Tækifæri til að elska

Tækifæri til að elska

Að láta sér nægja að segjast trúa því að frelsarinn sé fæddur en láta tækifærið til þess að elska - til að uppfylla fyrirheitið um betri heim - fram hjá sér fara, gerir boðskapinn að lygi.

Nú eru þau hér, jólin, sem við höfum beðið eftir og undirbúið, hvert með sínum hætti. Og hvert og eitt okkar hefur einnig fengið að taka á móti hinni langþráðu stund, leyft okkur að njóta gæðanna sem henni eru tengd í samfundum og góðgerðum, og leyft hátíðinni að snerta okkur í hjartastað.

Í útvarpsviðtali örfáum dögum fyrir jól, sátu þær í spjalli, mæðgurnar og rithöfundarnir Kristín Steinsdóttir og Sigríður Víðis Jónsdóttir. Kristín er höfundur bókarinnar um Bjarna-Dísu sem kom út fyrir þessi jól og í fyrra átti Sigga Víðis hina stórmerkilegu sögu Ríkisfang: Ekkert, sem fjallaði um palestínskar flóttakonur á Akranesi. Talið barst að því hvað það væri í þeirra huga sem væri nátengdast jólunum og það sem hefði mesta merkingu fyrir þeim. Sigríður nefndi þögnina á Rás 1 rétt áður en klukkan slær sex á aðfangadag. Þögnin sú fær reyndar ótrúlega hlustun, og mælingar hafa sýnt að það eru sjaldan fleiri sem stilla inn á Rás 1. Það sem er líka áhugavert, er að þessi "dagskrárliður" hefur verið óslitið við lýði í 82 ár - eða síðan árið 1930, þegar fyrst var útvarpað frá aftansöng á aðfangadag frá Dómkirkjunni í Reykjavík þar, þegar útsendingar höfðu staðið í örfáa daga á Íslandi. Þá var fyrst gert hlé á útsendingu og jólaþögnin í útvarpi allra landsmanna fundin upp! Kristín sló svipaðan tón og nefndi það sem snertir hana mest, sem er jólafriðurinn sem mótar hug og hjörtu mannanna og setur svip á öll samskipti.

Ég trúi að við mörg getum tekið undir með mæðgunum því það er einmitt þarna sem jólin hitta í mark - þau tengja okkur við þrána um frið, um sátt, um fegurð og gleði. Þessi þrá er sameiginlegt öllum mönnum og þess vegna koma jólin, með boðskap sinn um ljós í myrkri, og frið á jörðu eins sterk inn í vitund okkar og líf, og raun ber vitni.

Þetta tjá jólatextarnir í Biblíunni og jólasálmarnir sem óma í kirkjum og á heimilum um allt land. Þar er friðurinn og helgin sem klæðir land og mið, hvert heimili og hvert hjarta. Allt angur og streð er gleymt, myrkið ógurlega víkur um stundarsakir fyrir skærum ljósunum sem ljóma frá himni og í augum prúðra barna. Þessari tilfinningu miðlar ekki síst myndin af Maríu og Jósef og Jesúbarninu í fjárhúsinu, og englakórnum sem söng Guði dýrð fyrir hirðana á Betlehemsvöllum.

Hin einfalda og áhrifamikla frásögn jólaguðspjallsins um fæðingu barnsins í Betlehem, inniheldur einnig djúpa og kröftuga áminningu um aðstæður manneskjunnar í heiminum og stöðu hinna viðkvæmu, örsnauðu og fátæku. Það er staða sem einkennist af þjáningu og baráttu fyrir lífinu, þar sem friður er oft víðs fjarri - en einnig af hugrekki og trú.

Jólaguðspjallið hefst á hinni stórvirku aðgerð keisarans að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina til þess að hægt yrði að skattleggja menn og mýs í þeim tilgangi að reka ríkisheimlið frá Róm og halda úti árangursríku hernámi hér og þar. Undir þessa ákvörðun þurfti fólkið að beygja sig og leggja á sig ferðalög og dvöl langt að heiman. Líka María sem fór með manninu sínum til fæðingarborgar hans, þegar hún var langt gengin með barn. Tilskipun hins volduga keisara hafði því allt að gera með að María þurfti í barnsnauð að treysta á góðvild fólks, fjarri heimili sínu og við afar erfiðar aðstæður.

