Jesús mettar enn

Jesús mettar enn

Jesús hafði verið með fólkinu á útihátíð. Það var ekki skipulögð hátíð með tónlist og sjoppum. Það æxlaðist þannig til að fólkið sá Jesú gera tákn á sjúkum og hann talaði á dýpri hátt en áður hafði heyrst. Þessvegna elti það hann í hópum jafnvel út í óbyggðina. Þegar hann hafði flutt mál sitt mettaði hann lýðinn með fimm brauðum og tveim fiskum.

Þeir spurðu hann þá: Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú? Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta.

Jesús sagði við þá: Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.

Þá sögðu þeir við hann: Herra, gef oss ætíð þetta brauð.

Jesús sagði þeim: Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. Jh. 6.30-35

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I Jesús hafði verið með fólkinu á útihátíð. Það var ekki skipulögð hátíð með tónlist og sjoppum. Það æxlaðist þannig til að fólkið sá Jesú gera tákn á sjúkum og hann talaði á dýpri hátt en áður hafði heyrst. Þessvegna elti það hann í hópum jafnvel út í óbyggðina. Þegar hann hafði flutt mál sitt mettaði hann lýðinn með fimm brauðum og tveim fiskum. Við höfum ekki nákvæma tölu á því hve margir eltu hann út í óbyggðina, karlmennirnir voru bara taldir, þeir voru fimm þúsund og þá tölu megum við margfalda með konum og börnum. Þarna hefur því verið fjölmennara en á stæðstu útihátíðunum okkar og engin sjoppa. Í þeim aðstæðum mætti Jesús þörfinni. Hann mettaði fólkið með því að blessa gjafirnar sem fram voru bornar, þar var nóg brauð og fiskur.

II Ég hugsa stundum um það, eftir hverju eru Íslendingar að sækjast þegar þeir flykkjast á útihátíðir. Það er sjálfsagt misjafnt. Vestmannaeyingarnir sem aldir eru upp við að flytjast í hvítu tjöldin yfir þjóðhátíð undirbúa sig vel með nesti og nýja skó. Fyrir þeim er tilhlökkunin í langan tíma og tilstandið mikið. Af búsetu minni í Eyjum kynntist ég tveimur þjóðhátíðum. Annarsvegar voru það Eyjamenn þar sem stórfjölskyldurnar höfðu sitt ættarmót í hvítu tjöldunum. Hins vegar voru það ungmennin komin ofan af landi til að skemmta sér nótt og dag. Oft fór allt vel fram en á stundum sá maður hvernig Bakkus lék lýðinn grátt. Ég veit ekki hvað fólkið sóttist eftir, margt var skemmtilegt í glaumnum, en ég er efins um að allir hafi farið heim mettir af velsæld. Mér blöskraði alltaf að sjá Dalinn þegar fólkið var farið heim. Það var eins og að horfa yfir ruslahauga þar sem tjöld, svefnpokar, flíkur og annað var eins og hráviði út um allt. Það er skrýtið verðmætamat.

III Eftir samveruna með Jesú var fólkið mett af brauði, það hafði einnig orð og hugsun til að melta. Jesús vék sér frá þeim og fór annað, en fólkið elti hann því það vildi meira. Það er í þeirri orðræðu sem guðspjall dagsins talar til okkar. Fólkið vildi fá nánari staðfestingu á því að Jesús væri sendiboði frá Guði. Er það ekki alveg dæmigert fyrir manninn. Við verðum snortin af Guði, fáum bænheyrslu síðan líður tíminn og það dofnar yfir trúnni. Við þurfum aftur að fá staðfestingu þess að Guð sé til staðar. Þetta varðar næringu trúarinnar. Trú okkar er nefnilega ekki einhver gefinn veruleiki sem er óbreytanlegur. Trúin þroskast og dafnar ef hún fær næringu. Trúin er lifandi afl í lífi okkar ef hún er stöðuglega nærð af Guðs orði og anda. Við þörfnumst umræðu um Guðs orð, við þurfum samneyti við Jesú til að trú okkar lifi og styrkist. Jesús vissi að mannfjöldinn leitaði hans af því hann mettaðist líkamlega. Jesús vildi lyfta huga þeirra hærra, hann vildi að þeir skoðuðu varanleg verðmæti.

Mennirnir vildu fá sönnun og vísuðu í sögu sína. Guð hafði gefið feðrum þeirra manna í eyðimörkinni. Þegar Ísraelsþjóð var á leið til fyrirheitna landsins urðu þau matarlaus á leiðinni. Lýðurinn kom til Móse kvartandi, bað um fæði. Þegar Móse hafði snúið sér til Drottins sagði hann þeim að Guð hefði lausn í þessum vanda.

Það kveld myndu þau kjöt eta en brauð að morgni. Um kvöldið komu lynghæsn í búðirnar. Næsta morgun lá döggmóða yfir landinu en þegar henni létti lá eitthvað þunnt og smákornótt yfir eyðimörkinni. ‘Israelsmenn urðu undrandi en Móse sagði þeim að þetta væri brauðið sem Guð gæfi þeim til fæðu. Þetta var kallað manna. Úr því var hægt að baka brauð og fólkið lifði af í eyðimörkinni. Hvern morgun lá ný drífa af manna á jörðinni og fólkið tíndi upp skammt fyrir þann daginn en fyrir hvíldardaginn tíndi það tvöfaldan skammt svo að allir gætu hvílt sig á degi hvíldarinnar.

