Hamingja kristninnar

Hamingja kristninnar

Ég ætla að byrja hugvekju mína í dag á því að segja ykkur frá dreng sem ég þekki til. Hann var farinn að loka sig af og vildi ekki umgangast fólk, ekki fjölskyldu sína og félaga, enda átti hann orðið fá raunverulega vini. Hann lék sér ekki lengur úti, og það var langt síðan hann hafði farið út í fótbolta eins og hann hafði iðulega gert áður fyrr.

Guðspjall: Mrk 16.14-20

Náð Guðs föðurs og drottins vors Jesú Krists og samfélag heilags anda sé með okkur öllum.

Kæri söfnuður Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í kirkjunni í dag. Ég hef oft ekið fram hjá þessari sérkennilegu kirkju og séð hana frá þjóðveginum og hún vekur alltaf athyglig mína. Í gær gekk ég í fyrsta sinn kring um hana dáðist að formum hennar og línum beinum og sveigðum sem skírskota til tignarlegra fjallanna sem hér má sjá um víðan sjóndeildarhringinn . Það er eins og hún sé staðsett í fjallahringnum miðjum og dragi til sín athyglina og beini sterkum straumum til himins og það á vel við á þessum degi þegar við minnumst himnafarar Jesú Krists. En kirkjan er samt samkvæmt arkitektinum Dr. Magga, sem ættaður er af bæ hér í grendinni, óhlutbundið listaverk og ekki miðað við neitt sérstakt fjall heldur það hvernig almættið birtist nátturulegum formum öldufalls og skýjafars og sveipum í snjósköflum. Á einstakan hátt hefur honum tekist að fanga lífsform náttúrunnar sjálfrar í steypu, járn og gler en það er afar sjaldgæft að það takist með trúverðugum hætti.

Ég ætla að byrja hugvekju mína í dag á því að segja ykkur frá dreng sem ég þekki til. Hann var farinn að loka sig af og vildi ekki umgangast fólk, ekki fjölskyldu sína og félaga, enda átti hann orðið fá raunverulega vini. Hann lék sér ekki lengur úti, og það var langt síðan hann hafði farið út í fótbolta eins og hann hafði iðulega gert áður fyrr. Hann sat öllum stundum inni í herbergi sínu og læsti að sér til að fá að vera í friði yfir tölvunni. Þar opnaðist honum heimur sem hann gat ekki slitið sig frá. Þar hafði hann eignast nýja vini og félaga sem hann lék sér við öllum stundum. Þar spilaði hann fótbolta og ýmsa stríðsleiki og spennan var svo mikil að hann mátti ekki missa af neinu. Mátti ekki vera að því að fara í skólann og helst ekki að fara niður í eldhús og borða með fjölskyldu sinni á reglulegum matmálstímum.

Drengurinn ansaði ekki þegar faðir hans bankaði á hurðina, en hökk við þegar hann braut hana niður og þegar hann reif tölvuna úr sambandi fannst drengnum eins og allt væri búið. Tilvera hans hafði hrunið. Hvað átti hann að gera? Hann gat hjólað í pabba sinn en það þýddi ekkert. Þetta varð fyrir honum stund sannleikans. Spurningin var um það að vera eða ekki vera.

Netheimar eru til margs nytsamlegir og það er ótrúlegt magn af upplýsingur sem hægt er að nálgast á netinu. Hægt er að hafa samband við fyrirtæki og stofnanir, fá bankaþjónustu og borga reikningana á einkabanka. Þar eru heilu bókasöfnin og hinir ýmsu hópar og stofnanir hafa komið sér þar fyrir með þjónustu sína. Netheimar eru merkileg blanda af raunverulegum heimi og ímynduðum og verurnar sem við mætum þær eru sumar tilbúnar eða annars heims eins og þær væru og englar af himni sendar.

Við erum meira og minna á netinu eins og sagt er, hvort sem við erum heima eða í vinnunni. Drengurinn sem ég minntist á áðan vildi hvergi annars staðar vera. Allt líf hans snérist um netheima. Þar var hamingjuna að finna fannst honum. Þar voru verndarar hans og vinir.

