Börn Guðs

Börn Guðs

Jesús sagði: Ég er ljós heimsins… og hann sagði að við ættum að ganga í ljósinu svo við verðum ljósssins börn… því að sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hannn er að fara.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
14. febrúar 2021

Sunnudagur í föstuinngang (Estomihi) Krossferillinn - Vegur Kærleikans
Jes 57:13-15, Hebr 12:7-13 og Jóh 12:23-36


Prédikun….      Börn Guðs …

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

 Þema þessa sunnudags er: Vegur kærleikans og við ætlum að íhuga kærleika Guðs… Á föstunni heyrum við texta sem eru varnaðarorð og til umhugsunar… eins og… erum við að stefna í rétta átt?

Fyrri ritningarlesturinn byrjaði á þessum orðum: Lát skurðgoðaflokk þinn bjarga þér þegar þú hrópar á hjálp. Stormurinn ber hann burt, vindurinn tekur hann.. en sá sem leitar hælis hjá mér mun erfa landið og taka mitt heilaga fjall til eignar… Guð talar um skurðgoðaflokk… því Guði fannst alltof margir setja allt sitt traust á stokka og steina, styttur og goð… í stað þess að treysta á hann. Og fólki er vorkunn, þar er ekki sama hvar í heiminum eða inn í hvaða trúarbragð maður fæðist… Við erum heppin að þjóðin okkar á að heita kristin, þó fjöldi þeirra sem eru í kristnum trúfélögum fari sífellt minnkandi. Guð varaði okkur við að blanda ekki saman átrúnaði. Við getum ekki valið það sem okkur hentar úr hverju trúarbragði og steypt saman í eitt… því Guð deilir ekki plássi með hjá-guðum manna,

Í síðari lestrinum las ég: Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og börn sín. Öll börn búa við aga. Ef Guð agar ykkur ekki þá eru þið ekki börn hans… Tilvitnun lýkur….. Við erum börn Guðs… það er ekki fyrir neitt sem við köllum Guð… Guð föður… og biðjum: Faðir vor á himnum… og játum trú á Guð föður, skapara himins og jarðar… En hvernig vitum við að við erum börn Guðs?

Fræðimenn hafa skipt biblíulegum tímabilum í þrennt… Fyrsta tímabilið, var frá sköpun heims og þar til Móse kom niður af fjallinu með Boðorðin 10 og lagaákvæði um fórnir… fram að þeim tíma voru engin skráð lög í gildi. Annað tímabilið er frá því að Móse las lögin fyrir fólkið… því þá tóku þau gildi og þar til Jesús dó á krossinum… Þriðja tímabilið er frá því Jesús dó… sem sagt, þar til NÚNA… svo, hvaða lög tóku gildi þegar Jesús dó og hvað gerir okkur að Guðs börnum???

Ég ætla að reyna að smækka myndina eða draga ferlið saman og setja í samhengi við okkar reynslu og þekkingu… svo… horfum á söguna þannig… að Guð faðir, eignaðist börn, Adam og Evu… og nákvæmlega eins og þegar við eignumst börn… eru fyrst engar reglur. Reglurnar á heimilinu verða til jafnóðum og barnið brýtur af sér… er það ekki? Við segjum ekki ungabarni í vöggu að það megi ekki toga í dúkinn, hlaupa út á götu, koma of seint heim á kvöldin eða að það eigi að læra áður en það fer út að leika sér… nei, reglur verða til jafnóðum og þeirra er þörf.

Nú lifir Guð ekki í sama tímarúmi og við. Hann býr í eilífð, svo það liðu árþúsundir frá sköpun heims og þar til Móse sótti boðorðin 10 og lögin upp á fjallið. Lagabálkurinn um samfélagsreglur og fórnir, var flókinn… en hefur örugglega spannað allt sem fólkið þurfti… en hvað gerðist?  Með tímanum sá Guð að þessar reglur dugðu ekki… Börnin hans voru komin í tómt rugl… og því miður gerist það á bestu heimilum að reglurnar okkar duga ekki…þær eru þverbrotnar og þá verður barnið að fá að reka sig á, og taka afleiðingum gerða sinna. Börn Guðs, hin útvalda þjóð sem Guð kallaði Ísrael, þ.e.a.s. gyðingar, voru búnir að missa sjónar af því sem Guð ætlaði þeim… en kærleiksríkt foreldri gefst ekki upp við að reyna að bjarga barninu sínu frá glötun… svo Guð innleiddi nýja áætlun, Hann ákvað að senda son sinn í heiminn… og einfalda reglurnar um leið…

Og þetta vers, Jóh 3:16 er kallað ,,Litla Biblían” er frelsunaráætlun Guðs í hnotskurn… Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn, svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.. Þjóðin sem ráfaði í myrkri, fékk nýtt tækifæri til að verða Guðs barn aftur… og um leið var öllum öðrum mönnum gefið sama tækifæri… fagnaðarerindi Jesú Krists er ,,tilboð” sem við látum ekki framhjá okkur fara… Núna getur hver sem er … vegna trúar á Jesú… verið ættleiddur af Guði… Guð, eins og aðrir foreldrar vill halda sambandi við börnin sín og gefa þeim kost á að halda sambandi við sig, án fjárútláta og fórna, þess vegna kostar ekkert að vera Guðs barn… nema ,,vinnu”. Við þurfum að rækta sambandið við Guð, rétt eins og við heimsækjum afa og ömmu, pabba og mömmu, systkini og vini okkar, þá þurfum við að hafa aðeins fyrir að halda sambandi við Guð. Eini munurinn er… að við þurfum ekki að fara neitt… Guð er alltaf með okkur. Við getum lesið okkur til um hann heima, en við fáum kannski víðari skilning eða uppgötvum ný sjónarhorn ef við mætum í kirkju. Guð mætir okkur þar sem við erum stödd… og við þurfum að vera tilbúin að leyfa honum að leiða okkur.

Jesús sagði: Ég er ljós heimsins… og hann sagði að við ættum að ganga í ljósinu svo við verðum ljósssins börn… því að sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hannn er að fara. Lög Guðs sem gilda núna eru þessi: að hver sem trúir á Jesú Krist glatast ekki heldur hefur eilíft líf… Höfum því Jesú í hjartanu, ræktum sambandið, göngum á Guðs vegum, göngum í ljósinu… því að þá erum við ættleidd börn kærleiksríks föður okkar á himnum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen