Kennimaðurinn Sigurbjörn Einarsson

Kennimaðurinn Sigurbjörn Einarsson

Tvö meginstef eru í ræðum Sigurbjarnar: Guð og maður. Manninum lýsir hann gjarnan sem flóttamanni frá eigin skynsemi, samvisku, köllun og þar með Guði. Sigurbjörn dregur þessa flóttamenn saman í samnefnaranum sem ert þú og ég.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
19. nóvember 2006

Með börnum

Sigurbjörn bjó á Tómasarhaga þegar ég var barn og hann var nýorðinn biskup. Hann hafði tíma fyrir okkur smáfólkið í götunni. Ekki man ég okkar fyrsta fund, en mér skilst að Sigurbjörn hafi stoppað þar sem ég var að leik. Ég horfði upp á þennan góða granna og spurði kotroskinn: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Ég heiti Sigurbjörn og er stundum kallaður biskup. En hvað heitir þú?" Og ég svaraði í sömu mynt. "Ég heiti Sigudur Ádni en er oftast kallaður Litli!" Þetta þótti Sigurbirni fyndið og sagði frá orðaskiptum heima og sagan barst svo til mín áratugum síðar.

Í Skálholti fylgdist ég nokkur ár með mannakomum. Þegar margmenni var á staðnum fundu börnin hvert annað, kollega- og vinahópar sömuleiðis og prestarnir skutu á prestafundum. Allir vildu njóta Sigurbjarnar, hann var svo skemmtilegur. En svo fór jafnan að það var sem Sigurbjörn gufaði upp. "Hvert fór Sigurbjörn, biskup?" spurði fólk. Hann rölti engan stofugang á milli hópanna. Nei, hann fór þangað sem börnin voru. Þar var hægt að ganga að honum vísum. Alltaf snart mig þessi barnaför hans. Mér fannst hann prédika með orðlausri barnasókn erindi Guðs til mannabarna. Atferli sýnir innri mann. Sigurbjörn var og er helst þar sem manneskjan er grímulaus, þar sem mannssálin er opin og heiðríkja himinsins fær tiplað meðal mannabarna á jörðinni.

Fræðimaðurinn

Sigurbjörn hafði metnað til náms og naut góðrar menntunar, var og er flestum víðfeðmari hvað fræðin varðar. Hann er öflugur málamaður, frábær ritskýrandi, aflaði sér víðtækrar og líka djúptækrar þekkingar í klassískum fræðum, trúarbragðasögu, trúfræði, heimspeki og hugmyndasögu og svo auðvitað öllum hinum kennimannlegu og þjóðlegu fræðum, sem nýtast mega presti. Um listrænu þarf ekki að fjölyrða, hún var honum gefin og hann hefur iðkað hana alla ævi.

Prédikunarháttur

Stefjavinnsla einkennir predikanir Sigurbjarnar. Hann dregur gjarnan út eitt meginstef og sniðlar með handbragði listamannsins. Dægurmál speglar hann í biblíutextum, ræðir siðferðileg úrlausnarefni, höfuðkenningar kristninnar o.s.frv. en aldrei þó þannig, að rammi textans sé sprengdur eða týndur. Hinar tematísku predikanir eru engar tilraunir með þanþol trúar eða tilheyrenda. Þær eru biblíulegar, tala úr heimi trúarinnar, Guðsreynslu Ritningarinnar.

Sigurbjörn færir hinn biblíulega heim til samtals við samtíma sinn, heldur þeirri samræðu árangursríkri, vegna þess hversu vel hann fótar sig í báðum heimum. Hann hefur reynt sannleik trúarinnar á Jesú. Predikanir hans eru fluttar af sannfæringu þess, sem hefur verið höndlaður og meinar það, sem hann segir.

Guð og flóttamaður

Tvö meginstef eru í ræðum Sigurbjarnar: Guð og maður. Manninum lýsir hann gjarnan sem flóttamanni frá eigin skynsemi, samvisku, köllun og þar með Guði. Sigurbjörn dregur þessa flóttamenn saman í samnefnaranum sem ert þú og ég. Hann segir:

"Er Guð þá ekki sæll, hinn ríki, voldugi konungur alheimsins? Nei, ekki á meðan þú ert ekki sæll, ekki á meðan hann vantar þig, ekki á meðan hann, Guð þinn og Faðir, er þér ekki annað en nafn, óljós grunur, reikul þrá - á meðan er Guð hryggur, hryggur yfir þér. Það er fylgst með þér úr himnunum."
Í prédikunum minnir Sigurbjörn á, að mannshjartað er svipað nú og fyrr, í gleði, synd og sælu, ást og hatri. Móðirin lætur eins að barni sínu, elskhuganum er líkt innanbrjósts og fyrir öldum, morðinginn, þjófurinn, sælkerinn, svíðingurinn og kúgarinn eru áþekkir innvortis. Við fæðumst ekki með hátíðlegri hætti en áar okkar og eddur. Á banasænginni erum við í sömu sporum og þau. Bílar, tækni og tannburstar breyta engu um hver við erum. Þetta dregur Sigurbjörn allt upp  - Guð er og maðurinn á enga flóttaleið frammi fyrir þeim altæka veruleika.