* * *

Guðspjallstexti þessa dags fjallar um það þegar Jesús kveður lærisveina sína endanlega og stígur upp til himna að þeim sjáandi. Hann hefur áður útskýrt fyrir þeim að þetta verði að vera svona. Hann vissi það fyrirfram og hafði gefið þeim vísbendingar um að hann yrði að fórna lífi sínu en þeir ekki skilið eða vildu ekki skilja. Hvernig gat hann, sem hreif allt fólkið með sér og fræðimennirnir og æðstuprestarnir óttuðust, yfirgefið heiminn, dáið á krossi og hætt að vera til? Hann sem hafði boðað Guðs ríki á jörð og sagst vera sá sem mundi frelsa þjóðina.

Sagan um himnaför Jesú er mörgum endanleg sönnun þess að kristindómurinn snúist um ævintýri og hindurvitni. Það fer enginn til himna á þann hátt sem lýst er í guðspjöllunum. Þrátt fyrir það er þetta reynsla og veruleiki, sem hinir fyrstu kristnu upplifðu og trúðu og þeir höfðu orð frelsara síns fyrir því að þetta yrði að vera svona, en þar með væri ekki allt búið heldur í raun væri þetta byrjunin. Heimurinn var ekki tilbúinn að taka við syni Guðs sem elskaði heiminn, elskaði mennina og þráði að frelsa þá enda hafði hann skapað þá til samfélags við sig.

Sonurinn opinberaði kærleika Guðs föður og skapara en var hafnað af heiminum og þess vegna var hann tekinn af lífi en hið guðlega eðli hans var ekki þar með fyrir borð borið heldur varð það nú augljóst og öllum opinbert. Það var fullkomnað eins og Jesús sagði á krossinum og virtist ein mestu öfugmæli sem hægt var að hugsa sér þar sem sjálfur frelsari heimsins þjáðist innan um glæpamenn á hryllilegasta aftökutæki sem hægt var að hugsa sér. Þar fyrirgefur hann kvölurum sínum því þeir vita ekki hvað þeir eru að gera. Og hann gefur upp andann og deyr líkamlegum dauða ⎼ er grafinn.

En hann rís upp frá dauðum því kærleikur Guðs er sterkasta aflið í heiminum og það sem heldur honum lifandi – gefur kraftinn og gerir kraftaverkin. En tími Jesú á jörðinni var búinn, hans sem fæddist í Betlehem og var lagður í jötu.

Himingeimurinn og óravíddir hans voru þá eins og nú tilefni til margvíslegra heilabrota og hugsunar og uppspretta þekkingar. Með því að rannsaka hann gátu menn staðsett sig á jörðinni. Alveg eins og nú þegar menn taka mið af gervihnöttum og miða út stöðu sína á jörðinni af ótrúlegri nákvæmni. Guðirnir voru tengdir við stjörnurnar og við dauðann hurfu konungar upp í himinfestinguna og lifðu þar áfram og lýstu eins og stjörnur.

Þegar ný stjarna sást á himni þá var það merki um að nýr konungur væri fæddur því konungar voru oft taldir guðlegir. Svo var um faróinn í Egyptalandi og keisarinn í Kína var talinn sonur himinsins. Þegar vitringarnir frá Austurlöndum sáu nýja stjörnu á himninum voru þeir vissir um að þetta var tákn um að nýr konungur hafði fæðst og þeir fóru að leita að honum og fundu hann í jötunni í fjárhúsinu í Betlehem. Og þeir voru vitringar og þess vegna skynjuðu þeir að Heródes konungur gyðinga meinti það ekki þegar hann sagðist ætla að votta honum virðingu sína og bað þá að segja sér hvar hann væri.

* * *

Predikun Jesú fjallaði um ríki Guðs og kraftaverkin sem hann gerði voru tákn um veruleika og kraftinn sem bjó í þessu ríki – kraftinn sem var fólginn í orðum Jesú, kraftur frelsisins sem allur boðskapur hans gekk út á. Það var þessi kraftur frá himni sem hann talaði um að mundi koma þegar hann færi og hann lagði áherslu á að hann yrði að fara til þess að þessi kraftur kæmi yfir þá og að þetta væri sami krafturinn og þeir höfðu fundið þegar þeir fylgdu honum, sami krafturinn og sá sem þeir fundu sem trúðu á hann og þennan kraft kallaði hann Hjálpara og heilagan anda.

