Tímasetningar

Tímasetningar

En það er líka til annars konar tími. Himneskur tími, þar sem allt þetta útreiknanlega hverfur og eftir standa óteljandi möguleikar. Þetta er tími Guðs og hann brýst stundum inn í líf okkar og opinberar okkur dýrð Guðs. María vissi það að Jesús gat gert eitthvað í vínskortinum. Og hún ætlaðist til þess af honum að hann myndi bregðast við. Því að það er þannig með Jesú að hann getur ekki bara, hann gerir. Þar sem Jesús er til staðar, þar verður ekki skortur.

Hafið þið einhvern tíma velt fyrir ykkur hvað tímasetning skiptir miklu máli. Kannski hafið þið einhvern tíma hugsað sem svo: Ef ég hefði farið aðeins fyrr af stað, hefði ég sloppið við þetta. Það getur verið eitthvað lítilvægt eins og kannski að lenda á rauðu ljósi, eða hitta einhvern sem maður nennir ekki að tala við, eða má ekki vera að því að tala við. Eða eitthvað sem skiptir sköpum í lífi manns, það þekkja þau sem hafa lent í alvarlegum slysum, eða jafnvel dauðsföllum. Tímasetningar hafa skipt miklu máli í mínu lífi. Það var tímasetningin sem réð því að ég vígðist sem prestur til Raufarhafnar, en ekki eitthvert annað. Og tímasetningin var mjög mikilvæg þegar ég hitti manninn minn, við grínumst oft með það að ef við hefðum hist fyrr, hefðum við sennilega ekki þolað hvort annað. En svo hittumst við akkúrat þarna norður á Melrakkasléttu og allt small saman, okkur báðum til mikillar blessunar.

En nú erum við stödd í brúðkaupi. Brúðkaupi, þar sem allar tímasetningar klikka (eða það lítur alla vega út fyrir það) Því að vínið klárast of snemma. Og það er algjör katastrófa! Því að vínið er ekki bara hluti af veitingunum með það hlutverk að hressa upp á mannskapinn og gera menn góðglaða. Vínið er tákn um að gestgjafinn njóti blessunar Guðs, blessunar sem hann deilir síðan með brúðkaupsgestunum. Og vínið sem klárast áður en veislan er búin, er tákn um að það skorti á blessun.

Og það sem gerir hlutina enn verri er að móðir Jesú virðist ekki hafa mikla tilfinningu fyrir tímasetningu heldur. Það lítur alla vega þannig út. Eins og hún sé að skipta sér af einhverju sem henni kemur ekki við. ,,Þeir hafa ekki vín”, segir hún við Jesú. ,,Hvað kemur það mér við? “ segir Jesús. ,,Minni tími er ekki kominn”.

Minn tími er ekki kominn, segir Jesús við móður sína. Hann hikar. Honum finnst hann ekki tilbúinn. Og ég fæ það á tilfinninguna að hann sé að segja við mömmu sína: Mamma, ekki ýta á eftir mér, ég er ekki tilbúinn. Ég veit að ég verð að fara þessa leið, en ég vil fá að vera venjulegur aðeins lengur. Fá að lifa sem venjuleg manneskja, njóta þess að vera með vinum mínum, og fjölskyldu, án þess að allir hafi einhverjar væntingar til mín. Minn tími er ekki kominn.

En sennilega hefur María betra tímaskyn þarna en Jesús. Hún skynjar það að nú er runnin upp stundin sem bæði hún og Jesús hafa búið sig undir árum saman. Að fólk fái að sjá að Jesús er ekkert venjuleg manneskja. Að Guð sýni dýrð sína í gegnum Jesú. Að dýrð Guðs opinberist á allt annan hátt en Móses upplifði þarna á klettinum. Ekki bara einhver óljós svipur eða tilfinning, heldur áþreifanleg blessun sem hægt er að snerta á og bragða á.

Þið þekkið framhaldið. Jesús blandar sér í málið, lætur fylla ker með vatni og þau verða að þessu líka dýrindis víni. Og enn og aftur skiptir tímasetningin máli. Flestir gestgjafar byrja nefnilega á besta víninu, en geyma beljuvínið þangað til síðast, þegar bragðlaukar og dómgreind virka þannig að allt sem fólk lætur ofan í sig er alveg dásamlega gott hvort eð er. En vínið sem Jesús lagði til var ekkert sull, blessun Guðs er nefnilega ekki útþynnt verksmiðjuframleiðsla. Blessun Guðs er það besta sem þér stendur til boða í lífinu, og enginn sem þiggur hana þarf að sætta sig við minna en bestu gæði. Tímasetningar skipta máli. Og við getum sagt að í lífi okkar gildi tvenns konar tími. Það er þessi venjulegi tími, sem við mælum í mínútum og klukkustundum og sem við notum til að koma skipulagi á líf okkar. Og í þeim heimi geta tímasetningar svo sannarlega stundum skipt sköpum. En það er líka til annars konar tími. Himneskur tími, þar sem allt þetta útreiknanlega hverfur og eftir standa óteljandi möguleikar. Þetta er tími Guðs og hann brýst stundum inn í líf okkar og opinberar okkur dýrð Guðs. María vissi það að Jesús gat gert eitthvað í vínskortinum. Og hún ætlaðist til þess af honum að hann myndi bregðast við. Því að það er þannig með Jesú að hann getur ekki bara, hann gerir. Þar sem Jesús er til staðar, þar verður ekki skortur.

Og þetta skiptir öllu máli. Þegar við lifum með Kristi, þá eru möguleikarnir óteljandi. Brauðið og vínið sem við neytum hér saman á eftir verður að óþrjótandi blessun. Eitt venjulegt faðmlag getur borið með sér kærleika og umhyggju sem skiptir sköpum. Örlítið framlag til þeirra sem minna mega sín getur markað skil á milli örbirgðar og mannsæmandi lífs. Og eitt bros getur lýst upp myrkur sálarinnar. Þú veist að það er sunnudagsmorgunn, að klukkan er að ganga tólf, og þú ert stödd hér í Glerárkirkju. Þú veist líka þegar klukkan er 6 og þú þarft að fara að hugsa um kvöldmatinn. Eða þegar klukkan er 10 á þriðjudagsmorgni og þú sérð ekki fram úr verkefnunum í vinnunni. En það er líka annar tími í gildi. Guð er að verki á öllum þessum tímum og stöðum. Hefur þú komið auga á tímasetningar Guðs í lífi þínu? Leyfir þú honum að grípa inn í og fylla líf þitt blessun? Því þar sem Guð er að verki, þar er allt mögulegt.

Dýrð sé Guði. Amen.