Á Hallgrímshátíð

Á Hallgrímshátíð

Mannauður þess lands er mikill hvað svo sem efnahagnum líður. Hið algera traust á Jesú leiddi til lækningar hins lama manns, sem guðspjall dagsins fjallar um. Megi íslensk þjóð treysta Jesú og halda sig við boðskap hans, feta í sporin hans og nærast af orði hans.

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 19. su. e. tr. 2014. Es. 18:20-32; Ef. 4:22-32; Matt. 9:1-8.

Við skulum biðja: Vertu, Guð faðir, faðir minn, frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hann sat á kirkjubekknum og virti fyrir sér þetta vígða hús og hlustaði á orgeltónana og sálmasönginn. Drengurinn, tæpra fjögurra ára sem hafði farið með ömmu sinni í messu og sunnudagaskóla. Ósjálfrátt hvarlaði hugur ömmunnar til annars drengs, sem á fullorðinsárum gaf þjóðinni dýrar perlur sem enn lifa meðal þjóðarinnar eftir 350 ár. Hans, sem þessi kirkja er kennd við.

Já, hvaða mótunaráhrif hefur það á unga barnssál að koma til kirkju, læra að spenna greipar og biðja að kveldi fyrir svefninn? Amman veit að allt sem lifað er og reynt mótar og býr með einstaklingnum sem vinnur úr og velur átt á lífsins leið.

Þessa vikuna stendur yfir Hallgrímshátíð hér í kirkjunni sem kennd er við Hallgrím Pétursson í tilefni af því að á morgun eru liðin 400 ár frá fæðingu hans. Hallgrímur gaf þessari þjóð ekki aðeins Passíusálmana heldur einnig aðra sálma, vísur og kvæði sem enn lifa og heyrast oft. Erindi úr sálminum „Allt eins og blómstrið eina“ hafa t.d. verið sungin við flestar jarðafarir í kirkjum landsins frá því sálmurinn heyrðist fyrst og heilræðavísur sr. Hallgríms voru enn kenndar í mínu ungdæmi og eru kannski enn. Alla vega væri hverju barni hollt að læra erindin níu sem hefjast á þessu:

Ungum er það allra best að óttast Guð, sinn herra, þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra.

Í hverri messu eru lesnir þrír textar. Lexían úr gamla testamentinu, pistillinn úr bréfunum í nýja-testamentinu og guðspjall dagsins. Það er merkilegt að hugsa til þess að þessir lestrar hafa líka verið lesnir á dögum Hallgríms, fyrir daga hans og eftir daga hans. Þessir lestrar hafa haft áhrif á kynslóðirnar og eiga vonandi eftir að hafa áhrif á þau sem ófædd eru á landi hér. Það veltur á því hvort Orðið fær að heyrast og móta daglegt líf. Við skulum ekki efast um Drottinn og mátt hans í þeim efnum og ekki heldur efast um mannlegan vilja en við skulum vera á verði þegar ýta á Guðs orðinu út úr opinberu rými, því það er hnignunarmerki.

Í dag fjalla textarnir um möguleika okkar til að eignast nýtt líf. Möguleika okkar til að lifa fyllra lífi, lífi í fullri gnægð. Lífi sem ekki er bundið í fjötra, heldur lifað í frelsi hins kristna manns. Lífi sem mótast af orðum postulans úr Efesusbréfinu, sem lesin voru áðan: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur“.

Það er verðugt verkefni hvers einstaklings að vinna að eigin sálarheill. Það er ekki gert í eigin mætti. Það kemst enginn langt á þeim vegi án þess að hugsa um æðri mátt og gera sér grein fyrir að lengra verður ekki haldið nema taka afstöðu með Guði. Í guðspjalli Matteusar sem lesið var úr áðan er talað um fyrirgefningu syndanna í tengslum við lækningu. Þegar andstreymi og erfiðleikar banka upp á í lífi okkar verður einhverjum á að hugsa um það sem refsingu fyrir einhverju miður góðu sem framkvæmt hefur verið. Oftast einhverju sem fólk veit ekki hvað er. Hvað hef ég gert til að kalla þetta erfiða ástand yfir mig, eða þetta óhapp, eða þessi stöðugu veikindi?

En jafnvel þó að í guðspjallinu sé talað um fyrirgefningu syndanna í sama orðinu og lækningu hins lama manns eru engin tengsl þar á milli. Jesús tók af allan vafa eins og fram kemur á öðrum stað þar sem talað er um lækningu. Lækningin er fremur sönnun fyrir valdi Jesú. Lækningin sýnir kraft Guðs í verki.

Kraftur Guðs er enn til staðar og hefur áhrif hér á jörð. Þau sem ekki treysta því eiga erfiðara með að sjá það og finna en þau sem trúa. Lífsafstaða og hugsunarháttur eru veigamikil atriði í lífi hvers einstaklings. Þannig hefur hugsunarháttur einnig samfélagsleg áhrif. Við sem höfum valið að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar erum þess fullviss að það skipti miklu fyrir íslenskt samfélag að kristinn siður haldi áfram að móta hin ungu og ófæddu.

