Keltnesk kristni og Kaim, brjóstvörn og brynja Patreks

Keltnesk kristni og Kaim, brjóstvörn og brynja Patreks

Kristni kelta einkenndist af því m.a. að þeir gættu að því að Guð opinberaðist ekki aðeins í helgum ritum heldur jafnframt í undrum sköpunar sinnar, náttúru og mannlífi, sem væri ekki ofurselt syndinni þótt illskan hefði myrkvað það og sækti stöðugt að því.

Sú kristni er til varð á Bretlandseyjum og Írlandi, sem talin voru útjaðar veraldar í vestri samkvæmt heimsmynd fyrri tíðar, var sérstæð um margt og allfrábrugðin þeirri kristni sem breiddist út frá Róm, þótt páfinn væri þar vissulega viðurkenndur sem æðsti biskup kristninnar.  Einangrun eyjanna mun hafa valdið þessu en fleira kom til.  Rómverjar náðu Írlandi aldrei undir sig og kristnin barst þangað ekki aðeins eftir rómverskum leiðum meginlandsins heldur einnig sjóleiðis frá Miðjarðarhafssvæðum og austurvegi. Kristni á Írlandi óx jafnframt í jarðvegi fyrri trúarhugmynda sem tóku á sig kristna mynd, en höfðu einnig áhrif á hana.

Þessi kristni hefur dregið að sér athygli síðustu árin sem keltnesk kristni þótt vandasamt sé frá síðari tíma sjónarhorni að ráða í takmarkaðar frumheimildir og greina glöggt upprunalega mynd hennar. Heitið keltar og keltnesk kristni eru að vissu leyti tímaskekkja því að þau koma fyrst fram í núverandi merkingu eftir klofning Vesturkirkjunnar á sextándu öld. Þá voru forn nöfn, er Grikkir og Rómverjar viðhöfðu um tiltekna þjóðflokka, sem fyrrum var víða að finna í Vestur- Evrópu, ,,keltar ( Keltoi) og gallar (Galatae)” en blönduðust svo öðrum, notuð um þær þjóðir líks uppruna, sem sest höfðu að á ,,Vestureyjum” og töluðu sínar eigin tungur.

Keltnesk kristni dró dám af fyrirmyndum frá Egyptlandi og þeim einsetumönnum og klaustrum sem þar var að finna, einkum fyrir milligöngu heilags Marteins frá Turnum(dáinn 397), sem kom á fót klaustrum í Vestur-Gallíu og verið hafði hermaður en varð hermaður Krists, Miles Christi og  einnig Jóhannesar Casianusar (u.þ.b. 360 – 430, John Cassian á ensku) sem stofnaði klaustur í Suður-Gallíu. Hann hafði dvalið í Egyptalandi og haft náin kynni af einsetu- og klausturlífi í Nílardal,  tilbeiðslu sem tíðkaðist þar og bænaiðkun. Þeir Marteinn og Jóhannes voru í  miklum metum með keltum.

Kristni kelta einkenndist af því m.a.  að þeir gættu að því að Guð opinberaðist ekki aðeins í helgum ritum heldur jafnframt í undrum sköpunar sinnar, náttúru og mannlífi, sem væri ekki ofurselt syndinni þótt illskan hefði myrkvað það og sækti stöðugt að því.  Morgan hinn breski (uppi á seinni hluta fjórðu aldar og fram í byrjun þeirrar fimmtu), eða Pelagius eins og hann lét kalla sig á latínu, og mun vera þýðing á nafni hans sem merkir: ,,Sá sem kemur frá sjó”, dvaldi langdvölum á Ítalíu. Hann átti þar í útistöðum við heilagan Ágústínus af Hippó sem hélt fram hugmyndum um erfðasyndina, en hennar vegna bæri ekkert, ekki einu sinni blik í nýopnuðum barnsaugum, hreina birtu Guðs inn í syndugan heiminn.  Pelagius sá hins vegar Guðs nánd og ljós í augum hvers nýfædds  barns enda þótt öflin illu létu fljótt á sér kræla. Hann taldi líka ástareininguna, sem væri farvegur Guðs til sköpunar blessaða af honum og að konur ættu að afla sér þekkingar og fræðast engu síður en karlar enda létu margar þeirra vel að sér kveða meðal kelta. 

Viðhorfa Pelagiusar mun hafa gætt í mótun keltneskrar kristni, en keltneskir munkar og fræðimenn drógu víða að sér föng og tóku til sín þá trúartúlkun Ágústínusar, að sköpunin væri þrátt fyrir erfðasyndina sakramenti og táknmynd Guðs er vísaði á Guð sjálfan sem uppsprettu og leyndardóm tilverunnar. Þrenningarguðfræði, sem endurspeglaðist í Nikeujátningunni, mótaði mjög Guðstrú kelta og skilning,

Þeir greindu líka í trú sinni, að Orð Guðs, Logos, sem rök hans og viska, væri burðargrindin í mannlífi og náttúru.  Sem slíkur, Logos, Orð Guðs  í allri tilveru, væri Kristur kominn á vettvang á undan öllum kristnum trúboðum. Því bæri að hlusta á orð hans og gæta að sporum hans hjá hverri þjóð og á öllum tungum.  Þær fælu í sér fyrirheit er fullnuðust í boðun fagnaðarerindisins um komu frelsarans á jörðu sem jötubarns, krossfests manns og upprisins frelsara. 

