Lífið frá öðru sjónarhorni

Lífið frá öðru sjónarhorni

Þetta er mikil áskorun en jafnframt mikil traustsyfirlýsing sem sýnir hve mikilvæg kristin kirkja er í þessu þjóðfélagi og sá kristni arfur sem íslenskt samfélag og menning byggja á. Hún ber þá ábyrgð að varðveita og rækta heilbrigt gildismat þjóðarinnar.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs. Jóh. 6.47-51

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á náttborðinu hjá mér er nýleg bók um kirkjuna í Kína. Saga kirkjunnar þar í landi er þyrnum stráð og margir hafa látið lífið eða verið dæmdir til fangavistar og þrækunarvinnu fyrir það eitt að vilja ganga veg kristinnar trúar þar í landi. Oft hafa þeir verið sakaðir um að vera handbendi heimsvaldasinna því að trúin sé ókínversk. Lengi var lítið vitað um stöðu kristninnar í Kína en flestum kirkjum var lokað í menningarbyltingunni. Það er bara á allra síðustu árum að fengist hefur nokkur yfirsýn yfir stöðu hennar. Höfundur bókarinnar greinir frá því að kristin kirkja í landinu sé í óðavexti um þessar mundir og að almennt megi segja að starf hennar sé látið óáreitt. Sumir spá því að þegar líða taki á þessa öld verði þetta fjölmennasta ríki veraldar og verðandi mesta stórveldi heims, orðið kristið. Athyglisvert er að trúin breiðist hratt út, sérstaklega á meðal menntafólks og forkólafa atvinnulífsins. Hvers vegna? Vegna þess, segir höfundur, að fólk lítur til Vesturlanda og spyr hver lykillinn að velgengni þjóðanna þar sé. Svarið er að það sé hin kristna trú og ávextir hennar, heiðarleiki og vinnusemi. Höfundur tekur mörg um það hvernig trúverðugleiki kristins fólks hefur hrakið fordóma í þeirra garð og skapað tiltrú og trúverðugleika í Kína á undanförnum árum. Árið 1998 urðu meiri flóð í landinu en verið hafði um 50 ára skeið sem snertu um 200 milljónir manna. Þá brugðust kirkjurnar við og söfnuðu háum fjárhæðum til hjálparstarfs og gáfu mat, meðöl og teppi til nauðstaddra. Þetta vakti mikla athygli í landinu og nú er svo komið að litið er til kristins fólks sem fyrirmyndarborgara í Kína. Fórnarlund þess er við brugðið og í hrópandi andstöðu við mútuþægni og hræsni opinberra starfsmanna sem oft fylgja stefnu yfirvalda aðeins í orði kveðnu.

Á fimmtudagskvöldið var merkur málfundur í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnafjarðarkirkju, er fulltrúar stjórnmálaflokkanna og nýju framboðanna fjölluðu um efnið Siðferði og samfélag. Það var áhugavert að hlusta á framsögur þessa ágæta fólks sem vill vinna að heill þjóðarinnar og á umræður viðstaddra. Frummælendur beindu flestir eindregnum óskum til kirkjunnar, að hún tæki forystu í umræðunni um endurreisn gildismats þjóðarinnar því að hér hefði orðið siðrof, hrun gildismats. Heiðarleiki og samstaða með náunganum vék fyrir græðgi og eigingirni og leiddi til gegndarlausrar spillingar sem dæmin úr svo að segja hverjum fréttatíma sanna. Einn framsögumannanna tók þannig til orða að kirkjan ætti að sýna hvaða merkingu gildi sem við viljum öll byggja á hafi nú. Frummælendurnir vildu að kirkjan talaði einnig gegn því sem er augljóslega rangt. Þetta er mikil áskorun en jafnframt mikil traustsyfirlýsing sem sýnir hve mikilvæg kristin kirkja er í þessu þjóðfélagi og sá kristni arfur sem íslenskt samfélag og menning byggja á. Hún ber þá ábyrgð að varðveita og rækta heilbrigt gildismat þjóðarinnar.