Líf Hallgríms Péturssonar var ekki alltaf auðvelt frekar en margra annarra. Hann valdi að snúa sér til Drottins í lífi sínu og bera gleði sína, sorgir og þjáningu á borð fyrir hann. Hann valdi að ganga þjáningaveginn með Drottni en ekki einn og óstuddur. Skáldskapargáfan var honum einnig dýrmætur förunautur sem gaf honum hæfileika til að lofa Guð með orðum sem hafa mótað trúarlíf landans um aldir og allt til okkar dags.

Eg gef og allan þér, æ meðan tóri eg hér, ávöxtinn iðju minnar í akri kristninnar þinnar

yrkir sr. Hallgrímur í 17. Passíusálmi.

„Syndin er lævís og lipur“ er heiti á bók sem út kom fyrir mörgum árum. Bókin er ævisaga manns, sem margoft féll fyrir Bakkusi en reis upp á milli. Orðið synd hefur í sér neikvæða merkingu og var og er e.t.v. enn notað í orðatiltækinu „það var synd“ þegar talað er um eitthvað sem betur hefði mátt fara og sem hefði betur farið ef vel hefði verið að verki staðið. Að fá fyrirgefningu syndanna felur í sér nýtt tækifæri. Að uppgjör og eða hugarfarsbreyting hafi farið fram. Að hægt sé að byrja upp á ýtt undir öðrum formerkjum, nýrri sýn. Það hlýtur því að vera frelsandi að fá fyrirgefningu. Byrðum er létt af sál og sinni, uppgjör hefur átt sér stað.

Uppgjör er hugtak sem oft hefur heyrst hin síðari ár hér á landi. Það er talað um uppgjör í sambandi við hrunið. Að það þurfi að fara fram uppgjör við það sem var svo hægt sé að halda áfram inn í nýja tíma. Uppgjör felst ekki bara í efnahagslegri tiltekt. Uppgjör felst ekki hvað síst í hugarfarslegu uppgjöri. „Fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda“ segir Esekíel í riti sínu. Hallgrímur Pétursson segir í heilræðavísum sínum: Hugsa um það helst og fremst, sem heiðurinn má næra; aldrei sá til æru kemst. sem ekkert gott vill læra. Viljum við læra eitthvað gott? Viljum við læra af mistökum og umframkeyrslu liðinna ára? Nýju hjarta og nýjum anda fylgir líka ný afstaða til lífsins. Það er afstaða með Guði. Slíkri afstöðu fylgir breytt athöfn. Það er breytt athöfn til lífs. Maðurinn verður að leggja á sig vinnu, til að vinna að sinni eigin sálarheill, leita hins jákvæða og uppbyggjandi.

Að trúa er að treysta. Traust er orð sem oft er notað í orðræðu eftirhrunsáranna. Traustið hrundi og það vita þau öll er reynt hafa að það tekur lengri tíma að byggja upp það sem hrunið hefur en hrunið sjálft. Það tók líka langan tíma að byggja upp það samfélag sem við búum í. Það tók nokkrar kynslóðir, svo okkur á ekki að koma á óvart að það taki tíma að koma öllu í samt lagt aftur. Við erum nú verulega farin að finna fyrir áhrifum þeirra atburða er gerðust fyrir sex árum. Það er talað um hrun heilbrigðiskerfisins sem skapar ekki aðeins álag á þau sem halda því gangandi heldur líka óöryggi fyrir sjúklinga.

Í gær var kirkjuþing sett en á því sitja fulltrúar leikmanna og presta sem kjörin hafa verið til setu á þinginu næstu fjögur árin. Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og þar eru meðal annars fjármálin rædd. Sóknir landsinsd og yfirstjórn kirkjunnar hafa fundið fyrir minnkandi fjárhag eins og aðrir en eftirspurnin eftir þjónustu kirkjunnar hefur alls ekki minnkað og kirkjusókn og aðsókn í barnastarf kirkjunnar hefur aukist. Kirkjunnar fólk er þess fullvisst að erindi kirkjunnar er mikilvægt innlegt inn í þjóðfélagsumræðuna og þau mótandi áhrif sem börnin fá eru nauðsynleg til farsældar þeirra sem hér búa nú og um framtíð alla.

Víst ávallt þeim vana halt: Vinna, lesa, iðja; umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja

orti Hallgrímur í lokaerindi heilræðavísna sinna.

Það kirkjuþing sem nú situr og þjóðkirkjan öll þarf ekki að óttast það að ný kynslóð taki ekki við keflinu, því nú stendur yfir æskulýðsmót kirkjunnar sem í ár fer fram á Hvammstanga. Þar eru á sjöunda hundrað unglingar samankomnir til að iðka trú sína í orði og í verki, uppbyggjast og skemmta sér. Slíkan fjársjóð má ekki vanmeta, enda er mesti auður kirkjunnar og landsins alls fólkið sem hér býr. Mannauður þess lands er mikill hvað svo sem efnahagnum líður. Hið algera traust á Jesú leiddi til lækningar hins lama manns, sem guðspjall dagsins fjallar um. Megi íslensk þjóð treysta Jesú og halda sig við boðskap hans, feta í sporin hans og nærast af orði hans.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.