Hvar höfum við brugðist?

Hvar höfum við brugðist?

Á þessu pálmasunnudagskvöldi íhugum við frásögu Jóhannesar guðspjallamanns af því þegar Jesús kemur ásamt lærisveinum sínum til Betaníu sex dögum fyrir páska. Jesús vissi að endirinn var nærri og vildi hann í síðasta skipti njóta góðs kvöldverðar með vinum sínum, systkinunum Mörtu, Maríu og Lasarusi sem hann hafði áður vakið upp frá dauðum. Sem fyrr gekk Marta um beina undir borðhaldi en María hins vegar tók sig til þegar vel stóð á og smurði fætur Jesú með dýru smyrsli og þerraði fætur hans með hári sinu.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
04. apríl 2004
Flokkar

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu:

Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!

Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann. Jóh. 12. 1-16

Ó kom i hátign Herra minn þér heilsar allur lýðurinn Og klæðum lagða braut þér býr með blessun þér a móti snýr

Ó kom í hátign Herra minn því harla nærri er dauði þinn Þin sigurför mót Satans hér mót synd og dauða hafin er. (H.P) Sb 128

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á þessu pálmasunnudagskvöldi íhugum við frásögu Jóhannesar guðspjallamanns af því þegar Jesús kemur ásamt lærisveinum sínum til Betaníu sex dögum fyrir páska. Jesús vissi að endirinn var nærri og vildi hann í síðasta skipti njóta góðs kvöldverðar með vinum sínum, systkinunum Mörtu, Maríu og Lasarusi sem hann hafði áður vakið upp frá dauðum. Sem fyrr gekk Marta um beina undir borðhaldi en María hins vegar tók sig til þegar vel stóð á og smurði fætur Jesú með dýru smyrsli og þerraði fætur hans með hári sinu. Sannarlega var þetta óvenjulegt atferli af hennar hálfu en það var til merkis um þann mikla kærleika sem hún bar til hans og þeirrar þjónslundar sem henni var gefin. Hún sá fyrir sér dauða hans innan skamms og vildi hún með þessu móti smyrja hann hinstu smurningu.

Lærisveinarnir virtu þetta atferli Maríu fyrir sér. Einhverjum þeirra kann að hafa mislíkað að hún skyldi hafa þerrað fætur Jesú með slegnu hári sínu en til siðs var að konur gengu um með bundið hár. Júdas Ískariot sá um fjármálin fyrir lærisveinahópinn. Honum blöskraði að María skyldi eyða andvirði 300 daglauna landbúnaðarverkamanns til þess eins að smyrja fætur Jesú og sagði við Jesú að nær hefði verið að gefa fátækum peningana en að sóa þeim með þessum hætti. Ekki lét hann sér annt um fátæka með þessum orðum því að við vitum að hann var þjófur og tók það sem í pyngjuna var látið.

Töluverðrar spennu hefur því gætt á heimili systkinanna í Betaníu þessa kvöldstund undir borðum sem endurspeglaði litbrigði mannlegs lífs. Þar átti kærleiksríkt viðmót sinn sess sem og vantrúin, öfundin og undirróðurinn sem stríddi gegn því sem er gott og rétt, fagurt og fullkomið. Þessara litbrigða mannlífsins gætti einnig utan heimilis þeirra systkina þar sem Saddúkear, flokkur gyðinga, héldu því fram statt og stöðugt að dáinn maður gæti ekki risið upp frá dauðum. Upprisa Lasarusar stríddi bersýnilega gegn þessari trú þeirra. Þarna inni á heimlinu sat Lasarus vissulega undir borðum í eigin persónu og líkama en ekki sem vofa. En þeir neituðu að horfast í augu við sannleikann vegna þess að þeir vildu ekki missa spón úr aski sinum. Auðmýktin var þeim fjarri. Þess í stað voru þeir fullir sjálfsréttlætingar og hroka. Þeir töldu Jesú vera leiðtoga uppreisnarmanna sem væri að stela hjörtum mannanna frá þeim. Ef þeir gerðu ekki eitthvað þá myndi Jesús grafa undan grundvelli yfirráða þeirra, áhrifa og kenninga. Jesús var því stórhættulegur maður og leituðu þeir færis að klekkja á honum.

