Umhyggja á aðventu

Umhyggja á aðventu

Nú við upphaf aðventu eru margir áhyggjufullir vegna afkomu og atvinnu. Ísland ætti að eiga nóg til skiptanna, samt er fátækt ömurleg staðreynd og smánarblettur. Enginn Íslendingur ætti að þurfa að vera í þeim aðstæðum að standa í biðröð þar sem úthlutað er mat og fatnaði. Það verður að breytast!

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Lúk. 4.16-21

Velkomin heilög aðventutíð! Veri hún okkur öllum góð og gefandi.

Nýtt kirkjuár hefst með aðventu er við búum okkur undir hátíð ljóss og friðar, fæðingarhátíð frelsarans, tilkomu ljóssins inn í dimman heim. Hvarvetna má sjá tákn og tilvísanir aðventu og jóla og tengingar til trúar og vonar kristinna manna. Grunnstefin eru forn, en þó ætíð ný: Meðganga og fæðing, von og trú, börn og fjölskylda, menn og dýr, umhyggja um náungann, gestrisni, góðvild og gjafmildi, hrynjandi náttúrunnar, kyrrð og friður, stjörnublik á næturhimni. Þessi gildi, tákn og stef brúa kynslóðabil, sameina fjölskyldur, tengja vinabönd og tryggðatengsl, glæða trúarþel og lotningu, virkja umhyggju og náungakærleika. Í öllu þessu er Guð að vitja okkar, leita, laða, knýja á. Og svo í því sem guðspjall dagsins lýsir: Í orði sínu í samfélagi safnaðarins.

Textar dagsins eru huggunar og uppörvunarorð til okkar allra. Lexían flytur fyrirheit:„Þeir dagar munu koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast...“ Og svo heyrðum við yndisleg orð Jesú í Opinberunarbókinni:„Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ Bara að við myndum heyra, já og þau öll sem finnst þau lifa vonda daga, vonleysi og sorg, heyra þessi fyrirheit, þessa laðan, þetta hughreystandi, uppörvunarorð.

Við megum vita og treysta því að þessi sami Jesús er hér, mitt á meðal okkar með orð sitt, gleðiboð fátækum, lausn og birtu og líf. Í dag rætast þessi fyrirheit í áheyrn okkar. Ljós og hljómar aðventu og jóla er einmitt þetta, að hann er að knýja dyra hjá okkur! Bjóðum honum inn.

Í Fréttablaðinu um daginn var grein sem ber yfirskriftina:; „Við ráðum ekki við veruleikann.“ Þar er skýrt frá rannsóknum á grunngildum þjóðarinnar og staðhæft að „við virkum ekki eins og þjóð í eiginlegum skilningi.... Hugarfar okkar og gildismat einkennast af því sem er neikvætt og takmarkandi...“

Eins mátti lesa umfjöllun Salvarar Nordal, siðfræðings um það sem hún nefnir „kerfislægt ábyrgðarleysi.“ Hún segist ekki hafa getað séð að margt hafi breyst frá hruninu til að takast á við þann vanda, og fólk hafi „jafnmikla tilhneigingu nú og áður að víkja sér undan ábyrgð.“ Þetta eru ögrandi ástandslýsingar íslensks samtíma. Hvað þarf til að við ráðum við veruleikann, hvað þarf til að við öxlum ábyrgð og virkum sem þjóð? Það eru áleitnar og alvarlegar spurningar.

Stjórnlagaþingið er m.a. tilraun til að leita að svari við þeim. Við árnum heilla og biðjum blessunar þeim sem í gær voru kjörin til Stjórnlagaþings. Því góða fólki er falinn mikill trúnaður af hálfu þjóðarinnar að setja henni grundvallarlög. Ljós Guðs og andi leiði og blessi það. En hversu góð og vel orðuð stjórnarskráin verður, þá er annað og meira sem þarf til.

