Segðu satt

Segðu satt

Jæja, ef það sem þú vildir segja mér er ekki satt, ekki gott og ekki heldur gagnlegt af hverju ættir þú þá að segja mér þessa sögu? Lygi eða sannleikur í 8. boðorðinu.

Hvað segir þú um fólk og hvernig talar þú um aðra? Hvað finnst þér að við ættum að gera þegar fólk slúðrar eða lætur dæluna ganga um aðra? Auðvitað eru allir sammála um, að við eigum segja satt. En sannleikur er ekki frumefni í líkama fólks sem hægt er að einangra og sýna svo í flösku. Sannleikur verður ekki höndlaður eða numinn nema í samhengi, sem tengslaveruleiki. Og sannleikurinn er mikilvægur þáttur í líferni fólks.

Sókrates og sannleikurinn

Til er áhugaverð saga um gríska vitringinn Sókrates (469-399 f. Kr.) sem þjónar uppeldishlutverki, að fræða fólk um hvernig bregðast eigi við hjónunum Gróu á Leiti og Makka, manni hennar. Einu sinni kom kunningi Sókratesar hlaupandi og ruddi úr sér: “Sókrates, hefur þú heyrt söguna um nemanda þinn?” “Bíddu aðeins” sagði Sókrates. “Áður en þú segir mér þessa sögu vil ég biðja þig að taka þrennu-prófið. “Hvað meinar þú með þrennu-prófi?” spurði sögumaðurinn undrandi. “Það er þríliðað eða þriggja þrepa próf, sem flokkar sögur. Þrennuprófið leiðir í ljós hvort sagan stenst lágmarkskröfur eða ekki. Fyrsta prófið er um sannleika. Ertu fullkomlega sannfærður um, að sagan sem þú vilt segja mér sé áreiðanlega sönn?” Maðurinn varð hvumsa við og svaraði: “Nei, ég var að heyra söguna og hef ekki getað sannreynt hana.”

Sagan um gott og gagnlegt?

“Gott og vel,” svaraði Sókrates. “svo þú veist ekki hvort hún er sönn eða ekki. Þá er það próf nr. 2 og það er um hið góða. Er sagan um nemanda minn um eitthvað gott?” “Nei, svo sannarlega ekki, þvert á móti...” svaraði sögumaður. “Nú...” sagði Sókrates þá “...þú ætlaðir sem sé að segja mér eitthvað slæmt um hann þó þú værir jafnvel ekki viss um að það væri örugglega satt?”

Maðurinn varð eðlilega nokkuð hugsi yfir þessum viðbrögðum. En Sókrates sagði þá að jafnvel þó sagan stæðist ekki fyrstu tvö prófin gæti hún verið mikilvæg ef hún stæðist þriðja og síðasta prófið. Og Sókrates spurði: “Heldur þú að sagan sé gagnleg? Heldur þú að mér sé gagn í því að heyra söguna?” Maðurinn svaraði strax, að svo væri ekki. Sagan væri ekki gagnleg.

Og þá var komin niðurstaða. Sókrates dró saman: “Jæja, ef það sem þú vildir segja mér er ekki satt, ekki gott og ekki heldur gagnlegt af hverju ættir þú þá að segja mér þessa sögu?” Prófinu var þar með lokið og sagan stóðst ekki lágmarkskröfur og þar með átti ekki að segja hana.

Áttunda boðorðið og raunveruleikinn

Er þetta ekki góð saga af honum Sókratesi? Ekki veit ég hvort hún er sönn. En hún er góð og gagnleg! Hún hjálpar okkur til að grisja orða- og söguflóðið, sem berst til okkur. Við mættum gjarnan beita visku hennar á fréttir og á sögurnar, sem fólk vill segja okkur. Hefur þú ekki heyrt margar sögur, kjaftasögur um hvað fólk hefur gert, í hverju fólk hefur lent í? Er einhver ástæða til að hlusta á þær þar sem þær standast ekki próf um sannleika, gagnsemi og gæði?

Í dag er komið að áttunda boðorðinu. Það er um lygina og sannleikann. Það hljóðar svo: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þetta er augljóst og vel skiljanlegt boð. Við eigum ekki að bera út sögur um annað fólk, segja ósastt um aðra. Við eigum að lyfta því sem við vitum áreiðanlega satt, gott og gagnlegt. En svo er raunveruleiki lífsbaráttunnar næsta harðhentur gagnvart mjúklátum gildum sannsöglinnar. Meira að segja orðatiltækin brjóta strax skörð í virki sannleikans. Sagt er, að allt sé leyfilegt í ástum og stríði. Svo er haldið að okkur að raunveruleiki lífsins leyfi ekki lúxus hinna skýru og kláru sanninda heldur verði oft að beita slægð og klókindum til að ná fram markmiðum.

Furstaslægð og valkostur

Járnkanslarinn Otto von Bismarck sagði, að aldrei lygju menn jafnmikið og eftir veiðiferð, í stríði og fyrir kosningar! Stjórnspekingurinn Machiavelli ráðlagði í því slæga riti Furstanum, að menn ættu aldrei að beita valdi þar sem hægt væri að ná fram því sama með svikum. Slægð og undirferli er því miður það sem klækjaglannar á öllum öldum hafa lært vel, að hinn hæfasti sé slægur, segi hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur og ljúgi ef þörf er á. Tilgangurinn helgar sem sé meðalið.

