Samband safnaðar og prests frá sjónarhóli Marteins Lúthers

Samband safnaðar og prests frá sjónarhóli Marteins Lúthers

Íslenska þjóðkirkjan virðist oft eiga í vanda með að skilgreina samband prests og safnaðar. En efnið var til umfjöllunnar alla síðustu öld og virðist þeirri umfjöllun ekki nærri lokið þó komið sé vel inn á 21. öldina.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
25. september 2012

Inngangur

Íslenska þjóðkirkjan virðist oft eiga í ákveðnum vanda með að skilgreina samband prests og safnaðar, eins og kom t.d. fram á síðasta prestafélagsfundi. En þetta efni var til umfjöllunnar alla síðustu öld og virðist þeirri umfjöllun ekki nærri lokið þó komið sé vel inn á 21. öldina.  Markmið með þessari  grein er ekki að gera grein fyrir þessari umfjöllun og átakliðum, heldur að skoða hvort hin lútherska kenning um almennan prestsdóm, sem þjóðkirkjan byggir á, geti hér verið ákveðinn leiðarvísir.[1]

En samkvæmt þeirri kenning ber að forðast þá óréttmætu gagnrýni að kirkjan sé eitthvað annað en við.  Allir skírðir menn tilheyra kirkjunni, svo lengi sem þeir játa trú sína með játningum kirkjunnar.  Þannig erum við öll embættismenn kirkjunnar og eigum að sinna skyldu okkar sem prestar hvers annars: Að boða fagnaðarerindið, fyrirgefa syndir og biðja fyrir náunga okkar.

Þannig er hinn almenni prestsdómur safnaðarbundinn og safnaðarmótandi, en ekki bara innan veggja kirkjuhússins, heldur á heimili og meðal vina og í samfélaginu í heild. Og hinum almenna prestsdómi fylgja kærleiksverk sem spretta sem blóm í jarðvegi boðunarinnar.  Vissulega sjáum við þessa kenning víða virta innan kirkjunar og við sjáum hana í raun í framkvæmd í hinu fjölbreytta safnaðarstarfi.  Nægir hér að minna á sóknarnefndir, kirkjufólk í margs konar störfum fyrir söfnuðina og messuþjónana, að ekki sé minnst á allt sönglífið í kirkjunum.

Það er því ekki rétt að spyrja hver eigi að ráða innan kirkjunnar eins og stundum er tekist á um.  Það er því hvorki spurning um það hvort söfnuður eigi að lúta presti eða prestur söfnuði, heldur ber báðum að lúta Kristi og þjóna náunganum í ljósi fagnaðarerindisins.  Þess vegna ber hinum kristnu einstaklingum að skilgreina vel og virða verksvið hvers annars.

Söfnuðurinn sem samfélag trúaðra

Söfnuðurinn er samfélag trúaðra um orð og sakramenti.  Að mati Lúthers samræmist sú staðreynd ekki þeirri sýn að kirkjan samanstandi af ómynduðum söfnuði sem leiddur sé af klerkum.  Í stað klerkastjórnar innan kirkjunnar, kemur söfnuður ábyrgra einstaklinga sem eru færir um að meta og dæma. Þessi áhersla á kirkjuna, sem samfélag trúaðra, er meginforsenda kenningar Lúthers um almennan prestsdóm. Hann gerir víða grein fyrir henni í ritum sínum og vísar oft til hennar.[2] Grundvallandi umfjöllun er að finna í riti hans, Daß eine christliche Versammlung oder Gemeine Recht und Macht habe, alle Lehre zu urteilen und Lehrer zu berufen, ein-und abzusetzen, Grund und Ursach aus der Schrift,[3] frá 1523, sem útleggja má: „Að kristin samkoma eða söfnuður hafi rétt og vald til að dæma allar kenningar og kalla kennara til starfa, setja þá í og taka þá úr embætti, grundvöllur þessa og forsendur í ritningunni.“  Af þessu leiðir að söfnuður getur ekki ráðið og rekið presta eftir hendugleika heldur verður rökstuðningur fyrir því að samræmast grundvelli safnaðarins sem orðaður er í játningum kirkjunnar.