* * *

Fyrsta spurning Guðs sem Biblían hermir frá er: „Hvar ertu?“ Öll kristin bæn, öll trú, von og kærleikur er í raun svar við þeirri spurningu, að svara Guði: „Hér er ég!“ Önnur spurning Guðs er ekki síður mikilvæg: „Hvar er bróðir þinn?“ „Hvar er systir þín? Hvar er náungi þinn?“ Við munum eftir svari Kains, bróðurmorðingjans, sem spyr á móti: „Á ég að gæta bróður míns?“ Jesús Kristur kom á jörð og gerðist bróðir okkar til að sýna og vera andsvar okkar við ávarpi Guðs, og við spurningum okkar og undanbrögðum kaldhæðni, syndar og sjálfselsku. Kristin trú og siður er að leitast við að ljúka upp hjarta sínu og vera þar sem Kristur er. Hann segist vera í orði sínu og þar sem þau verða á vegi sem hann kallar sín minnstu systkin, þau fátæku, fjötruðu og sjúku. Jesús sagði söguna af miskunnsama Samverjanum, eina allra þekktustu og mikilvægustu sögu allra tíma og hefur ekki látið mannkyn í friði í 2000 ár. Þar ítrekar Jesús hina algjöru kröfu Guðs um kærleikann, umhyggjuna um og elskuna til Guðs og náungans.

Jesús er lausnarinn sem nam staðar hjá þeim lemstraða og rétti út hönd sína til hjálpar, hann sem mælti gegn rangindunum, varði hinn minni máttar, skrifaði sýknuorð í sandinn. Sagan um hann sýnir aflið sem býr í innsta grunni lífs og tilveru, en afhjúpar jafnframt svo algjörleg mig og þig, sem eigum svo ótrúlega auðvelt með að líta undan, benda á aðra, skirrast ábyrgð, una við þetta lamandi „kerfislæga ábyrgðarleysi.“

Hefðbundinn kristinn mannskilningur nefnir það synd. Það hugtak vísar til tengsla, samskipta, afstöðu sem eiga að vera heil en eru rofin, sundruð, brotin. Við erum öðrum háð og öðrum tengd og getum ekki lifað án þess. Og við erum ábyrg fyrir vali okkar og ákvörðunum. Og bregðumst einatt, það er nú meinið.

Ég gleymi aldrei þegar litla hnátan skreið upp í fangið á pabba sínum og klappaði honum á kinnarnar og sagði:„Þú ert góur, babbi minn! Þú ert þúsund góur! Þú ert, þú ert, þú ert millón góur!“ En það dugði henni ekki svo hún klykkti út með því sterkasta og kröftugasta orði sem hún kunni, sú litla:„Þú ert, þú ert tíu pró-þent góur!“

- Auðvitað var það og er næst sanni. „Hvar ertu?“ kallar Guð. „Hvar er bróðir þinn?“ spyr Guð.

Og Guð gefst ekki upp. Til okkar sem elskum ekki nema etv. tíuprósent, sem lítum undan, látumst ekki sjá, kemur hann til að hjálpa, frelsa og gefa okkur sjón umhyggjunnar, augu og viðbrögð kærleikans til Guðs og manna.

* * *

Uppeldi og menntun, siðir og hefðir felast í því að gera okkur kleyft að ráða við veruleikann, að forðast hið illa, laðast að og rækta hið góða. Börn taka einatt bókstaflega það sem þau sjá og lesa. Það er verkefni uppeldisins að stuðla að þeim andlega þroska sem les í málið og skynjar hin ólíku svið lífsins, hið bókstaflega, hið ljóðræna, táknin og vísanirnar. Að byggja upp heilbrigt traust og heilbrigðan efa. Það er háskalegt ef hinn trúarlegi grunnþáttur er skilinn eftir og fær ekki að þroskast og fullorðnast. Það er svo auðvelt að festast við hið neikvæða og takmarkandi. Trúarfælnin má ekki ráða ferðinni í uppeldi og menntun! Grunngildi samfélagsins eru sprottin úr samhengi frásagna, minninga, reynslu og sögu, sameiginlegrar vitundar um hvaðan við komum, hvar við erum stödd og hver ábyrgð okkar er og hvert leið manns er stefnt. Sagan um Jesú, orð hans og verk leggja þar til ómissandi viðmið.

Lárus Jónsson, fyrrum alþingismaður, orti ljóð í tilefni umræðu undangenginna vikna, sem hann nefnir Þagnarljóð:

Forðum á fáeinum árum
fór um veginn
frá jötu til upprisu
fátækur smiður sem sagði:
„Ég er sannleikurinn og lífið.
Það sem þér viljið að aðrir menn
gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.”
Hann læknaði og líknaði
alla stutta starfsævi sína
og boðaði að sú umhyggja
myndi engan endi taka.

