Sögulegur tími

Sögulegur tími

Aðventan er sögulegur tími og fagnaðarerindi kristinna manna hefst á stuttu sögubroti. Það er ekki ýtarlegra en svo að það gefur ímyndunaraflinu nægt svigrúm til að fylla í eyður með myndum, leikþáttum, söngvum og auðvitað fleiri sögum.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
17. desember 2015

Á aðventu og jólum segjum við sögur. Það liggur einhvern veginn í loftinu um þetta leyti að frásagnir af ýmsum toga, endurminningar, skáldskapur og hugleiðingar verða fyrirferðarmikil í umhverfi okkar. Taktur hátíðarinnar hefst gjarnan með sögum. Nýjar bækur koma út og sumar þeirra geyma svo mergjaðar sögur að þær fanga athygli okkar. Þær verða ísbrjótur þegar fólk kemur saman og hefur jafnvel á þeim ýmsar skoðanir. Svo þegar líður á mánuðinn verða þær æ fleiri, ekki bara þessar sögur sem jólabækurnar geyma, heldur líka litlu vinjetturnar sem fjölskyldur og vinir eiga saman og rifja upp þegar fólk hittist í jólaboðum.

Já, sumar stundir eru sögulegar. Þá varð til einhver þráður sem vert er að rifja upp löngu síðar. Honum fylgir aðdragandi þar sem persónur eru kynntar til leiks, stígandi með þeim atburðum eru í uppsiglingu, ris þegar sjálf tíðindin eiga sér stað og loks fylgir góðum sögum einhver lending, niðurstaða og jafnvel lærdómur. Í hverjum hópi eru sögumenn sem taka að sér að flytja þessar endurteknu frásagnir og þær geta skipað stóran sess í sjálfsmynd hópsins. Þegar þær deyja, þá er það til marks um að los er komið á samfélagið. Vel má raunar vera að ástæða þess að fólkið hætti að hittast sé sú, að sögurnar smám saman þögnuðu og taugin slitnaði sem tengdi fólk hvert við annað.

Fyrr á þessu ári hóf ég þjónustu við Neskirkju hér í Vesturbænum. Þar hafa orðið til margar sögur og samstarfsfólk mitt hefur deilt þeim með mér. Sumar lýsa afrekum, aðrar eru grátbroslegar enn aðrar hafa jafnvel þann lúmska tilgang að ala ,,nýja prestinn” svolítið upp! Slíkt er viðbúið þegar menn hefja störf í grónu umhverfi. Að sama skapi er ekki til betri leið til að bjóða fólk velkomið en að opna því gáttir að sagnakistu samfélagsins. Þar býr jú sálin í hverjum hópi.

Aðventan er sögulegur tími og fagnaðarerindi kristinna manna hefst á stuttu sögubroti. Það er ekki ýtarlegra en svo að það gefur ímyndunaraflinu nægt svigrúm til að fylla í eyður með myndum, leikþáttum, söngvum og auðvitað fleiri sögum. Um leið og við hringjum inn jólin þá segjum við söguna sem hefst á því að nöfn keisara og landstjóra eru rifjuð upp. Svo er það þetta ferðalag þeirra Jósefs og Maríu til borgarinnar Bethlehem. Þar birtast okkur himneskar verur og aðrar jarðbundnari. Þau sem jafnan voru útundan, standa skyndilega í miðju frásagnarinnar, fátæk hjón, hirðar úti í haga, já og blessaðar skepnurnar sem hljóta að hafa verið þarna fjárhúsunum. Hjarta sögunnar er auðvitað hvítvoðungurinn sem kemur í heiminn, allslaus og fullkomlega háður umhyggju og alúð samfélagsins sem hann er nú hluti af. Guð mætir okkur á jólunum eins og ómálga barn. Það kann ekki neitt, hefur ekkert lært og fær engu áorkað nema, að vekja kærleika hjá öðrum. Og þetta eina, er allt haldreipi barnsins og lífsbjörg þess.

Þetta er ástarsaga og hana segjum við í öllum tilbrigðum hennar á þeim sögulega tíma sem nú fer í hönd. Hún segir okkur svo margt um það hvað það er að vera manneskja og hvert erindi Guð á við okkur. Guð elskaði heiminn svo mikið að hann gaf okkur son sinn. Já, heimurinn er hluti af þessari ástarsögu og um leið verður tilgangur lífs okkar bundinn þjónustunni við þau sem deila jörðinni með okkur.

Sá sem fæddist á hinum fyrstu jólum átti eftir að segja margar sögur. Þær styrkja okkur í því að lifa tilgangsríku lífi og þær eru lím sem tengir fólk saman. Þessar sögur lifa ekki af sjálfu sér. Þeim þurfum við að miðla áfram og gæta þess að þær drukkni hvorki í hávaðanum og né hverfi inn í tómarúmið. Börnin þurfa að heyra þær. Hvernig þau síðan vinna úr þeim verður spennandi að sjá því sögurnar hans Jesú skilja svo mikið eftir fyrir skapandi huga og kærleiksrík hjörtu. Slíkt er eðli góðra frásagna.