Lúther greinir á milli þriggja atriða í þessu riti. Í fyrsta lagi möguleika leikmanna til þess að fella guðfræðilega dóma, í öðru lagi að söfnuðurinn hefur leyfi til þess að velja sér prest og í þriðja lagi nauðsyn á sérstöku prestsembætti fyrir boðun orðsins og veitingu sakramenta.[4]

Söfnuðurinn og kenningin

Það vald og sú ábyrgð sem Lúther segir að einstaklingurinn og söfnuðurinn hafi samkvæmt hinum almenna prestsdómi hefur í för með sér að hann getur lagt guðfræðilegt mat á kenningu kirkjunnar, prédikun og boðun í söfnuðinum. Lúther vísar hér til Jesaja 55.11 máli sínu til stuðnings þar sem segir að orð Guðs snúi ekki aftur án þess að hafa framkvæmt það sem það vill.  Lúther  segir í því sambandi:

Við erum vissir um að þar sem fagnaðarerindið er, þar eru kristnir einstaklingar. Það er sama hversu fáir þeir eru, hversu syndugir þeir eru og breyskir […] af því leiðir og það óvefengjanlega að biskupar, stifti, klaustur og annað slíkt þarf alls ekki að teljast kristinn söfnuður þótt þeir krefjist þess að þau ein hafi rétt á því nafni. Því sá sem þekkir fagnaðarerindið, hann sér, heyrir og skilur hvernig þeir halda í eigin mannasetningar og sér hvernig þeir hafa hrakið fagnaðarerindið burt og halda því áfram […] Kristur sviptir þess vegna [í burtu með fagnaðarerindinu] valdi og rétti biskupa, fræðimanna og kirkjuþinga til að dæma um kenninguna. Hann veitir aftur á móti öllum kristnum mönnum það vald, því er hann segir í Jóhannesi (10.1–18) að sauðirnir þekki raust hans, þeir fylgi ekki ókunnugum, þeir fylgi honum, því þeir þekki ekki hina ókunnugu rödd […]  hér sér þú augljóslega hver hefur rétt til að dæma kenninguna, biskup, páfi, fræðimenn og allir hafa rétt til þess að kenna, en sauðirnir eiga að dæma um hvort þeir þekki rödd Krists í þeirri kenningu eða einhverra annarra í því efni sem þeim er flutt.[5]

Kennimenn og aðrir hafa rétt til þess að flytja kenninguna, en það er söfnuðurinn sem greinir hvort þar sé á ferðinni fagnaðarerindið eða mannasetningar. Þetta er mikilvægt atriði í kenningum Lúthers um almennan prestsdóm. Hver kristinn einstaklingur er gerður að presti fyrir skírn og er nú af Guði uppfræddur í orði fagnaðarerindisins. Kennslan felst ekki einvörðungu í vissri þekkingaröflun, heldur einkennist fyrst og fremst af því að hann skilur og meðtekur orð fagnaðarerindisins sem honum er flutt af því að heilagur andi lýkur því upp fyrir honum. Það er andinn sem lætur einstaklinginn taka orðið til sín. Lúther er þess fullviss að hver kristinn maður skilji vel inntak fagnaðarerindisins. Þessi almenni skilningur er grundvöllur kennivalds kirkjunnar sem kemur fram í því að allir leikmenn eru hæfir að leggja mat sitt á málflutning manna og greina á milli fagnaðarerindisins og þess sem er því óviðkomandi.  Leikmenn eru því „skyldugir gagnvart heilagleika Guðs að dæma það sem ekki boðar náð“.[6] Þessu fylgir að sjálfsögðu að menn verða að vera tilbúnir að láta dæma málflutning sinn. Hafa ber í huga að þetta mat leikmanna á prédikuninni hefur ekkert að gera með gagnrýnisáráttu og dómshyggju. Lúther hafnar slíku og segir á einum stað um það:

Einmitt á þann máta starfa þeir sem eru svo hæfileikaríkir, þegar þeir dæma aðra, eins og nokkrir falsbræður á meðal okkar. Þeir eru algjörir asnar og kunna ekkert annað en að veita öðrum ráð, hvernig á að framkvæma það sem á að gera. Það er enginn vandi, og þá list þekki ég vel, og ef til vill betur en þeir, en það að framkvæma er allt annað en að tala um það […] en um það vita þessir hrínandi asnar ekkert og þess vegna eru þeir svo færir í að gera lítið úr verkum annarra og gagnrýna þau.[7]

Lúther hafnar ekki kennivaldi kirkjunnar sem stofnunar heldur útvíkkar hann það og færir það hinum almenna presti.  Þannig  færir hann kennivaldið úr höndum páfa, biskupa, fræðimanna og kirkjuþinga og lætur það í hendurnar á hinum trúuðu sem treysta orði fagnaðarerindisins. Augljóst er að almennur leikmaður hefur ekki forsendur til þess að meta málefnalega einstök heimspekileg og guðfræðileg vandamál; það er ekki endilega á hans verksviði, guðfræðinganna er að fást við það, það er að segja biskupa, presta og fræðimanna. Það er aftur á móti söfnuðurinn sem dæmir um það hvort kenningin sem flutt er endurspegli fagnaðarerindið. Í ljósi þessarar stöðu safnaðarins og hins almenna prestsdóms, lagði Lúther mikla áherslu á almenna þekkingu fólks á ritningunni og grundvallarþáttum trúarinnar. Í því sambandi skrifaði hann Fræðin minni og meiri og gaf út postillur sínar og lagði ríka áherslu á prédikunina sem gæfi tilvalið tækifæri til þess að uppfræða fólk um inntak fagnaðarerindisins.[8]

Prestur og almennur prestsdómur

Þegar Lúther bindur almennan prestsdóm á þennan hátt við kennivald kirkjunnar er greinilegt að hér er um allt annað prestshlutverk að ræða en það sem var til staðar í rómversku kirkjunni. Það var skilgreint út frá altarisfórninni og altarisþjónustunni. Lúther tengir aftur á móti prestsembættið við fagnaðarerindið og almennan prestsdóm. Áherslan á prédikunarembættið verður miðlægt og það er ekki aðeins bundið við sérstakt embætti prestsins innan safnaðarins eða í þjónustu safnaða, heldur er embættið lífsafstaða hvers kristins manns. Allir skírðir sinna þessu prestsembætti á þeim stað og í því starfi sem þeir inna af hendi.  Þetta á jafnt við um foreldra, afa og ömmur, kennara og uppalendur sem og aðra þá sem bera  á einhvern hátt ábyrgð að börn, ungmenni og almenningur fái viðeigandi fræðslu um kristna trú og læri fræðin eins og sagt var hér í eina tíð.[9]

En innan safnaðarins og í guðsþjónustunni er það prestsins sinna prestsþjónustunni. Prestsembættið er hér skilgreint út frá boðuninni. Embætti boðunarinnar sem prestinum er falið innan safnaðarins er því æðsta embættið innan kristninnar. Lúther segir: „Prestur getur vissulega skírt, haldið messur og stundað sálusorgun og hvað sem hann vill, en hann getur líka haldið sig við prédikunina og skírnina en látið aðra sinna hinu.“[10]

