Að viðhalda gleðinni

Að viðhalda gleðinni

Jesús er að viðhalda gleðinni og þegar haft er í huga hversu mikilvægur og gleðilegur áfangi brúðkaup er í lífi fjölskyldna er töluvert í húfi. Í Jóhannesarguðspjalli eru það fyrst og fremst prestunum sem hættir til að spilla gleðinni og án þess að vilja falla sjálfur í þá gryfju, vaknar óneitanlega sú spurning hvort Jesús sé að leggja blessun sína yfir drykkju með því að viðhalda gleðinni og auka á vínið.

Brúðkaupið í Kana er ein þekktasta frásögn Nýja testamentisins og er í hópi þeirra kraftaverka Jesú sem flestir kannast við. Vísanir í söguna í bókmenntum, tónlist og listum eru óteljandi og nýleg dæmi sýna að hún er enn lifandi í hugum Íslendinga. Þannig fór Steindi Jr. á kostum fyrir tveimur árum í Arion-banka auglýsingu í hlutverki guðfræðinema, sem breytti vatni úr vatnskæli í aðalbyggingu Háskólans í vín og var staðinn að verki af kennara guðfræðideildar. Vinsælt lag Gleðisveitar Ingólfs, Partý Jesús, spyr hvers vegna börn eiga að fermast og svarið er að Jesús sé ,,hipp og kúl” og hafi kunnað flotta brellu ... ,,Jesús breytti vatni í vín, hann má koma í partý til mín.” Af bókmenntum má nefna lýsingar Jakobínu Sigurðardóttur á bæjarlæknum Í barndómi (1994), sem ef sótt var vatn í á miðnætti á þrettándanum, breyttist í lífgefandi og læknandi heilagt vín. Frásögnin er lifandi í menningu okkar og vísanir í hana eiga allir að þekkja.

Brúðkaupið í Kana hefur fangað áheyrendur frá fyrstu tíð og frásögn Jóhannesarguðspjalls af því þegar Jesús breytir vatni í vín, er hlaðin merkingu. Á ritunartíma guðspjallsins var sú hugmynd að vín væri af guðlegum uppruna kunnugleg bæði Gyðingum og Rómverjum og guðspjallamaðurinn vandar sig við að búa frásögninni umgjörð sem vísir í menningarheim beggja.

Í spádómsbókum gyðingdóms eru fyrirheiti um hinn komandi frelsara tengd við gnægðar víns (2Bar 29.5) og sú skýrskotun hefur verið gyðinglegum lesendum augljós. Steinkerin sem vatnið var sett í voru hluti af trúarlegum hreinsunarsiðum Gyðinga og tengjast því musterinu í Jerúsalem sem Jesús hreinsar í næstu frásögn guðspjallsins. Í hugum Gyðinga kallaðist því á í táknfræði frásagnarinnar, messíasarvæntingar og sú hugmynd að lögmálshyggju og hreinsunarsiði musterisins þurfi að endurskoða í ljósi komu Jesú í heiminn.

Rómverjar tengdu vín fyrst og fremst við guðinn Díonýsos eða Bakkus en getan til víngerðar var í þeirra huga sprottin af guðamætti hans. Díonýsos var vinsæll gestur í veislum hins grísk-rómverska aðals og hans aðalsmerki var að breyta vatni í vín. Árlega voru haldnar vínhátíðir honum til heiðurs og í Annari Makkabeabók (2Makk 6.7) er því lýst að Gyðingum í Jerúsalem hafi verið gert að taka þátt í þeim. Í hofum Díonýsosar voru ker lokuð inni fyrir slíkar hátíðir og þegar þau voru opnuð höfðu þau fyrir guðamátt fyllst af sætu vínu (samanber lýsingar Pásaníasar, Graeciae description 6.26.1f).

Hin einfalda frásögn af brúðkaupinu í Kana er því rík af djúpri táknfræði sem nútímalesendur tengja ekki við nema að hluta. Í samhengi Jóhannesarguðspjalls tiltekur höfundur að þetta hafi verið fyrsta kraftaverk Jesú, sem í Jóhannesarguðspjalli eru kölluð tákn, og það vísar, líkt og öll sjö tákn guðspjallsins, á krossdauða hans og upprisu. Guðspjallamaðurinn er að undirbúa þá tengingu, sem altarisgangan minnir á, að blóð Jesú er táknað með víni og að í því er fólgið líf hins trúaða manns.

Jóhannesarguðspjall er töfrandi bókmenntaverk sem fangar í einföldum frásögnum ótrúlega ríka táknfræði og skírskotanir, sem verða æ dýpri og hlaðnar merkingu eftir því sem guðspjallinu vindur fram. Frásögnin af brúðkaupinu í Kana er hinsvegar einföld að uppbyggingu og atburðarás.

Jesús er staddur í brúðkaupi í þorpi í Galíleu, ásamt lærisveinum sínum og móður. Móðir hans orðar við son sinn að vínið sé búið í veislunni og af þunga orðanna má lesa að það hafi þótt hið mesta hneyksli. Áður en að gleði veislunnar er spillt lætur Jesús þjónana færa veislustjóranum vatn úr vatnskerum og þegar hann bragðar á er það orðið að víni. Enginn nema vinir Jesú og þjónarnir vita hvað hefur gerst og veislustjórinn hrósar brúðgumanum með orðunum ,,Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.”

