veiðilendu með frelsaranum

Á veiðilendu með frelsaranum

Hver ert þú? Hvaðan kemur þú? Hvert ert þú að fara? Ert þú leitandi manneskja, stríðandi, áveðra fyrir ágjöfum mannlífsins? Hér hefur þú fundið griðastað þar sem bænin vakir og trúartraustið. Blaktandi kertaljósin á altarinu vitna um nærveru Jesú Krist sem sagði um sjálfan sig: “Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins”.

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.

Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lúk. 5. 1-11

Það er ekki laust við að ég sé snortinn yfir þeim forréttindum að fá að stíga hér í stólinn í Hóladómkirkju í Hjaltadal í fyrsta skipti og leggja út af lestrum þessa Drottins dags. Við þingeyingar þökkum gott boð um að koma heim að Hólum til að annast helga tíðagjörð og samkomu sem verður hér á eftir í kirkjunni kl. 14 þar sem þingeyskir söngvarar og hljómlistarmenn koma fram. Tilefnið er að á þessu ári eru liðin 900 ár frá stofnun biskupsstóls og skóla á Hólum.

Þingeyingar eru þekktir fyrir að finna lítt til vanmáttarkenndar svo ég slái á léttan streng. Þegar einn þeirra varð var við að ég ætti að prédika hér á Hólum þá ráðlagði hann mér að biðja þingeyskan anda að hjálpa mér. Ég brosti og sagðist heldur kjósa að biðja anda Jesú Krists að hjálpa mér.

Ég finn þó fyrir þessari minnimáttarkennd þegar ég hugsa til þeirra sem lagt hafa leið sína í þennan stól á liðnum öldum og prédikað fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég er þó jafnframt þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt til að prédika fagnaðarerindið í þeirri trú og von að Guðs ríki megi breiðast út með hjálp þeirra sem veita orðinu viðtöku og tileinka sér það í lífi og starfi.

Við kristið fólk erum órjúfanlegir hlekkir í þeirri keðju sem Jesús Kristur bjó til með því að kalla fyrstu lærisveinana til starfa í þágu Guðs ríkis. Vissulega hefur verulega reynt á þessa keðju þegar við lítum um öxl yfir liðnar aldir og íhugum t.d. þá niðurlægingu sem varð á Hólum á öldunum eftir siðaskiptin en við gleðjumst í dag yfir þeirri uppbyggingu sem á sér stað hér á Hólum í veraldlegu sem andlegu tilliti og við óskum Hólastað allrar Guðs blessunar sem og þeim sem hingað eiga eftir að sækja sér veraldlega og andlega næringu næstu 900 ár. Mér er ekki gefin spámannleg sýn til svo margra ára um það hvernig hér verður umhorfs að þeim tíma liðnum. Ég get hins vegar litið um öxl með hjálp fornleifafræðinga sem undanfarin ár hafa grafið upp staðinn þar sem prentsmiðjan á Hólum stóð forðum með tilstyrk kristnihátíðarsjóðs. Þar tala steinhleðslurnar sínu máli um þá menningar, kirkju – og bókmenntasögulegu uppbyggingu sem Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum stóð fyrir meðan hans naut við. Fyrir nokkrum árum sá ég vel varðveitt eintak af Guðbrandsbiblíu í turni Skálholtsdómkirkju sem Guðbrandur hafði sjálfur áritað. Þá varð mér hugsað til þess að gaman væri ef þetta eintak yrði varðveitt heima á Hólum. Guðbrandur stóð fyrir því að Biblían var þýdd á íslensku. Þetta framtak er talið eiga mjög veigamikinn þátt í því að íslenskan hefur varðveist fram á þennan dag en talið er að Guðbrandsbiblía hafi verið gefin út í 500 eintökum 6. júní árið 1584 Sú þýðing var notuð lítð breytt til 1841 að ný biblíuþýðing var gefin út í Viðey.

