"Elskar þú mig?"

"Elskar þú mig?"

Að tala með hlýjum orðum við aðra, að leggja góðum málum lið, að styðja hinn veika og hruma, að ganga um umhverfið að skynsemi og nærgætni, að taka þátt í samfélagsumræðu af tillitssemi og skilningi, í öllu þessu og mörgu fleiru erum við að tjá Guði ást okkar.
fullname - andlitsmynd Svavar Stefánsson
08. maí 2011
Flokkar

Flutt við útvarpsguðsþjónustu í Fella- og Hólakirkju 8.maí

Jóh. 21:15-19

Það er stundum sagt að við Íslendingar, og kannski þjóðir yfirleitt á Norðurslóðum, séum tilfinningalega lokaðar, við temjum okkur ekki heitar tilfinningar í orðum, erum spör á játningar um ást og væntumþykju. Hvort það er satt eða ekki breytir ekki því að það er nauðsynlegt að tjá með hlýjum orðum hug sinn og tilfinningar, játa ást sína til þeirra sem við berum slíkan hug til. Það er ein af grundvallarþörfum hverrar manneskju að elska og vera elskaður eða elskuð. Til þess þarf í sjálfu sér hvorki mikið orðskrúð né umbúðir. “Elskar þú mig”? spyr Jesús Símon Jóhannesson, lærisvein sinn að loknum málsverði við ströndina, og mynd guðspjallsins í dag á öðrum sunnudegi eftir páska er rétt eins og leiftur úr dramtískri sögu. Þeir voru staddir á strönd Tíberíasvatnsins, nokkrir lærisveina Jesú og hann þar mitt á meðal þeirra, upprisinn. Þeir voru hálf umkomulausir lærisveinarnir eftir atburði föstudagsins langa. Samvistardagarnir með Jesú voru að baki, dagarnir góðu og uppbyggilegu þegar Jesús kenndi og líknaði, dagarnir sem hann sat hjá þeim og talaði í þá kjark og djörfung, um lífið og eilífðina, um þjáninguna og sigurinn. Allt virtist þetta sem liðinn draumur og þeir eftir, sorgmæddir, eins og hjörð án hirðis. En – en svo gerist undrið stóra. Jesús birtist þeim upprisinn og það var eins og allt væri sem fyrr. Þeir tóku tal saman, glöddust, vildu horfa fram til nýrra tíma, nýrra sigra, nýrrar veraldar. Var það ekki undursamlegur veruleiki að Jesús var hjá þeim? Og þrisvar spyr Jesús Pétur vin sinn: “Elskar þú mig”? Símon Pétur, þessi sérkennilegi maður, sambland af staðföstum hörkumanni og veiklunduðum einstaklingi sem ekki gat staðið við heitstrengingar sínar þarf að svara þessum áleitnu spurningum: “Elskar þú mig, Símon Jóhannesson”. “Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig”. En af hverju spyr Jesú Símon Pétur svo? Jú, Jesús vill heyra játningu hans, opinskátt, því Péturs býður mikið verkefni hinnar fyrstu kristnu kirkju. Símon Pétur hafði áður játað því að Jesús væri Drottin, hafði lofað Jesú því að standa staðfastur hjá honum í þrengingum föstudagsins langa. En þar sveik hann loforð sitt þrisvar. Afneitaði Jesú af ótta við að hljóta sömu örlög og hann. Nú var komið að reikningsskilunum. Jesús spyr um játninguna, um elskuna til sín, þrátt fyrir allt sem á undan var gengið. Jesús spyr Símon Pétur til að hvetja hann til að horfast í augu við sjálfan sig, veruleika lífs hans, hvað biði hans. Hann er að spyrja Símon Pétur um lífsgrundvöll sem hann ætlar að lifa eftir, lífssýn hans, siðferðisviðmið, hvort Pétur er í raun reiðubúinn að ganga erinda hins upprisna eða ekki. Samræður þeirra Jesú og Símonar Péturs