Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi

Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi

Ef að líkum lætur, gætu fornar minjar á Dagverðarnesi, yrðu þær rannsakaðar af kunnáttufólki, sýnt fram á veru keltneskra kristinna manna hér forðum daga sem ræktuðu trú sína í auðmjúkri Guðsvitund og trausti. Þess hafa síðari tíma menn notið sem lifðu hér og bjuggu.

Einkar ánægjulegt er að vera kominn hingað á Dagverðarnes og standa í öldnum prédikunarstóli Dagverðarneskirkju. Fróðlegt var að ganga um nágrennið í helgigöngu og hlýða á greinargóða frásögn þína og leiðsögn, Kristín Finndís, og horfa í huga til fyrri tíðar hér á nesinu, mannlífs og byggðar, helgihalds og trúar. Ég óska þér hjartanlega til hamingju með 50 ára afmælið og lít svo á að þessi messa sé blessunarlegt framhald á afmælisveislu þinni í gær og lífsfögnuði þínum enda bregstu þannig við að bjóða kirkjufólki í kirkjukaffið eftir messuna sem við þökkum af hjarta. Sérstakt fagnaðarefni er að prédika hér í messu er þú leiðir sr. Elína Hrund enda þótt sr. Óskars Inga Ingasonar sóknarprests sé saknað sem fjarstaddur er vegna veikinda. Hann leiddi með mér helgihald í eftirminnilegri Krosshólagöngu á kvennadaginn 19. júní sl. í minningu Auðar Djúpúðgu. Ég leyfi mér að færa sr. Óskari Inga hlýjar bata- og blessunaróskir frá okkur sem hér erum í kirkju.

Þótt Dagverðarnes eða Dögurðarnes sé í Landnámubók Sturlu Þórðarsonar sagt draga nafn sitt af dögurði sem Auður Djúpúðuga hafi snætt hér á nesi, hníga rök að því, að nafnið sé fremur dregið af líku orði galísku sem merkir ,, mikið eða víðfeðmt land” enda er það sannmæli miðað við landkosti. Það benti til keltneskrar byggðar hér á nesinu fyrir norrænt landnám á Íslandi. Örnefni og kennileiti svo sem Írahöfn, Bænhúsvogur, Bænhúshólmi og Altarishorn gætu stutt það og vísað til helgihalds, trúar og tilbeiðslu keltneskra munka og klausturbúa. Þeir lögðu út á úfið Atlantshaf frá svonefndum Vestureyjum, Írlandi og Bretlandseyjum á skinnbátum sínum Currach sem voru oft viðarstyrktir. Glögg ummerki hafa fundist í Færeyjum um dvöl þeirra, graf- og steinkrossar með hring um krossmiðju og leifar kirkna með írsku sniði innan í hring- eða sporöskulaga stein- og torfhleðslum.

Slík hlaðin hringform er einmitt víða að finna hér á Dagverðarnesi og þar á meðal á Bænhúshólma og Strýtu. Þegar horft er út á voginn og mið tekið af landslaginu umhverfis, er sem Bænhúshólmi sé í miðjum keltneskum sólarkrossi. Hringformaði sólarkrossinn er helsta auðkenni keltneskrar kristni og tengir fagurlega saman í táknmynd sinni sköpun og endurlausn, sköpunartákn sólar og krossinn sem vísar á fórnandi elsku Guðs og nýsköpun hans í Jesú Kristi. Keltneskir munkar nýttu sér víða hólma, grösuga kletta og smáeyjar úti fyrir Írlands- og Skotlandsströndum eða afskekta staði við strendurnar og reistu sér þar býkúpulaga byrgi sem íverustaði og bænhús til helgihalds og tilbeiðslu. Það einkenndi oft slíka staði að þar bar vel í veiði og svo mun hátta til í Bænhúsvogi.

Sr. Elína Hrund hóf messuna með því að fara með sérstæða signingu sem eignuð er Auði Djúpúðgu. Hún felur í sér skírskotun til þess helga hrings eða verndarhjúps, sem nefnist Kaim á galísku. Þau sem iðkuðu kristni með keltnesku sniði, sem var í ýmsu frábrugðin þeirri, er mótuð var í Róm, horfðu í upphafi dags í austur móti sólu og minntust upprisu frelsarans og gerðu krossmark og svo einnig í aðrar áttir. Hringirnir hlöðnu umhverfis helga staði, klaustur og kirkjur Kelta vísa til þessa kaims eða helgaða hrings. Auður hefur að minnsta kosti signt sig með keltneskum hætti og ef til vill einnig farið með brynjubænir eða ,,verndahjúpsbænir “ eins og hina þekktu Brjóstvörn Patreks sem mun vera frá 8. öld (og fylgir messuskránni.)

