Hvað er svo nýtt?

Hvað er svo nýtt?

Bjartur haustdagur er tær og ferskur og litbrigðin margvísleg er umskiptin verða frá sumri til vetrar. Söngfuglar, sem dveljast áfram hér á landi þó að myrkvi og vetri, syngja liðlangan daginn.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Bjartur haustdagur er tær og ferskur og litbrigðin margvísleg er umskiptin verða frá sumri til vetrar. Söngfuglar, sem dveljast áfram hér á landi þó að myrkvi og vetri, syngja liðlangan daginn líkt og þeir séu að efla með sér þrek og þor fyrir komandi dimma daga og lofa lífið og skaparann. Og það ættum við líka að gera, beina huga og hjarta til hans í Jesú nafni, svo að ljós hans varpi birtu sinni inn á okkar veg er vetrar. Gætum þess jafnframt, að Guðshús og helgidómar veita skjól. Til þeirra er hægt að sækja sér næringu og glóð fyrir innri yl og sálarloga.

Messan hófst með innspili eftir Friðrik Bjarnason, tónskáld og fyrsta organista Hafnarfjarðarkirkju. Hann samdi viðamikil kirkjuverk en einnig alþýðleg sönglög sem lengi hafa glatt Hafnfirðinga og aðra landsmenn. Lag hans við ljóð kjarnyrta skáldsins hafnfirska Arnar Arnarsonar, ,,Hafið blá hafið, hugann dregur/ hvað er bak við ystu sjónarrönd?” hefur fengið hljóm sinn af ölduniðnum, sem barst frá höfn og strönd rétt fyrir framan kirkjuna. Hafnfirskir útgerðarmenn réðu miklu um það, að Hafnarfjarðarkirkju var valinn staður hér undir Hamrinum nærri sjónum, þar sem hún var og er skipum og sæfarendum, er mið taka af henni, öruggt leiðarmerki inn í höfnina. Kirkjan hefur varpað ljósgeislum fagnaðarerindisins yfir byggð, út á haf og inn í hjörtu í nær 100 ár, því að hún verður aldargömul á komanda ári. Kirkjan hefur verið athvarf í sorg og gleði og minnt á gildi og helgi mannlífs og himneskt takmark þess. Sunnudagarnir eru dýrmætir, dagarnir, þegar klukkurnar klingja og kalla til messu og fagnaðarerindið er boðað og lífsins orðið breitt út. Kirkjuárið geymir þá alla frá ári til árs, helga daga og hátíðir. Til okkar koma þeir hver og einn sem kær vinur. Þeir eiga við okkur áríðandi erindi og séum við næm fyrir himneskum náðargeislum, finnum við helgi þeirra hríslast um okkur sem ljúfan blæ.

Í stormum lífsins er gott að hugsa til helgidaganna og þess sem þeir hafa fært okkur og færa enn í trúarboðskap sínum. Lexían úr spádómsbók Jesaja, hvetur til þess að lifa í réttlæti og réttvísi og varar við því að kalla yfir sig dóm og eyðingu með því að hlýða ekki orðum Drottins: „Þvoið yður! segir spámaðurinn. Hreinsið yður... hættið að gera illt, lærið að gera gott.“ Jesaja hvetur til þess að leita réttar þeirra sem búa við undirokun. Hann sá fyrir sér friðartíma um víða veröld og spáði fyrir um komu konungs af ætt Davíðs sem yrði friðarkonungur.

Hann kom og kemur í Jesú Kristi sem krossfestur og upprisinn frelsari, segir kirkjan hans, fylgendur hans á hverri tíð. Hann byggir upp ríki sitt fyrir heilagan anda, í vitund og hjarta allra, sem við því taka enda þótt ásýnd og yfirborð mannlífs og viðburða sýni það sjaldnar en skyldi. Ríki hans er samt framundan og lífsmið og stefna eru rétt sé til þess horft. „ Til frelsis frelsaði Kristur okkur, látið því ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok, “ segir Páll postuli í pistli dagsins í Galatabréfinu. Hann leggur á það áherslu að undirstaða fagnaðarerindisins sé opinberun kærleika Guðs í Jesú Kristi og kristnir menn lifi í frelsi náðar en ekki undir oki lögmálsins og það sé heilagur andi sem stýra eigi lífi kristins fólks. Páll segir ennfremur, að í samfélaginu við Krist Jesú gildi trú, sem verkar í kærleika.

En hversu öflug og raunhæf er sú verkan og áhrifin máttug af skapandi elsku? Því verður ekki andmælt að það er elskan öðru fremur sem nærir og viðheldur lífinu, umvefur það og fóstrar. Tíðindi daganna sýna þó oft annars konar veruleika, ófrið og átök, misklíðarefni og togstreitu, slys og skelfingar. Þau minna jafnframt á annað, þrána og lögunina eftir lífsfegurð og friði. „ Fylg þú mér,“ segir Jesús í guðspjalli dagsins. Og gerir enn. Allur mannfjöldinn kom til hans og hann kenndi þeim. Voru þar einhverjir ærlegir lærlingar? Jesús kom auga á Leví Alfeusson þar sem hann sat hjá tollbúðinni. Og Levi stóð upp og fylgdi honum. Svipmyndin er minnisstæð og er orðin að fagnaðarerindi, Guðspjalli. Boð og beiðni frelsarans umbreyttu lífi Levís gjörtækt og svo margra annarra líka, því að ef rétt er, svo sem talið hefur verið, þá er Leví nefndur Matteus í lærisveinahópnum og sá hinn sami sem Matteusarguðspjall er kennt við. Svo sannarlega hefur lífsveigur þess sprengt af sér belgi og skorður og gjörbreytt lífi.

