Heimsendir í nánd?

Heimsendir í nánd?

Gull, silfur, dramb, hroki, príl og stólar eru byggingarefni heimsenda í lífi fólks. Þegar menn verða rangeygir varðandi lífsgæðin smeygir dauðinn sér inn. Biblían bendir á varnir og betri leið.

Friður sé með þér. Kannski er ekki vanþörf á óska þér friðar, þínum líka og öllum söfnuðinum því liðna viku hefur heimsendir vofað yfir, ógnað veröldinni – eða svo hafa margir sagt.

Öreindahraðall í nágrenni Genf í Sviss var gangsettur síðastliðinn  miðvikudag. Þegar búið verður að stilla allan búnaðinn í kjarnorkustöð CERN og í hinum risastóru, 27 km hringgöngum undir landamærum Frakklands og Sviss er stefnt að því að skjóta saman öreindum. Tilgangurinn er að rannsaka hvað gerist og kanna þar með gerð efnisins, sem við vitum margt en þó of lítið um. Flestir munu sammála um, að verkefnið sé stórkostlegt og hið merkasta. Margt er til skoðunar og sitt sýnist hverjum. Eðlisfræðikennarar deila um tilgang og útkomu. Keppinautar um Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, Peter Higgs og Stephen Hawking hafa deilt harkalega um verkefnið og hugsanlega útkomu. Nokkrir fræðilega innvígðir hafa óttast, að árekstur eindanna gæti hafið n.k. keðjuverkun dauðans. Svarthol gæti myndast, sem síðan ylli voveiflegri atburðarás og jafnvel enda okkar heims. Mál hafa jafnvel verið höfðuð fyrir dómstólum til að reyna að stoppa ferlið. Og fjölmiðlarnir hafa fúslega miðlað til heimsbyggðarinnar spá um heimsenda.

Heimsendir! Hið óþekkta hræðir alltaf, ekki aðeins í stórmálum heldur í smáveröldum okkar. Það eru ekki bara börn, sem óttast breytingar. Þegar komið er skilum alda í einhverjum skilningi vaknar vitundin um ógn.

Stutt er síðan heimsbyggðin fór í gegnum þúsaldarskil, með tilheyrandi heimsslitaíhugun. Hollywood hefur ekki vísindahlutverki að gegna og spáir því ekki heimsenda, en spúir hins vegar reglulega yfir heimsbyggðina hrollvekjandi kvikmyndum með vísindaívafi, myndum um ragnarök.

Í öreindaárekstramálinu er mikið undir, leitað er að grunngerð efnis og orku, m.a. að Higgs-eindinni, sem líka er kölluð guðseindin. Tilraunin er spennandi, þetta verkefni á kafi í iðrum jarðar,  hundrað metra niðri, á formúlubraut öreindanna, sem gætu splundrast.

Baggalútar og harðfiskur Viðbrögð fólks eru margvísleg við fréttum og áhyggjum vikunnar. Það er hægt að bregðast við heimsslitaboðskap með kátínu og spuna. Húmor hefur löngum linað krumlur óttans, semn alþekkt er úr skelfingaraðstæðum og þegar fólk hefur búið við harðræði. Skemmtikúltúrinn þefar uppi alvarlegu málin og setur í spaugilegt ljós. Það var fyndið myndband, sem Fóstbræður skelltu á Youtube. Þar var maður með spjald út á götu í Reykjavík og á spjaldinu stóð: Heimsendir. Maðurinn hrópaði: “Heimsendir í nánd, heimsendir í nánd.” Svo kom frá honum langlokuklisjur um syndir, iðrun og dóm – alveg í samræmi við útvatnaða mynd af dómsdagsprédikara. Svo sneri hrópandinn við spjaldinu: Þar var ekki neinn heimsendir heldur stóð skýrum stöfum: Vestfirskur harðfiskur. Og maðurinn hrópaði og alveg í samræmi við spjaldið: “Síðustu forvöð að kaupa vestfirskan harðfisk.” Já, það er nú það, kannski hinsta óskin, að naga bragðgóðan fisk og kannski með smérklípu?