Í sögulegri skáldsögu sinni, Auði, lýsir Vilborg Davíðsdóttir, uppvexti Auðar á eynni Tyrvist við vesturströnd Skotlands. Skammt þar frá er Íona, eyjan helga, þar sem heilagur Kolumkilli mun hafa stofnað klaustur árið 563 eða stuttu síðar. Íonaklaustrið varð mikill aflvaki menningar og trúboðs. Þar mun ein fegursta Guðspjallabók keltneskrar kristni, Kellsbók, hafa verið skrifuð og myndskreytt en henni var komið undan til Kells á Írlandi vegna yfirvofandi víkingaárása á Íona.

Munkar sigldu frá eynni helgu til norðlægari eyja Skotlands og stofnuðu þar klaustur og trúarsamfélög og lögðu líka lengra út á ógnandi Atlantahafið. Til þess þurfti áræði og sigrandi trú. Þeir lögðu af stað í Drottins nafni ,,pro amore Christi”, af ást á Kristi og lögðu margir á sig ,,hið hvíta píslarvætti”sem fól í sér að segja skilið við ættmenn og átthaga og snúa ekki aftur. Þeir sóttust eftir athvarfi í hafinu, herimum in oceano, þar sem þeir myndu reyna návist Guðs, ekki þó til að flýja heiminn og syndir hans heldur til að berjast með Guði í bæn sinni og guðrækni, trausti og þolgæði sem Miles Christi, hermenn Krists, gegn því illa skaðræðis- og eyðingarvaldi sem vinnur gegn sköpun Guðs. Þeir væru farvegir Guðs, sem íkon hans, líking hans til að hreinsa og helga sköpun, land og umhverfi, líka hér á Dagverðarnesi, hafi leið þeirra legið hingað. Þeir færðu með sér Biblíurit og bænabækur á latínu og galísku og dýpkuðu trúarskilning sinn með lestri og íhugun en einnig með því að þroska næmi og innri skynjun fyrir návist hins þríeina Guðs í sköpunarundrum og því einnig í eigin hjartslætti. Þeir hafa því getað samsinnt orðum sálmsins, sem við sungum áðan: ,,Helgir leyndardómar opnast fyrir augum þess anda er ljós þitt sér. Allt sem anda dregur elsku þína rómar, tilveran öll teygar líf frá þér.” (Friðrik Friðriksson) Og þeir hafa kunnað á því skil að auðmýktin er rétti jarðvegurinn fyrir áhrif og verkan Guðs anda og nándar. Latneska orðið yfir auðmýkt, ,,Humilitas” er enda dregið af orðinu,, humus” sem merkir frjósöm jörð sem mótækileg er fyrir sáðkorni. Þeir hafa því ekki líkst þeim Fariseum á dögum Jesú í Palestinu, sem aðgreindu sig frá fjöldanum og hreyktu sjálfum sér vegna yfirburða sinna í Guðsþekkingu og siðferði og oft á kostnað þeirra er fundu til veikleika og vanmáttar síns, en þeir gættu þá engan veginn að orðum Jesaja spámanns í lexíu dagsins: ,,Hrokafull augu manna munu auðmýkt og dramb þeirra lægt.”

Guð fer ekki í manngreinarálit, segir trúin sem upplýst er af Jesú Kristi. Hann lætur sig ekki síður varða um þau sem þjáð eru og vamegna eða hafa brugðist lífi og lífskröfum en þau sem sem allt virðist ganga í haginn og hafa lagt sig fram um að gera vel. Jesús sýnir þetta vel í dæmisögu Guðspjallsins og víðar. Á ytra borði var mikill munur á farseanum og tollheimtumanninum. Farisear vildu vera fyrirmynd, greina sig fra öðrum með vönduðu og dyggðugu líferni. En tollheimtumenn voru bersyndugir og úthrópaðir svikarar og misyndismenn, fyrir það einkum að heimta skatt fyrir hernámslið Rómverja og hirða að jafnaði tölvert fyrir sig að auki. Mat Jesú á gildi bæna þessara ólíku manna hefur komið á óvart og valdið vandlætingu og hneikslan sem og ýmsar þær yfirlýsingar hans er krefjast endurmats og nýss skilnings.

Okkur sem heyrum söguna gefur Jesús að líta þessa menn eins og Guð sér þá. Og þá koma fram nýir drættir í mynd þeirra. Enda þótt fariseinn snúi bæn sinni til Guðs, er sem hann gefi sér það sjálfum fremur en Guði að honum vegni vel, að honum hafi tekist að forðast illt og gera gott. Og alls ekkert virðist angra hann, engu hefði hann viljað breyta af sögðum orðum eða unnum verkum. Skortur á syndavitund veldur því samt ekki, að fariseanum verður ekki talið ágæti sitt til tekna og gildis heldur fremur það, að hann hagnýtir sér tollheimtumanninn sem mælikvarða á eigin verðleika. En hver sem hreykir sér með því að bera sig saman við mistök og veikleika annarra manna og gera þau að mælikvarða sínum, lítillægir sjálfan sig og rýfur sambandið við þann Guð og lífgjafa sem ávallt vill hvort tvegga í senn réttlæti og miskunn.