Hjá guðspjallamönnunum verður himnaförin röklegt framhald af því, að sonur Guðs fæddist í heiminn, var líflátinn og reis upp frá dauðum. Hjá Lúkasi guðspjallamanni sem skrifaði Postulasöguna verður þessi atburður einmitt það sem tengir guðpjallið og frásöguna af starfi postulana sem lýsir því hvernig kirkjan varð til á hvítasunnudag þegar kraftur Guðs frá hæðum helltist yfir postulana eins og eldstungur og þeir fóru að tala tungum sem fólkið skildi hvaðan sem það kom úr heiminum.

Jesús er að tala um anda sinn og anda Guðs sem hann skilur eftir hjá lærisveinunum og öðrum sem fylgja honum. Og þetta vissu menn á þessum tíma að var hægt og hafði gerst áður. Móse hafði skilið anda sinn eftir hjá þjóðinni sem hann leiddi út úr þrælabúðunum í Egyptalandi þegar hann blessaði Jósúa. Elía hafði yfirfært anda sinn og spádómskraft til Elísa spámanns.

Í fornsögum okkar er að finna hliðstæðar sögur af kraftinum sem fylgdi konungum og höfðingjum sem voru sigursælir og farsælir. Þeir voru í sérstrakri náð hjá máttarvöldunum, skapanornunum og það var eins og þessi kraftur fylgdi þeim gegnum allt lífið og forðaði þeim frá slysum og ósigrum. Allt lék í höndunum á þeim og þegnar þeirra og fylgjendur nutu þessarar farsældar og það var einmitt talað um hamingju í þessu sambandi. „Íslands óhamingju verður allt að vopni“ var sagt um efnilegan stjórnmálaleiðtoga sem lést í blóma lífsins við upphaf sjálfstæðisbaráttunnar.

* * *

Það var þessi hamingja sem Jesú skildi eftir hjá lærisveinum sínum þegar hann yfirgaf þá til þess að setjast til hægri handar Guði föður í ríki hans. Hann fór þannig á táknrænan hátt til að búa fylgjendum sínum stað þar sem þeir áttu heima í samfélaginu við Guð þar sem eru margar vistarverur. Kristur er einmitt tengingin milli heimanna, þess vegna fór hann til himna. Hann er trygging okkar fyrir því að til er annar heimur, annað líf, framhaldslíf og þessi tenging er fólgin í sjálfri kirkjunni, í sakramentum hennar og í heilögum anda sem stofnsetti kirkjuna, gaf hræddum og hrelldum lærisveinum kraft til að boða trú og skipuleggja kirkjuna og hefur viðhaldið henni síðan.

Þegar Jesús er að lýsa þessum krafti grípur hann til sterkra mynda og líkinga og segir: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma og þó að þeir drekki eitthvað banvænt mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur og þeir verða heilir.“

Drengurinn sem ég minntist á í upphafi átti ekki þessa tengingu við heilagan anda sem Jesús boðað að kæmi frá öðrum heimi eftir að hann væri farinn af jörðinni. Hann var heldur ekki hamingjusamur þótt hann hefði aðgang að ótæmandi upplýsingabanka og sýndarheimi þar sem hægt var að setja á svið æsilega kappleiki og stríðsleiki sem voru svo raunverulegir að leikvöllur félaga hans varð einskis virði í samanburðinum. Þrátt fyrir alla þekkinguna og afþreyingarmöguleikana og þrátt fyrir allt ímyndunaraflið sem fær að njóta sín á netinu þá vantar lífskraftinn þar. Það vantar sambandið við þann sem elskaði heiminn að fyrra bragði og skapaði tenginguna með því að senda einkason sinn til þess að frelsa mennina – til þess að sætta þá og heiminn við sig.

Við tökum undir bæn dagsins: Jesús Kristur, himininn stendur opinn – þú sýnir okkur jörðina. Þú ert hjá Guði – þú ert nálægt okkur. Þú hefur himinn og jörð í höndum þínum – þú heldur á okkur. Lof sé þér Kristur, Drottinn. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.