Machiavelli taldi að menn væru eigingjarnir, fégráðugir og grimmir. Við höfum lifað Machiavellískan tíma og ættum að afþakka aftugöngur hans. Við eigum berjast gegn slægum mönnum og ræðumönnum hálfsannleikans. Við ættum að íhuga hvers eðlis afstaða okkar er til lyginnar og hvernig lygin leitar inn í okkur. Erum við gjörn til lygi? Tökum við þátt í henni, slefum við með í rökkursögum, sem ekki þola álagspróf Sókratesar?

Afkvæmi lyginnar er m.a. þöggun af ýmsu tagi, þöggun í pólitík, í menningarmálum og viðskiptum? Sannleikurinn, dyggðir, æðri gildi hafa mátt dúsa í bókum í skápum afa og ömmu, í háskólafyrirlestrum og prédikunum. Það er loflegt að vera raunsær en það er hins vegar rugl að blanda saman áherslu á veruleikatengingu og að menn verði að vera hálfspilltir.

Vitja og iðka sannleikann

Heimsbyggðin hefur lifað einkennilega tilraunatíma með sannleika síðustu hundrað ár. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Afstaða, sem litað hefur margt í menningu Vesturlanda síðustu ár, oft kennd við post-modernisma, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri sammannlegt og ofar hinu einstaklingslega. Þessi afstaða hefur síðan komið fram í neysluhyggju og sjálfhyggju, hve fólk er upptekið af sjálfu sér, eigin upplifunum og algildi eigin þarfa og langana.

Tengsl Jesú þjóna fólki

Í samskiptum við fólk faldi Jesús aldrei sannleikann, heldur var sannleikurinn sjálfur. Hann spurði ekki hvað hann sjálfur græddi á öðrum? Hann hafði alltaf hagsmuni fólks í huga, fegurð þess, frelsi og reisn. Já, afstaða hans og iðkun var grundvölluð á hvað var og er satt, gagnlegt og gott?

Boðorðin varða hið sama, þau fjalla aldrei bara um hið neikvæða, það sem ekki má, heldur beina alltaf sjónum að hinu mikilvæga, því sem er forsenda og markmið boðorðanna. Lúther sagði: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi ljúgum ranglega á náunga vorn, svíkjum hann, baktölum né ófrægjum, heldur afsökum hann, tölum vel um hann og færum allt til betri vegar.” Þessi afstaða Lúthers er alveg í samræmi við afstöðu Jesú og hið góða þrennupróf Sókratesar.

Satt – gagn – gott - orð

Staldraðu við og hugleiddu hvernig þú talar um aðra. Hvernig líður þér þegar þú talar niðrandi um fólk og endurómar það sem þú hefur heyrt. Bætir það velferð þína eða annrra. Líður þér ekki betur þegar þú talar vel um fólk?

“Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði...” segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls. Þar segir ekki að lygin hafi verið hjá Guði, heldur Orðið, þessi frumvísir allrar ræðu heims og manns. Þar með er skilgreint líf og orð þess sem vill trúa á Guð og taka mark á hinu guðlega í veröldinni, orði og verki. Það er fjórða víddin sem mig langar til að benda okkur á þegar við hugsum um áttunda borðorðið. Hvernig vill Guð að við tölum? Hvernig vill Guð að við ræðum um náunga okkar? Hvernig vill Guð að við hegðum okkur í veröldinni?

Reynum alltaf að sjá veröldina frá sjónarhóli Guðs, tölum eins og Guð vildi tala. Þegar við sjáum veröldina þannig horfum við elskulega á fólk og sjáum hið góða og fagra fyrst. Elskan er hin sanna og gagnlega gerð veraldrar en hins vegar er hægt að umturna öllu og allt gott hefur skuggahlið. Þegar menn gleyma elskunni og hinu góða og sjá aðeins bakhlið veruleikans er óhjákvæmilegt að upp spretti hálfsannleikur, afbökuð túlkun og frásögn veruleikans.

Mállýska hálfsannleikans er vond. Slefburður fer illa í eyrum og veldur bólgum í heila. Látum okkur ekki nægja brotkennda veröld heldur spyrjum um hið sanna, gagnlega og góða. Þrenna Sókratesar var sannleikur, gagn og gott og við getum síðan bætt fjórðu víddinni við – Guði. Þá verður fernan þessi: Satt – gagn – gott – orð. Þetta er fernan að baki áttunda borðorðinu. Þessa fernu máttu nota til að máta allar sögur, allt lífið, iðju þína, vinnu, samskipti við fólk. Sannleikurinn er alltaf í samhengi, smáu og stóru.

Iðkum sannsögli. Þá hættum við að baktaka en byrjum að blessa, hættum að ófrægja en leggjum gott til, hættum að svíkja en styrkjum, hættum að draga aðra niður heldur lyftum öðrum og eflum fólk, hættum að smætta lífið og gleðjumst yfir margbreytileika og láni lífsins. Gakktu sannleikans megin, fegraðu, styrktu aðra. Segðu satt. Amen.

Prédikun í Neskirkju 22. mars, 2009