Óléttan sjálf var tilkomin með flóknum hætti - við vitum að María var ógift og áhyggjufull. Þegar hún hitti frænku sína Elísabetu og gerði hana að trúnaðarvinkonu sinni, bar Elísabet gæfu til þess að hughreysta og hugga hana og minna hana á að barnið sem hún bæri væri mikilvægt. Þá fáum við að lesa þessi viðbrögð Maríu:

Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Allt í kringum þetta barn, sem fæddist í Betlehem, var þannig tengt vitundinni um valdaójafnvægið í heiminum og það hvernig sumir hefja sig yfir aðra í valdi og drambi. Koma barnsins í heiminn tjáði og staðfesti trúna á að annað vald og meira er til, en það sem ranglátir heimsins valdhafar beita þegna sína. Boðskapurinn um aðstæður hinna fátæku og viðkvæmu liggur í kjarna jólanna og þar hittum við fyrir barnið sjálft.

Trúðurinn Barbara, segir í sýningunni um Jesú litla, sem hefur verið sýnd í Borgarleikhúsinu í kringum jólin síðustu ár, að í hvert sinn sem barn fæðist í þennan heim, fáum við tækifæri til að sýna gæsku og kærleika. Þannig er hver fæðing, hvert líf sem kviknar og verður til, tækifæri og möguleiki fyrir okkur að komast í snertingu við tilgang og markmið okkar - sem er að elska.

Nýtt barn, nýtt upphaf, tækifæri til að elska. Það er falleg útfærsla á hugmyndinni um heimsendi, sem var svo mikið í umræðunni fyrir þessi jól, eins og svo oft áður. Ef við lítum á jólin sem nýtt tækifæri til að sýna gæsku og kærleika í lífinu, þá geta þau líka táknað endalok þess sem er liðið. Við tökum á móti jólunum, á móti barninu í jötunni með því að snúa fram, snúa fram á við, til framtíðarinnar. Framtíðar gæsku og kærleika og friðar. Þetta er boðskapurinn um barnið í Betlehem.

Guðfræðiprófessorinn Rita Nakashima Brock sem hefur m.a. kennt við Harvard háskólann í Bandaríkjunum, bloggaði um hina hræðilegu skotárás í grunnskólanum Sandy Hooks í Newtown í Connecticut, þegar 20 börn og sex fullorðnar konur voru skotin og drepin þegar byssumaður ruddist inn í skólann og enginn kom neinum vörnum við. Þar segir hún að þessi voðalegi atburður, sem átti sér stað í aðdraganda jólahátíðarinnar, sé hluti af jólasögunni, sem við eigum að gefa gaum. Um leið og við gleðjumst yfir fæðingu frelsarans, sem boðar bandingum lausn, blindum sýn og fátækum frelsi - og gefur okkur nýtt upphaf, nýtt tækifæri til að elska - hljótum við að hafa í huga alla þá þjáningu sem einkennir aðstæðurnar sem þessi fæðingin á sér stað í. Og ekki bara hafa hana í huga, heldur bregðast við henni - bregðast við aðstæðum sem skaða börn, stefna öryggi þeirra í hættu, ræna þau möguleikanum á að vaxa og dafna og verða heilar og fallegar manneskjur. Að láta sér nægja að segjast trúa því að frelsarinn sé fæddur en láta tækifærið til þess að elska - til að uppfylla fyrirheitið um betri heim - fram hjá sér fara, gerir boðskapinn að lygi.

Jólatextarnir færa okkur m.a. sýn spámannsins Jesaja um friðarríkið, þar sem hann dregur upp mynd af heimi þar sem börn eru örugg fyrir ógnum af öllu tagi:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.

Þetta er jólafriðurinn. Þetta er tilboð og tækifæri jólanna. Tilboð um að binda endi á heim þar sem börn eru drepin í skotárás, þar sem fólk er beygt og þvingað eftir duttlungum yfirvaldsins, þar sem ofbeldi sker úr um hver fer með valdið. Tækifærið til að elska er hér. Notum það og eigum gleðileg jól.