Sé vandi brúðgumans borin saman við neyð þeirra sem Jesús læknar í guðspjöllunum eða hina útskúfuðu sem hann veitir von, kann að virðast sem svo að ekki sé mikið í húfi, en að baki liggja félagsleg lögmál sem ekki skyldi vanmeta. Siðvenjur í sambandi við veislur og mannamót eru ólík milli samfélaga og tímaskeiða. Slíkar venjur og alvarleiki þeirra tilheyra óskráðum reglum samfélaga, sem allir þekkja en engin orðar beint, og því eigum við fáar beinar lýsingar á félagslegum lögmálum í samfélagi Jesú. Það er t.d. hæpið að það hafi í raun þótt til siðs að bera fram lélegt vín þegar líður á veislu en þegar efni voru lítil hefur fólk neyðst til að fara slíka leið. Viðbrögð veislustjórans bera því vott um raunsæi frásagnarinnar frekar en að gefa innsýn í siðvenjur samfélagsins.

Í okkar samfélagi þykir það hneykslivert þegar boðið er til veislu að maturinn klárist og ég þekki dæmi þess að rifjuð séu upp slík atvik árum og jafnvel áratugum seinna. Af því óskráða lögmáli er sprottin sú hefð að vera alltaf með ógrynni matar í veislum með tilheyrandi afgöngum. Jafnframt er fyrirbærið íslenskar kurteisis-leifar komið af þessu, það er þegar enginn þorir að taka síðustu sneiðina heldur fara menn að skera æ-þynnri sneiðar til að gestgjafinn haldi ekki að maturinn hafi verið af skornum skammti.

Jesús er að viðhalda gleðinni og þegar haft er í huga hversu mikilvægur og gleðilegur áfangi brúðkaup er í lífi fjölskyldna er töluvert í húfi. Í Jóhannesarguðspjalli eru það fyrst og fremst prestunum sem hættir til að spilla gleðinni og án þess að vilja falla sjálfur í þá gryfju, vaknar óneitanlega sú spurning hvort Jesús sé að leggja blessun sína yfir drykkju með því að viðhalda gleðinni og auka á vínið.

Áfengissýki er einn alvarlegasti heilbrigðisvandi okkar Íslendinga og sú staðreynd krefur okkur um að umgangast vín í kirkjunni af ábyrgð. Þriðjungur íslenskra karlmanna leitar sér aðstoðar við ofdrykkju einhverntíman á lífsleiðinni og hlutfall kvenna eykst ár frá ári, og þá eru ótalin þau sem ekki bera gæfu til að leita hjálpar. Áfengissýki er fjölskyldusjúkdómur, sem ekki hefur einungis áhrif á drykkjusjúklinginn, heldur rífur í sundur fjölskyldur, verður valdur að ofbeldi í garð barna jafnt sem fullorðinna og er orsakavaldur margra af alvarlegustu slysum sem verða.

Við altarisgönguna koma kynslóðirnar saman, frá fermingarbörnum til fullorðinna, og þiggja brauð og vín, líkama og blóð Jesú, og það er ábyrðarhlutur af hálfu kirkjunnar að hafa þar ekki áfengi við hönd. Í Laugarneskirkju er óáfengur vínberjasafi og þannig er það tryggt að engum sé úthýst og ekki sé verið að halda áfengi að börnum. Þrátt fyrir að notað sé áfengislaust vín getur táknfræðin sjálf vakið sársauka sjá þeim sem glímt hafa við áfengissýki eða alist upp á heimili drykkjusjúklinga.

Áfengissýki þekktist sannarlega á tímum biblíunnar og afleiðingum ofdrykkju er lýst bæði í Gamla og Nýja testmentinu. Vín gegndi hinsvegar mikilvægu hlutverki í hinu forna samfélagi og var hluti af daglegum neysluvenjum fólks. Það hafa varðveist af hafsbotni miðjarðarhafsins innsiglaðar vínflöskur frá 1. öldinni sem gefa vísbendingu um hvers kyns vín menn drukku og ríkulegar lýsingar eru á umgengni við vín í grískum og rómverskum bókmenntum. Með því að gerja þrúgur gátu menn varðveitt næringarefni úr vínberjum, sem annars mundu skemmast, og allt kapp var lagt á að vínin héldu sem mestu af sætu vínberjanna. Þá voru vín aldrei drukkin óblönduð, það þótti merki um barbarisma, þau voru mikið þynnt með vatni og hafa því ekki verið mjög áfeng.

Vín er í hinum forna heimi jafn hversdagslegt og nauðsynlegt og brauð og táknin í altarisgöngunni eru því, líkt og flest tákn kristindómsins, fengin úr daglegu lífi fólks. Í guðspjallinu er Jesús að mæta þörfum ónefndra brúðhjóna og hann gerir það með því að viðhalda gleðinni. Það er í eðli sínu markmið altarisgöngunnar, þegar við komum saman sem jafningjar við altari Guðs í þeim tilgangi að þiggja næringu til að geta þjónað náunganum með gleði.

Það skiptir máli að viðhalda gleðinni í lífinu og án gleði laðar kirkjan engan til þjónustu við Guð og náungan. Messan er í eðli sínu veisla, þar sem markmiðið er að koma saman og gleðjast yfir kærleika Guðs og leita leiða til að þjóna náunganum af ríkari hætti í lífi okkar. Sönn gleði verður aðeins til við þjónustu og þessvegna er gleðin aldrei meiri en þegar hjón hafa tekið þá ákvörðun að ganga í heilagt hjónaband. Í hjónabandi eru elskendur vígðir til þjónustu hvert við annað á sama hátt og kirkja er vígð til þjónustu við það hverfi eða söfnuð sem hún þjónar. Brúðkaupið í Kana er okkur táknmynd þess að lifa lífinu í gleði og þjónustu við náungan og hið góða vín er sá lífgefandi andi Guðs sem glæðir þá þjónustu lífi.