Það stendur til að reisa hér á Hólum menningar og fræðasetur á næstu árum sem verður tileinkað Guðbrandi biskupi. Þakið verður líkt og opin Biblía. Hugmyndin er sú að mér skilst að valin ritningarvers verði grafin í þakið en það finnst mér vera mjög skemmtileg hugmynd. Ég tel að eitt af versunum úr guðspjalli dagsins ætti þar vel heima en þar segir frelsari mannanna Jesús Kristur: “Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða”. Tala þessi orð Krists til þín í dag áheyrandi góður líkt og henti fiskimennina Símon Pétur, Jakob og Jóhannes Sebedeussyni við Genesaretvatn forðum?

Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvað Guðs orð stenst vel tímans tönn. Það er vegna þess að það er lifandi og sískapandi. Það verður ekki grafið í jörð né fangað í greip. Það finnur sér leið hægt og hljótt að hjörtum mannanna frá einni kynslóð til annarrar þegar því er gefið gaum með orðsins list og ekki síður í kirkjutónlistinni. Það ber oft á tíðum ríkulegan ávöxt í hjörtum mannanna. Hversu hrifnæm erum við ekki þegar við hlýðum t.d. á óratoríur Johannesar Sebastan Backs sem byggði sín verk á Biblíunni að stórum hluta. Þannig starfar Jesús Kristur sem er hjá okkur í heilögum anda sínum og hjálpar okkur og leiðir í gegnum lífið. Hann talar til okkar á hverjum degi með svo margvíslegum hætti t.d. þegar bláókunnugt fólk, vinir og vandamenn auðsýna okkur samhug, hluttekningu, bróðurelsku eða miskunnsemi eins og Pétur postuli minnist á í pistli dagsins. Oft á tíðum snertir hann við okkur á örlagastundum í lífi okkar, opnar augu okkar fyrir leyndardómum trúarinnar, og gefur okkur nýtt líf með sér sem við

leitumst við að hlúa að og rækta eftir því sem tími gefst til í dagsins önn.

Mér varð hugsað til guðspjalls þessa Drottins dags og örlagastundar Símonar Péturs og lærisveinana við bakka Genesaret vatns þegar ég ferðaðist á bát yfir vatnið frá Tíberias á leið til Kapernaum árið 1984 ásamt guðfræðinemum. Engan sá ég Pétursfiskinn, hvorki í vatninu né á ströndinni.

Vissulega var Símon Pétur dálítið rogginn með sig þegar hann ræddi við Jesú þar sem hann stóð yfir tómum netunum. Hann ætlaði ekki að gera sig að fífli með því að leggja netin að nýju vegna þess að það eina sem þeir höfðu uppskorið í fyrri veiðtúr var einn gamall sandali, krabbar og eldiviðarsprek.

Jesús sagði við Símon Pétur. “Legg þú út á djúpið og leggið net yðar til fiskjar”. Þeir svöruðu honum og sögðu: Nei, heyrðu góði, þú getur breytt vatni í vín en víngarðseigandinn getur gert það sama. Þú gætir hafa læknað fólk en læknir getur einnig læknað fólk. Þú vilt að við hendum netunum í vatnið eftir þessa nótt? Nei, Vilt þú að við gerum okkur að skrípum frammi fyrir öllu þessu fólki? Við erum fiskimenn en það ert þú ekki.

Þegar Símon Pétur sá að Jesús stóð fastur við sinn keip þá sagði hann: Allt í lagi. Við skulum gera það. Gerum okkur að fíflum. Síðan leit hann á Jesú og sagði. Við erum alla vega í góðum félagsskap.

Þeir hentu út netunum með myndarlegri sveiflu. Skyndilega fór vatnið að krauma og iða. Bátarnir voru nærrri því dregnir niður í vatnið því að netin fylltust af fiski. Þegar Símon Pétur virti þennan mikla afla fyrir sér þá áætlaði hann í huga sér verðmæti aflans glaður í bragði.

Skyndilega fann hann til kenndar sem hann hafði ekki fundið fyrir áður. Hann varð hrærður og óttasleginn. Hann varð virkilega snortinn yfir því sem gerst hafði. Þá laukst upp fyrir honum að hann naut félagsskapar Guðs sjálfs en ekki aðeins mannsins sem hafði breytt vatni í vín og læknað sjúka. Við sjáum Símon Pétur fyrir okkur þar sem hann hrópaði: “Far frá mér því að ég er syndugur maður. Far frá mér”. Símon fann þarna fyrir mikilli minnimáttarkennd og auðmýkt og varð ekki samur eftir þessa lífsreynslu. Þetta var greinilega úrslitastund í lífi hans.