Ritað orð, ekki aðeins orð helgra biblíurita, gæti borið með sér verðmæti og dýrmætan vitnisburð um mannlíf og Guð. Ljóð og skáldskapur bæði á latínu og grísku, sem glataðist annars staðar, varðveittist á írskum bókfellum í keltneskum klaustrum, fagurlega rituðum og lýstum, en þó voru lýsingar guðspjallanna öllum fegri og slík guðspjöll einstök listaverk. Og skáldskapur kelta fól í sér lofgjörð til hins þríeina Guðs,  þökk og fyrirbæn, sem upplýstu meira um ástríka veru hans en margslungin guðfræðikerfi.

Fyrri trúarhugsun kelta aðlagaðist vel kristinni trú þótt fornir textar vitni líka um átök og ágreining eldri og nýrri trúar.  Helgar lindir og tré fengu aukið vægi við það að frelsarinn krossfesti og upprisni helgaði sér þau. Keltar dýrkuðu Maríu guðsmóður og þekkta dýrlinga kristinnar kirkju en einnig fjölmarga eigin dýrlinga, sem verið höfðu ljósberar í þeirra eigin sögu.

Guð; Faðir, Sonur og Andi helgur birti keltum þá sönnu þrenningu sem víða hafði verið fyrirmynduð í fyrri trú þeirra; vættir og gyðjur kelta fóru t.a.m. iðulega þrjár saman. Þrenning hugrekkis, visku og drengskapar, sem var þeim dýrmæt, féll einnig vel að þrenningu trúar, vonar og kærleika í kristni. 

Hringformið, sem táknað hafði sólina og hringrás náttúrunnar, fékk aukið vægi í hinum keltneska krossi.  Hringur hans táknaði ekki bara himinsólina heldur einnig upprisusólina, og krossinn í miðju hringsins vísaði til þess, að sá kærleikur Guðs sem gefst og opinberast í Jesú Kristi er kjarni tilveru og alheims. Keltneski krossinn, sem víða gat að líta háreistan og hogginn í stein,  sameinaði sköpun og endurlausn, sem návist Heilags anda í andvara nýs dags minnti stöðugt á t.d. þegar hann glæddi glóð í eldstó að morgni og blés á og þerraði þvott og flíkur.  Og bænir og trúarsöngvar við hversdagslega iðju vitnuðu um endurlausnarverkið, stöðuga virkni Heilags anda og komu Guðs ríkis. Sem líking og mynd Guðs gegndi maðurinn lykilhlutverki í heildstæðri sköpun hans.  Mikilvægt væri að hann lifði árvökull í ljósi fagnaðarerindisins og gæfist ekki myrkrinu á vald heldur íklæddist hertygjum ljóssins og ,,réttlætinu sem brynju” ( Ef. 6.14) þegar hann risi úr rekkju dag hvern og vefði utan um sig ljóssins hring (Caim) og verndarhjúpi í nafni þrenningarinnar.

Þessi trúarhugsun kemur glöggt fram í morgunbæninni ,,Brjóstvörn Patreks” sem kennd er við heilagan Patrek, postula Írlands en mun þó vera frá áttundu öld.  Herskáir Írar hnepptu Patrek sem sextán ára ungling í þrælahald eftir að hafa herjað á heimaslóðir hans á vesturströnd Bretlands, líkast til þar sem nú er Wales, en honum tókst sex árum síðar að flýja og komast aftur heim og gerðist er fram liðu stundir prestur og biskup. Hann fékk þá köllun, svo sem hann greinir sjálfur frá í ,,Játningu” sinni, Confessio, er hann ritar þegar langt er liðið á feril hans,  að snúa aftur til Írlands til að boða kristni og mun hafa byrjað árangursríkt trúboð sitt fyrir miðbik fjórðu aldar, og með því vissulega launað illt með góðu.

Annað rit ,,Epistola”, bréf, er einnig til frá hendi Patreks.  Það er stílað á ræningjaforingja nafnkristinn, Coriticus, Það felur í sér mikla og rökfasta gagnrýni á þá ósvinnu hans að hafa hneppt kristna menn í þrældómsfjötra, sem Patrekur hafði nýlega skírt til lausnar og hjálpræðis.  Bréfið er skorinort og beinskeytt og felur í sér eindregin andmæli við mansali, í nafni Jesú Krists og frelsandi trúar á góðan Guð.

