Guð kom með kossinum

Guð kom með kossinum

Ég sat aftur í bíl, bróðir minn við hliðina á mér, mamma keyrði og pabbi var í farþegasætinu. Bíllinn stoppaði niður á bryggju fyrir framan bátinn. Þetta var 120 tonna bátur gerður útfrá Hornafirði. Ég man alltaf að pabbi kvaddi mömmu með tveimur kossum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Stígur Reynisson
30. janúar 2011
Flokkar

Ég sat aftur í bíl, bróðir minn við hliðina á mér, mamma keyrði og pabbi var í farþegasætinu. Bíllinn stoppaði niður á bryggju fyrir framan bátinn. Þetta var 120 tonna bátur gerður útfrá Hornafirði. Ég man alltaf að pabbi kvaddi mömmu með tveimur kossum. Um leið og þessir tveir kossar voru komnir þá vissi ég að pabbi var öruggur, með kossunum kom Guð og verndaði pabba og aðra meðlimi áhafnarinnar sama hversu mikil bræla það væri.

Þegar ég varð eldri hætti ég að fara með mömmu og pabba niður á bryggju, ég varð bara ungur drengur að leika mér í fótbolta og vera með vinunum. Svo komu unglingsárin og ég fermdist. Ég fékk margt góðra gjafa, meðal annars græjur sem jafnast eflaust á við tölvu í dag, sjónvarp, rúm, heilan helling af lömpum og margt fleira. Nú í dag eru græjurnar ónýtar, sjónvarpið dáið og rúmið löngu farið á haugana en sú gjöf sem stóð kannski einna mest uppúr var borðklukka. Falleg borðklukka sem á var mynd af bát koma inn innsiglinguna og við bakkann standa móðir og sonur og undir myndinni var ritað „Beðið eftir pabba“ og sú klukka gengur enn.

Ég horfði oft á klukkuna þegar ég vissi að það væri bræla og vonaði að pabbi kæmi nú heill heim. En núna er pabbi kominn í land. Hann sagði skilið við sjómannslífið en eins og sagt er í íþróttum „Það kemur maður í manns stað“ og núna hafa vinirnir og aðrir fjölskyldumeðlimir tekið við keflinu og farið á sjóinn. Enn horfi ég á klukkuna og vona að ekkert komi fyrir þá sem ég þekki og þakka Guði fyrir að ekkert hafi komið fyrir pabba þegar hann var á sjó. Í guðspjalli dagsins, sem einnig má finna í Markúsarguðspjalli. fara lærisveinar Jesú út á vatnið og lenda þar í brælu. Um er að ræða Galileuvatn og er það á við Vatnajökul og því á stærð við lítið innhaf. Þegar lærisveinunum var farin að stafa of mikil hætta af veðrinu steig Jesús fram. Úr miðjum storminum kom Jesús labbandi á vatninu og lærisveinarnir skelfdust. Þeir trúðu því ekki að hann væri kominn og Pétur bað um sönnun þess að þetta væri Jesús kominn, kominn til að bjarga þeim úr óveðrinu. Hann steig frá borði og gekk á vatninu í átt til Jesú en hann hræddist, hann efaðist og byrjaði að sökkva. Hann sá að hann réði ekki við þetta einn og bað Jesús um hjálp og Jesús dró hann upp og fór með hann í bátinn. Um leið og þeir stigu um borð lygndi.

Þegar Pétur fer að efast um sjálfan sig þá fer hann um leið að efast um Jesú og tekur því að sökkva. Það sama má segja um okkur, þegar við efumst um Jesú þá náum við ekki því takmarki sem við getum aðeins náð með honum. Þegar við förum að efast þá förum við að sökkva. Við verðum því að vera tilbúin að fela Kristi líf okkar, skilyrðislaust. Við verðum að trúa því að hann sé með okkur. Hann verndi okkur og styðji þegar við þurfum á því að halda.

Fyrr í guðspjallinu hafði Jesús áður stillt storm. Hann var þá um borð í bát með lærisveinum sínum og svaf meðan stormur gekk yfir svo að öldurnar gengu yfir bátinn. Af mikilli hræðslu við að farast vekja lærisveinarnir Jesú sem lá sofandi í bátnum óhræddur. Hann spyr afhverju þeir séu hræddir og hastar á storminn svo hann lægði. Það var því í annað skiptið sem lærisveinarnir efast í raun um Jesú og hjálp hans.

Það má segja að lærisveinarnir og þá sérstaklega Pétur séu eins og þjóðfélagið í þá daga, og í raun og veru er það þannig enn. Við vitum af Jesú, hvað hann hefur gert en við, samfélagið, erum samt ekki sannfærð. Við þekkjum Jesús aðeins af afspurn eins og segir í lexíu dagsins. Rétt eins og hjá Pétri þá þurfti eitthvað til svo að hann yrði sannfærður því maðurinn er breyskur og efast. Í þessu tilviki var það björgun frá drukkun. Hjá okkur getur það verið svo margt en við þurfum að fara úr því að þekkja Guð af afspurn og líta hann augum.