Spurningin sem nú vaknar er hvert sambandið sé á milli hins almenna prestsdóms og sérstaks prestsembættis eða hvert prédikunarembættið sé í víðari og þrengri skilningi. Fyrst búið er að binda prédikunarembættið, sakramentin, sálusorgun og lyklavaldið við hinn almenna prestsdóm, þá vaknar spurningin um það í hvað felist þá í prestsembættinu innan safnaðarins. Lausn þessa vanda hefur allajafnan verið sú að skipulagslega séð sé nauðsynlegt að söfnuðurinn velji sér einn aðila til þess að sinna þessu hlutverki innan hans. Presturinn sem embættismaður safnaðarins sinnir hinni opinberu þjónustu orðs og sakramentis.[11] Þetta merkir ekki að leikmenn hafi þar með misst ábyrgð sína, því fer fjarri. Nægir hér einungis að minna á uppeldishlutverk foreldra og kennara. Auk þess koma þær aðstæður ætíð upp þar sem nauðsynlegt er að kristnir einstaklingar sinni prédikunar- eða boðunarhlutverki sínu. „Ef enginn kristinn maður er til staðar nema einn, þá þarfnast hann ekki annarrar köllunar en þeirrar að vera kristinn til að sinna boðuninni […] hann er skyldugur að boða villuráfandi heiðingjum eða ekki kristnum einstaklingum og kenna þeim um fagnaðarerindið vegna náungakærleikans, þó að enginn kalli hann til þess að gera það.“[12] Eins og gefur að skilja á þetta ekki við þar sem söfnuður er til staðar. Það væri yfirgangur og vanvirðing við söfnuðinn ef menn rifu hver í kapp við annan til sín prestsembættið. Þó að einstaklingar hafi rétt til embættisins vegna almenns prestsdóms ber að virða almennar reglur og stuðla að friði innan safnaðarins.[13] En einmitt vegna þess að það byggist á almennum prestsdómi má boðunin ekki verða óreglu og múgmennsku að bráð.

Söfnuðurinn og val á presti

Að mati Lúthers er af ofangreindu ljóst að það þarf að kalla til vissan einstakling sem sinnir boðunarhlutverki innan safnaðarins. Það ber að velja prédikara „samkvæmt boði ritningarinnar, kalla og setja þá í embætti sem eru til þess hæfir og hafa upplýsta skynsemi í Guði og aðrar gáfur til þess að sinna því“.[14] Lúther leggur áherslu á menntun presta í þessu sambandi. Áherslan er skýr. Embættið er skilgreint út frá myndugum söfnuði sem kallar prest til starfa og setur þá af ef þeir sinna ekki boðuninni og rísa ekki undir embættinu. Boðun fagnaðarerindisins, veiting sakramennta og bæta má viðsálusorgunin, er sá mælikvarði sem embættið og val í embætti á að taka mið af.  Biskup getur einungis staðfest embættisveitingu prests sem söfnuður hefur valið. „Biskupinn getur ekki sett neinn í embætti án kosningar, vilja og köllunar safnaðarins. Hann á að staðfesta þann sem söfnuðurinn velur og kallar. Geri hann það ekki á sá hinn sami samt sem áður að fá staðfestingu köllunar sinnar af söfnuðinum.“[15] Þýski guðfræðingurinn Reiner Preul bendir réttilega á það að Lúther hugsi hér fyrst og fremst um grundvallarrétt safnaðarins en ekki um neyðarlög sem ber að beita þegar ástand skapast sbr. það ástand sem skapast hafði vegna óstjórnar biskupa í samtíð hans.[16] Lúther vísar í þessu samhengi til þess, að postularnir hafi ekki sett neinn í embætti gegn vilja safnaðar og samþykkis hans. Þeir hafi fyrst og fremst staðfest köllun hans.[17] Lúther segir að biskupar eigi ekki að gera slíkt „án vilja safnaðarins, nema þar sem neyðin krefjist þess“.[18] Lúther vék ekki frá þessari forsendu þó að þróunin í kirkjupólitíkinni hafi valdið því að hann varð að setja þennan rétt safnaðarins um stund til hliðar. Uppbygging kirkjunnar samkvæmt forsendum hins almenna prestsdóms varð þar grundvallandi.