Spaugararnir í Baggalút létu ekki sitt eftir liggja á sinni heimasíðu. Þeir bentu á, að tvær stríðandi fylkingar heimsendaspámanna deildu um hvernig veröldin muni enda. Önnur haldi, að hraðallinn í Sviss muni valda svarholum og gleypa allt sólkerfið. En hin haldi fram að íslenska bankakerfið muni hrynja og taka allt með sér í víti. Og í 24 Stundum er mynd þessu til skýringar í blaðinu í gær. Þar er svarthol að myndast og bankamenn og kerfi í svörtum hringsvelg. Mönnum til íhugunar komast Baggalútarnir að þeirri niðurstöðu, að allir séu sammála um að heimsendir verði, hvenær svo sem það verði! Svo bæta þeir við, að ýmislegt þurfi að gera áður en heimurinn hrynji, t.d. þurfi að semja við ljósmæður, sem er auðvitað alveg rétt! Hinu stóra og smáa er skeytt saman.

Heimsendir á heimilum Heimsendir er ekki bara spurning um hið ofurstóra heldur líka hið ofursmáa. Ein mikilvægasta alvöruhlið alls þessa tals um heimsenda er, að um allan heim hafa börn heyrt eða lesið um heimsenda og spurt sitt fólk kvíðin: “Er heimurinn að enda?” Börnin spyrja sitt fólk, þeim sem þau treysta, um hætturnar í Sviss, hættuna á heimsenda, hættuna á að lífið endi.

Já, þetta með heimsenda varðar ekki aðeins guðseindir, efnisgerð heimsins og augnablik eftir Miklahvell, heldur líka tilfinningar, vonir, áhyggjur, traust, framtíð og líf. Heimsendir er ekki bara spurning um vísindi, tækni og hamfarir, heldur líka líf á venjulegum heimilum. Umræður um stórmálin og vísindin eiga sér ekki aðeins eyru fullorðinna, heldur líka barna sem upplifa það sem sagt er með mikili innlifun. Þau verða hrædd, svo skelfingu lostin, að óttin setur skugga á allt líf þeirra. Gætum að og hugum að heimsendum, ekki síst barnanna, og alveg sérstaklega hvað eflir þau til að greina falska spádóma, hvað eflir traust þeirra og óttaleysi.

Fyrir lífið Textar dagsins hvetja til íhugunar. Í Orðskviðum er sagt, að viska sé betri en gull. Þar er rætt um dramb og fall, hroka og hrun og hógværð, sem er betri en stórfengur. Sá texti er innleg í bankamræðu og skoðun á gildavísitölu okkar. Pistillinn er merkilegur texti um hvað er hið eina mikilvæga.

Guðspjallssagan er um veislu og mannvirðingarstigann, þ.e. hvernig fólki er raðað eða raðar sér sjálft. Jesús sá vel stólasókn fólks, löngun til að príla upp félagslega, komast á toppinn, njóta aðdáunar annarra, vera séður, komast í feitt, vera mestur, stærstur og bestur. Hann vissi hvaða persónusmæð og ófullnægð og oft barnaleg persóna býr að baki sókn í sýndargæði. Hann vissi jafnvel til hvers sóknin í forsætin getur leitt aðra. Því smellir hann upp þessari myndrænu frásögn úr veislu, til að minna alla á, minna okkur á, að prílið er ekki gott og skilar litlu. Mikið er oft lítið. Magn er annað en gæði. Virðingu þiggjum við ekki af því að príla yfir í það, sem ekki er okkar, hamast sem mest, komast yfir sem flest, heldur ávinna menn sér virðingar vegna þroska og ræktaðs atgervis.

Gull, silfur, dramb, hroki, príl og stólar eru byggingarefni heimsenda í lífi fólks. Þegar efnisleg verðmæti eins og gull og silfur hætta að vera tæki í samskiptum og verða annað og meira en þeim er ætlað - þ.e.a.s. verða markmið en ekki meðal - fer illa. Að ruglast í slíku heitir hjáguðadýrkun á máli trúar og Biblíu. Þegar heilbrigður metnaður og sókn til ágæta tapar áttum, hógværð og stærra samhengi verður til dramb og hroki, af því smásálirnar gera sér ekki grein fyrir, að allt er hluti stærra samhengis og er ætlað að þjóna heild en ekki bara eigin nafla og gloríu. Þegar öllu er umsnúið, gildum lika, fer illa. Þegar menn raða ekki rétt, sjá menn ekki rétt, verða rangeygir varðandi lífsgæðin. Þá byrjar heimsendir, eindir rekast illa á og dauðinn smeygir sér inn.

