Hósíanna!

Hósíanna!

Guðspjallið er myndríkt, María smurði fætur Jesú. Hvað gerðist ekki svo í loftsalnum fyrir síðustu kvöldmáltíðina. Jesús sjálfur sat við dyrnar og þvoði öllum lærisveinunum um fæturna. Fótaþvotturinn er fyrirmynd kærleiksþjónustunnar.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
16. mars 2008
Flokkar

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann. Jh. 12.1-16

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Í dag er pálmasunnudagur, upphaf kyrruviku, dymbilviku, þegar stóru atburðirnir í lífi og starfi Jesú áttu sér stað og eru rifjaðir upp víðsvegar í hinum kristna heimi. Einmitt þess vegna er þessi vika stundum kölluð stóra-vika.

Ljóst er að þetta verður enn á ný stór og viðamikil vika hér í Hallgrímskirkju, enda löng hefð fyrir því að þessir dagar séu fylltir verðugu innihaldi í helgihaldi og listum.

Í gær var opnuð sýning á verkum Baltasar, frammi í forkirkjunni og hér við altari kirkjunnar, 7 orð Krists á krossinum, - hér glímir listamaðurinn við síðustu orð Krists á krossins tré og notar orð sr. Hallgríms Péturssonar er hann yrkir um þetta efni. Stórfenglegur skáldskapur sálmaskáldsins og stórmerkileg myndverk sem Baltasar hefur gert og á án efa eftir að vekja verðuga athygli. Hér tjáir listamaðurinn svipbrigði frelsarans er hann segir, hrópar og hvíslar þessi síðustu orð, orð sem eru fyllt kjarnanum í hinum kristna boðskap. Þarna er þjáningin í allri sinni dýpt, ákallið sem við megum taka undir í þjáningu og sorg, þarna er umhyggjan og mannkærleikurinn í sterkum myndum, þarna er fagnaðarerindið um hið fullkomna hjálpræði, sem er ætlað öllu mannkyni og andlátsbænin sem við megum gera að okkar á hverju einasta kvöldi, - í þínar hendur fel ég anda minn. M.ö.o. hér eru orð og bænir sem stemma við öll atvik mannlegs lífs. Það má líkja þessum orðum og bænum við Sálma saltarans, sem tjá sama boðskap, myndabók sem við megum ganga inn í.

Þetta listaverk mun standa hér í dymbilviku og síðan í nokkrar vikur fram á vorið og mun prédika og tjá þennan boðskap fyrir öllum sem hingað koma.

En þetta er ekki það eina sem hér verður fram flutt í vikunni, því að á mánudag er hér bænastund að venju í hádegi, á þriðjudag er bænaguðsþjónusta kl. 10.30 í kapellunni hér uppi á 2. hæð og miðvikudag er morgunmessa kl. 8.00 árdegis, á skírdag verður flutt nýleg passía, píslarsagan sögð eftir texa Jóhannesarguðspjalls með tónlist eftir Arvo Pärt. Schola cantorum ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum flytja verkið undir stjórn Harðar Áskelssonar. Um kvöldið verður kvöldmessa með fjölbreyttum söng, því færeyski kórinn Effata mun syngja 2 sálma í messunni auk þess mun við lok messunnar verða Getsemanestund, þegar altarið er afskrýtt og söfnuðurinn gengur úr kirkju í myrkri til að leggja áherslu á atburð þessa kvölds og nætur í píslarsögunni.

Á föstudaginn langa verður guðsþjónustu kl. 11.00 með hefðbundnum hætti og kl. 13.00 verða passíusálmarnir lesnir samkvæmt þeirri hefð sem hér hefur verið í áraraðir. Að þessu sinni munu félagar úr Mótettukórnum lesa og einnig syngja sum versins, þá verða sum versin sungin af einsöngvurum og af söfnuðinum. Á páskadag verða síðan tvær morgunmessur, hátíðarmessur kl. 8 og 11, og ensk messa kl. 14.00

Okkur gefst því afar gott tækifæri til að ganga inni atburði kyrruviku og páska sem tilbiðjandi söfnuður í trú von og kærleika.

* * *

En kæri söfnuður, í dag er pálmasunnudagur og guðspjallið segir frá því sem gerðist í lífi Jesú um þessa helgi. Á laugardeginum kom hann til Betaníu í hús þeirra Maríu, Mörtu og Lazarusar, sem hann hafði vakið upp frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður, hátíðleg máltíð, þakkargjörðarmáltíð, þakkargjörð fyrir lífið, fyrir hjálpræðið, fyrir náðina sem þeim hafði hlotnast, þessari fjölskyldu, - en ekki bara þeim, nei öllu mannkyni.

Þegar Jesús vekur upp Lazarus, þá er hann að boða fagnaðarerindið um eilíft líf. Ég er upprisan og lífið, sagði hann, - sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.

