Þegar Jesús verður reiður

Þegar Jesús verður reiður

Í guðspjallinu í dag er Jesús reiður - það er ekki oft sem við sjáum hann reiðan á síðum guðspjallanna - en í dag er hann sárreiður og hann notar sterk orð í glímu sinni við andstæðinga sannleikans, andstæðinga Guðs og ráðsályktunar Guðs.

Jesús svaraði: Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.

Gyðingar svöruðu honum: Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?

Jesús ansaði: Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja. Jóh. 8.42-51

Það er langafasta, - Kirkja Krists reynir að fylgja frelsaranum á þjáningarbraut. Brautin er þyrnum stráð, lífi hans hefur stundum verið líkt við eldskírn. Hann var sannur maður um leið og hann var sannarlega Guðssonurinn. Hann tók þátt í lífi fólksins í gleði og raun, mætti samferðafólkinu í öllum aðstæðum lífsins.

Í guðspjallinu í dag er Jesús reiður, - það er ekki oft sem við sjáum hann reiðan á síðum guðspjallanna, en í dag er hann sárreiður og hann notar sterk orð í glímu sinni við andstæðinga sannleikans, andstæðinga Guðs og ráðsályktunar Guðs.

Jóhannesarguðspjall hefst á upphafssálmi, formála, sem er í raun jólaguðspjallið. Þar segir um Jesú, - “hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. “ - Þetta var að gerast, hans eigið fólk var að snúa við honum bakinu, þeir þjörmuðu að honum og þessi kafli í Jóhannesarguðsjpalli endar á því að þeir tóku upp grjót og vildu grýta hann. Mynd illskunnar birtist hér mjög skýr.

Þegar hópur messuþjónanna sem hér þjóna í dag hittist s.l. miðvikudag og við fórum m.a. yfir guðsjpallið, þá vorum við í raun öll slegin yfir þessum texta. Okkur fannst ekkert gott að horfa upp á frelsarann svona reiðann, en við töluðum um þetta og við fundum til með Jesú og reyndum að gera okkur grein fyrir þeirri erfiðu stöðu sem hann oft var í. Raunar fannst okkur einnig athyglisvert að sjá þessar þekktu mannlegu tilfinningar brjótast fram, þetta að hann gat grátið, hann gat tekið út mikla sorg, hann gat orðið sárreiður. - Jesús gekk svo sannarlega inn í þessa mannlegu glímu sem við erum öll meira og minna hluti af. Erfiðar og stríðar tilfinningar, flóknar spurningar um þjáninguna sem hjá Jesú náðu hámarki á krossins tré, þegar Jesús hrópaði: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig. Allt þetta litróf horfðist Jesús í augu við og gefur okkur tækifæri til að læra af.

Jesús kallaði fólk til eftirfylgdar. Komið fylgið mér, komið og sjáið hvað ég er að gera, hann spurði ekki út í trú þeirra eða skoðanir, hann bauð þeim að fylgja sér, sjá hvernig hann starfaði, hvernig hann huggaði, hvernig hann tókst á við erfiðar spurningarnar lífsins.

Barátta góðs og ills er oft viðfangsefni Jesú, hann dregur upp skarpar myndir og líkingar. Barátta góðs og ills er veruleiki sem við þekkjum öll, við sjáum þetta í umhverfinu, við finnum fyrir þessu í samskiftum við fólk, milli einstaklinga, stétta, þjóða, við þekkjum þessa baráttu innra með okkar.

Það, hvernig Jesús brást við lyginni og illskunni er athyglisvert, því honum var svo mikið niðrifyrir, hann tók þetta svo nærri sér.

Hvers vegna? Jú, vegna þess að hann er fulltrúi sannleikans, - hins góða fagra og fullkomna. Hann var kominn til að flytja fagnaðarerindið um kærleiksríkan Guð, sem elskar sköpun sína.

