Enn ein fréttin

Enn ein fréttin

Gleymum því ekki að sumar og líklega margar af þeim konum sem látið hafa lífið á flótta sínum til Evrópu hafa lagt af stað í þá för í leit að betra lífi fyrir sig og börn sín, ekki síst dæturnar; ekki bara efnahagslega heldur lífi sem leyfir hæfileikum hvers og eins að blómstra án lögmáls og kúgunar. Hver getur láð þeim það?

I Kirknasamband Evrópu hefur beðið aðildarkirkjur sínar að minnast í dag þeirra sem látið hafa lífið á leið sinni til Evrópu og sent út efni sem hér er að hluta byggt á í dag. Talið er að nærri 30 þúsund manns hafi dáið við landamæri Evrópu á síðustu tuttugu árum, þar af rúmlega 8 þúsund manns síðustu tvö árin. Við minnumst þess sérstaklega að um miðjan apríl á þessu ári drukknuðu um 500 manns, karlar, konur og börn frá Afríkuríkjum sem höfðu greitt smyglurum fyrir að koma sér yfir Miðjarðarhafið, frá Líbíu til Ítalíu.

Svona fréttir heyrum við jafnvel án þess að taka eftir þeim. „Svo margar myndir dynja á okkur að þó við sjáum sársaukann skynjum við hann ekki; við heyrum grátinn en huggum ekki; við verðum vitni að þorsta en svölum honum ekki. Öll þessi mörgu mannslíf verða að enn einni fréttinni.“ Þetta sagði Frans páfi fyrir örfáum dögum í ræðu í höfuðstöðvum World Food Programme í Róm 13. júní 2016. „We are bombarded by so many images that we see pain, but do not touch it; we hear weeping, but do not comfort it; we see thirst but do not satisfy it. All those human lives turn into one more news story“. Pope Francis, speaking at the World Food Programme headquearters in Rome, 13 June 2016.

II Kæru vinir, við komum hér saman í dag til að lofa Guð og bera vitni trú okkar þegar við minnumst þeirra sem látist hafa á leið sinni til Evrópu og við landamæri. Sorg fyllir hjarta okkar þegar við horfumst í augu við missi mannkyns. Guð gefi okkur og fjölskyldum hinna látnu og þeim sem lifðu af náð, að við finnum huggun gagnvart þjáningunni, von í sorginni og upprisu í dauðanum.

Um leið og við berum eigin framtíð fyrir brjósti og framtíð þjóðar okkar viljum við ekki gleyma þeim sem eru á flótta, á leið til okkar, á leið til Evrópu. Frammi fyrir miklum breytingum i arabíska heiminum biðjum þess að við mættum finna nýjar leiðir til að standa vörð um mannréttindi og láta hvorki efnahaglega hagsmuni ráða né hræðslu sem byggir veggi og öryggisgirðingar.

Við minnumst þeirra sem hafa horfið á flóttanum og þeirra sem hafa náð til Evrópu en látið lífið vegna kulda og afskiptaleysi annarra. Framtíð Evrópu byggir ekki á varnarmúrum heldur því að við gefum öðrum hlutdeild í því sem við höfum þegið. „Gestur var ég og þér hýstuð mig,“ segir Jesús (Matt 25.35). Við biðjum þess að við mættum sjá og viðurkenna nærveru Guðs í þeim sem flýja til okkar. Gleymum því ekki að við vorum sjálf flótta- og förufólk, sum að flýja réttvísina, önnur í leit að betra lífi og enn önnur ánauðugir þrælar sem engu fengu ráðið.

Gefum okkur tíma til að staldra við og íhuga. Í því býr kraftur. Að minnast þeirra sem látist hafa á hafi úti, við landamæri og líka þeirra sem áttu sér einskis ills von kvöldið örlagaríka í Orlando, er trúarglíma. Við verðum að staldra við og finna hvað Guð vill segja við okkur, taka á móti Orði Guðs sem gefur okkur orð inn í orðleysið sem grípur okkur gagnvart ofbeldi og lífsógn. Ef við gerum þetta af alvöru munu orð okkar færa af sér verk í kærleika, von og trú, verk sem efla lífið í stað þess að tæma það. „En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu. Þá munuð þið koma út, stökkva eins og kálfar sem hleypt er úr fjósi,“ Malakí 3.20.