á ströndinni voru ekki orðmargar en þær voru kjarnyrtar og sannar og með sínum hætti styrktu þær traust, kærleika og vináttu sem ríkti milli þeirra. Lifum við í ástlitlu samfélagi þessi misserin? Er einkenni samfélagsumræðunnar mótuð af ást og trúnaði, virðingu og nærgætni, eins og við verðum vitni að í frásögninni af strönd Tíberíasvatsins forðum? Það er því miður vart hægt að merkja það. Það eru ýmis augljós merki eftir fall og hrun um hið gagnstæða í mörgum þáttum þjóðlífsins. Samfélagsumræðan mótast fremur af gremju og tortryggni, það er mikil reiði í gangi og vantraust. Ýmsar stofnanir samfélagsins okkar, sem áður fyrr nutu trausts þegnanna hafa misst tiltrú og þess álits sem gerðu þær trúverðugar. Þjóðfélagsumræðan í ýmsum stofnunum og samtökum er oft á tíðum orðin svo árásargjörn og óvægin, persónuleg og niðurbrjótandi. Við erum þjóð í sárum með óuppgerð mál og virðumst helst fá útráðs í reiði og neikvæðni, hnýta í ráðamenn og margt samferðafólk sem gegnir ábyrgðarstörfum. Þessi mynd af þjóðlífinu er að margra mati hættuleg því hún brýtur niður en byggir ekki upp traust og trúnað sem við þörfnumst umfram allt. Hrunið margumtalaða var ekki bara fjárhagslegt heldur varð þjóð okkar fyrir andlegu áfalli, ýmis sístæð gildi og hefðir voru lögð til hliðar. Á meðan svo er, er hætt við að batinn komi hægt. Sannarlega hefur komið í ljós að ýmsir einstaklingar brugðust þeim trúnaði og siðferðisreglum sem við höfum sett okkur. Á meðan margir mökuðu krókinn og söfnuðu sér illa fengnu fé og verðmætum misstu fjölmargir sitt og standa nú afar höllum fæti. Allt skapaði þetta reiði og særindi En við eigum dómsvald í landinu sem mun rannsaka sakir og dæma þá sem brutu lög. Því valdi verðum við að treysta og nýta tímann til að endurreisa og bæta leikreglur samfélagsins. En við þurfum líka að ná sátt og reyna að hemja reiðina, þó það kunni að vera erfitt. Sú var tíð að við gátum talið okkur það til manndóms og vegsauka sem þjóðar að standa saman þegar áföll dundu yfir, við brugðumst við áföllunum, mannlegum sem af náttúrunnar völdum, með því að leggja dægurþras til hliðar og vildum sýna samhug og samstöðu við að byggja upp og hjálpa þeim sem voru hjálparþurfi. Það gildismat, svo græðandi og uppbyggilegt sem það er, eigum við enn innst í hugarfylgsnum okkar. En við höfum tamið okkur miklu fremur sundrunguna, hina árásargjörnu orðræðu. Nú þurfum við að kalla fram hófsemd og stillingu, læra að ætla ekki öðrum illar hvatir heldur temja okkur vinarþel og leggja áherslu á hin uppbyggilegu gildi – gildi samstöðu, trausts og kærleika – ástar. Elskar þú mig, sagði Jesús forðum við Símon Pétur. Símon Pétur svaraði jákvætt, í öll skiptin þrjú sem hann var spurður. Og Jesús bar traust til þessa breyska og brotgjarna manns, manns sem hafði brugðist honum en þó reynt sitt besta. Símon Pétur hafði líka iðrast, hann var ekki forhertur. Og enn sýndi Jesús honum traust: Gæt þú lamba minna, ver hirðir sauða minna. Símon Pétur fékk það hlutverk að vera hirðir hinnar fyrstu kirkju og byggja upp það samfélag sem kirkjan er. Þannig er Jesús, hann gefur og styður, treystir manneskjunni