Niðurstaða

Almennur prestsdómur var hjá Lúther forsenda kirkjuskilnings hans sem á að móta löggjöf og byggingu kirkjunnar. Hann verður þó að laga að aðstæðum og tíðaranda samfélagsins. Það hversu opinn kirkjuskilningur Lúthers var skýrir ef til vill hvers vegna hann lét ósvarað svo mörgum spurningum varðandi framkvæmd hins almenna prestsdóms. Hann skilgreinir ekki í einstökum atriðum hvernig köllun prests til starfa eigi að fara fram, hvernig menntun þeirra eigi að vera, hvað þá að hann skilgreini tengsl safnaðarstjórnar og kirkjustjórnar til hlítar og svo framvegis. Hann setti ekki fram skipurit fyrir kirkjuna sem bæri að fylgja heldur greindi eðli hennar og forsendur. Lúther setur á skýran hátt fram forsendur safnaðarstarfsins, en hvernig útfærsla einstakra atriða fer fram liggur í höndum kirkjustjórna og safnaða.

Nauðsynlegt ber að hafa í huga að Lúther lítur ekki á almennan prestsdóm og prestsembættið sem andstæður eða samkeppnisaðila innan safnaðarins, heldur eru bæði af sama meiði og þiggja næringu sína af fagnaðarerindinu. Almennur prestsdómur og prestsembættið styðja þannig hvort annað, þ.e.a.s. söfnuður og prestur lúta Kristi. Það er því ljóst að við getum heimfært kenningu Lúthers um almennan prestsdóm og embætti kirkjunnar inn í samtíð okkar, þar sem kirkjan er enn að velta fyrir sér hinu eilífa sambandi prests og safnaðar. Þannig getum við nýtt kenningu hans í verki með því að styðja við og auka þátttöku leikra og lærðra í kirkjunni þar sem allir finni sig heima í fjölskrúðugri þjónustu kirkjunnar. Og „látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar“ 1Pét. 2:5.


 

[1] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja, Reykjavík 2006, 54–59.

[2] Stutt yfirlit yfir kenningu Lúthers um almennan prestsdóm er að finna hjá Hans-Martin Barth, Einander Priester sein. Allgemeines Priestertum in ökumenischer Perspektive, Göttingen 1990, 29–53.

[3] WA 11, 408–416.

[4] Reiner Preul dregur vel fram þessar þrjár röksemdafærslur Lúthers í riti sínu Kirchentheorie, Berlin 1997, 104–109.

[5] WA 11, 489.

[6] WA 11, 411.

[7] WA 40 II, 531.

[8] „Það var ekki valdboð að ofan sem festi siðbótina í sessi heldur prédikun fagnaðarerindisins innan veggja kirkjunnar og heimilanna. Þegar við upphaf siðbótar gerði Lúther grein fyrir því að tæki fagnaðarerindisins væru prédikun og fræðsla. Til þess að menn gætu sinnt boðuninni varð að útvega prestum hentug hjálpartæki fyrir prédikunarsmíðina og heimilunum aðgengilegt fræðsluefni.“ Sigurjón Árni Eyjólfsson, Kristin siðfræði í sögu og samtíð, Reykjavík 2004, 292.

[9] „Því vissulega er faðir og móðir postuli, biskup og prestur í því er þau boða fagnaðarerindið. Meginatriðið er að það er ekki til stærra og virðulegra vald á jörðu en það sem foreldrar hafa yfir börnum sínum. Og hver sem kennir öðrum fagnaðarerindið, sá er sannarlega postuli og biskup þess sem hann fræðir.“ WA 10 II, 301; sbr. WA 30 II, 528–530.

[10] WA 11, 415–416.

[11] WA 11, 412–413; sbr. Ágsborgarjátninguna, 14. grein.

[12] WA 11, 412.

[13] „Já, kristinn einstaklingur hefur það mikið vald að hann getur mitt á meðal trúsystkina sinna, án köllunar frá mönnum, staðið upp og kennt. Hann á að gera það þegar hann sér að kennarinn sjálfur [presturinn] kennir ranglega. En þegar hann gerir það gerir hann það siðlega og virðir allar reglur.“ WA 11, 412.

[14] WA 11, 411.

[15] WA 11, 412.

[16] Reiner Preul, Kirchentheorie, Berlín 1997, 107.

[17] WA 11, 412.

[18] WA 11, 412.