Guðfræðiáhugi „Sænska dagblaðsins“

Guðfræðiáhugi „Sænska dagblaðsins“

Dag eftir dag birtast í „Sænska dagblaðinu“ áhugaverðar greinar um kirkju og kristni og ber ekki á öðru en að frjór jarðvegur sé fyrir slíkt hjá lesendum blaðsins. Einn dálkahöfundur blaðsins gerði þetta að umtalsefni um daginn og bar þennan „tíðaranda“ saman við umræðuna á liðnum áratugum þegar fáir virtust kæra sig um guðfræðilegar vangaveltur í almennum fjölmiðlum.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
26. febrúar 2002

Dag eftir dag birtast í „Sænska dagblaðinu“ áhugaverðar greinar um kirkju og kristni og ber ekki á öðru en að frjór jarðvegur sé fyrir slíkt hjá lesendum blaðsins. Einn dálkahöfundur blaðsins gerði þetta að umtalsefni um daginn og bar þennan „tíðaranda“ saman við umræðuna á liðnum áratugum þegar fáir virtust kæra sig um guðfræðilegar vangaveltur í almennum fjölmiðlum. Spurði hann hvort þetta væri ný bóla sem senn myndi hjaðna eða hvort raunin væri þveröfug. Kannske væri áhugaleysi fyrri kynslóða blaðamanna og lesenda aðeins tímabundið frávik frá hinu eðlilega: nefnilega því að fólk sem alið er upp í kristinni menningu kæri sig um að fylgjast með því sem henni tengist.

Þriðjudaginn 19. febrúar hófst umfjöllun um sorgina sem mun endast út nokkur tölublöð. Hver grein kemur til með að ná yfir heila opnu með viðtölum og ítarlegri samantekt sérfróðra um þann flöt sem fjallað verðu um í hvert skiptið.

Þessi sería hefst á þeirri yfirlýsingu að ekki sé til staðar neitt skipulegt starf í velferðarríkinu Svíþjóð fyrir syrgjendur - utan vébanda kirkjunnar. Rætt er við nýlofað par á áttræðisaldri, Kerstin og Sixten, sem kynntust í sorgarsamtökum kirkjunnar. Þau voru bæði roskin er þau misstu maka sinn og skynjuðu þá að enga aðstoð var að fá hjá félagsyfirvöldum í landinu. Þau stóðu skyndilega uppi ein í sinni sorg.

Í greininni lýsa þau hvernig samræðumeðferð prests breytti lífi þeirra. „Dag einn kemur ljósið“ mun klerkur hafa sagt við upphaf meðferðarinnar, en þau kváðust hvorugt hafa trúað þeirri forspá. Að lokinni meðferðinni hafði hins vegar myrkrið vikið burt úr lífi þeirra. Þau litu tilveruna bjartari augum og lífið fékk aftur tilgang sinn. Presturinn lagði hart að þeim að velja lífið og grípa þau tækifæri sem það býður upp á.

Í kjölfarið rugluðu þeir saman reitum sínum, þessir rosknu einstaklingar, og ákváðu að takast í sameiningu á við gleði sína og sorg - rétt ári eftir að makar þeirra kvöddu þennan heim.

Í framhaldi er tekinn upp þráðurinn frá því í byrjun árs er kyrrðardagar í Kumla klaustri voru í brennidepli.

Nú hefur annar hópur fanga klárað mánaðarmeðferð í klaustrinu í Kumla undir stjórn prestsins Truls Bernhold. 30 kyrrðardagar eru að baki og var klerkur inntur eftir því hvernig honum hefði þótt takast til með þennan hóp. Meðferðin þetta skiptið var erfiðari, enda hópurinn sundurleitari en sá fyrri. Bæði voru þeir ólíkrar trúar, af ólíkum uppruna og fjarri því allir töluðu sænsku. Biblíulestrar fóru t.a.m. fram á fimm tungumálum. Jafnvel þeir sem ekki voru kristinnar trúar töldu sig þó hafa haft mikið gagn af þessum tíma. „Þetta styrkir hann í trúnni um að andleg leiðsögn eigi að fara fram með opnum hætti og í allri auðmýkt.“ segir blaðamaður, „prestur í Sænsku kirkjunni getur jafnvel hjálpað þeim sem eru annarrar trúar“, bætir hann við.

Og heldur áfram, „Á meðan tungutak trúarbragðanna verður framandlegra samtímanum og erfiðara verður að miðla arfi þeirra kann lykillinn að vera í hinu andlega - ekki síst í þögninni. Tími og þögn kunna að vera grundvallaratriði í því skyni að nálgast hið andlega.“

Hvað verður nú um klausturverkefnið? TB er kominn í smá frí (ekki óalgengt hér um slóðir) en ætlar að reyna að skipuleggja skemmri samverur, jafnvel vikulegar.

Þetta eru spennandi tímar og margt er í boði. Sumt er framandlegt og annað kunnuglegt.

Sjálfsagt þarf kirkjan sem annað að endurnýja sig á degi hverjum en gæta þess þó að nýtt sé byggt á gömlum grunni. Tvenns konar hætta er alltaf yfirvofandi: Að daga uppi sem nátttröll, komið úr öllum kontakt við umhverfi sitt. Hitt er jafnógnvekjandi: Að kasta á glæ allri sérstöðu, sérkennum og um leið öllum tilverurétti í viðleitni sinni til að vera „uptodate“