Legg þú út á djúpið

Legg þú út á djúpið

“Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar”, sagði Jesús við Símon Pétur. Hvergi á Íslandi á þessi setning betur við en einmitt hérna við Ísafjarðardjúpið þar sem menn hafa öld fram að öld ýtt báti úr vör til að sækja sér fisk í soðið. Djúpið hefur verið lífæð byggðanna hér í kring. Það hefur bæði verið gjöful matarkista en líka þjóðvegurinn því hér um slóðir er maður flótari sjóleiðina heldur en landleiðina.

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.

Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lúk. 5. 1 – 11

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar”, sagði Jesús við Símon Pétur. Hvergi á Íslandi á þessi setning betur við en einmitt hérna við Ísafjarðardjúpið þar sem menn hafa öld fram að öld ýtt báti úr vör til að sækja sér fisk í soðið. Djúpið hefur verið lífæð byggðanna hér í kring. Það hefur bæði verið gjöful matarkista en líka þjóðvegurinn því hér um slóðir er maður flótari sjóleiðina heldur en landleiðina. Í þessu prestakalli eru yfir 200 km út á ystu annexíuna og ekki er það allt malbikað; það er þriggja klukkustunda akstur héðan og til kirkjunnar í Unaðsdal en með báti tekur það hins vegar innan við klukktíma.

Þessi orð, “legg þú á djúpið”, hljómuðu ekkert sérstaklega heillandi í eyrum Péturs þennan dag því hann var búinn að strita alla nóttina á netum og hafði ekki fengið bröndu úr djúpinu. Þessi orð, “legg þú á Djúpið” hafa heldur ekki alltaf klingt skemmtilega í eyrum okkar. Það minnti mig ein kona á þegar ég stóð við Djúpið á sólríkum degi og dáðist að fegurð þess; hvernig fjöllin spegluðust í sjónum og eyjarnar flutu um í hafinu. “Mundu það, Maggi minn, að stundum leynist flagð undir fögru skinni!” Djúpið hefur oft verið gjöfult en það hefur líka tekið sinn toll. Hér getur hvesst hreint undraskjótt og Djúpið orðið að bálandi hafi, sem engu eyrir. Enda höfum við gegnum tíðina margan góðan drenginn misst í hina votu gröf hafsins. Í Djúpinu var lífsbjörgin sem og dauðinn. Lífsbjörgin var þar sem lífsháskinn var. Og þess vegna urðu menn að leggja á Djúpið hvort sem þeim líkaði betur eða verr. “Meistari, fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.” Ég tek áskoruninni! Ég fer í Jesú nafni.

II.

Það eru víða hætturnar í lífinu. Þrátt fyrir nútímatækni og góðan útbúnað getur fólk komist í hann krappann; bátar steyta á skerjum, göngumenn villast í þoku, í aftakaveðrum getur fólki og einnig híbýlum þess verið hætta búin. Og hver hjálpar þá? Hver vill þá leggja út að Djúpið, halda út í sortann til að leita og hjálpa, til að veiða fólk, til að rétta hjálparhönd þeim, sem í háska er staddur?

“Legg þú á djúpið.” Þetta gætu í raun verið einkunnarorð björgunarsveitanna. Slysavarnarfélögin og björgunarsveitirnar eru mjög merkilegur kafli í sögu landsins. Óvíða annars staðar gerist það að áhugasamt fólk taki sig saman og safni fé til kaupa á farartækjum og björgunarbúnaði, þjálfi sig síðan í frístundum sínum til að bjarga fólki úr hafsnauð eða örðum háska. Slysavarnafélagið og björgunarsveitirnar hafa verið okkur gífurlega mikilvægar hér við Ísafjarðardjúpið seinustu árin. Þessar sveitir hafa oft unnið þrekvirki. Og unglingastarf félaganna hefur mikið uppeldis- og forvarnargildi. Það er því sérstakt fagnaðarefni að einmitt í dag að lokinni þessari guðsþjónustu munum við ganga hér út úr kirkjunni að nýjum björgunarbáti, sem hægt er að nota til að ná fólki upp úr sjó eða fjörum, og við munum blessa bátinn og biðja þess að hann verði happafley, sem reynist vel á ögurstundu.

Síðan að því loknu göngum við inn í safnaðarheimilið en þar bjóða Slysavarnarfélagskonur okkur til kaffidrykkju og hvet ég ykkur öll til að staldra hér við og eiga gott samfélag, gott samtal yfir kaffibolla. Guðsþjónustur eiga að kalla okkur til samfélags við aðra.

III.

“Legg þú út á djúpið” sagði Jesús við Pétur. Kirkjan er kölluð til þess að leggja út á djúpið og veiða fólk, til að kalla fólk til trúrar á Guð og til ábyrgðar á náunganum. Það hefur aldrei verið auðvelt að boða fólki trú, - allra síst núna á tímum efa- og efnishyggju. Kirkjan er eins og Pétur forðum kölluð til að leggja út á djúp óvissunnar!