Vissulega átti Jesús hjörtu margra um þessar mundir. Fjölmargir fylgdu honum eftir þegar hann yfirgaf heimili þeirra systkina og hélt til Jerúsalem sem var skammt undan Hópur fólks í Jerúsalem sem frétti að Jesús var á leiðinni hélt út úr borginni áleiðis á móti honum og slóst í för með hópnum sem fylgdi honum þegar eftir. Jerúsalem var a þessum tíma miðstöð verslunar og viðskipta í þessum þekkta heimi. Í manngrúanum sem fylgdi Jesú hefur því verið fólk sem var frá öðrum löndum og átti sina trúarsiði og menningu en fylgdi honum eftir fyrir forvitni sakir. Þá var þarna fólk sem hafði frétt af því að Jesús væri kraftaverkamaðurinn sem hefði gefið Lasarusi lífið aftur. Þarna var leiðitamt fólk sem auðveldlega hreifst með straumnum á hverjum tíma. Í þessum hópi var ugglaust fólk sem fagnaði honum geysilega við komu hans er hann fór inn um borgarmúrana en hrópaði nokkrum dögum siðar að krossfesta ætti Jesú. Þar réð tilfinningasemin ríkjum en ekki skynsemin. Margir fylgdu honum eftir sem héldu því fram að hann væri sigurvegarinn, sá sem myndi frelsa gyðinga undan yfirráðum Rómverja.

Hvar ert þú áheyrandi minn í þessum hópi?

Eftir því sem fólkið nálgaðist borgina var mannfjöldinn orðinn þvílíkur að Jesús gat ekki með nokkru móti ávarpað hann.

Þess vegna greip hann til þess ráðs að leitast við að tala til hans með öðru móti. Hann valdi sér asna fyrir akneyti og vonaðist til þess að þá myndi mannfjöldinn skilja hver var þar raunverulega á ferð. Hann var með þessu atferli sinu að vísa til orða Sakaríasar spámanns sem við heyrðum hér fyrr í lexíu þessa pálmasunnudags en þar segir m.a.: “Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola”

Með þessu atferli sínu vildi Jesús segja mannfjöldanum að hann væri vissulega Messías en ekki sá Messías sem fólkið vænti. Hann kæmi með friði sem litillátur höfðingi friðar, auðmýktar, þjónslundar og kærleika. En þetta skildi mannfjöldinn ekki. Jafnvel lærisveinarnir sáu þetta ekki. Væntingar mannfjöldans í garð Jesú á þessari stundu voru langt frá því að vera í takt við það sem Jesús var að reyna að segja. Það var sem himinn og haf væri á milli Jesú og mannfjöldans. Jesús reið á vit örlaga sinna hlýðinn, auðmjúkur og lítillátur. Innra fyrir bjó að sönnu geðshræring gagnvart því sem framundan var. Hjarta hans var órótt uns hann fól anda sinn í hendur Guðs á dánarstundu á krossinum.

Í pistli þessa sunnudags segir postulinn Páll hvaða gildi þjáning Krists og dauði hafði fyrir mannkynið. “Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið sem hverju nafni er æðra til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús er Drottinn”.

Sannleikur og lygi, réttlæti og ranglæti, gleði og óhamingja, heilsa og vanheilsa, farsæld og hörmungar. Tryggð og tryggðarof, lif og dauði. Hér er slegið upp mannlegu litrófi sem við þekkjum misjafnlega mikið allt eftir reynslu okkar sjálfra á lífsgöngunni. Við getum ekki sett okkur í spor þeirra sem þjást fyrr en við reynum sjálf hvað þjáningin er. Þó er hún svo afstæð því að sársauki hjá einum getur verið þjáning hjá öðrum. Sársaukamörkin eru svo misjöfn hjá fólki.