Bæn tollheimtumannsins er miskunnarákall og einlægt tal við Guð. Bæn hans er heil og hrein vegna þess að mælikvarði hans er Guð og enginn annar. Og veginn á þann kvarða finnur hann glöggt til þess hversu óendanlega fjarri því hann er að fullnægja réttlætiskröfum. En einmitt á þeirri stundu er Guð honum nærri, við því búinn að taka hann í sátt, veita honum líkn sína, fyrirgefningu og frið. Guð opinberar hjálpræðisvilja sinn í Jesú Kristi, vitnisburði hans, lífi, dauða og upprisu, segir kristin trú, syndugum mönnum til handa, öllum sem viðurkenna þörf sína fyrir líkn hans og elsku og þrá að endurfæðast og ummyndast til nýrrar myndar. Þetta kemur vel fram í orðum pistilsins. Guð réttlætir líf manns, gefur því gildi af náð og elsku með endurlausn sinni í Jesú Kristi. Þetta fagnaðarerindi gerir ekki lítið úr því sem vel er gert, en sýnir að líkn Guðs er þar að baki og hún leitar líka hins týnda og hrakta til að frelsa og lýsa réttan veg. Fagnaðarerindið um gildi þeirrar auðmýktar sem þegið getur miskunn Guðs og uppbyggst af anda og elsku hans felur ávallt í sér gagnrýni á og andstöðu við hroka og sjálfsupphafningu. Það erindi hefur verið boðað hér í kirkju og þeim Dagverðarneskirkjum sem fyrr voru hér og líka í bænahúsum er kunna að hafa verið hér fyrrum á nesinu svo sem örnefni benda til.

Hroki, sjálfumgleði og siðblinda í fjármálaumsýslu leiddu til efnahagshruns í íslensku samfélagi. Auðmýkt, sem sýnir sig í gagnrýnu og heiðarlegu endurmati og iðrun, er leið til endurreisnar og nýrra hátta svo framarlega sem hún gerist farvegur Guðs anda, líknar hans og lausnar fyrir einlæga bæn og lifandi trú í Jesú nafni. Miklir landkostir og auðlindir í sjó og jörðu geta nýst til viðreisnar og bjargar, sé þess gætt að missa ekki vald á þeim og ráð og nýta þær sem varanleg verðmæti íslenskrar þjóðar. Trúarleg auðmýkt felur ekki í sér undirlægjuhátt eða undirgefni við oflæti og yfirgang. Hún sækir sér reisn og sjálfsvirðingu í virka Guðsvitund og baráttuþrek til að vinna gegn ógnum og rangindum. Hún skerpir líka sýn á það hversu lífið er dýrmætt en viðkvæmt líka, samofið og fléttað í lífríkinu eins og fram kemur vel í táknmyndum keltneskrar listar og einkum trúarlegum myndskreytingum hennar. Þriggja blaða smárinn sem nóg er af hér á Dagverðarnesi var Keltum myndbirting þess leyndardóms, að Guð er þríeinn sem uppspretta lífs, sköpunarorð, sem opinberast í Kristi og andi kvikur.,,Hann andar á allt og gefur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu” segir enda í keltnesku trúarjátningunni fornu ( 7.öld) sem við fórum með. Ábyrgð manns er að vera greiður farvegur hans.

Ef að líkum lætur, gætu fornar minjar á Dagverðarnesi, yrðu þær rannsakaðar af kunnáttufólki, sýnt fram á veru keltneskra kristinna manna hér forðum daga sem ræktuðu trú sína í auðmjúkri Guðsvitund og trausti. Þess hafa síðari tíma menn notið sem lifðu hér og bjuggu. Þeir sóttu kirkju á þessum stað líkt og við gerum nú í sorg sinni og gleði til að glæða leiðarljós Guðs í hjarta og sálu. Það gerum við líka með því að hlýða á Guðs orð, og í lofsöng okkar og tilbeiðslu, og með því að nærast í auðmjúkri trú af því sakramenti í brauði og víni, sem er kærleiksmáltíð og táknmynd þess að lífið, þessa heims og annars, nærist af anda og fórnandi elsku Guðs er opinberast í Jesú Kristi sem brauð lífs og lífsins lind og miðar að himneskri veislu og lífsfögnuði hans. Og sérlega ánægjulegt og þakkarvert er að brauðið sem helgað verður í þessari messu skuli vera heimabakað og kryddað jurtum og berjum héðan úr fagurri sveit sögu og minja.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen. ______________________