Hundalógik

Hundalógik

Hneykslan blaðamannsins virðist eiga sér rætur í því að þar sem hann telur þjóðkirkjuna njóta forréttinda á margan hátt sé fáránlegt að biskup veki athygli á umræddum áróðri.
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
13. apríl 2012

Molahöfundur „Frá degi til dags“ á leiðaraopnu Fréttablaðsins þ. 10. apríl s.l., kolbeinn@frettabladid.is, stendur á öndinni af vandlætingu yfir því sem hann kallar páskaávarp biskups Íslands. Það sem veldur andnauð molahöfundarins er að biskup skuli leyfa sér að vekja athygli á skefjalausum áróðri gegn kirkju, hinum kristna sið og trúarhefðum. Hneykslan blaðamannsins virðist eiga sér rætur í því að þar sem hann telur þjóðkirkjuna njóta forréttinda á margan hátt sé fáránlegt að biskup veki athygli á umræddum áróðri. Til að leggja áherslu á hversu fáránlegt athæfi biskups er, jafnar hann því saman ef nafngreind fótboltahetja hefði kvartað undan því að fá ekki fleiri vítaspyrnur í tilgreindum knattspyrnuleik.

Ég skal fúslega játa að ég er hvorki blaðamaður né knattspyrnuáhugamaður, en ég á erfitt með að höndla röksemdafærsluna. Merkir þetta að vegna þess að kirkjan nýtur meintra forréttinda sé það frekja af biskupi að vekja athygli á linnulausum áróðri vissra aðila gegn kirkju og kristni? Ergo: Íþróttahreyfingin nýtur á margan hátt forréttinda miðað við önnur frjáls félagasamtök í landinu. Ef einhverjum dytti í hug að halda uppi linnulausum áróðri gegn hreyfingunni, væri það frekja af forystumönnum hennar að svara þeim áróðri. Hvílík röksnilli!

Hættumörkum ná þó andköf molahöfundarins vegna athugasemda biskups við niðurlægjandi ásökunum um hræsni fermingarbarna, þar sem því er haldið fram að þau láti fyrst og fremst ferma sig til að fá gjafirnar. Þetta verður molahöfundi tilefni til talnaleikfimi sem skilar þeirri niðurstöðu að fermingarbörn gætu hugsanlega verið um 82,8% af árgangi. Niðurstaða molehöfundar er sú að þetta hljóti að vera „mest ofsótti meirihluti í heimi, ef marka má orð biskups.“

Á að skilja þessi orð þannig að allt sé í lagi að niðurlægja fermingarbörn af því að þau eru svo mörg? Eða: Það er allt í lagi að kasta grjóti ef hópurinn sem verður fyrir grjóthríðinni er nógu stór! Það er allt í lagi að niðurlægja fólk, ef nógu margir eru niðurlægðir í einu! Þessi röksemdafærsla er tær snilld og skólabókardæmi um þá röksnilli sem kölluð hefur verið hundalógik (sjá Íslenska orðabók, Edda 2002, bls. 663).