Samtal um dauðann

Samtal um dauðann

Mikilvægt að við tölum um dauðann áður en hann kemur. Áður en við verðum of gömul. Áður en sjúkdómurinn hvolfist yfir. Það fær okkur til að skoða eigið líf og langanir. Fortíð, nútíð og framtíð skoðast þá í einu samhengi.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
03. febrúar 2020

Það hefur verið sagt að við ættum að tala um dauðann á meðan hann er fjarri okkur. Á meðan við erum ung og frísk og heilsan er góð er allt tal um dauðann samt svo fjarlægt. En svo breytast aðstæður. Við upplifum að tilvera okkar hristist eins og í jarðskjálfta. Við greinumst með alvarlegan sjúkdóm eða einhver okkur nákominn. Stundum missum við ástvin. Þá er dauðinn kominn til okkar. Óvænt og algjörlega óboðinn. Veröld okkar hrynur skyndilega. Eitthvað stendur þó eftir og það er mikilvægt að beina sjónum að því. Þar byrjum við að byggja upp eftir „jarðskjálftann“ sem við upplifðum.


Að tala um dauðann gerir sorgina iðulega einfaldari og auðveldari hjá þeim sem missa ástvin. Það getur vissulega verið erfitt að tala um dauðann þegar veikindi eru því þá upplifum við að um leið sé verið að gera lítið úr voninni. Að samtalið um dauðann leiði okkur út í vonleysi. Það þarf alls ekki að vera þannig. Opið samtal um dauðann getur hjálpað bæði deyjandi og ættingjum. Sumir sjá þarna mótsagnir. Að ef þú talar um dauðann, heldur þú ekki í vonina um lífið og þá endarðu í myrkri og vonleysi. Reyndar er mín reynsla að þar sem við þorum að tala um dauðann verður lífið mjög raunverulegt og lifandi. Við uppgötvum og tölum um það sem skiptir okkur mestu máli.


Fyrir okkur er mikilvægt að heyra hvað hinn deyjandi ástvinur hefur að segja. Orð sögð þar geta orðið til að létta á sorginni síðar meir. Fyrir hinn deyjandi er oft gott að ræða um tilfinningar sínar, um ótta og von, áhyggjur og það sem muni ganga vel. Að hugga hvert annað og fullvissa að allt verði í lagi með alla gefur gríðarlegan styrk inn í aðstæður við dánarbeð.


Mikilvægt er líka að við tölum um dauðann áður en hann kemur. Áður en við verðum of gömul, áður en sjúkdómurinn hvolfist yfir. Það fær okkur til að skoða eigið líf og langanir. Fortíð, nútíð og framtíð skoðast í einu samhengi. Hvað gerist þegar ég er ekki hér lengur? Hvernig vil ég raunverulega verða grafinn? Úr hverju reikna ég með að deyja? Hér eru mörg atriði sem má ræða.


Það hefur líka verið sagt að þau sem kunna að lifa lífinu lifandi eigi auðveldara með að skilja við lífið og deyja. Hvort það er satt er ekki víst. Kann þó að vera að þau sem virkilega hafi notið lífsins geti kvatt það í meiri sátt en hin sem ekki nutu sín sem skyldi. Það er þó ljóst að erfiðir hlutir úr fortíð hafa áhrif á nútíð og skapa oftar en ekki áhyggjur af framtíðinni. Að horfa sátt um öxl er verðmæt afstaða sem er þó ekki allra. Dauðinn spyr ekki um neitt þegar hann kemur. Sátt við líf eða ósátt. Öll erum við ofurseld þeim örlögum að deyja einhvern daginn. Vert er þó að muna að það verður aðeins einn dagur sem dauðinn kemur. Alla hina munum við lifa! Og þá daga sem við lifum þarf okkur að líða sæmilega. Samtalið um dauðann er mikilvægt í því sambandi. Það skerpir skilning okkar á lífi okkar og tilvist.


Margt gerist á einni mannsævi. Sigrar og sorgir, árangur og mistök. Oft hefur fólki orðið á í mannlegum samskiptum, í uppeldi, í hjónabandi, á starfsvettvangi eða annar staðar. Fyrirgefning er ekki alltaf auðveld. Handtak á dánarbeði og fyrirgefningarbeiðni eru oft ekki raunhæfur kostur. Stundum höfum við þurft að „brúa hyldýpisgjá“ ósættisins og þess sem kom uppá. Það er oft betra að tippla á slíkri brú en að skella sér í þá ófærugjá sem við vitum að muni ekki skila neinu góðu. Stundum þarf ekki að segja nein orð. Þá nægir að horfast í augu og vita að það sem var vont og sárt er báðum jafnsárt og hefði betur aldrei gerst. En fortíðin verður auðvitað aldrei tekin til baka. En það er hægt að horfast í augu við hana og lifa með henni án mikils sársauka. Til aðstoðar með þetta eru ýmsir fagaðilar, sálfræðingar, læknar, prestar og aðrar fagstéttir. Mikilvægast er að eiga samtalið við þann er við treystum.


Oft eigum við erfitt með að hefja umræðu um dauðann. Til að opna á slíka umræðu þá má spyrja þann sem á stutt ólifað að einföldum spurningum. Hvernig líður þér? Að hverju hefur þú mestar áhyggjur? Óttastu dauðann? Hvaða hugsanir sækja á þig núna? Ef slík tilfinningaleg umræða er of erfið má opna á samtal um hagnýta hluti er varða útför og það sem henni fylgir.


Stúlka um tvítugt fékk greiningu á alvarlegum sjúkdóm. Læknar höfðu sagt að hún væri deyjandi. Á sjúkrahúsinu var hún afar óttaslegin. Sálfræðingur sem var henni til aðstoðar fann út að ótti hennar var ekki við sjúkdóminn eða dauðann, heldur það að hún myndi hafna í helvíti. Hún hafði hlotið sterka trúarlega mótun og þar var áhersla á dóm Guðs og refsivist helvítis. Sjúkrahúsprestur var kallaður til aðstoðar sálfræðingi til að vinna með þessa guðsmynd og helvítis hræðsluna. Tókst þeim að benda á mildari guðsmynd þar sem frelsarinn Jesús Kristur bauð fram mildi og kærleika og von hins eilífa lífs. Líðan stúlkunnar batnaði og um leið líðan foreldra hennar.


Mikilvægt er að þora að taka samtalið um dauðann. Finna út hvað við óttumst en þegar við komum orðum að hlutunum þá verða þeir að öllu leyti viðráðanlegri. Samtalið mun líka snúast um það sem skiptir máli. Að eiga samtalið um dauðann við kveðjustund ástvinar getur orðið til að búa til dýrmætar minningar. Litlar og stórar minningar sem lifa með okkur og munu gleðja okkur síðar á lífsleiðinni. Þær munu hjálpa á vegferðinni með sorginni sem dauðinn mun hafa í för með sér. Hefjum samtalið því dauðinn dvelur ekki, hann er stöðugt á ferðinni.