og felur okkur dýrmæta perlu trúarinnar til varðveislu. Enginn veit betur en hann um það hve ístöðulaus og óábyrg við oft erum, hvert og eitt, stundum miskunnarlaus og tillitslaus, stundum harðneskjuleg og grimm hvert við annað. Þessir dagar frá páskum eru kallaðir gleðidagar. Gleðin yfir sigri upprisunnar, sigri hins góða á hinu illa fögnum við í ljósi upprisu páskanna. Þetta eru þeir dagar sem Jesús var með lærisveinum eftir krossfestinguna, vitjaði þeirra og var með þeim til að styrkja þá og gefa þeim hlutdeild í sigri upprisunnar. Gleðidagar bera í sér von, von um að framundan sé hagstæð tíð, við þurfum að eiga jákvæða sýn um að illskan og vansældin hverfi fyrir þeim góðu gildum og verkum sem gera lífið ögn yndislegra, bjartara. Það fyrirheit eigum við þó leiðin þangað kunni að vera torsótt. Það kemur ekkert af sjálfu sér, fyrirhafnarlaust. Það er í svo mörgu sem við manneskjurnar bregðumst, bregðumst sjálfum okkur, samferðafólki okkar, já Guði. En Guð bregst ekki, hann er trúfastur og stendur við sitt. En hann veit hvernig við erum, stillum okkar strengi ekki alltaf í samhljóm né stöndum að hinu góða. Þrátt fyrir það allt þá kallar hann okkur til verka. Við Símon Pétur sagði hann: Fylg þú mér. Í þeim orðum felst traust, ábyrgð, vissa um að þrátt fyrir allt var Pétur þeirrar gerðar að Jesús treysti honum að feta erfiðan stíg áfram. Guð segir við þig þennan morgun og alla morgna sem augu þín fá að opnast og sjá lífið: Fylg þú mér. Það er vegna þess að Guð treystir þér. En hann spyr þig, rétt eins og Símon Pétur forðum: Elskarðu mig. Líf þitt, hugsun þín, verk þín eru í raun svörin þín til hans. Í stóru sem smáu í lífinu erum við að svara Guði. Þar birtist ást okkar til Guðs. Í hvert sinn sem við þurfum að taka siðferðilega ákvörðun sem snertir mannlífið og náttúruna erum við að svara Guði. Að tala með hlýjum orðum við aðra, að leggja góðum málum lið, að styðja hinn veika og hruma, að ganga um umhverfið að skynsemi og nærgætni, að taka þátt í samfélagsumræðu af tillitssemi og skilningi, í öllu þessu og mörgu fleiru erum við að tjá Guði ást okkar. Það er samfélagi okkar nú brýnna en kannski nokkurn tíma að við gefum spurningu Jesú gaum. Lokum ekki augunum fyrir hinu uppbyggilega og jákvæða í samfélagi okkar. Glæsilega tónlistarhúsið Harpa var tekið í notkun í vikunni, musteri fagurra lista og menningar sem styrkir það jákvæða og fagra í lífinu, gefur okkar glæsilega tónlistarfólki ný tækifæri til að efla menningalíf sem er svo nauðsynlegt okkur sem þess fáum að njóta. Samningar á vinnumarkaði vísa okkur vonandi sameiginlega leið til betri lífskjara. Við þurfum með þessu og mörgu öðru að styrkja þær stoðir sem brýna okkur til umhyggju og samstöðu þegar á móti blæs. Jesús spyr: Elskarðu mig. Guð gefi okkur að svara eins og Símon Pétur forðum: Já, Drottinn, þú veist ég elska þig. Og því svari verðum við að svara, ekki bara í orði, heldur og í verki. Og við þurfum að hefja þá för saman með samstöðu, jákvæðni og bjartsýni þrátt fyrir hin þungbæru áföll liðinna missera, og hefja þá för sem fyrst. Þá verða dagarnir allir gleðidagar í Jesú nafni.