Til mögru áranna: Sjö punktar í tilefni af siðbótardeginum 2009

Til mögru áranna: Sjö punktar í tilefni af siðbótardeginum 2009

Að sjö árum liðnum rennur upp afmælisár siðbótarinnar. Það ætti því engan að skaða að hugleiða sjö grunnstef í lútherskri trúarmenningu í aðdraganda þessara tímamóta. Í hverju þeirra er fólginn sprengikraftur endurnýjunar.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
31. október 2009

Lútherssálmur

Lúther var ekki tamt að nota orðið kirkja, raunar forðaðist hann það og notaði einkum orðið söfnuður í staðinn. Kirkja var í hans augum páfakirkjan þar sem trúin hafði verið stofnanavædd. Vitund hans var sterk um kirkjuna sem hreyfingu sem á sér djúpar og sterkar rætur í langri sögu og hefð annars vegar en hins vegar lifir hún fyrir sterka framtíðarsýn. Hvort tveggja gefur henni kraft til að standa styrkum fótum á líðandi stund og hrekjast ekki fyrir veðrum og vindum. Djúpar rætur kirkjunnar í langri sögu eru lífæð hennar ekki síður en von trúarinnar sem gefur henni eftirvæntingu til hins ókomna. Þetta tvennt skapar kirkju líðandi stundar.

Um þessar mundir er augljós gróska meðal lútherskra safnaða og kirkjudeilda víða um heim. Þar horfa menn til uppsprettu trúarhefðarinnar sem kennir sig við siðbótarmanninn Martein Lúther, þar er að finna orkulind sígildra hugmynda og hugsjóna. Þess sér nú þegar greinileg merki að brátt verða liðnar fimm aldir frá árinu 1517 sem markaði upphaf siðbótarinnar.

Það væri dauflega til orða tekið að enn væri margt í fullu gildi af hugsjónum siðbótarinnar. Enn sem fyrr er lindin gjöful, allt frá því hún markaði tímamót í sögu Evrópu og raunar langt út fyrir álfuna þegar frá leið.

Að sjö árum liðnum – væntanlega sjö mögrum árum hér á landi – rennur upp afmælisár siðbótarinnar. Það ætti því engan að skaða að hugleiða sjö grunnstef í lútherskri trúarmenningu í aðdraganda þessara tímamóta. Í hverju þeirra er fólginn sprengikraftur endurnýjunar, um það vitnar lúthersk trúarhefð. Öll hafa þau sterka samfélagslega skírskotun eins og íslensk þjóðarsaga sýnir vel.

Tónlistin

Tónlistin er einhver dýrmætasti arfur siðbótarinnar. Lúther þekkti gildi hennar og setti hana fljótt á dagskrá siðbótarmanna. Hina dýpri merkingu hennar kunni hann að meta líkt og kemur fram í grísku goðsögninni um Pan, goð fjárhirðanna, sem fjallar um upphaf tónlistarinnar. Hún átti sér rætur í ástarsorg gríska goðsins. Hann elskaði gyðjuna Sýrinx sem flýði undan honum til fljótsins og breyttist þar í öldur vatnsins. Þegar Pan greip til hennar var hún horfin en hann þreif í sefið og stóð með stráin ein í höndunum. En þá blés vindurinn í stráin og angurværir tónarnir sefuðu huga Pans. Sefandi og frelsandi hlutverk tónlistarinnar er einnig meginþemað í samskiptum Sáls konungs og Davíðs sem þá var fjárhirðir hjá Jesse föður sínum. Lúther þekkti vel sögurnar um Davíð sem lék á hörpu sína fyrir Sál konung sem þjáðist af sinnisveiki eins og orðrétt segir í Fyrri Samúelsbók: Alltaf þegar illi andinn frá Guði kom yfir Sál tók Davíð hörpuna og lék á hana. Þá létti Sál og honum leið betur og illi andinn yfirgaf hann (16,23).