Þessi söfnuður hefur siglt óvissunnar djúp. Fyrir 19 árum brann kirkjan okkar. Kristslíkneskið bráðnaði, skírnarfonturinn sprakk í þúsund mola og predikunarstólinn sótbrenndur. Þá vissu menn ekki hvað til bragðs skyldi taka. Átti að byggja upp kirkju á nýjum stað eða endurbyggja þá gömlu? Um hvorugt náðist samstaða. Sumir vildu jafnvel leggja árar í bát. En við gáfumst ekki upp heldur lögðum út á djúpið og treystum því að með Guðs hjálp og góðra manna gætum við náð aftur landi. Við byggðum þetta kirkjuskip. Við byggðum þar sem kirkjur hafa staðið frá ómunatíð á Eyri við Skutulsfjörð. Við byggðum nýja kirkju á gamla kirkjustaðnum líkt og forfeður okkar hafa alltaf gert þegar svona hefur staðið á. Það var óvissuferð. Yrði einhugur í söfnuðinum um framkvæmdina? Tækist að safna peningunum, sem þyrfti til verksins? Og svo vorum við að byggja stóra kirkju í gömlum kirkjugarði. Hér undir kirkjugólfinu eru yfir sjötíu grafir. Og meira að segja ein steinkista! Minningartöflur um þau, sem hvíla undir kirkjugólfinu eru á veggnum við hliðina á nýja Kristslíkneskinu, sem systursöfnuður okkar í Hnífsdal gaf okkur. Þetta er ný afsteypa af frummynd Thorvaldsens. Við lögðum á djúpið í Drottins nafni; í von og trú fórum við út í þessar framkvæmdir.

“Símon svaraði: “Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.” Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska.”

IV.

Legg þú út á djúpið og leggið net yðar til fiskjar! Lífið er óvissuför í þeim skilningi að ekkert okkar veit hvað morgundagurinn mun bera í skauti sér. Við vitum ekki fyrirfram hvernig lífshlaup okkar verður, hvort hjónabandið mun endast, hvort börnin munu vaxa úr grasi og verða að manni eða hvort við höldum heilsu. Þaðan af síður er á vísan með það að róa hvort við fáum höndlað og upplifað hamingjuna hér í þessum heimi. Hvort við öðlumst lífsfyllingu í starfi og einkalifi er öldungis óvíst. Samt erum við kölluð til ýta úr vör og leggja út á lífsins djúp.

Til eru þeir, sem ekki vilja setja fram sinn bát og hvíla í staðinn í nausti eiturlyfja og annarra lífsflóttaleiða, sem gefast í nútímanum. Það er mikil ógæfa. Aðrir láta reka á reiðanum, berast til og frá eftir því sem vindar og straumar færa þá til. Þeir eru áttavilltir í tilverunni. Þeir eru á reki í mannhafinu.

Á sjónum skiptir það höfuðmáli að vita hvert þú stefnir. Til þess hafa menn kort og kompás og sigla eftir því svo þeir nái heim til hafnar. Og líkt er því farið í lífinu sjálfu; þar skiptir öllu máli hvert menn eru að stefna. Eru menn að marka sér stefnu og leggja sín net eftir orðum frelsarans, sem sagði að við ættum að treysta Guðs orði og elska náungann líkt og hann væri okkar eiginn bróðir eða systir!

V.

“Legg þú út á djúpið og leggið net yðar til fiskjar” sagði Jesús við Símon Pétur, sem var búinn að vera að leggja og draga netin alla nóttina án þess að fá bröndu úr sjó. Pétur karlinn hlýtur að hafa dæst þegar Jesús sagði honum bara að reyna aftur. Reyndu aftur, góði! Þetta minnir svolítið á annað samtal þeirra þegar Pétur spurði Jesú hversu oft hann ætti að fyrirgefa og Jesús svaraði blákalt: Sjötíu sinnum sjö. Þú átt að reyna fyrirgefinguna 490 sinnum!

Á ísskápnum heima hjá mér eru nokkrir seglar, sem ég nota stundum til að festa minnismiða á hurðina eins og nú vanti kaffipoka og viðbit. Einn af þessum seglum eru geðorðin tíu. Og eitt þeirra hljóðar eitthvað á þessa leið: Gefstu ekki upp, mundu að velgengi í lífinu er langhlaup.

Í öllu okkar daglega lífi er það svo mikilvægt að gefast ekki upp þó að stundum blási á móti eða árangurinn láti á sér standa. Sérstaklega í mannlegum samskiptum þurfum við aftur og aftur að leggja út á djúpið og leggja út net kærleiksans og vonarinnar. Það er úthaldið og vonin, sem skipta öllu máli í dagsins iðu og lífsins straumi.

Hvað skyldi hafa gefið Pétri kraftinn til að ýta bátnum enn á ný úr vör þennan dag eftir að hafa vakað og stritað alla nóttina árangurslaust? Það voru orð Jesú. Og þannig vinnur trúin í fólki. Hún gefur fólki von og þrótt til að takast á við lífið og tilveruna.

Legg þú á djúpið eftir Drottns orði og vittu til; þú munt líkt og Pétur forðum uppskera ríkulega. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.