Píslarvottar vorra tíma

Píslarvottar vorra tíma

Okkur er hollt að minnast þeirra sem látið hafa lífið fyrir trú sína á Krist fyrr og síðar. Og minnast þess að enn í dag er fólk sem geldur það dýru verði að játa kristna trú. Píslarvottar vorra tíma minna okkur á að dauði og upprisa Krists er hjartað í játningu trúarinnar. Þeir minna okkur á að meta rétt það sem máli skiptir og halda fast í grundvallaratriði trúarinnar.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
29. desember 2008

Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast. Hebr. 12. 1-3

Píslarvottur er sá sem lætur lífið vegna trúar sinnar. Frá öndverðu hefur kristin kirkja heiðrað minningu píslarvottanna, allt frá því er Stefán var grýttur í Jerúsalem fyrir að játa trú á hinn upprisna frelsara. Píslarvottur velur dauðann fremur en að hafna frelsaranum, kýs heldur að líða en bregðast sannfæring sinni og snúa baki við Guði. Þeir eru tákn hugrekkis og sannleiksástar. Þeir leita ekki dauðans né eigin heiðurs, heldur eru bornir uppi af auðmýkt hjartans og sterkum lífsvilja, vilja til lífs í sannleika. Til píslarvotta teljast og þau sem gefa líf sitt til bjargar öðrum. Flestir píslarvottar eru þannig konur og karlar sem í þolgæði og án þess að sérstaklega væri eftir tekið liðu og dóu fyrir trú sína. Í fornkirkjunni var dauði píslarvottanna gjarnan tengdur dauða Jesú Krists, þrá eftir að líkjast honum í dauða hans. Píslarvottar vorra tíma hafa fremur líkst lífi hans, lífi þjónustu og umhyggju og vörn fyrir hinn veika og varnalausa. Píslarvottarnir hafa áreiðanlega sjaldnast fundið sig vera hetjur, líf þeirra og úrslitastundir hafa oftar en ekki verið markaðar ótta, angist og kvíða. En hugrekki og æðruleysi trúar, vonar og kærleika varð því yfirsterkara. Fæstir þeirra hafa upplifað sjálfa sig sem píslarvotta, það eru aðrir sem hafa séð þá í því ljósi og draga lærdóm af fordæmi þeirra.

Tuttugasta öldin sá fleiri kristna píslarvotta en nokkur önnur öld. Guðleysi var leitt til öndvegis í Þýskalandi nasismans, í Sovétríkjunum og í Kína. Eins má nefna Tyrkland. Líf og kenning kristinnar kirkju var ögrun við alræðisvald ríkisins í þessum löndum. Nú snemma á 21. öldinni er það helst í löndum múslima sem kristnir menn verða fyrir harðræði og ofsóknum. En ekki bara þar.

Okkur er hollt að minnast þeirra sem látið hafa lífið fyrir trú sína á Krist fyrr og síðar. Og minnast þess að enn í dag er fólk sem geldur það dýru verði að játa kristna trú. Píslarvottar vorra tíma minna okkur á að dauði og upprisa Krists er hjartað í játningu trúarinnar. Þeir minna okkur á að meta rétt það sem máli skiptir og halda fast í grundvallaratriði trúarinnar. Píslarvottarnir mynda eins og gullinn þráð sannleikans gegnum langa og mótsagnafulla sögu kristninnar í heiminum.

Lauslega byggt á bók Jonas Jonsson: Vår tids martyrer