Fjölskyldulífið – auðlindir lands og sjávar

Fjölskyldulífið – auðlindir lands og sjávar

Því lífið hefur forgang, og manneskjan hefur það hlutverk að hugsa um lífríkið. Fyrst og fremst að vernda andrúmsloftið og neysluvatnið, en einnig í hófi að nýta þær Guðs gjafir sem auðlindir náttúrunnar eru. Vald Guðs er nefnilega elska.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
11. júní 2006
Flokkar

 

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.  Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,  og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.  Matteusarguðspjall 28:18-20
Hátíðar dagur í dag, sjómannadagur – til hamingju með daginn.  Í dag hittir þannig á að á sjómannadegi er einnig þrenningarhátíð í kirkjunni.  Fyrsti sunnudagur eftir Hvítasunnu er ávallt helgaður þrenningunni.  Helgaður Guði: Föður – Syni – Heilögum anda.  Þrenningin er einn af leyndardómum trúarinnar. Þegar við hugsum um Guð, varpar þrenningarlærdómur kirkjunnar ljósi á þann Guð sem Biblían boðar. Þegar við signum okkur, líkt og við gerum í upphafi guðsþjónustu, minnumst við þrenningarinnar: Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda.  Guð faðir er skapari heimsins, hann er skapari lands og sjávar, fisks og fiskimanna.  Allt líf á uppruna sinn hjá Guði föður.  Guð sonur er Jesús Kristur frelsari heimsins.  Sem steig í duftið og klæddist mannsins holdi, sigraði þjáningu og dauða.  Fyrir trúna á hann eignast manneskjan loforð um eilíft líf.  Guðs andinn heilagi er nærri þegar bæn er beðin af sannri trú, þegar gefur á bátinn, þegar aldan er stígin hart í lífi og starfi er Drottinn nærri. 

 Í anda sínum er Guð nærri allar stundir, eins og Kristur lofaði lærisveinum sínum er hann sagði:  ,,Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.”  Allur sá kveðjutexti og lokaorð Matteusarguðspjalls hljóma svo, er Jesús segir:  ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.  Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.”

 Við hverja er Jesús að tala í þessum texta?  Hverjir voru viðmælendur hans þarna?  Það voru lærisveinar hans.  Lærisveinarnir ellefu.  Þeir voru ekki fleiri en eitt fótboltalið – sem minnir mig nú á leikinn við KR í dag – áfram ÍBV! 

 Það er ekki lítið hlutverk að taka að sér, að fara og gjöra allar þjóðir að lærisveinum, skíra og kenna.  En þessi fámenni hópur lærisveina sem áður var hnýpinn fékk heilagan anda, og þeir gengu fram að djörfung.

 Hvaða bakgrunn höfðu lærisveinarnir, við hvað störfuðu þeir?  Flestir þeirra voru fiskimenn. Meðal þeirra fyrstu sem hlýddu kallinu um að kenna, skíra og gera að lærisveinum voru því einmitt fiskimenn, og aðeins ellefu talsins.  Hinir fyrstu lærisveinar glímdu kannski ekki við úthaf eins og sjómenn eyjarinnar fögru hér.  Lærisveinarnir fiskuðu á stöðuvatni, Galíleuvatni, Tíberíasarvatni, sem gat nú orðið úfið einnig, og bátarnir voru án efa veikbyggðari en í dag.  Kannski í líkingu við Áróru, sem hangir hér í lofti kórs kirkjunnar. 

Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.  Segir Jesús að skilnaði við lærisveina sína.  Það er stórt loforðið sem Jesús gefur, og það er loforð sem heldur.  Kynslóðir hafa lagt traust sitt á þessi orð, lagt traust sitt á hann, sem lofar að vera með lærisveinum sínum alla daga, allt til enda veraldar.  Í dag komum við einmitt saman og ræktum trúarlífið í góðu samfélagi í Landakirkju, og Jesús er nærri í orði sínu og anda.  Jesús var einnig nærri þegar lærisveinarnir voru hætt komnir í bátnum, eins og guðspjallið greinir frá.  Þar svaf Jesús í skutnum.  En nærveran er þar einnig í fyrirrúmi.  Og þegar báturinn fór að rugga óþægilega þá var það einmitt sá sem svaf þarna hjá þeim í bátnum sem var þess megnugur að lægja öldur ,,og varð stillilogn”, eins og segir í íslensku þýðingunni.  Og má hér heyra enduróm orðanna Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því…, eins og lesið var áðan!

