Kletturinn

Kletturinn

Við þekkjum kirkjubyggingar á krossinum sem trónir allajafnan efst á turni þeirra. Þegar við skoðum kirkjur erlendis sjáum við stundum fleira en kross. Við sjáum oft hana úr málmi festan á þakið eða turninn. Og haninn er ósjaldan á láréttum krossi þar sem armarnir vísa í áttirnar fjórar. Hann er hreyfanlegur og sýnir vindáttina. Hann er veðurviti.

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: Hvern segja menn Mannssoninn vera?

Þeir svöruðu: Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.

Hann spyr: En þér, hvern segið þér mig vera?

Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

Þá segir Jesús við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.

Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.

(Matt. 16. 13-26)

I

Við þekkjum kirkjubyggingar á krossinum sem trónir allajafnan efst á turni þeirra. Þegar við skoðum kirkjur erlendis sjáum við stundum fleira en kross. Við sjáum oft hana úr málmi festan á þakið eða turninn. Og haninn er ósjaldan á láréttum krossi þar sem armarnir vísa í áttirnar fjórar. Hann er hreyfanlegur og sýnir vindáttina. Hann er veðurviti. Á íslensku er hann kallaður vindhani. Sem trúartákn er hlutverk hans þó annað og meira. Haninn stendur fyrir árverkni og skyldurækni og vísar til upprisu og endurkomu Jesú Krists. Auk þess er sú hugmynd nokkuð útbreidd að haninn eigi að minna predikara á þá skyldu að vekja samtíðarmenn sína upp af sofandahætti og sinnuleysi gagnvart Guði og náunganum. Meginhlutverk hanans er þó ef til vill að minna á afneitun Péturs. Jesús segir við Pétur í guðspjalli dagsins: „Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum klettti mun ég byggja kirkju mína […]“ (Mt 16.18). Síðar í guðspjallinu kemur í ljós að Pétur reynist vera bjarg þrefaldrar afneitunar. Þegar hann er spurður stuttu eftir handtöku Jesú hvort hann hafi verið með „Jesú frá Galíleu“ (Mt 26.69) þykist hann ekki skilja neitt og neitar. Þegar gengið er á hann kveður við stórt nei. Í ritningunni segir orðrétt: „En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann“ (Mt 26.72). Í þriðja skiptið sór hann „og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól haninn“ (Mt 26.74).

Afneitunin er algjör. Hann nefnir Jesú ekki einu sinni á nafn. Pétur virðist gjarn á að guggna á úrslitastundum. Þannig er í bréfi Páls til Galatamanna og í Postulasögunni greint frá því hvernig hann lætur undan þrýstingi gyðingkristinna um að heiðinkristnir verði að umskerast. Í raun fól sú krafa í sér höfnun á friðþægingardauða Jesú. Fyrst þegar Páll postuli reis upp gegn Pétri og mótmælti honum í krafti fyrirgefningarboðskapar og friðþægingardauða Jesú á krossinum með þeim rökum að maðurinn réttlættist fyrir trú en ekki verk, þá bakkaði kletturinn Pétur. Pétri til málsbóta má segja að hann taki rökum. En það afsakar ekki þrefalda afneitun hans á Jesú. Var Pétur þá huglaus maður eða maður málamiðlunar? Um það vil ég ekkert fullyrða, en breyskur var hann eins og við.

II

Í guðspjalli dagsins spyr Jesús: „En þér, hvern segið þér mig vera? Símon Pétur svarar: ‚Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs‘“ (Mt 16.15–16). Í guðspjöllum Markúsar og Lúkasar er ekki minnst á meira en þetta. Matteus guðspjallamaður sýnir mikið hugrekki er hann greinir frá eftirfarandi orðum Jesú í guðspjalli sínu: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, […] og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum“ (Mt 16.17–19).

Þrátt fyrir þetta mikla fyrirheit dregur Matteus ekkert úr þeim harða dómi sem Jesús kveður upp yfir Símoni Pétri. Pétur vildi í framhaldi af ofangreindum orðum ráðskast með Jesú og boðun hans um þjáningu sína og dauða. Jesús stoppar hann af og segir við Pétur: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er“ (Mt 16.22–23). Matteus lætur þessa frásögn standa þótt hún opinberi þverstæðuna í fari lærisveinsins Péturs, sem játar Jesú sem Drottin en gerist stuttu síðar málsvari andskotans.

Matteus getur þessa í guðspjalli sínu til þess að sýna að kirkjan blygðast sín ekki fyrir meðlimi sína því hún er samsett úr einstaklingum sem eru fullir af þverstæðum. Auk þess vill hann draga fram að kristnum mönnum og kirkjunni í heild hefur mistekist margt í starfi sínu.