Önnur Guðspjallsfrásögn er þessari lík en niðurstaðan þar allt önnur. Hún greinir frá ungum efnuðum manni, sem þráði líf með Guði, en þegar Jesús bauð honum að fylgja sér, selja eigur sínar, gefa þær fátækum og eignast þar með varanlega himneska fjársjóði, hvarf hann á burt, því að sú fórn var of mikil fyrir hann.

Enn stendur valið hér á milli; að miða líf sitt við veraldlegt öryggi og efnisgæði og tryggja þau hvað sem það kostar; líka með eyðandi vopnavaldi og vítissprengjum, eða að sýna hugrekki trúar með því að gefa af sér öðrum til heilla, hlúa grannt að særðum og þjáðum, láta sér annt um líf og lífríki og virða það sem guðlegt sköpunarverk. Fréttin nýlega af því að engu hafa munað, að vetnissprengja hafi sprungið í Vesturheimi í byrjun sjöunda áratugs liðinnar aldar, vekur hroll. Hún sýnir hve lífsöryggis hefur verið leitað með alröngum hætti og lífsgæfu og velferð fjölmargra fátækra og þjáðra fórnað með því að sóa kröftum og líta framhjá þeim og vanrækja.

,,Kristur/ hann vill fá verkamenn/ sem vinna að alheimsfriði,/ sem mannúðarstefnu standa við/ og styðja á hverju sviði. /Og þig sem vilt fegurri og hreinni heim/ hafa að fylgdarliði.” Þetta segir heimsspekingurinn og mannvinurinn Gunnar Dal í ljóði. Göfug list og skáldskapur tjá oft raungildi lífsins og sannindi á afhjúpandi hátt og eru Guðstrúnni dýrmæt.

Það situr enginn tollheimtumaður hjá Tollstjórahúsinu í Tryggvagötu í Reykjavík. Þeir sjást ekki að utanverðu, en ef horft er á húsið blasir við augum hrífandi listaverk sem ef til vill kallast á við kirkju austur í sveit. Listakonan Gerður Helgadóttir gerði nokkrar tillögur að veggskreytingu á húsið fyrir um það bil fjórum áratugum. Sú sem prýðir það er hlutbundið verk af sól og bátum í höfn. Við vitum ekki hvaðan sólin skín né heldur hverjir hafa verið um borð í bátunum. En það má einu gilda, því að við getum séð það fyrir hugskotssjónum okkar, hvort sólin er hvítasunnan, hvort við með Jesú í bátnum höfum getað brosað í stormi. Við getum fallist á það, að mósaikverkið sé eitt mesta stórvirki íslenskrar mósaiklistar.

Austur í Biskupstungum, í Skálholtskirkju, er annað mósaikverk eftir aðra listakonu. Undurfagurt. Nína Tryggvadóttir bjó það til úr mósaikflísum. Hún nýtti sér ríkjandi liti íslenskrar náttúru við túlkun á frelsaranum að koma til okkar. Hann kemur fyrir ofan altarið með opinn faðm gegnum austurgafl kirkjunnar. Við heyrum ekki rödd hans en skynjum það innra fyrir og vitum hvað hann segir: „Fylg þú mér“. Við horfum þá líka á gluggana í kirkjunni. Litskrúð þeirra og ljósbrot eru ímynd hjálpræðissögunnar. Þeir sýna þótt í óhlutbundnu abstrakt formi sé, dýrðarmenn fortíðar, brauð lífsins og bikar hjálpræðisins, koma frá æðra heimi, í upprisu og nýrri sköpun. Gluggarnir steindu eru verk Gerðar Helgadóttur. Þeir birta guðsvitund hennar og trúarkennd, svo að sígild sannindi tengjast og fá farveg í ferskri listsköpun.

Við reynum það að nýju og gömlu steytir saman á hraðri ferð atvika og atburða líðandi stunda. Nýjar hugmyndir bylta þeim gömlu, nýr tíðarandi og tíska eru sífelt í mótun, ný þekking og tækni stöðugt að bætast við og taka við af þeirri sem fyrir var og umbylta mannlífi svo að umgerð þess verður önnur en fyrr. En hvað er svo nýtt að það verði aldrei úr sér gengið og varir þótt að annað úreldist? Guðspjallið svarar því. Í lok þess dregur frelsarinn fram líkingar frá hverdagslífi og lífsreynslu síns tíma og minnir á það, að ekki gangi að sauma bót af óþæfðum dúk á gamalt fat né heldur að setja nýtt vín á gamla belgi. Enn er í gildi að erfitt getur verið að sameina gamalt og nýtt. Það er jafnan vert að horfa til fortíðar og þekkja til hennar en gróska og sköpunarkraftur hverra tíðar mega ekki fjötrast af henni.