Peregrini, pílagrímar keltneskrar kristni, yfirgáfu heimahaga og ættjörð og fylgdu köllun Drottins, og settust þar að á meginlandi Evrópu, sem þeim þótti hann vísa sér til og reistu klaustur, sem urðu andans orkustöðvar.  Þeir komu sér einnig fyrir á afskekktum eyðieyjum úti fyrir ströndum Írlands og Skotlands til að helgast Guði og breiða út blessun hans með bænum og lofsöngvum.  Iona, eyjan helga við vesturströnd Skotlands þar sem heilagur Kolum Killi (St. Columba á latínu) stofnaði klaustur 563, er þekktust þeirra. Þaðan sigldu margir peregrini og breiddu út kristni með sínum keltnesku einkennum.  Þeir kölluðust papae, papar.  Víða má rekja slóð þeirra af papanöfnum staða á eyjum Skotlands.   Þeir réru og sigldu líka langt vestur og norður á öldum hins mikla og ógnandi Atlantshafs, pro amore Dei, vegna ástar á Guði, í Jesú nafni og fundu þar óbyggðar eyjar, sem urðu þeim, desertae in oceano, eyðimerkur úthafsins og opinberunarstaðir Guðs eins og í Sínaíeyðimörkinni forðum, og helguðu honum.  Svo gæti verið, að Papar hafi beðið ,,Brjóstvörn/Brynju  Patreks” á Íslandi og kristnir menn líka sem komu hingað til lands  frá keltneskum menningarsvæðum og nafn landsins hafi ekki í öndverðu verið kennt við ís þótt svo hafi verið túlkað síðar heldur fremur við Isu, (Jesú á írsku) og það sé því réttnefnt, Jesúland. (Birt áður í Bjarma 2009)         

Bæn frá 8. öld,  kennd við heilagan Patrek, postula Írlands.

Ég rís upp í dag: Styrktur mætti, ákalla þrenninguna, trúi á þríeiningu og játa einingu skapara sköpunarverksins.

Ég rís upp í mætti fæðingar Krists og skírnar, í mætti krossfestingar hans og greftrunar, í mætti upprisu hans og uppstigningar, í krafti niðurstigningar hans og dóms. Ég rís upp í dag, í mætti elsku kerúba, í hlýðni engla og þjónustu erkiengla, í von upprisu til umbunar                                          í ættfeðra bænum, í forsögnum spámanna, í prédikun postula, í trú píslarvotta, í sakleysi helgra meyja, í dáðum réttlátra. Ég rís upp í dag, í himins mætti, í sólarskini, í mánabliki, í loga dýrð, í eldingarleiftri, í vinds snerpu, í sjávardýpi, í jarðar trausti, í bjargs festu Ég rís upp í dag: með Guðs mátt að stýra mér, Guðs styrk að viðhalda mér, Guðs visku að leiða mig, Guðs auga að horfa fram fyrir mig, Guðs eyra að hlýða á mig, Guðs orð að tala fyrir mig, Guðs hönd að vernda mig, Guðs veg fyrir framan mig, Guðs skjöld að verja mig, Guðs herskara að bjarga mér; frá snörum djöfla, frá illum freistingum, frá eðlis ágöllum, frá öllum sem vilja skaða mig, fjær og nær, einir og í fjölda. Kringum mig safna ég í dag öllum þessum máttaröflum; gegn hverjum þeim grimma og miskunnarlausa mætti sem ræðst gegn líkama mínum og sálu, gegn töfrum falsspámanna, heiðnum svartagaldri, villutrúar lognum lögum, blekkingum hjáguðadýrkunar, gegn álögum kvenna, kuklara og galdramanna og allri ólögmætri þekkingu/kunnáttu sem vegur að lífi og sál. Kristur verndi mig í dag; gegn eitri og bruna, drukknun og sárum, og veiti að mér vegni vel. Kristur sé með mér, Kristur fyrir framan mig, Kristur fyrir aftan mig, Kristur inni í mér,  Kristur fyrir neðan mig, Kristur fyrir ofan mig. Kristur hægra megin við mig, Kristur vinstra megin við mig. Kristur með mér þegar ég ligg, Kristur með mér þegar ég sit, Kristur þegar ég rís á fætur: Kristur veri í hjarta allra sem hugsa um mig, Kristur á tungu allra sem tala um mig, Kristur í augum allra sem sjá mig, Kristur í eyrum allra sem hlýða á mig.

Ég rís upp í dag; styrktur mætti og ákalla þrenninguna, trúi á þríeiningu og játa einingu skapara sköpunarverksins.

Því Drottins er hjálpræðið. Og Drottins er hjálpræðið. Og Krists er hjálpræðið.

Veri hjálpræðið þitt, Drottinn, með  okkur ávallt. Þýðing bænar, Gunnþór Þ. Ingason

Kaim Verndarhjúpur-Verndarhjúpun Staðið: Hendi lyft upp yfir höfuð og með vísifingri og löngutöng bent upp og snúið í hring þrisvar sinnum og sagt um leið:

Við fyrsta hring: Englar himins verndi mig í dag og umljúki mig friðar ilmi og angan.

Við annan hring: Kristur, Drottinn minn og elskandi vinur verndi mig í dag og umljúki mig með umhyggju og elsku.

Við þriðja hring: Sannleikans Andi. Ver í hjarta mér í dag og umljúk mig og fyll mig gleði þinni.

Staðið í kyrrð um stund og svo sagt: Himneski faðir. Ég er barn þitt og geng fram í þínu nafni. Varðveit mig og vernda í Jesú nafni. Amen.