Gagnlegir textar Messuhópurinn, sem þjónar hér í dag hittist á þriðjudeginum var. Við ræddum um þessa texta. Benedikt, Guðrún og Valdimar bentu á margar víddir og hvað þessi textar eru viturlegir, gagnlegir og góðir. Fram kom í okkar umræðum hvað boðskapur Jesú væri þvert á sjálfhverft kapphlaup margra í samtíð okkar. Er ekki það, sem Jesús kallar lesti, orðið að jákvæðum gildum í huga margra? Er það ekki aðferð framans að stíga fram þegar aðrir eru veikir, trampa á öðrum þegar aðstæður skapast og hamast í fjársókninni og það á kostnað annarra. Auðmýkt, hógværð, viskusókn – til hvers? Ekki skilar slíkt mestum ávinningi og metorðum – eða hvað?

Á það var bent í messuhópnum, að það er einkennilegt að ekki skuli vera hægt að semja við ljósmæður um laun. Mæður ljóss – hindrar jafnvel nafnið að launin verði hækkuð? Kannski fengju þær strax samning og launahækkun, ef þær væru fæðingarstjórar! Stjórar fá jú betra kaup en mæður? Er það ekki einkennilegt að ekki skuli vera hægt að manna frístundavist í Rekjavík þessi misserin? Hvernig er ástandið á leikskólum borgarinnar? Í einum leikskólanum hér niður við Ægissíðu hefur löngum vantað stóran hluta starfsfólks eða allt að 8 starfsmenn. Meginástæðan er auðvitað of lág laun. Uppeldisstörf, störf við að veita ljósinu leið inn í líf barna, eru lágt metin. Þetta er ískyggileg opinberun á viðsnúningi allra gilda. Það er slíkt sem opinberar, að samfélag okkar metur meira störf við fjárvörslu en barnauppeldi og raðar gildum því illa. Stólasóknin er röng, gildaröðunin er vitlaus. Of margir leita hamingjunnar á röngum stað og finna hana því ekki. Þess vegna eru svo margir óhamingjusamir, órólegir, óttaslegnir. Hverjir borga hæstu tollana? Það eru börnin. Hjá þeim verður heimsendir, þegar lífsgildin eru dót og hlutir. Og börn, sem alast upp í yfirborðsmennsku, sýndarveruleika, að hið ytra er allt sem menn geti vænst að njóta vel í þessum heimi, læra það helst að sösla undir sig, sækjast í ytri gæði, príla, verða eitthvað í hinu ytra. Innri gæðum treysta þau ekki, hamingju í hjarta og sálarfrið þekkja þau vart og hafa því ekki viðnám og mótstöðu í gullæði samtímans.

Heimsendaþroski Hinir fyrstu kristnu menn lifðu á einkennilegum tímum og töldu margir, að heimurinn væri að farast. Jesús væri boðberi nýrrar aldar. Kirkjan var boðberi aldaskila. Margir hafa því túlkað boðskap Jesú sem heimsendahuggun, boðskap um nýjan heim og siðfræði til nýs lífs. Margt af því sem sagt er í Nýja testamenntinu skilst ekki nema í ljósi heimsendahugsunar. En frumkristnin var ekki hrædd. Hinir fullorðnu áttu sér tryggt athvarf, börnin fundu fyrir örygginu, gildum var rétt raðað. Trúin sýndi dýpra samhengi, sem hafði síðan áhrif á hvernig fjölskyldur lifðu í samheldni, óttaleysi og traustri lífssýn. Það er íhugunarefni, að þau gildi eru í fullu gildi enn í dag. Heimurinn fórst ekki í hinu ytra, en hann getur farist í prívatlífi fólks þegar allt hrynur og allt er skekið.

Hvað viljum við með heimninn? Styðjum miklar vísindarannsóknir, förum ekki á límingunni yfir Stephen Hawking og Higgs eða guðseindunum. Já, borðum bara vestfirskan harðfisk líka. En stöldrum við þegar samfélag okkar skilar ekki ljósmæðrum, fóstrum, kennurum til öndvegis í samfélaginu. Þá er eitthvað að og boðskapur Jesú varðar slíkan öfuguggahátt. Launum ljóssins mæðrum við hæfi, tryggjum góða menntun barna þessa lands og frestum heimsendi heima hjá okkur. Svo hjálpi okkur góður Guð.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 14. september, 2008.

Sautjándi sunnudagur eftir þrenningarhátíð A

Lexía: Okv 16.16-19 Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs? Háttur hreinskilinna er að forðast illt, líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar. Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum.

Pistill: Ef 4.1-6 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Guðspjall: Lúk 14.1-11 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“