En það er þó ekki aðalatriðið í guðspjalli dagsins, heldur áherslan á Jesú Krist sem kristnir menn lúta. Til þess að sjá þetta þurfum við að huga nánar að Pétri, stöðu hans innan lærisveinahópsins, játningunni og þeim sem hann játast.

III

Um fáar persónur Nýja testamentisins hafa jafnmargar helgisögur verið búnar til og um Pétur postula. Sumar þeirra hafa náð slíkri útbreiðslu að margir taka þær sem sögulegar staðreyndir. En þegar þær frumheimildir sem við höfum um Pétur eru skoðaðar kemur í ljós að helgisögurnar eru í engum tengslum við hinn sögulega veruleika. Þannig er t.d. ekkert að finna í elstu heimildum sem styður það að Pétur hafi verið biskup í Antíokkíu og síðar í Róm. Sennilegt verður þó að teljast að hann hafi ásamt Páli postula verið tekinn þar af lífi í ofsóknum Nerós árið 64 (1Klemens 5), en um það verður þó ekkert fullyrt. Þegar þær fáu heimildir eru skoðaðar sem til eru, er vissulega freistandi að fylla upp í eyður þeirra með allskyns tilgátum, vangaveltum og helgisögum. En látum slíkt eiga sig og einbeitum okkur að því sem er að finna um Pétur í Nýja testamentinu.

Þegar Nýja testamentið er lesið kemur í ljós að höfundar guðspjallanna setja vissa postula í brennidepil frásagnarinnar. Jóhannes guðspjallamaður greinir sérstaklega frá lærisveininum sem Jesús elskaði, Lúkas beinir sjónum að Páli í Postulasögunni, en Matteus dregur fram hlutverk Péturs innan lærisveinahópsins. Þegar guðspjallið er lesið kemur í ljós að Matteus lætur Pétur oft koma fram fyrir hönd lærisveinanna. Þannig er til dæmis í Markúsarguðspjalli greint frá því að lærisveinarnir spyrja Jesú um eitthvað sem hópur, en í sömu frásögu í Mattuesi er það aðeins Pétur sem spyr (Mt 15.15; 18.21). Þegar Jesús ávarpar hópinn í Matteusarguðspjalli beinir hann jafnan orðum sínum að Pétri (Mt 17.24). Matteus virðist gera Pétur að fulltrúa lærisveinanna í guðspjalli sínu. Hann leitast við að varpa ljósi á lærisveina Jesú með því að fjalla um Pétur. Pétur er þó ekki gerður að einhverskonar táknmynd fyrir lærisveinana í guðspjallinu. Nei, Matteus er að sýna hvernig barátta trúarinnar, sem allir kristnir menn þekkja, speglast í lífi Péturs. Hann tekur áhættu og er fullyrðingaglaður og hann misstígur sig. Hann efast og trúir, hafnar og iðrast.

Þrátt fyrir alla galla sína og oft hugleysi á úrlitastundu er sérstaða Péturs aldrei dregin í efa í Nýja testamentinu. Pétur er sá fyrsti sem Jesús kallar til fylgdar við sig og hann er fyrsti upprisuvotturinn. Sjálfstæði hans er ítrekað í guðspjalli dagsins þegar Pétur er látinn bera fram játningu safnaðarins: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“ (Mt 16.16). Staðsetning þessara orða innan guðspjallsins er athyglisverð. Jesús gerir hér í fyrsta sinn greinarmun á því sem fólkið álítur og því sem lærisveinarnir vita þegar hann spyr „hvern segið þér mig vera?“ Þetta er áleitin spurning sem sérhver kristinn maður verður að svara frammi fyrir Drottni og vitna um í lífi sínu.

Þegar játning Péturs er athuguð kemur í ljós að í henni eru engin nýmæli. Allir lærisveinarnir báru fram svipaða játningu eftir að Jesús hafði lægt vatn og vind er þeir sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs“ (Mt 14.33). Hið sama á við um fyrirheit Jesú í garð Péturs, það er samantekt á því sem Jesús hefur áður sagt eða mun síðar segja við alla lærisveinana. Jesús hafði fyrr lýst þá sæla (Mt 13.16n; 11.25–30) og síðar í guðspjallinu gefur Jesús öllum lærisveinunum vald til að binda og leysa (Mt 18.18). Lyklavaldið er í höndum þeirra allra. En rétt er að geta þess að myndlíkingin, að binda og leysa, var algeng meðal fræðimanna á dögum Jesú. Hún merkti að leggja út af orði Guðs eða kenna og miðla því áfram. Játning Péturs og svar Jesú á því við um alla lærisveinana. Embættið sem Pétur hefur er sem sé að boða og skýra það sem Jesús hefur kennt. Enda segir Jesús í lok guðspjallsins við lærisveina sína: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður“ (Mt 28.19–20).