Margar sögur geymir sjómannssálin hér í Eyjum.  Menn sem höfðu komist í hann krappann, staðið andspænis dauðanum, á stundum, sumir misst félaga og vini.  Kannski flestir fundið handleiðslu Drottins, þegið þeim hlaust björgun frá voða, og fundið að Guð vakir yfir manneskjum í lífi og dauða.

Þetta er svo skýrt í máli og fasi þeirra sem hafa staðið í sjómennsku af fullri alvöru, Eyjapeyja í gegnum aldirnar, karla sem ég þekki úr mínum ranni sem og annarra.

 Sérstakur húmor og glettni einkennir svo oft sjómannssálina.  En Jesús var sem einn af þeim.  Hann gerir grín af lærisveinum sínum.  ,,Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?”  segir Jesús við menn í sjávarháska.  Það er stríðnistónn í þeim orðum frelsarans, og hann gerir lítið úr aðstæðum þeirra.  ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu...!” segir Drottinn.

 Þeir þekkja sem lent hafa í sjávarháska að þar er sjaldan farið með fleipur, eða léttúðugt grín.  Fiskimennskan, sjómennskan er alvöru, þar er tekist á við náttúruöflin eins og þau gerast öflugust, þar er tekist á við hulda krafta lofts og lagar, til að sækja björg í bú.  Frásögurnar eru sumar magnaðar, það er frá mörgu að segja.  Allt ber á góma, lífið allt er mönnum kært, maður heyrir hvað það er sem skiptir mestu máli.  Fjarvistirnar frá fjölskyldunum, einsemdin í fiskileysi, átök við tilgangsleysi á stundum. En líka stemmingin, lætin og fjörið þegar hann gefur sig, og komið er að landi með drekkhlaðinn bát eða skip.

 Ég hef hugsað mikið um það hvernig fjölskyldulífið sé eiginlega hjá sjómannsfjölskyldum.  Hjónalíf sjómannshjóna er yfirleitt sérstakt. Hjón, þar sem annað, yfirleitt eiginmaðurinn er á sjónum, þurfa að vera sérlega samhent.  Þau þurfa að þekkja hvort annað vel og treysta maka sínum.  Konan þarf að taka ábyrgð á heimilishaldinu, uppeldinu að stórum hluta, greiða reikninga og sjá um allan daglegan rekstur. Líka að fást við málin ein, veikindi hjá börnunum, en einnig á stundum einsemd.  Ég hef svo oft séð það og heyrt á hjónum að erfitt getur verið að fara í langa túra og koma svo heim, þar sem hlutirnir eru í ákveðnum skorðum.  Það er ekki óalgengt að sjómenn, kannski þeir sem eru í yngri kantinum eigi erfitt með að stíga þá öldu að koma í land.  En þegar í land er komið, kannski um miðjan virkan dag, eða undir morgun á virkum degi, þá verða menn fyrir vonbrigðum að ekki snýst allt upp í hátíð hvern heimkomudag. En þá fara börnin í leikskólann eða skólann, konan í vinnuna - og sjómaðurinn einn heima langt fram á dag - og harmar sinn hlut.  Það er svo mikilvægt að takast á við þessa hluti.  Sumir takast ekki á við þetta, eiga erfitt með sig, samskipti við sína nánustu og sumir lenda á þeim villustíg að drekka brennavín í óhófi til að krydda tilbreytingarlaust lífið og losna við vonbrigði.  Það er vond leið í slíkri stöðu.  Félagslega getur sjómannslífið verið erfitt að þessu leyti.  Nýtt fjölskyldumynstur tekur við þegar pabbi kemur í land.  Hlutverkin verða öðruvísi, það riðlast svo margt.  En oft, og kannski í flestum tilfellum nær fólk að stíga ölduna saman og lifa hamingjusömu lífi.   Hamingjusömu fjölskyldu og félagslífi, þar sem enginn þarf að harma sinn hlut.

 Fiskimennirnir Símon Pétur, Andrés og félagar, voru kallaðir til þjónustu við Drottinn.  Þeir tóku við þessu hlutverki af Jesú, af Guði frelsara, því þeir vissu að hans er valdið.  Þess vegna ber að kenna, skíra og fræða nýja lærisveina á nýjum tímum og stöðum, á nýrri tungu, alls staðar þar sem manneskjur koma saman, því hans er valdið. 

 Við því hlutverki tóku hinir fyrstu lærisveinar, fiskimennirnar, sem fengu það hlutverk að veiða menn.  Veiða menn til fylgis við kærleikann, sannleikann, eilífa lífið, ljósið, hið góða og upprisuna. 