Þessi atburður í Betaníu var undirstrikun á þessum boðskap, prédikun sem síðan hefur lifað.

En það var annað merkilegt sem gerðist í kvöldverðinum. María tók fram pund af ómenguðum dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans, og húsið fylltist af ilmi smyrslanna.

Reynum að sjá þetta fyrir okkur, reynum að setja okkur í spor þeirra sem þarna sátu. Finndu ilminn, horfðu á Lazarus, gleði hans yfir lífinu, horfðu á Maríu sem var að smyrja Jesú fyrir greftrun hans, án þess að gera sér fulla grein fyrir því. Hún var að gefa það dýrmætasta sem hún átti, hún var að leggja allt sitt við fætur frelsarans.

Hvað höfum við fram að færa?

Nú fór orðrómurinn um þessa kvöldveislu að berast út, fólk fór að streyma að, ekki aðeins til að sjá Jesú heldur Lasarus, sjá þetta lifandi kraftaverk sem hann var.

Kraftaverkin eru alltaf að gerast, gleymum því ekki. Jesús er alltaf að lækna, líkna, gefa nýtt líf, - uppörva, gleðja, styrkja. Það er reynsla trúarinnar.

Æðstu prestar Gyðinga urðu hræddir við þessa hreyfingu sem komin var af stað, og þeir ákváðu að taka Lasarus einnig af lífi, segir í textanum. Þessu er hvergi sagt frá nema hér í Jóhannesarguðspjalli. Jóhannes vissi þetta. En við heyrum ekki meira af því.

Í 34 passíusálmi segir Hallgrímur:

Heimsins og djöfuls hrekkja vél holdið þrálega villa. Þess vegna ekki þekki eg vel, þó nú margt gjöri illa. Beri svo til ég blindist hér, bið þú þá, Jesú, fyrir mér. Það mun hefnd harða stilla.

Andstaðan við Guðs góða verk hefur oft verið mikil og kemur fram í sögu mannkyns á öllum tímum og nú á dögum í margvíslegum myndum andúðar og niðurrifs á hinum góðu gildum kristninnar. Það er iðulega reynt að traðka á hinu heilaga.

Heimsins og djöfuls hrekkja vél Holdið þrálega villa.
Merkilegt orðalag, sem hæfði fyrir 350 árum og hæfir nú í dag, - þetta er enn að gerast. Hinn gamli Adam hefur sterk ítök. Þesss vegna er gott að eiga þessa mynd, sem hér hangir og segir: Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra.

En nú brýst fram ný mynd í guðsjpallinu, Mikill mannfjöldi er á leið til Jerúsalem vegna páskahátíðarinnar og fók heyr og sér að Jesús frá Nasaret er að koma til hátíðarinna og fólkið tekur upp pálmagreinar og fór á móti honum syngjandi og hrópandi:

Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.

Þessi mynd var dregin upp hér í uppafi messunnar og í hverri messu minnumst við þessa atburðar í bænunum þegar við undirbúum kvöldmáltíðarsakramentið, Benediktus. Þannig tengist hinn Biblíulegi texti hjálpræðissögunnar inn í messuliðina aftur og aftur, sem við getum tekið undir og nærst í hvert einasta skipti sem messað er.

Nú fannst eflaust einhverjum kominn tími til að Jesús tæki völdin og yrði konungur Ísraels í veraldlegum skilningi, en til þess var hann ekki kominn. Mitt ríki er ekki af þessum heimi.

Hann settist ekki á hvítan stríðshest, - nei, hann fann sér ösnufola til að ríða á inn í borgina.

Við ræddum þetta í messuhópnum á miðvikudaginn var og ein úr hópnum minnti okkur á hvað þetta atriði er sterkt í frásögninni, þessi mynd hógværðarinnar, sem Jesús sýndi í innreiðinni og í öllu sínu lífi og starfi.

Guðspjallið er myndríkt, María smurði fætur Jesú, - hvað gerðist ekki svo í loftsalnum fyrir síðustu kvöldmáltíðina. Jesús sjálfur sat við dyrnar og þvoði öllum lærisveinunum um fæturna. Fótaþvotturinn er fyrirmynd kærleiksþjónustunnar. Postulinn Páll segir síðan mörgum árum síðar: Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.

Allar þessar myndir eru okkur gefnar til að uppbyggjast í trú, von og kærleika.

Leyfum okkur að hrífast með í hósíannahrópum pálmasunnudagsins, í hinum 7 áhrifaríku orðum Krists á krossinum, andvörpum vonleysisins: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig, - en ekki stöðva þar heldur halda áfram upp eftir krossinum góða, heyra þegar Jesús segir: Það er fullkomið. Treystum því, það er fullkomnað, hjálpræði Guðs fullkomnaðist í Jesú Kristi eitt skipti fyrir öll.

Dýrð sé Guði föður syni og heil. Anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.