III Í efninu sem Kirknasamband Evrópu sendi í tilefni af þessum minningardegi er saga eldri manns sem missti 22ja ára afabarn sitt í sjóslysi í ágúst 2009. Um borð í báti sem missti afl milli Afríkustrandar og Sikileyjar voru 82 manns, konur, karlar og börn frá Eritreu, Eþíópíu og Nígeríu. Í 23 daga rak bátinn stjórnlaust og skip sigldu hjá. Ekkert þetta bauð fram hjálp. Ekkert þeirra hafði samband við öryggisgæslu eða björgunarlið. Eitt af öðru lét fólkið í bátnum lífið. Þau dóu úr þorsta og hungri. Sum hentu sér í sjóinn. Þegar hjálpin loks barst höfðu 77 manns misst lífið. Aðeins fimm komust lífs af.

Afinn segir (í styttri endursögn):

Barnabarnið mitt dó kvalarfullum dauðdaga þó vel hefði verið hægt að hjálpa henni. En ég syrgi ekki einungis hana heldur hvert einasta fórnarlamb lokaðra landamæra og ótta og öryggisleysis margra Evrópubúa gagnvart þeim sem eru ólík þeim. Ég tel ekki að Evrópubúa skorti kjark eða siðgæðisvitund. En þessi nýja tegund afskiptaleysis gagnvart fólki er hættulegri en hatur. Ef þú hatar einhvern viðurkennir þú í það minnsta tilvist viðkomandi. En ef þér er alveg sama eiga þau sér enga tilvist í huga þér. Það er hættulegt viðhorf.

IV Daginn í dag, þann 19. júní, nefnum við Íslendingar kvenréttindadaginn vegna þess að þann dag árið 1915 voru undirrituð lög um kosningarétt íslenskra kvenna eldri en 40 ára. Ég hef núna í júní reynt að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á bágborinni stöðu stúlkna og kvenna víða um heim með því að setja inn færslur á Facebook um ýmis svið þar sem brotið er á réttindum kvenna, líkama þeirra og frelsi. Þessar hugleiðingar eru byggðar á efni frá 2006 sem nefnist „30 days of Prayer for the Voiceless, a voice for the voiceless.“ Þann 6. júní var viðfangsefnið konur og börn á flótta.

Samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eru um helmingur þeirra 20 milljóna manns sem skilgreind eru sem flóttafólk undir 18 ára að aldri. Mikil aukning hefur verið á konum og börnum í hópi þeirra sem koma til Evrópu til að leita hælis það sem af er þessu ári. Ein af hverjum tíu þessara kvenna er þunguð samkvæmt nýlegri frétt á International Business Times sem eykur enn á óöryggið. Konur og börn sem hrakist hafa frá heimilium sínum eru í mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi, einnig innan flóttamannabúða.

Það er gleðilegt að utanríkisráðuneytið hefur nú þegar ráðstafað stórum hluta af þeim hálfa milljarði sem því var falið að miðla áfram til að aðstoða flóttamenn frá Sýrlandi á vettvangi, innan landamæra og í nágrannaríkjunum. Biðjum fyrir því að þetta framlag okkar Íslendinga megi nýtast sem best og eins að þau sem hingað hafa komið til búsetu megi finna væntumþykju landans og láta sér þykja vænt um okkur á móti. Og biðjum um vernd fyrir þau sem ekki hafa enn eignast skjól, að Guð heyri grát konunnar og barnsins sem bíða þess eins að deyja í eyðimörkinni (1Mós 21.14-21).