Í misjöfnu valdatafli heimsins og lífsins, í stríði og friði, gegn hryðjuverkum, í náttúrvernd, í tilraun til að nýta fiskistofna betur, þar sem stóriðja útrýmir fálkabyggð og ósnortnu landi, í því valdatafli kemur vald Jesú stundum á óvart. 

 Ávallt leiðir vald Jesús Krists hinn trúaða inn í ríki birtunnar, kærleikans og himinsins.   Þar sem allt líf hefur forgang, mannsins börn, blóm og fugla, örverur og sjávarfang, súrefnið og hreina vatnið.  En allt sem eyðir lífi, útblástur og svifryk, brottkast og uppistöðulón eru andstæðan við það vald.

 Því lífið hefur forgang, og manneskjan hefur það hlutverk að hugsa um lífríkið.  Fyrst og fremst að vernda andrúmsloftið og neysluvatnið, en einnig í hófi að nýta þær Guðs gjafir sem auðlindir náttúrunnar eru.  Vald Guðs er nefnilega elska.  Drottinn elskar ,,…til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf” segir í Litlu Biblíunni í Jh. 3:16.  Þetta eru orð heilagrar Ritningar, orð Jesú sjálfs.  Fleiri rit eru til, fornar heimildir, sem ekki fengu stöðu helgirit í kirkjunni.  Fór það eftir því hver ritaði heimildirnar, hvernig ritin voru notuð og hvort ritið myndi samræmast kenningu kirkjunnar um uppruna Jesú.  Það var kannski kjarni málsins.  Jesús er nefnilega bæði Guð og maður.

 

Eins og þið þekkið án efa þá hefur þónokkuð verið rætt um forn rit í heimspressunni síðustu vikurnar.  Spennusaga sem kennt er við málverk Leonardo Da Vinci, Da Vinci lykillinn, fengið mikla umfjöllun síðustu mánuði.  Höfundur segist byggja spennusögu sína á Filippusarguðspjalli, sem er rit frá um 3. öld.  Í spennusögunni tekur höfundur sér mikið skáldaleyfi og dregur í efa uppruna og stöðu Jesú, og gengur svo langt að setja fram samsæriskenningar sem ganga út á að kirkjan lúri á ósögðum sannindum um Jesú frá Nazaret.  Höfundur hefur ekkert fyrir sér í þeim vangaveltum annað en eigið ímyndunarafl, en illa fer hann með heimildir og grundvöll kristninnar.  (þess vegna mótmælir kristin kirkja víða)

 Eins hefur Júdasarguðspjall fengið mikla umræðu á síðustu vikum.  Júdasarguðspjall er rit frá um 3. öld eftir Krist og er kennt við Júdas Ískaríot (tólfta manninn í liði lærisveinanna).

 Það er gnóstískt rit.  Gnóstísismi er safnheiti yfir trúarlegar og heimspekilegar hugmyndir, sem urðu áberandi bæði innan kristni, gyðingdóms og annarra trúarbragða við upphafs tímatals okkar.  Gnóstíkin er í raun tilraun manna til að skilja heiminn og svara spurningum eins og, hvaðan kemur illskan?  Hvert er hið sanna eðli mannsins?  Útgangspunktur þeirra var aðgreining efnis og anda.  Efnið, heimurinn væri af hinu illa, en andinn væri af hinu góða.  Þess vegna hafnaði kirkjan gnóstíkinni.  Því við kristnir menn trúum því að heimurinn sé skapaður af algóðum Guði, frelsaður af Jesú Kristi, og í anda sínum dvelur hann hjá okkur hér.

Jesús Kristur er bæði Guð og maður að eðli eins og kemur fram í Níkeujátningunni frá 325 og við eigum í okkar sálmabók.  Sú játning sameinar allar kirkjudeildir og er einn af leyndardómum kristinnar trúar.   ,,Allt vald er mér gefið...”  eru orð töluð af Guði, sem hefur fengið mannlega reynslu í Jesú Kristi.  Hann veit því hvað hann segir, hver þörfin er, og hann stendur við sín orð.  Þess vegna getur Drottinn lægt öldur á miðunum, og í órólegu hjarta hins trúaða.Drottinn Jesús er stöðugt nærri, á miðunum, í fjölskyldununum, þegar lítið fiskast, en einnig þegar hann gefur sig.  Alls staðar er Drottinn nærri, og engum nær en þeim sem biður í Jesú nafni.

 Það er boðskapur þrenningarhátíðar, það er boðskapur sjómannadags. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.