Það þarf engan að undra að tónlistin hafi alla tíð verið samofin guðsdýrkun og helgihaldi, ekki síst okkar lúthersku kirkju. Sumir hafa sagt að tónlistin væri tungumál trúarinnar. Það má til sanns vegar færa því að í tónlistinni býr andi trúarhefðarinnar. Sálmar sem við þekkjum frá blautu barnsbeini, sem forfeður okkar og -mæður hafa sungið á hátíðum og gleðistundum en einnig í sorg og mótlæti. Trúin býr í tónlistinni, „heilagur andi býr í söng“, segir í Paradísarheimt Nóbelsskáldsins okkar.

Tónlistararfur þjóðarinnar er í þakkarskuld við þá þungu áherslu sem siðbótarmenn lögðu á tónlist og þann þátt mætti enn efla í okkar kirkjum, m.a. með kórum og hljómsveitum fyrir unga sem aldna, í samstarfi við skóla, einkum tónlistarskóla ef svo ber undir. Og ekki má gleyma almennum kirkjusöng sem hefur sett svip sinn á kirkjulífið allt til þessa dags.

Hinn almenni prestsdómur

Siðbótarkirkjurnar settu hinn almenna prestsdóm á oddinn, það hugtak kom frá Lúther sjálfum og vísaði til kirkjuskilnings hans. Með því átti hann við að lútherskur söfnuður er söfnuður leikmannsins, söfnuðurinn er hinn eiginlegi vettvangur kristinnar kirkju. Þar er leikmaðurinn prestur og presturinn leikmaður, þar á leikmaðurinn ekki síður að bera ábyrgð en presturinn. Í hugsjónum siðbótarmanna var meginstefnan að forðast prestakirkju, í staðinn átti að verða til grasrótarsamfélag sem hefði áhrif á þjóðlífið allt.

Hvað safnaðarstarfið varðar erum við þó betur á vegi stödd en í stjórnun íslensku þjóðkirkjunnar sem stofnunar. Þar eigum við enn langt í land með að iðka lýðræðislega stjórnun svo viðunandi sé. Það birtist meðal annars í því að leikmenn eru fjarri því að vera virkir sem skyldi í stjórnun og stefnumótun. Með stóraukinni þátttöku leikmanna á kirkjuþingi og í nefndum og ráðum myndi þjóðkirkjan breyta um svip og ná auknum trúverðugleika í þjóðlífinu.

Stofnanir þjóðfélagsins

Eitt brýnasta verkefni siðbótarmanna var að endurskipuleggja stofnanir samfélagsins þegar klaustranna naut ekki lengur við. Ábyrgð þeirra á menntun, menningu og almennt á málefnum þjóðfélagsins verður snemma þungavigtarefni. Þeir hvöttu veraldleg yfirvöld til að stofna og reka skóla, þeir sinntu sjálfir félagsmálaþjónustu fyrir fátæka, sjúka og aldraða, og settu á fót stofnanir í þeim tilgangi. Í þessu efni gæti íslenska þjóðkirkjan borið merkið hærra.

Reyndar getum við með fullum rétti litið svo á að áhrif trúarinnar hafi runnið inn í þjóðarsálina og verið þar mótandi í uppbyggingu þjóðfélagslegra stofnana, einkum á sviði menntunar, heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu. Í því samhengi er það ekki tilviljun að Norðulönd séu öðrum til fyrirmyndar og njóti virðingar á alþjóðlegum vettvangi sem velferðarþjóðfélög, þar má rekja spor siðbótarinnar.

Einfaldur lífsstíll

Frá upphafi hefur lúthersk trúarmenning haft einfaldan lífsstíl í hávegum ef svo má að orði komast, þar gekk Lúther sjálfur fremstur í flokki. Í búnaði kirkna hefur lútherska kirkjan ávallt gætt hófsemdar og haft skraut og skrúða í hófi. Einnig á þetta við um kirkjusiði sem Lúther vildi einfalda þar sem hann leit á þá sem þátt í lögmálshyggju sem hefði þróast innan kirkjustofnunarinnar: hinn trúaði verður að gera þetta eða gera hitt til að fara rétt að við að þóknast Guði. Slíkt væri að hans dómi til þess eins fallið að draga athyglina frá því sem málefni kirkjunnar snýst um, frá Orðinu. Það væri langur listi að telja upp það sem Lúther afnam í siðum kaþólskrar trúrækni – en áhugavert er einnig að skoða hversu margt af því er komið á ný inn í helgisiði okkar hér á landi. En það er önnu saga.