Símon Pétur féll á kné, einnig félagar hans, Jakob og Jóhannes Sebedeussynir, eins og menn sem dæmdir hafa verið til dauða og biðja sér griða. Jesús sagði við þá: Verið óhræddir, fylgið mér og þið munið veiða menn og konur með mér rétt eins og ég veiddi ykkur núna”.

Þeir réru til lands. Þeir seldu aflann, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Þeir týndu sínu gamla lífi og öðluðust nýtt líf, líf með Guði.

Ég varð fyrir sterkri trúarlegri reynslu í Englandi árið 1980. Í kjölfarið sótti ég helgistund í Westminster Abbey á virkum degi með vini mínum. Þegar ég kraup á knéfallið við gráturnar þá tók vinur minn eftir því að gleðitár runnu niður kinnar mínar. Þetta varð okkur báðum ógleymanleg stund. Þarna ákvað ég að svara kalli Krists um að veiða menn þrátt fyrir vanmáttarkennd mína. Líf mitt tók nýja stefnu upp frá þessari stundu og ég hélt inn á nýjar veiðilendur í fylgd frelsarans.

Þegar við hugleiðum lexiu þessa Drottins dags þá lýkst upp fyrir okkur að Jeremía fann fyrir þessari sömu vanmáttartilfinningu þegar Drottinn kallaði hann forðum til að vera spámann þjóðanna: En eftir að Drottinn hafði talað til hans þá sagði Jeremía: “Æ herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala því að ég er enn svo ungur”. Ég minnist jafnframt sögunnar af Jesaja spámanni þegar hann sá Drottinn sitjandi á háum og gnæfandi eldisstóli. Þá sagði hann: Vei, mér, það er úti um mig. Því að ég er maður sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks sem hefir óhreinar varir því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar”.Ég sá Guð, ég sem er maður með óhrein eyru. Ég heyrði Guð tala. Ég, sem er maður með óhrein eyru og með syndugar hendur. Ég snerti Guð. Ég er týndur, láttu mig fara, láttu mig deyja”.

Afrískt máltæki hljóðar svo: “Það er ekki gott að vera of nálægt höfðingjanum”. Það er ekki gott að vera of nálægt konunginum nema þegar við erum kölluð og jafnvel slík köllun er vont tákn. Það er ekki gott að vera of nálægt Guði. Guð ætlast til of mikils af okkur. Guð veit of mikið. Guð er of hreinskilinn. Það er ekki gott að snerta Guð. Það er of hættulegt. Við munum týna lífinu.

Lærisveinarnir gerðu það.

En sjáum hvað engill Guðs gerði fyrir Jesaja í vanmætti sínum. Hann hélt á glóandi koli og hann snart munn hans með kolinu og sagði við hann: “Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína”. Rödd heyrðist, Jesaja var sendur og hann fór. Hann týndi sínu gamla lífi og öðlaðist nýtt líf í Guði og í sínu nýja spámannshlutverki.

Það fylgir því áhætta að feta af heilum huga í fótspor Jesú Krists. Þess vegna er svo erfitt fyrir okkur að lifa virkilega í nánd við Jesú. Við þurfum ekki djöfulinn til að segja okkur að biðja ekki. Okkar eigið eðli segir okkur að gera það ekki. Því að það er of hættulegt. Við eigum það á hættu að festast í netinu og verða send út til að boða fagnaðarerindið í orði og verki.

Hver vill vera með honum? Hver vill opna hjarta sitt fyrir Guði? Hver vill verða snertur af Guði? Sá sem verður snortinn af Guði verður sendiboði hans. En hinn falslausi Guð hefur aðeins eitt markmið, að stuðla að því að ríki sitt verði að veruleika á jörðu sem á himni. En til þess að það verði að veruleika þá þarf hann á fólki að halda sem er reiðubúið að halda uppi merki hans í þessum víðsjárverða heimi, kappkosta að gjöra einungis það sem gott er hvernig sem á stendur og hvað sem það kostar, í trausti þess að það sé vilji Guðs sem einungis vill að við gjörum hið fagra, góða og fullkomna í trú, von og kærleika.