Öll saga mannkynsins
varð önnur og ný
eftir hans dag.
Óskiljanleg án þess að þekkja hann.

Miskunnsami Samverjinn
er saga úr munni hans
og sagan um hann.
Kærleikur hans
og ást á öllum mönnum
er orðum ofar.
 
Á nýrri öld eiturbyrlara
í orði og verki
sem um veg okkar æða
og engu hlífa,
síst heilagleika lífsins,
fannst allt í einu óbrigðult mannréttindaráð
til handa æsku Íslands:
Við skulum þegja
um þennan mann.

Svo mörg eru þau áleitnu orð.

NEI! Við skulum ekki þegja um þennan mann, frelsarann Jesú frá Nasaret. Látum orð hans og áhrif móta líf okkar og samfélag.

Kærleiksboðið og Gullna reglan eru virkasta læknislyfið, það að auðsýna umhyggju, góðvild og gjafmildi eru virkustu mótefni gegn uppgjöf og kaldhæðni og því neikvæða og takmarkandi sem sífellt leitar færis. En það þarf meira til en að kunna boð og reglur. Þess vegna fæddist frelsarinn í heim, til að bera burt synd heimsins með dauða sínum á krossi og upprisunni frá dauðum. Náðin hans er að verki að ummynda ófullkomleika okkar allan guðdómskrafti sínum, lækna, sýkna, reisa á fætur. Og vekja og glæða umhyggju og von, ást og trú, skýra sjón og skjót viðbrögð hugar og handa.

* * *

Umhyggjan vinnur gegn kerfislægu ábyrgðarleysi og tilhneigingu að víkja sér undan ábyrgð. Við höfum einatt séð og reynt, Íslendingar, að það er einmitt þá sem við virkum sem þjóð, sem samfélag, þegar umhyggjan um hag náungans nær að virkja okkur til samstöðu og, samhjálpar. Látum það sannast nú.

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst formlega í dag. Hjálparstarf kirkjunnar varð 40 ára á þessu ári. Í hugum heillar kynslóðar Íslendinga hefur jólasöfnunin verið mikilvægur þáttur aðventunnar. Eins og undanfarin ár skiptast framlög jafnt milli innanlandsaðstoðar og vatnsverkefna í Afríku, í Malaví, Eþíópíu og Úganda. Gefðu gjöf sem skiptir máli! Margir treysta á þitt framlag, bæði hér heima og erlendis. Nú við upphaf aðventu eru margir áhyggjufullir vegna afkomu og atvinnu. Ísland ætti að eiga nóg til skiptanna, samt er fátækt ömurleg staðreynd og smánarblettur. Enginn Íslendingur ætti að þurfa að vera í þeim aðstæðum að standa í biðröð þar sem úthlutað er mat og fatnaði. Það verður að breytast!

Hjálparstarf kirkjunnar er í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, Rauða krossinn og Hjálpræðisherinn við að mæta neyðinni. Konurnar í Mæðrastyrksnefndum landsins hafa áratugum saman unnið fórnfúst sjálfboðastarf og notið til þess stuðnings og velvildar í samfélaginu, sama er að segja um Hjálpræðisherinn, sem með jólapottum sínum hefur sett svip á jólaundirbúninginn hér í borginni. Þegar þessir aðilar taka nú höndum saman er þess vænst að hægt verði að veita aðstoðina við bestu aðstæður og með myndarlegum hætti. Slíkt samstarf er til fyrirmyndar og ég þykist þess fullviss að fyrirtæki og einstaklingar muni styðja vel við bakið á jólaaðstoðinni um land allt.

Velkomin aðventa með ljós þín og hljóma! Frelsarinn stendur við dyrnar og knýr á. Hann kemur ekki sem valdbeiting heldur sem varnaleysi umhyggjunnar, kærleikans. Það sýnir barnið í Betlehem, sem síðar lét líf sitt á Golgata og reis af gröf og lifir. Hann verkar í hinu lága, eins og súrdeig, salt og ljós, til að ummynda þetta líf, þennan heim birtu sinni og náð. Göngum með honum til móts við þá birtu.