Meðal kalvínista er myndlist hafnað í kirkjuhúsunum (en utan þeirra er hún mikils metin). Í því sambandi rifjaði guðfræðingurinn Fulbert Steffensky upp sögu frá því hann var á ferð fyrir mörgum árum í Hollandi ásamt eiginkonu sinni, guðfræðingnum Dorothee Sölle, og ungri dóttur þeirra. Þau komu að kalvínskri kirkju og ákveða að skoða hana. Þegar þau ganga inn í kirkjuna segir litla stúlkan: Er enginn Guð í þessari kirkju? Hér var musteri hins heilaga orðs. Lúther valdi aðra leið, hann kunni að meta skapandi andrúmsloft, þar sem myndlist, tónlist og orðsins list bar hæst. Samskipti hans við fremstu listamenn samtímans segja sína sögu: myndskreyting Biblíuútgáfunnar og nýtt myndmál í altaristöflum og öðrum trúarlegum myndum sýnir svo ekki verður um villst að myndlistin var Lúther að skapi. Lútherskar kirkjur setja sér mörk, nóg er nóg, aðeins það sem hæfilegt er sæmir þeim sem hafa meistarann frá Nazaret að leiðarljósi. Kirkja hinna knöppu lífsgilda, hinna skýru markmiða, hins hófstillta stíls í einu og öllu.

Rökræðuhefð

Lútherskar kirkjur hafa varðveitt þá hefð frá fyrstu kynslóð siðbótarmanna að iðka málefnalegar rökræður um guðfræði og trú, þögn og þöggun eiga að vera henni framandi. Lúther gagnrýndi tilhneigingu páfakirkjunnar á sínum tíma fyrir að senda skilaboð efst af pýramídanum niður til fjöldans um að svona ætti að trúa og svona ætti að skilja Biblíuna, svona ættu prestar að prédika og svona ættu leikmenn að bera sig að í kirkjunni. Allt slíkt lögboð kirkjulegra og guðfræðilegra yfirvalda féll í grýtta jörð meðal siðbótarmanna. Í staðinn áttu leikmenn að lesa Biblíuna á móðurmáli sínu ekki síður en prestarnir, mynda sér skoðun og læra að trúa. Sannleikurinn liggur ekki ljós fyrir, hann kemur ekki frá kirkjulegum yfirvöldum og Lúther hikaði ekki við að halda því fram að „kirkjuþingum hefði oft skjáltast“, það þótti jaðra við guðlast. Sannleikurinn verður til í rökræðunni. Trúin tekur breytingum, skilningurinn breytist, túlkunin breytist og trúarmenningin öll breytist hægt og sígandi. Rökræðan má aldrei þagna, hún er lífæð þeirrar kirkju sem er grasrótarsamfélag í sínu innsta eðli.

Rökræðuhefðina mættu prestar og leikmenn leggja meiri rækt við en nú er og lengi hefur verið. Hún er ein skýrasta táknmynd þess að söfnuðurinn sé lýðræðisleg og mannúðleg hreyfing sem tekur lífsreynslu mannsins og viðhorf alvarlega.