Hver ert þú? Hvaðan kemur þú? Hvert ert þú að fara?

Ert þú leitandi manneskja, stríðandi, áveðra fyrir ágjöfum mannlífsins? Hér hefur þú fundið griðastað þar sem bænin vakir og trúartraustið. Blaktandi kertaljósin á altarinu vitna um nærveru Jesú Krist sem sagði um sjálfan sig: “Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins”. Opnaðu hjarta þitt fyrir þessu ljósi. Þá fer það inn og lýsir um hjarta þitt og hugskot og það leiðir þig jafnframt um réttan veg þegar skugga gætir á vegferð þinni. Þú skalt leitast við að helga Krist sem Drottinn í hjarta þínu líkt og postulinn Pétur segir í pistil dagsins. Að helga Krist merkir eiginlega að varðveita myndina af frelsaranum í hjarta þínu og vaka yfir henni þannig að hún dofni ekki. Þannig hefur þú Krist fyrir augum þér á vegferð þinni í gegnum lífið.

Hver ert þú? Hvaðan kemur þú? Hvert ert þú að fara? Ert þú vísindalega þenkjandi einstaklingur sem álítur að vísindin hafi svör við flestum spurningum og því sé kristin trú tímaskekkja líkt og önnur trúarbrögð? Vísindaleg svör kalla ætíð á fleiri spurningar en Jesús Kristur segir ætíð: Þú ert svarið. Stundum höfum við heyrt raddir þess efnis að upphaf styrjaldarátaka megi rekja til trúarbragða. En við skulum ekki gleyma því að trúarbrögðin væru ekki til ef engar manneskjur væru til að iðka þau. Rótin að þessum vanda liggur því hjá manninum sjálfum og hvernig hann iðkar sína trú. Trúarfíkn er til hjá því fólki sem hefur ekki nægilega sterka sjálfsmynd og er því áhrifagjarnt og leiðitamt. Slík fíkn getur leitt af sér andlegt sem líkamlegt ofbeldi ef aðgát er ekki höfð í nærveru sálar. Trúin á Krist er best iðkuð með þeirri skynsemi sem manninum er gefin í trú, von og kærleika.

Við lifum sem syndugar manneskjur í föllnum heimi þar sem afhelgun á sér stað í ríkum mæli. Stöðugt fleiri hafa ekki tíma til þess að iðka sína trú vegna þess að áreitið er svo mikið í umhverfinu. Upplýsingaflæðið ríður daglega yfir okkur eins og holskefla þannig að rödd Krists heyrist varla, verður hjáróma ef eitthvað er. Færri sækja guðsþjónustur en áður fyrr í fábreytninni í dreifbýlinu. Nú hefur fólk úr svo mörgum hugðarefnum að velja að það kemst ekki yfir helminginn af því sem það vildi gjarnan gera. Það ríkir samkeppni um sálirnar. Þjóðkirkjan auglýsir sína starfssemi sem mest hún má í dagblöðum og víðar til þess að rödd frelsarans megi heyrast í öllum hávaðanum sem einkennir nútíma þjóðfélag. Hún er biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja, samfélag fólks sem tilbiður Krist sem Drottin.

Þjóðkirkjan kynnir sig sem mynduga hreyfingu fólks á öllum aldri sem er á ferð í samtímanum sem hefur svarað kalli Krists um að veiða menn. Það kemur einna skýrast í ljós í altarisgöngunni þar sem við krjúpum saman og tökum á móti fyrirgefningu syndanna í heilögu altarissakramenti. Í dag er okkur boðið að ganga til altaris hér í Hóladómkirkju og njóta leyndardómsfullrar nálægðar Drottins. Megi hann gefa okkur sinn frið og sína gleði þannig að við getum óttalaus notið návistar hans og leiðsagnar í gegnum lífið. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun

Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen.

Sr. Sighvatur Karlsson, sóknarprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í Hóladómkirkju Sunnudaginn 16. júlí 2006 en þá messuðu þingeyskir prestar í tilefni 900 ára afmælis biskupsstóls og skóla á Hólum.