Hold mitt er tregt, minn Herra mildi, í hörmungum að fylgja þér Þó ég feginn feta vildi Fótspor þín sem skyldugt er Viljinn minn er i veiku gildi Þú verður því að hjálpa mér

Hallgrímur Pétursson orti passíusálma sína vegna þess að hann missti dóttur sína og hann glímdi við sársauka sinn með því að íhuga píslarsögu Krists í því skyni að finna þar svör við ráðgátu þjáningarinnar, svölun og lækningu og sálarfrið. Hann glímdi að sönnu á eigin heimili við gátu þjáningarinnar með sínum hætti en hann kannaðist jafnframt við takmörk sín og bað Krist að hjálpa sér með það sem ekki var á hans valdi. Litróf mannlegra tilfinninga er að finna á öllum heimilum því að margir finna sig stundum vera í lífsins ólgusjó þar sem gefur verulega a bátinn. Tilveran er skekin við grunn hjá öðrum við margvísleg áföll vegna sjúkdóma eða tryggðarofs. Ótti og örvænting býr um sig hjá þeim sem búa við andlegt og líkamlegt ofbeldi. Börnin okkar sum hver eru jafnvel ekki örugg inni á eigin heimilum vegna þess að þeir sem standa þeim nærri misnota stundum traust þeirra. Stjórnmálamenn, sendiráðsmenn, menntamenn og trúboðar, krossfararnir, eru á dauðalista hjá múslimskum hryðjuverkasamtökum. Við förum að hugsa okkur tvisvar um áður en við fljúgum til Lundúna eða Spánar. Hvernig er heimurinn okkar að verða? Hvar höfum við brugðist?

Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra”, sagði Kristur eftir að böðlar hans höfðu rekið naglana og þyrnikórónuna í gegnum hold hans og bein.

Þannig sýndi Jesús Kristur vald fyrirgefningarinnar sem er þegar allt kemur til alls sterkara en vald þjáningarinnar og dauðans sem birtist með ýmsum hætti i þjóðfélögum nútímans. Vist höfum við vilja til góðra verka en sá vilji er stundum svo veikur að þegar til kemur þá gerum við það sem rangt er og jafnvel illt. Þannig erum við smituð af erfðasyndinni. Þess vegna þurfum við að krjúpa á kné frammi fyrir lausnaranum okkar á hverjum degi, beygja okkur í duftið því að það erum við frammi fyrir hinum hæsta sem lægði sig, gjörðist mönnum líkur sökum elsku sinnar í þeirra garð.

Okkur er hollt að ganga inn i kyrru vikuna með það i huga að frelsarinn Jesús Kristur hefur þegar fyrirgefið okkur syndirnar. Hann hefur bætt fyrir brotin okkar með krossdauða sinum. Að sönnu var fyrirgefning okkar dýrkeypt. Því ætti þessi auðsýndi kærleikur Guðs i Jesú Kristi i okkar garð, og fordæmi Maríu, systur Mörtu og Lasarusar i garð Jesú, að verða okkur kristnum mönnum hvatning til þess að láta gott af okkur leiða í því hjartnanna samfélagi sem við lifum og hrærumst í. Með okkur á þessari göngu er Jesús Kristur upprisinn sem við tilbiðjum í anda og sannleika hér i þessum fagra helgidómi á þessu kvöldi og heima fyrir þegar við eigum vökustund með Guði. Megi Guð hjálpa okkar að halda vöku okkar í þessum víðsjárverða heimi og gefa okkur auðmjúka þjónslund. Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun í Húsavíkurkirkju á Pálmasunnudagskvöld 4. apríl 2004. Lestrar: Lexía: Sak. 9.9-10, pistill: Fil. 2.5-11, guðspjall: Jóh. 12. 1-16.