Réttlætið

Hugtakið réttlæti hefur alla tíð verið hátt skrifað í lútherskri kirkjuhefð, m.a. vegna þess að guðfræði siðbótartímans hefur tilhneigingu til að renna í farvegi lögfræðilegra hugtaka. En réttlætið er samt ekki lögfræðilegs eðlis þegar betur er að gáð. Það er öllu heldur ástand í samfélaginu þar sem réttur hins smæsta er ekki fyrir borð borinn heldur varinn. Þar sem réttur umkomulausra er varinn er samfélagið á réttri leið og þar þrífst mannúð, menning og menntun, þrenning sem fylgir siðbótinni frá upphafi. Jón Vídalín kom oft inn á málefni þjóðfélagslegs réttlætis í húslestrum sínum. Í textum hans er réttlætið grundvallarþema kristins samfélags. Þeir sem nóg eiga og vel það bera hér þyngri ábyrgð en aðrir að hans dómi. Mesta ábyrgð bera stjórnmálamenn og embættismenn, sem treyst er fyrir því að allir sitji við sama borð í réttlátu samfélagi og réttlætisins sé gætt í hvívetna – en ábyrgðina ber samfélagið allt.

Réttlæting af trú

Meginkenning siðbótarinnar, sem allt snerist um í upphafi og er undirstraumur lútherskrar guðfræði og trúarmenningar enn þann dag í dag, er kenningin um réttlætingu af trú. Með henni lagði Lúther grunn að þeirri sterku trúarhefð og trúarmenningu sem átti eftir að setja mark sitt á heiminn. Með kenningunni um réttlætingu af trú – sem Lúther fann hjá Páli postula – markaði hann dýpstu sporin. Með henni vildi hann segja að maðurinn þyrfti ekki að vinna góðverk til að ná hylli Guðs, hann þarf ekki að uppfylla skilyrði til þess að ávinna sér eilíft hjálpræði, hann þarf ekki að kaupa sér syndaaflausn og hann öðlast ekki frið í sál með fjárútlátum, pílagrímagöngum og þátttöku í helgihaldi.

Náðin er meginboðskapur siðbótarinnar. Maðurinn er undir náð Guðs en ekki lögmáli. Sumir gengu meira að segja svo langt (og upphaflega var Lúther meðal þeirra), að prédikunin ætti eingöngu að snúast um náð, ekki um lögmál. Náðin stendur manninum ekki aðeins til boða heldur hefur hún þegar verið veitt. Nái Orðið til hjarta mannsins upplýsir það líf hans allt og hefur áhrif á samfélagið.

Þetta hefur verið orðað þannig að kjarni fagnaðarerindisins snúist um það eitt að „taka það til sín að Guð hefur tekið þig gildan“, að hann sé náðugur Guð sem hefur fundið manninn áður en maðurinn finnur hann. Það þarf því engan að undra að Lúther hafi oftar en ekki fjallað um þessa trúarlegu „enduruppgötvun“, náðina, að hún væri lykill að frelsi mannsins. Þar átti hann við frelsi undan ótta og angist, undan sektarkennd og syndavitund, undan hverju einu sem íþyngir manninn.

Siðbótardagarnir í aðdraganda fimm alda afmælis siðbótarinnar eru gott tilefni til að þurrka rykið af þessari hefð. Um íslenska trúarmenningu hafði Kristján Eldjárn forseti eftirminnileg orð í ræðu sem hann flutti á fæðingarstað sínum Tjörn í Svarfaðardal árið 1982 þegar hann sagði:

"... við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi, að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru." Kreppan er reynslutími trúarinnar. Á slíkum tímum kemur í ljós hvaða samfélagslega gildi boðskapurinn hefur, í mótlætinu lærum við, í mótlætinu lærum við að verða næm á réttlætið og á samfélagið, á samhjálp og samvinnu. Kreppan kallar fram óæskilegar hliðar á mannlegu samfélagi en hún kallar einnig og ekki síður fram það besta í einstaklingnum, löngun hans til að láta gott af sér leiða og þrá hans til að búa í góðu og réttlátu samfélagi.

Kirkjan er kölluð til að láta reyna á málstað Jesú í þessum heimi, á vonina, á umhyggju manna á meðal og á trúna. Þegar hún hefur vindinn í fangið reynir á innviði hennar, þeir eru ekki hús hennar eða jarðeignir, þeir eru ekki stöðugildi eða launagreiðslur. Innviðir hennar er sá boðskapur sem hún flytur, finni hann leiðina til mannsins er kirkjan á réttri leið.