Það er því dapurt hve mikinn hljómgrunn lítil samtök eins og Siðmennt hafa meðal þjóðarinnar sem reyna allt sem þau geta til að grafa undan trúverðugleika kirkjunnar og iðkunar kristinnar trúar á opinberum vettvangi þjóðfélagsins. Þeirra æðsta viðmið er maðurinn og skynsemi hans, sem er mjög brigðul eins og sagan sýnir.

Kristin trú varðar manninn allan og alla sköpun Guðs. Kristin trú er í hæsta máta pólitísk en guðsríkið er ekki af þessum heimi og því ofan við mannlega flokka. Því getur kristið fólk haft mismunandi skoðanir á því hvernig best er að haga málum í samfélaginu. Þó að prestar eigi ekki að vera flokkspólitískir í prédikun geta geta þeir þurft að vera pólitískir á stundum þegar þeir fjalla um mál eins og t.d. réttlæti, heiðarleika og náungakærleika.

Textarnir í dag eru gott innlegg í umræðuna um gildismat og hvað sé aðalatriði í lífinu og hvað ekki. Guðspjallið er í framhaldi af frásögninni af brauðundrinu, er Jesús mettaði 5000 karlmenn auk kvenna og barna. Hann segir í guðspjallinu: „Ég er brauð lífsins… Ég er hið lifandi brauð… Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu.“ Hann setur sig í brennipunkt og afstaðan til hans varðar heill og hamingju, líf og dauða.

Í frásögunni af brauðundrinu er sagt frá því að Jesús breytti fimm byggbrauðum og tveimur smáfiskum í máltíð fyrir allan mannfjöldann. Allir máttu borða eins og þeir gátu í sig látið en samt var afgangur, 12 körfur af brauði. Þetta vakti slíka athygli að Jesús gerði sér grein fyrir að mannfjöldinn ætlaði gera hann að konungi með valdi og forðaði sér enda var hann ekki kominn til að verða veraldlegur konungur. Það væri ekki amalegt að hafa konung sem töfraði fram lífsnauðsynjarnar. Vildum við ekki hafa þannig forseta nú í efnahagslægðinni?

Jesú er lýst í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls sem eins konar nýjum Móse. Ýmsar skírskotanir eru þar til Móse og til Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Brauðundrið fór fram uppi á fjalli, Móses fékk lögmálið á Sínaí-fjalli. Móse brauðfæddi Ísrelsþjóðina í eyðimörkinni, Jesús er hér á óbyggðum stað og gaf fólkinu að borða. Það er ekki tilviljun að lexían í dag segir einmitt frá manna og hvernig fólk átti að bera sig að við að tína það. Grudvallarreglan var sú að hver og einn átti bara að safna einum gómer á mann, sem samsvarar um tveimur lítrum. Það var nóg handa öllum og enginn leið skort. Úr þessu var bakað brauð. Fólki átti að safna tvöföldum skammti fyrir hvíldardaginn. Þeir sem voru gráðugir og söfnuðu meira en þeir þurftu græddu ekkert á því því að mjölið skemmdist og varð maðkétið. Í lexíunni segir: „[G]ekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. “

Í pistlinum talar Páll um að við eigum ekki að líta aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Við eigum að vera með sama hugarfari sem Kristur Jesús var en hann gaf sjálfan sig í þágu annarra, allra manna. Hér er klárlega talað gegn eigingirni og fyrir því að við berum virðingu og umhyggju fyrir náunga okkar. Við eigum að sýna hóf, en hófstillingin er ein af höfuðdyggðum kristinnar trúar.

Aftur að guðspjallinu. Jesús segir að það hafi ekki verið Móse sem gaf Ísraelsmönnum manna í eyðimörkinni heldur Guð. Og þó að Guð hafi fætt þá öll árin með þessu himneska brauði hafi þeir orðið gamlir og dáið eins og annað fólk. Nú bendir hann á aðra fæðu sem hefur varanlegt gildi og veitir eilíft líf. Það er hann sjálfur. Hann er lifandi brauð frá himni. Hann er frá Guði kominn. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu, segir hann. Jesús gefur líf sem ekki er annars staðar að fá.

