Mennskan er ekki í Excel

Mennskan er ekki í Excel

Þannig getur sagan um drenginn í bláu úlpunni, og öll hin sem þurfa á hjálp okkar að halda, orðið til þess að saga margra muni fara vel, þegar við tökum fram öll rýmin í gistihúsinu okkar og semjum fallegri reglur um móttöku flóttafólks. Þannig getur sagan þín, hver sem hún er og hvernig sem hún lítur út einmitt í dag, farið vel. Því Guð er svo miklu sterkari en við og vill þér aðeins hið allra besta.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
24. desember 2015
Flokkar

Hér er hægt að horfa á upptöku af prédikuninni

Sami boðskapur aðrar túlkanir Biskupinn okkar, frú Agnes Sigurðardóttir var spurð að því í viðtali um daginn hvort kirkjan væri ekki hreinlega gamaldags. Mér þótti vænt um svar Agnesar þegar hún sagði: “Jú, boðskapurinn er 2000 ára”.

Jólaguðspjallið hefur víst ekkert breyst frá því í fyrra eða hitteðfyrra. Við segjum alltaf þessa sömu gömlu sögu á hverjum jólum í kirkjunni og erum ekkert að poppa hana upp. Enda er víst engin þörf á því.

Þrátt fyrir að boðskapurinn sé sá sami 2000 árum síðar og sagan hafi ekkert breyst þá á það kannski við um fæst annað. Við breytumst og um leið verður sýn okkar á boðskapinn, á söguna, önnur. Við túlkum boðskapinn á annan hátt nú en hin fyrstu jól, því við erum annað fólk, með aðra reynslu. Það sama á við þegar við eldumst og þroskumst því þá breytist sýn okkar á hluti sem ávallt standa stöðugir.

Ég held að það sé gott að sumir hlutir breytist ekki, að við getum treyst því að heyra fæðingarsöguna um hin fyrstu jól alveg eins á hverju ári. Nóg er víst samt um breytingar í kringum okkum.

Á þessu aðfangadagskvöldi langar mig til að við veltum því fyrir okkur hvort það geti verið að þessi fallega saga, um fæðingu Jesú Krists og komu Guðs inn í heiminn, sé ekki aðeins saga um atburði sem gerðust einu sinni fyrir langa löngu heldur sé hún kannski að eiga sé stað í dag, hér og nú jafnvel?

Mín sýn á Biblíuna er nefnilega sú að um leið og hún segir okkur frá ákveðnum atburðum og upplifun fólks af þeim þá fjallar hún ekki síður um þig og mig. Nú, á þessum stað, á þessum tíma, á þessari jörð, enda sé hún bókin um samband Guðs og manneskjunnar.

Getur verið að þessi saga segi okkur almennt eitthvað um það hvernig við gefum fólki rými hjá okkur, jafnvel þegar allt virðist fullt?

Getur verið að sagan segi okkur hvernig fréttirnar af merkilegum atburðum koma til okkar næstum eins og englar væru þar á ferð?

Getur verið að sagan segi okkur frá því sem getur gerst ef við fylgjum boðskapi englanna og könnum aðstæður með eigin augum?

Mennskan er ekki í Excel Fyrr á þessari aðventu varð mynd af litlum strák í blárri kuldaúlpu nokkurskonar táknmynd Jesúbarnsins sem ekki fékk pláss í gistihúsinu. Þessi mynd var tekin um miðja nótt þar sem hópur lögreglufólks var kominn á heimili hans í þeim erindagjörðum að flytja hann út á flugföll ásamt fjölskyldu sinni. Þaðan var síðan flogið var með hann, og fleira fólk, til Albaníu (þaðan sem þau komu) í skjóli nætur. Andlit drengsins sést ekki á myndinni en hann virðist vera vel klæddur í kuldaúpu og íþróttaskó og hann heldur á tuskudýri í fanginu. Við sjáum ekki framan í hann.

Þessar aðgerðir voru myrkraverk því þær þoldu ekki dagsljósið og minntu óþyrmilega á atburði í mannkynssögunni sem við helst viljum gleyma og hafa tengst stríðstímum. En fólk var fljótt að átta sig á að eitthvað var bogið við þetta. Og í ljós kom að þarna var ekki aðeins verið að senda fólk, sem hafði verið neitað um landvistarleyfi, úr landi í skjóli nætur heldur var verið að senda tvö langveik börn úr landi ásamt fjölskyldum sínum. Börn sem ekki var öruggt að fengju nauðsynlega læknishjálp í heimalandi sínu.

Fólk var ekki lengi að tengja þetta við sjálft jólaguðspjallið og rýmið í gistihúsinu og drengurinn í bláu úlpunni var orðinn táknmynd Jesúbarnsins.