Jesús benti á þetta með mörgu móti. Hann minnti á fegurð náttúrunnar, á fótspor Guðs í náttúrunni, hann minnti á sáttmálann sem Guð gerði og birtist okkur m.a. í boðorðunum l0 sem einnig er einn af textum þessa sunnudags, hann minnti kröftuglega á fyrirheitin mörgu sem Guð kom til skila fyrir munn spámanna sinna öldum saman. Allt eru þetta “vörður” á leiðinni, vörður sem við megum taka gildar og miða líf okkur við. Regnboginn, þetta stórkostlega náttúrufyrirbrigði, sem sést oft á himninum og birtist við ákveðnar náttúrulegar aðstæður, er fyrir mörgu kristnu fólki eins og tákn, áminning um gæsku Guðs um brúna sem Guð hefur fyrir náð sína gert milli himins og jarðar, sáttmáli milli Guðs og manna, farvegu náðar Guðs sem gleggst kemur fram í Jesú Kristi sjálfum.

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið sagði Kristur, stór orð, en orð sem hann gat sagt, orð sem hann notaði til þess að benda á hinn góða veg, veginn sem gefur sanna mennsku, réttlæti og frið ef við höldum okkur á veginum. Markmiðið er ekki að við verðum kirkjulegri eða hátíðlegri, nei, markmið hinnar kristnu leiðar er að lífið verði manneskjulegra, fallegra, réttlátara.

Vegur illskunnar, lyginnar, ofbeldisins er vegur óreiðu og glötunar í augum Jesú og hann varar við þessum vegi, sem annars er frekar auðvelt að ferðast um, því hann virðist breiður og greiðfær og gylliboðin eru hávær. “Ég mun gefa þér allan heiminn, öll auðæfi veraldar, ef þú fellur fram og tilbiður mig, sagði freistarinn við Jesú, - þessi freistinig er enn ein sú háværasta í nútímanum.

Andstæðingar kristninnar fara mikinn í nútímanum, hin andlega barátta er hörð og oft óvægin, það er enn reynt að grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi, þess vegna er svo nauðsynlegt að við sem höfum játast Kristi, hin kristna kirkja standi saman og berjist góðu baráttunni, sem Jesús gaf okkur fyrirmynd af.

Það er samt ekki undarlegt þótt við á stundum missum móðinn, þótt við efumst og missum trúna á hið góða, því að illskan er svo hávær, hún ruglar okkur í ríminu, hún spyr erfiðra spurninga. Tókstu eftir hvaða spurningu Jesús fékk í guðspjallinu: “Er það ekki rétt sem við segjum, að þú hafir illan anda?” Faðir lýginnar birtist í mörgum myndum, hann tælir, spillir og ruglar.

Það er oft gott að mega andvarpa eins og einn af viðmælendum Jesús gat gert: Ég trúi herra, en hjálpa þú vantrú minni.

Jesús hrópaði: Guð minn, Guð minn, - hví hefur þú yfirgefið mig. En það voru ekki síðustu orð Jesú á krossinum. Hann átti eftir að segja: “Það er fullkomnað.” Hjálpræðisverkið var fullkomnað, - Höldum fast í þessi orð, minnum okkur á þau, þegar glíman er hörð, þegar spurningarnar hrannast upp. Leyndardómur friðþægingarinnar er ekki auðskilinn, en orð Jesú á krossinum geta hjálpað okkur mikið, þau eru svo tær, svo einlæg, sönn. Og síðasta orð Jesú á krossinum kom einnig, náðarsamlega fyrir okkur, - - “ í þínar hendur fel ég anda minn.”

Sr. Hallgrímur grípur þetta andlátsorð, sjöunda orð Krists á krossinum og yrkir:

Minn Jesús, andlátsorðið þitt í mínu hjarta eg geymi, Sé það og líka síðast mitt, þá sofna´eg burt úr heimi.

Guð gefi okkur þessa trú!

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um adlir alda. Amen.