Fólkið vísaði í þetta tákn þegar það spurði Jesú, hvaða tákn gefur þú okkur? Jesús notaði þessa táknmynd um brauðið sem fólkið þekkti og yfirfærði hana yfir á sjálfan sig. Hann sagði: „Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“ Þarna er hann farinn að vísa út fyrir venjulega fæðu en yfirfærir líkingamálið yfir á sig. Þegar fólkið biður hann að gefa sér ætíð þetta brauð fullkomnar hann yfirfærsluna með því að segja: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.“

Þetta eru sterk orð. Jesús segist vera næringin sem metti hvern mann. Það finnur líka hver sá sem leitar í einlægni eftir næringu frá Jesú að hann svarar djúpt inn að hjartagrunni. Kannske ekki í fyrstu, það þarf stundum meira en að leita, það þarf að knýja á með þunga, en sé þar leit í einlægni og bæn um að Kristur sýni sig máttugan þá mætir hann þörf manneskjunnar þar sem hún er stödd. Við Gyðingana talaði Jesús um manna af því þeir þekktu það. Við þig talar Jesús útfrá veruleika sem þú þekkir. Hann mætir þér þar sem þú ert í lífinu, talar inn í aðstæður þínar því Jesús einn þekkir leiðina að hjarta hvers manns og það er heilagur andi hans sem glæðir með okkur trúna á Jesú.

IV Samræður Jesú við Gyðingana héldu áfram. Menn skiptust í flokka, sumir fóru að trúa, aðrir styrktust í trú sinni en sumir trúðu ekki. Þeim ofbauð einhverra hluta vegna ræða Jesú. Þannig er það enn í dag. Sumt fólk lærir að treysta Jesú af því það hefur upplifað nærveru hans, stuðning og bænheyrslu í lífinu. Aðrir fá alrei nógu áþreyfanlega sönnun til að treysta trúnni. Við erum öll efasemdafólk á stundum, það er eðlilegur þáttur trúarinnar. Trúin vex oft mest eftir erfiðar efaspurningar þar sem glímt er við Guð. En trúin er og verður alltaf „fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ eins og segir í Heb.11.1

Eftir samræðu Jesú við fókið um lifandi fæðu og eilíft líf var sumum öllum lokið. Jesús hafði sagt: „Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum.“ Jóh.6.55,56.

Þetta voru mörgum óskiljanleg orð og eru enn í dag. En við þurfum ekki að skilja allt sem Jesús segir til að geta notið nærveru hans og gjafa. Okkur nægir að taka á móti í trausti til þess að Guð vilji gefa okkur dýrmætar gjafir í Jesú Kristi.

Eftir langa samræðu við Jesú hurfu sumir af fylgjendum hans frá honum og sögðu: „Þung er þessi ræða, hver getur hlustað á hana.“ Jesús sneri sér að lærisveinunum tólf og spurði þá: „Ætlið þér að fara líka?“

Við skulum læra af andsvari Símonar Péturs, hann sagði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“

Hann skildi ekki allt sem Jesús sagði, en hann vissi að Kristur byggi yfir því sem skipti mestu máli, hann hafði svar um eilífðina og hann var hinn heilagi Guðs. Það nægði til að gefa Pétri það sem hann þurfti. Hann gat ekki farið neitt annað til að finna samsvörun. Tómarúmið innra með honum hafði mettast af orðum og nærveru Jesú, hann þurfti ekki að leita annað.

Lítum á annan lærisvein ólíkan Pétri. Tómas, kallaður tvíburi var ekki með lærisveinunum þegar Kristur birtist þeim fyrst upprisinn. Þegar lærisveinarnir sögðu honum að þeir hefðu séð Drottin, trúði hann þeim ekki. Hann varð að fá áþreyfanlega sönnun. Hann gat alls ekki trúað nema hann sæi naglaförin í höndum hans og gæti sett fingur sinn í þau og lagt hönd sína í síðusárið.

Jesús þekkti leiðina að hjarta Tómasar. Næst þegar hann birtist lærisveinunum, kallaði hann Tómas til sín og sagði: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Jóh.20.27. Jesús mætti Tómasi eins og hann þurfti. Þetta varð til þess að Tómas varð snortinn og svaraði: „Drottin minn og Guð minn.“

Okkur er óhætt að láta á það reyna og biðja Guð um staðfestingu og trú þegar við finnum að okkur brestur traust. Við fáum ekki endilega einhver tákn sem við viljum sjá, en séum við opin fyrir andsvari Guðs þá mun hann metta okkur. Hann þráir að mæta okkur eins og lexía dagsins vitnar um eins og lesið var: „ Óttast eigi, land! Fagna og gleðst því að Drottinn hefir unnið stórvirki. Óttist eigi þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða…Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn Drottins, Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört“ Jóel 2.21-22,26a

Það er Guð sem vinnur í okkur verkið, hann gefur trúna, við þurfum að vökva hana með því að opna okkur fyrir honum. Bjóða hann velkominn inn í líf okkar og Guð vill mæta og metta innstu þörf okkar en það er þörfin fyrir samneyti við höfund sköpunarinnar. Þörfin sem oft birtist sem innri ólga eða tómleiki og ekkert getur fyllt nema Guð. Þegar þeirri þörf er mætt sprettur fram gleðin og fögnuðurinn yfir því að fá að taka þátt í sköpunarverki Guðs. Fögnuður og þakklæti yfir að mega leggja allt sitt í hendi Guðs sem elskar og vill seðja hvert mannsbarn með blessun.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Flutt um verslunarmannahelgi 2003, á 7. sunnudegi eftir trinitatis 03.08.03, B Texti Jóel 2.21-27; Post.2.41-47; Jóh.6.30-35, Sálmar: 3, 22 # 551, 463