Guðsríkið, gleði þess og gróska, eins og hún gefst og birtist í Jesú Kristi, er ávallt fersk og ný. Gróska þess og nýsköpun gáfust Leví tollheimtumanni í Galíleu, þegar Jesús hvatti hann til að fylgja sér. Honum gafst umbreytandi andblær og lífsmáttur Guðsríkisins, líka honum sem gat ekki gert sér vonir um nokkru sinni að komast inn í það ríki og tilheyra því sökum þess að hann var á mælikvarða þeirra, sem töldu sig geta um það dæmt og fjallað, talinn óhreinn og óæskilegur.

En gleði Guðsríkisins braust þó fram líkt og árgeisli gegnum næturhúm í heimboðinu og borðhaldinu hjá þessum útskúfaða manni, þar sem Jesús sat til borðs og mataðist með tollheimtumönnum og bersyndugum og miðlaði þeim friði og fögnuði Guðsríkisins. Jesús ver sjónarmið sitt. „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru,“ segir hann. „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Jesús stendur og fellur með þeirri boðun sinni og túlkun á Guðsríkinu að hann opni það öllum sem vilja inn í það ganga, einnig þeim er gætu aldrei uppfyllt þær kröfur sem farísearnir og fræðimennirnir settu þeim. Nýungin, umbreytingin, á lífsskilningi og viðmiðun sem Jesús boðaði, er varanleg og þrýstir sér inn í þennan heim í boðun hans á hverri tíð.

Sjálfur greiddi hann gjaldið af henni með krossdauða sínum og kærleiksfórn. Nýjungin, endursköpunin, umbreytingin sem hann boðar er fersk og ný eins og geislar himins og upprisusólar eru ávallt lífgandi og nýir.

Þetta er sígilt sem fyrr. En er það kall frelsarans: „Fylg þú mér“, sem hrífur þau ungu og höndlar og svalar þrá þeirra eftir haldreipi og lífsgleði í umróti og óvíssu samtíðar? Leiðin í Guðspjallinu liggur frá tollbúðinni til Jesú og með Jesú veginn fram. Og við sem fylgjum honum sem kirkja erum kölluð til að vera farvegir hans og sýna kjark og kærleika í viðhorfum og verkum; miðla hiklaust líkn hans og lífgandi straumum í lífi okkar og vegferð. Líf með Kristi er ekki fasta og þrengingar, þótt því sé stundum haldið fram, og dýrmætt sé að kunna sér hóf og hafa taumhald á sjálfum sér, heldur er líf í og með honum frjó lífsnautn líkt og við værum í brúðkaupsveislu og fögnuðum því með því að gefa, gleðjast og sýna umhyggju fyrir lífi og samferðarmönnum í anda hans og kærleikskrafti.

Hvíldardagurinn er helgur og minnir á Guð og boðorð hans. Hann er þó fyrst og fremst mannsins vegna, segir Jesús, til þess gefinn að minna á tilgang lífsins og varanleg lífsverðmæti. Daginn má þó ekki fjötra og hefta, svo að meinað sé, eins og gerðist á jarðvistardögum frelsarans, að sinna brýnum lífskröfum, hungruðum og líknarþurfi.

Öfgar eru slæmar, líka þær sem vanrækja hvíldardaga, draga þá ekkert úr hávaða og hasar, ferð og viðskiptum. Þessi er villa og vandi samtíðar. Áttir tapast, merking lífs og mið, vegna þess að að ekki er staldrað við til þess að stilla áttavitann í sálu og hjarta, tengjast Guði og stefnumiðum hans, opna fyrir lífslindir hans við hjartarætur.

Guðsþjónustan á sér ekki fyrst og fremst stað í vígðu Guðs húsi heldur í púlsandi mannlífi virkra daga, þegar lífinu er sinnt og þörfum þess af alúð og vandvirkni á sjó og landi, en það er á helgum stað og hvarvetna, þegar tími er gefinn fyrir Guð og ríki hans með bænrækni og trúariðkun, sem hann fær best sinnt okkur og endurnýjað lífsorku, þrek og vilja til að njóta lífsins fagnandi og koma góðu til leiðar.

Það er sem Hafnarfjarðarkirkja með fögru safnaðarheimili sínu, Strandbergi, og nær 100 ár sögu minni ávallt á þessi sígildu sannindi. Undir Hamri við höfn hvetur hún til þess að lagt sé út á lífsins djúp til þess að afla fanga í leiðarljósi, anda og kærleikskrafti frelsarans og höndla með því tilgang lífsins og lífsgleðina. Fuglar, sem syngja í litbrigðum haustsins, virðast treysta vernd og blessun hans hvert sem þeir fljúga. Og það er sem trú okkar heyri í söng þeirra svarið við spurningunni: ,,Hvað er bak við ystu sjónarrönd? Beinn og breiður vegur“; en líka frelsi, fögnuður og fylling lífs í komanda ríki Jesú Krists.