Eftir að hafa gengið í gegnum mikinn storm þá efumst við stundum um Guð. Við hrösum en stöndum upp aftur. Við erum við það að gefast upp en það er eitthvað sem knýr okkur áfram. Við villumst en komumst aftur á rétta leið. Þetta gerist þegar við leyfum Guði að taka þátt í lífi okkar, hann er alltaf til staðar en hann gaf okkur frjálsan vilja og það er í okkar höndum að hleypa Guði inn í okkar líf. Hann getur aðeins sýnt okkur dyrnar, það er okkar að labba í gegnum þær og hleypa Guði í líf okkar.

Í lexíu dagsins er það Job sem lendir í brælu en þó ekki á sama hátt og sjómenn eða lærisveinar Jesús lentu í. Job er reyndur af Guði en oft er sagt að þeir sem lenda í erfiðleikum séu reyndir af Guði. Hann lendir í því að missa börn sín og búfénað og eins og það væri ekki nóg þá fær hann útbrot um allan líkaman sem valda honum miklum kvölum. Job var ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar maður. Hann fór með bænir og var góður við börnin sín. Hann var eflaust búinn að fræðast mikið um Guð og var mjög fróður um hann en eflaust aldrei tekist á við hann. Hann hafði lifað góðu lífi og hafði yfir engu að kvarta. Vinir hans reyndu að sannfæra hann að það hlyti að vera eitthvað sem hann hafði gert fyrst hann hefði upplifað svona miklar hörmungar en því neitaði Job. Aldrei formælti hann samt Guði. Hann bölvaði sínum eigin fæðingardegi og hæddi vini sína en aldrei talaði hann illa um Guð, hann hætti aldrei að trúa á Guð. Job vonaði jafnframt að hann myndi ekki sjá Guð sem andstæðing í framtíðinni sem síðar rættist þegar hann segir „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!“ í lok Jobsbókar.

Það er samt ekki þannig að Job sá Guð standa fyrir framan sig, hann sá ekki veru standa fyrir framan sig sem hann áleit Guð. Þegar Job segir „nú hefir auga mitt litið þig“ þá á hann við að Guð hefur opnað fyrir honum þá hugsun að sjá sig í hjarta sínu og sálu. Guð er sá sem raðar stjörnunum á himininn og lætur sólina koma upp á morgnana eins og segir í Jobsbók og þegar við sjáum að þetta og öll önnur verk hans og mátt þá getum við sagt: nú hefir auga mitt litið þig.

Þessi skynjun, það að við komumst að líta Guð augum er tilbeiðsla og sú fullkomnasta tilbeiðsla sem til er því að tilbiðja Guð í algjörri einlægni gefur okkur þann mátt að ljúka upp augunum svo að við sjáum hinn ósýnilega Guð. Oft lendum við í brælu í lífi okkar, við erum föst, komumst ekki neitt og lífið sem við lifum er við það að hvolfa, við höldum að við séum að sökkva. En stundum þurfum við að sökkva. Stoltið er stundum það mikið að við teljum að við getum haldið okkur á floti en það er ekki fyrr en við erum komin á botninn sem við áttum okkur því að við getum ekki ein bjargað okkur. Hvert leitum við þá? Augljóstasta leiðin er að við leitum til Guðs. Við segjum „Guð bjargaðu mér“ rétt eins og Pétur sagði við Jesú og við sjáum þetta ákall í gegnum alla Biblíuna. Við biðjum hann um að hjálpa okkur. Guð teygir sig niður til okkar og hjálpar okkur upp rétt eins og Jesús teygði sig niður og bjargaði Pétri frá drukknun. Með hjálp Guðs þá höldumst við á floti og komumst á þurrt land.

Að lenda í stormi er ekki alltaf alsæmt þó það getur verið erfitt. Þegar stormur herjar á okkur þurfum við að stoppa, hugsa og meta stöðuna. Hvar erum við, í hvaða átt viljum við fara og hvar viljum við enda. Í þessari stöðu getur verið gott að hafa einhvern sér við hlið. Við getum verið fullviss að Guð stendur ávallt við hlið okkar en það er svo undir okkur komið að leyfa honum að taka þátt og aðstoða okkur. Guð er alltaf með okkur í erfiðleikum, hann er alltaf tilbúinn að styðja okkur og hjálpa. En einnig að hann sé með okkur á gleðistundum, það vill oft gleymast, við leitum til Guðs í erfiðleikum en gleymum honum á gleðistundum. Því horfi ég enn á klukkuna og gleðst yfir þeim stundum sem ég mun eiga með pabba mínum og öðrum sem ég þekki og þakka fyrir það sem Guð hefur gefið mér. Og þó ég viti i dag að kossinn varð ekki til þess að pabbi kom heill til baka þá geymir kossinn svo margt. Í kossinum er að finna kærleika og kærleikurinn er sprottinn af Guði. Við sjáum kærleika Guðs allsstaðar hvort sem hann er á sjó eða landi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.