Í Afrískri kristni er lögð áhersla á að kristin trú sé ekki bara einstaklingstrú heldur hins kristna safnaðar í heild. Þar er vestræn einstaklingshyggja yfirleitt mjög framandi. Mikilvægi samfélagsins og samheldninnar er þar aldrei nógsamlega undirstrikað. Orð guðfræðingsins Johns Mbitis „I am because we are“ eða ég er það sem ég er í krafti samfélagsins, eru löngu fræg orðin. Tengslin við náungann skiptir höfuðmáli. Kristin trú vinnur að lækningu samskipta okkar á meðal, við eigum að fyrirgefa hvert öðru, bera virðingu og umhyggju hvert fyrir öðru og elska hvert annað. Þannig hefur trúin áhrif, í okkar nánanasta umhverfi og út í þjóðfélagið.

Hvað vill Jesús kenna okkur í dag?

Að hann sé lykillinn að lífinu, hjálpa okkur að sjá það út frá sjónarhorni hans. „Sá sem ætlar að finna líf sitt týnir því,“ sagði hann, „og sá sem týnir lífi sínu mín vegna finnur það.“ Hann sagði um sauði sína: Ég er kominn til þess að þeir hafi líf í fullri gnægð. Hann er uppspretta hins sanna lífs. Jesús gefur okkur samband við Guð sem skapaði okkur til samfélags við sig og farsældar hvert með öðru. Hann er sem kærleiksríkur faðir sem er ávallt reiðubúinn til að taka á móti okkur og sýna okkur ástúð, fyrirgefa okkur syndir okkar og gefa okkur styrk í lífsbaráttunni. Við sem erum hér í kirkjunni í dag erum á mismunandi stað í lífinu, sum okkar erum komin áleiðis önnur nýlögð af stað eins og til dæmis þið, verðandi fermingarbörn. Það er vitnisburður kynslóðanna að það sé mikil gæfa að hafa Jesú sem förunaut og leiðsögumann í gegnum lífið, sem við getum ávallt leitað til og sem vill hjálpa okkur að feta réttan veg.

Ég á góðan vin sem yfirgaf veg trúarinnar fyrir um ellefu árum. Hann var reiður út í Guð og menn, fannst að hann hefði verið beittur órétti. Í tíu ár einkenndist líf hans af reiði og biturleika. Hann var neikvæður og og setti sig ekki úr færi við að rakka trúna niður og allt sem hún stendur fyrir. Eftir tíu ár var eins og hann vaknaði til lífsins. Hann gerði sér grein fyrir því að reiðin og biturleikinn var verst fyrir hann sjálfan og tærði hann smátt og smátt upp að innan. Eftir að hafa farið á 12-spora námskeið áttaði hann sig á stöðu sinni og viðurkenndi fyrir sjálfum sér og öðrum að hann væri á rangri braut. Fyrir einu ári ákvað hann að snúa við blaðinu og sneri sér aftur til Guðs, bað hann um að fyrirgefa sér og hjálpa sér að ganga veg hans. Hann hefur einnig beðið margt fólk fyrirgefningar. Maðurinn er allur annar núna og gerir það sem hann getur til að hjálpa vinum sínum í svipuðum sporum til að komast út úr myrkri inn í ljós Guðs. Hann sendi mér tölvupóst í vikunni með tilvitnun í rússneska rithöfundinn Dostojevski: „Að elska aðra manneskju er að sjá hana eins og Guð hafði hugsað sér hana.“ Þannig elskar Guð okkur. Þetta er sjónarhorn Jesú. Við lítum náungann og lífið öðrum augum út frá sjónarhorni hans. Reynum að gera það í vikunni.