Bænarefnin eru mörg. Kynlífsþrælkun, HIV, heimilisofbeldi, fóstureyðingar, m.a. vegna fátæktar og vals á kyni fósturs, átröskun, innilokun kvenna (purdah), launamisrétti, sifjaspell, ófrjósemi, klám, hungur, mansal, kynfæralimlestingar, mæður á unglingsaldri og einstæðar mæður, „heiðursmorð“, vændi, stríð, nauðgun, heimanmundur, týndar konur, skortur á menntun, þrældómur. Sumt af þessu er svæðisbundið, bundið hefðum og stundum trúarsiðum, annað er fylgifiskur hnattvæðingar og græðgi og enn annað sameiginlegur vandi stúlkna og kvenna um allan heim.

Gleymum því ekki að sumar og líklega margar af þeim konum sem látið hafa lífið á flótta sínum til Evrópu hafa lagt af stað í þá för í leit að betra lífi fyrir sig og börn sín, ekki síst dæturnar; ekki bara efnahagslega heldur lífi sem leyfir hæfileikum hvers og eins að blómstra án lögmáls og kúgunar. Hver getur láð þeim það?

V Við biðjum: Guð, þú sem eitt sinn varst lítið barn á flótta. Við biðjum fyrir öllum þeim sem flýja ofsóknir, kúgun og vonleysi. Guð, þú sem leiddir fólkið þitt í gegn um eyðimörkina. Við biðjum fyrir öllum þeim sem eru týnd í eyðimörk eða hverfa í einskismannslandi við landamæri. Guð, þú kallaðir feður okkar og mæður til að leita nýs upphafs í nýju fyrirheitnu landi. Við biðjum fyrir öllum þeim sem hafa haft kjark til að leita nýs upphafs í nýju landi. Guð, þú sem breyttir storminum í blíðan blæ og öldur hafsins lægði (Sálm 107.29). Við biðjum fyrir öllum þeim sem rekur hjálparvana um höfin og drukkna í öldunum. Við biðjum í nafni Jesú Krists.

Við biðjum: Guð. Við biðjum fyrir þeim sem syrgja ástvini sem látist hafa á leið til Evrópu, fyrir foreldrum, börnum, ættingjum og vinum. Mættu þeim í sorg þeirra og huggaðu þau. Vertu með þeim þegar þau gráta, þerraðu tár þeirra. Lyftu þeim upp úr dýpi sorgarinnar inn í frið þinn og ljós nærveru þinnar. Faðir miskunnarinnar, Guð allrar huggunar, við biðjum þig að gefa þeim von og kjark sem enn vænta þess að hitta ástvini sína sem þau hafa orðið viðskila frá á flóttanum. Við biðjum í nafni Jesú Krists.

Við biðjum: Guð. Leyfðu okkur ekki að láta undan þeirri freistandi tilhugsun að við getum ekki gert neitt sem skiptir máli. Hjálpaðu okkur til að vinna bug á afskiptaleysinu, svo að við gerum það sem við getum gert. Við getum beðið hvert fyrir sig og saman. Við getum verið rödd þeim raddlausu. Við getum heiðrað minningu þeirra sem látist hafa svo þau gleymist ekki. Við getum stutt þau sem eru á staðnum til að hjálpa flóttafólkinu. Við getum boðið flóttafólk velkomið í kirkjurnar okkar. Við getum stuðlað að því að stjórnvöld beiti sér fyrir hjálp til flóttafólks, ekki síst þeirra sem eru í lífshættu á hafi úti. Við biðjum í nafni Jesú Krists.

Bæn frá biskupi Íslands vegna morðanna í Orlando: Heilagi Guð allrar miskunnar. Frammi fyrir augliti þínu minnumst við með hryllingi atburðanna í Orlando síðastliðinn sunnudag. Send huggun þína og miskunn ástvinum þeirra sem dóu í árásinni, send þeim opinn faðm og huggandi hönd. Við áköllum þig um hjálp og styrk í ótta og reiði barna þinna vegna hatursglæpa og ofbeldisverka af öllu tagi, og hverskyns ofbeldis og ranginda sem samkynhneigt fólk verður að þola hvarvetna í heiminum. Drottinn Guð. Hindra útbreiðslu haturs og fordóma en laða fram hið góða og kærleiksríka með öllum mönnum.

Fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.