Munurinn á þessari sögu og hinni upphaflegu er þó sá að gistihússeigandinn reddaði þessu og bjó til pláss handa þeim þó ekki væri aðstaðan beisin. Hann rak þau ekki út á gaddinn eins og við gerðum með fjölskyldur litlu drengjanna og fleira fólk nú rétt fyrir jól.

Í jólaguðspjallinu segir frá hirðum sem eru staddir úti í haga og eru fyrstir að fá fréttirnar frá englunum. Þegar flóttafólkinu var neitað um pláss hér var almenningur ekki lengi að fá fréttirnar, rétt eins og hirðarnir. Við, hinn almenni Íslendingur, erum fólkið sem sinnti sínum daglegu störfum þegar við fengum fréttirnar, þó ekki værum við öll úti í haga. Mögulega voru það englar sem færðu okkur fréttirnar af fólkinu sem ekki hafði fengið rými í gistihúsinu okkar þrátt fyrir að þar væri nóg af lausum herbergjum.

Og fólkið eins og hirðarnir fór af stað, kynnti sér málið og mótmælti. Ok, hirðarnir mótmæltu reyndar ekki enda höfðu þeir enga ástæðu til þess því fréttirnar sem þeir fengu voru góðar, en þeir fóru á staðinn og könnuðu málið.

Ég hef sjaldan verið stoltari af íbúum þessa lands en þegar ég varð vitni af viðbrögðum almennings við því sem hafði gerst og nú hafa þessi viðbrögð borið ávöxt að einhverju leyti. Litlu drengirnir og fjölskyldurnar þeirra eru nú orðnir Íslendingar. Vonandi verður þetta einnig til þess að fleirum í sambærilegri stöðu verði boðið hæli hér á landi því enn er nóg pláss. Og ég vona að þessi viðbrögð leiði til þess að löggjöfin hér er varðar hælisleitendur verði endurskoðuð og gerð mildari og manneskjulegri en nú er. Og ég vona að við hættum aldrei að bregðast við með þessum hætti þegar við verðum vitni að óréttlæti og höldum áfram að veita yfirvöldum aðhald. Exelskjalið má aldrei verða mennskunni yfirsterkara.

Við þurfum að halda áfram að hlusta á skilaboð engla hvort sem við erum í hlutverki gistihússeigenda, eins og yfirvöldin voru í þessu tilviki, eða hirðanna eins og almenningur var. Ég hef þó einnig heyrt fólk mótmæla þessu af óróleika yfir því að á meðan við getum ekki fætt og klætt alla Íslendinga þá getum við ekki verið að taka á móti flóttafólki. Ég tel þó að þetta séu tvö óskyld mál. Við eigum nóg handa öllum á Íslandi og það er okkar að skipta því sem við höfum úr að spila, jafnar á milli íbúa þessa lands. Sú staðreynd að okkur hafi ekki tekist það er ekki nægileg ástæða til þess að neita fólki sem býr við ómanneskjuleg kjör og stríðsástand í sínu heimalandi, um hæli.

Jólaguðspjallið er ævintýri Jólaguðspjallið, sem aldrei breytist, er svolítið eins og ævintýri. Þar er björt stjarna sem vísar veginn, englar sem birtast með fréttir (hræða fólk upp úr skónum og reyna síðan að róa það) og barn sem fæðist í fjárhúsi undir þessari sömu stjörnu og lifir af.

Þetta er fögur mynd. Ævintýramynd.

Og hún er ekki aðeins fögur heldur enig sönn. Hún er ekki endilega sönn í merkingunni að þetta hafi gerst nákvæmlega á þennan hátt. Hún er sönn í merkingunni að lífið getur verið eins og ævintýri sem endar vel. Að Guð gefur okkur fyrirheit um að lífið geti farið vel.

Þannig getur sagan um drenginn í bláu úlpunni, og öll hin sem þurfa á hjálp okkar að halda, orðið til þess að saga margra muni fara vel, þegar við tökum fram öll rýmin í gistihúsinu okkar og semjum fallegri reglur um móttöku flóttafólks. Þannig getur sagan þín, hver sem hún er og hvernig sem hún lítur út einmitt í dag, farið vel. Því Guð er svo miklu sterkari en við og vill þér aðeins hið allra besta.

Höldum því áfram að hlusta á englaraddirnar allt í kringum okkur og verum óhrædd við að fylgja englum og stjörnum því kannski finnum við lítið barn sem fæddist í fjárhúsi þegar engin herbergi voru laus og lifði af, fyrir þig og mig. Amen.