IV

En hvers vegna kallar Jesús Símon Jónasson Pétur, þ.e. klettinn sem hann ætlar að byggja kirkju sína á?

Þegar textinn er athugaður kemur í ljós athyglisverður orðaleikur hjá Jesú. Hann byggir líklega frekar á grísku en aremeísku. Nafnið Kepha, þ.e. Pétur, kemur ekki fyrir í heimildum fyrr en frá og með kristni. Það bendir til þess að Jesús hafi í orðsins fyllstu merkingu gefið Símoni viðurnefnið Pétur eða Petrós. Það orð merkir á grísku hringlaga stein eða steinvölu. Grískum áheyrendum hefur þótt einkennilegt að það væri mögulegt að byggja eitthvað á henni. Aftur á móti er til annað grískt orð sem hljómar nærri eins, eða orðið petra, en það þýðir klettur. Mætti því túlka orðaleik Jesú á þann veg að hann geri klett úr steinvölu. Játningin sem Pétur flutti gerir hann a.m.k. að kletti.

Í sögu kirkjunnar hafa orð Jesú til Péturs verið túlkuð á svipaðan hátt. Gríski kirkjufaðirinn Órígenes, sem var uppi á þriðju öld, segir að kletturinn sem Jesús vísi til sé trú Péturs og játning. Hann vilji reisa kirkju sína á þeim því þar sem slíka játningu sé að finna og slíka tiltrú að sjá, þar sé kirkja Krists. Pétur sem einstaklingur er því ekki klettur, heldur sá sem hann trúir á, Kristur. Trúin á hann reyndist Pétri sá klettur sem hann gat staðið á, öruggt vígi í öllu lífi hans. Ágústínus kirkjufaðir, sem var uppi á fjórðu öld, útfærir þessa túlkun nánar. Hann segir: „Kletturinn fær ekki nafn sitt af Pétri, heldur dregur Pétur nafn sitt af klettinum.“ Páll postuli segir: „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur“ (1Kor 3.11).

Kletturinn er Kristur (1Kor 10.4). Á honum byggir Pétur. Þess vegna getur Jesús áminnt Pétur harkalega og sagt: „Vík frá mér, Satan“; það gerir hann af því að Pétur var að yfirgefa grundvöll trúar sinnar. Þessi túlkun Ágústínusar hefur náð mikilli útbreiðslu enda er hún í samræmi við heildarvitnisburð Nýja testamentisins.

Pétur er samkvæmt þessu fulltrúi allra kristinna manna og fyrirmynd vegna játningar sinnar, auk þess sem hann er meðbróðir okkar í efa og breyskleika.

V

En hver er þá sérstaða Péturs og hvert er raunverulegt embætti hans?

Svarið er í raun einfalt. Pétur setti fram játninguna sem kirkjan hefur æ síðan byggt á: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“ (Mt 16.16). Þessi játning hefur verið kristnum mönnum sem klettur, bjarg og vígi á vegferð þeirra með Guði í gegnum lífið öld eftir öld. Embætti Péturs hefur því ekkert að gera með postullega vígsluröð, hún tryggir ekki neitt, heldur einungis játningin sem Pétur flutti og sá sem hún beinist að: Jesús Kristur.

Hættan sem stafar að kirkjunni og allir kristnir menn standa frammi fyrir á öllum tímum er sú sama og Pétur stóð frammi fyrir í guðspjalli dagsins. Það að játast Jesú en neita um leið að horfast í augu við kross Krists. Eins og Pétur eigum við erfitt með að skilja að Jesús skuli hafa átt að fara „til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi“ (Mt 16.21).

Þýski guðfræðingurinn Friedrich-Wilhelm Marquardt telur að afneitun Péturs komi fram nú á dögum í þeirri blekkingu nútímamanna að telja að þeir lifi í gjörbreyttu samfélagi og hafi allt annan lífsskilning en fyrri kynslóðir. Það sé rökrétt afleiðing þessarar blekkingar að flytja þurfi allt annað fagnaðarerindi og allt aðra játningu en þá sem guðspjall dagsins greinir frá. Þetta sé afneitun og blekking. Það er mikið til í þessum Marquardts.

En við erum einnig lík Pétri á annan hátt. Við tökum undir játningu hans en látum síðan efann ná tökum á okkar, eins og hann. Því við viljum svo gjarnan skilgreina hver Guð er og móta boðskap Jesú eftir eigin höfði. Og þegar við rekumst á, eigum við gera það sama Pétur, „iðrast“ og snúa okkur til Krists, játast honum og láta hann leiða okkur í gegnum lífið. Já, látum hann skilgreina hver Guð er, hver hann er sjálfur og hver við erum, eins og Pétur gerði.

Í Jesú nafni. Amen.

Mt 16.13–26. Önnur textaröð. 5. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.