Það er von í vatninu

Það er von í vatninu

Það er von í vatninu. Það er líka von í öllum fermingarbörnunum sem fyrir skemmstu söfnuðu mörgum milljónum króna til þess að gefa deyjandi fólki líf og von með vatni. 
Þau hafa með því sett af stað læki lifandi vatns í eftirfylgdinni við hina sönnu uppsprettu.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
27. nóvember 2011

Kristján Valur IngólfssonJólaundirbúningurinn er þegar hafinn fyrir löngu. Allavega hinn ytri undirbúningur. Hinn innri og trúarlegi undirbúningur hefst með fyrsta sunnudegi aðventunnar, þegar minnst er komu Krists til kirkju sinnar með sama hætti og innreiðarinnar til Jerúsalem á pálmasunnudag.

Henni er lýst í guðspjallinu eins og gert er  hjá  Sakaría spámanni: Sjá konungur  þinn kemur  til þín. Réttlátur  er hann og  sigursæll,  hógvær  og ríður  asna. Marteinn Lúther  notaði ekki orðið sigursæll. Hjálpari er hann, segir  Lúther.  Þannig er það líka orðað í  Guðbrandsbiblíu: Þinn konungur  kemur  til þín, réttlátur  og  einn hjálpari.

Það er mynd frelsarans sem hjálpara sem fellur best að tilefni þess að söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar á jólaföstu hefst formlega fyrsta sunnudag í aðventu. Hjálparráð heimsins er Jesús Kristur . Þau sem þjóna honum vilja með honum finna hjálparráð.

Yfirskrift söfnunarinnar í ár er Gefðu lífsvon – gefðu vatn. Æ meir verður fólki ljóst að dýrmætustu auðævi jarðar eru ekki geymd í bönkum og kauphöllum, heldur í lífinu sjálfu. Án vatns er ekkert líf. Sérstaklega í Austur-Afríku  deyr fólk úr hungri á hverjum degi. Þúsundir deyja. Börnin fyrst. Til þess að reyna að forða fleirum frá dauða vinnur Hjálparstarf kirkjunnar að því að tryggja fæðu og hreint vatn og bjarga þannig mannslífum. Við erum sannarlega ekki öll rík í þessu landi í almennum skilningi þess orðs.

En við getum, ef við viljum og megum vera að, staðið allan daginn undir sturtunni og leikið okkur með vatnið eins og okkur lystir. Við eigum svo mikið vatn að sagt er að reglur Evrópusambandsins um þessa dýrmætu auðlind geti ekki gilt um okkur. Að því leyti erum við öll rík andspænis þeim sem búa við þurra brunna og örfoka gróðurlaust land, fallinn búpening og deyjandi fólk. Samt gerist það æ oftar hin síðustu ár að við fréttum af vatnsskorti á vissum svæðum okkar eigin lands, og á þurrustu svæðum fýkur burtu engu minna land en þar sem landeyðing er mest í heiminum.

Öllu hugsandi fólki er ljóst samhengið milli lífs og vatns. Kristið fólk sér að auki samhengið milli vatnsins og trúarinnar á Jesú Krist.

Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: „Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín og drekki. Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.“(Jóh.7.37-38)

Það er von í vatninu. Það er líka von í öllum fermingarbörnunum sem fyrir skemmstu söfnuðu mörgum milljónum króna til þess að gefa deyjandi fólki líf og von með vatni. Þau hafa með því sett af stað læki lifandi vatns í eftirfylgdinni við hina sönnu uppsprettu.