Gefast upp - ávinna allt

Ræður Sigurbjarnar eru öflugir kastarar, sem beint er að hvers konar hrófatildri mannanna. Predikanirnar opinbera sjálfumgleði okkar og hroka. Sigurbjörn bendir á hið skýra viðmiðið og að Guð bjóði mönnum að ávinna allt, hamingju, tilgang, sanna mennsku - trúa á Guð. Þar með eru mannlýsingar Sigurbjarnar ekki sálfræði, túlkunarfræði, meðferðaraðferð eða heimspekikenning heldur kristindómur, persónuleg játning um hvað reyndist honum, já milljónum fyrr og síðar, lausn alls vanda, tjáning þess að Guð elskar og leitar þín - að Guð gefst ekki upp og svíkur aldrei.

Mál og stíll

Prédikanir Sigurbjarnar eru málfarsundur. Hann leikur sér með nýyrði, splæsir vel saman óvænt efni og úr óskyldum merkingarheimum og hefðum. Meitlaðar setningar og hlýjar orðstrokur sækja svo inn í tilheyrendur og lesendur. Andstæður, sem Sigurbjörn dregur oft fram, eru gjarnan í bland við íróníu. Kaldhæðni á hann ekki til þótt hann greini og tjái hið kostulega og stundum ógnvænlega.

Andstæður glenna upp augu manna gagnvart hinu ótrygga lífi og hæpinni stöðu. Sigurbjörn prédikar:

"...allt, sem eftir oss liggur í hinum sýnilega heimi, týnist með kulnuðum eða logandi hnetti út í tómið, með jörð, sem hefur lokið ætlunarverki sínu og verður köld og dimm og líflaus eyðistjarna á öræfaslóðum geimsins, eða blossar upp og hverfur samstundis. En yfir oss hvílir annað og meira en hverfulleiki duftsins, sem vér lifum í og fæðumst og nærumst af. Yfir oss hvílir auglit hins eilífa og orð hins eilífa í náð og í dómi."
Líkingar og umræðuefni Sigurbjarnar koma oft á óvart og eru hnittin eða fyndin.
"Líf flestra manna er líkast kirkjusvefni. Þeir sofa þangað til sagt er "amen". Þá hrökkva þeir upp. En þá er um seinan að heyra eilífðarboðskapinn og taka á móti blessuninni frá Drottni. Þannig vaknar margur þá fyrst, þegar dauðinn nálgast og segir sitt amen yfir lífi þeirra."
Slíkur texti skemmtir, en undir er djúpur hylur myrkrar alvöru. Aðferðin er hin sama og í Vídalínspostillu, kímni er beitt, sem opnar. Íhugun vaknar. Og boðskapurinn er eins og kjarni í texta þessa sunnudags, líkingasögunni um meyjarnar tíu.

Sálgæsluprédikun

Einkennandi stílbragð predikana Sigurbjarnar er notkun "ég" og "þú" fornafnanna. Saga Jesú er ekki forn saga, heldur saga um þig. Dæmi úr heimi Biblíunnar, sagnir af kraftaverki, af stjórnmálum eða vandkvæðum eru allt í einu innanhúsmál þitt, varða samskipti þín við maka þinn, börn, stöðu þína, best földu leyndarmál þín og grafin gull hjarta þíns. Predikun Sigurbjarnar verður svo áleitin vegna þess að hann beinir ræðu í farveg einkasamtals tveggja vina. Prédikanirnar þjóna því sálgæsluhlutverki. Þær eldast því vel, eru orðnar klassík, sem megna að upplýsa lífsbaráttu okkar og trú nú og áfram.

Skilaboðin frá Guði

Frá upphafi og alla tíð hefur Sigurbjörn Einarsson vitað, að hlutverk hans væri, "að flytja skilaboðin frá Guði." Hann hefur sjálfur verið holdgervingur þess elskuboðskapar. Hann hefur ekki aðeins fundið okkur litlu börnin, heldur líka orðið okkur staðgengill eða ásjóna Guðs. Hann hefur ekki aðeins verið kallaður biskup, heldur hefur sjálfur verið opin sál, lifað í hinni grímulausu heiðríkju himinsins og því orðið hirðir þjóðar. En hann hefur líka orðið í hugum okkar helgur maður. Ef við viljum finna Sigurbjörn Einarsson er ráð að fara þar sem börnin eru, þá skiljum við líka merkingu þess að trúa - meðal fólks, fyrir fólk og Guði til dýrðar. Gott, þú góði trúi þjónn.