Ilmur elskunnar

Ilmur elskunnar

María ber fram nardussmyrslin, dýru og sjaldfengnu, og smyr Jesú þeirri dýrð, sem hún á mesta. Hún umvefur Jesú elsku sinni og umhyggju og í þeirri snertingu gefur hún það dýrasta, sem hún á í veraldlegum skilningi.
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
17. mars 2008

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. 2Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. 3Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Jóh. 12

María var systir Mörtu og Lasarusar í Betaníu. Jesús var heimagangur hjá þeim. Það er gott að eiga vini, góða vini. Við þurfum öll á því að halda. Jesús naut þess líka að eiga góða vini. Hann elskaði þá. Þegar hann heyrði um lát Lasarusar “komst Jesús við í anda og varð hrærður mjög” (Jóh. 11:33). En þessir vinir Jesú höfðu líka reynst honum vel. Sjálfur reyndist hann þeim betri en nokkur annar.

Eftir Mörtu, systur Maríu, er höfð einhver dýrðlegasta setning Nýja testamentisins af manni sögð. Hún svarar Jesú, þegar hann spyr hana erfiðustu spurningar lífsins, við fráfall bróður. Jesús segir: “Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?” Þá segir Marta: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ (Jóh. 11:27).

María ber fram nardussmyrslin, dýru og sjaldfengnu, og smyr Jesú þeirri dýrð, sem hún á mesta. Hún umvefur Jesú elsku sinni og umhyggju og í þeirri snertingu gefur hún það dýrasta, sem hún á í veraldlegum skilningi. Einhverjir urðu til þess að finna að. Þannig er það oft, þegar kærleiksverk er unnið. Þannig er það oft, þegar minnt er að verk Jesú.

Stundum er sagt að Marta hafi unnið húsverkin en María séð um bænina. Ef til vill var það svo. Hér er það þó Marta sem segir orðin dýrmætu, en María vinnur verkin. Systurnar, hvor fyrir sig, eru vitnisburður um dásemd vináttu og trausts til Jesú. Orð Mörtu eru trúarjátning syrgjanda frammi fyrir Kristi upprisu og vonar. Í verki tjáir María þakklæti sitt, vináttu og trú. María er snortin af orði Jesú. Ilmur smyrslanna vekur bæn í brjósti okkar um að gera öðrum vel, svo vel að það verði líka enn öðrum styrkur og hvatning. Megi ilmur smyrslanna fylla húsið.