Miskunnsemi Guðs og manna

Miskunnsemi Guðs og manna

Lærisveinar Jesú Krists áttu forðum ekki aðeins það sem þjónaði líkamlegri heilsu þeirra og velferð sameiginlegt, heldur var hið sameiginlega fyrst og fremst hið nýja réttlæti þeirra sem játast Kristi. Og það höfum við flest eða öll gert í fermingunni. Að taka við þessu réttlæti þýðir að komast til skilnings á því að tengslin milli manna, milli einstaklinga, það er sambandið milli fólks inbyrðis sé þar með komið á annað og æðra stig.

Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.

Þá sagði hann þeim og líkingu: Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. Lk.6.36-42

Heilagi faðir. Helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kærar þakkir fyrir að koma og syngja fyrir englana, og fyrir Guð.

Ekkert er eins dýrmætt, enginn söngur er jafn dýrmætur og söngurinn fyrir englana. Það er vegna þess að þannig getum við látið þá vita að við skynjum nálægð þeirra og vernd þeirra og umhyggju Guðs um leið. Og við þökkum það og lofum það í ljóði og í söng. Þessi þjónusta er alveg sérstaklega dýrmæt hér á Þingvöllum, því að hér eiga verndarenglar Íslands heima. Nú segir kannski einhver í huga sér: Prestur minn. Hvernig veistu það ? Svar: Ég veit það alls ekki. En ég veit að Þingvellir eru landnámsjörð englanna. Hér var Kristi helguð þjóðin og landið. Og ég er alveg viss um að englarnir hafi ekki gleymt því, frekar en Guð.

En englarnir þurfa líka að geta glaðst yfir því að við blessum þá og þökkum þeim vernd þeirra og aðgæslu. Við segjum að englarnir séu ósýnilegur veruleiki og þess vegna gleymum við þeim. Páll postuli líkir sambandi Jesú Krists við kirkju sína við hjónabandið.

Er hjónabandið ekki líka ósýnilegur veruleiki, sem við of oft vanrækjum að þakka fyrir og gleðjast yfir ? Og þó er það oft og einatt sá veruleiki í lífinu sem skiptir mestu máli fyrir daglega líðan. Hér við þetta litla altari, hér á þessum agnarsmáu grátum, sem eiginlega er ekki nokkur leið að krjúpa á, eru viku eftir viku, stundum nokkrum sinnum á dag, unnin hin heilögu heit hjónabandsins. Þessi hvelfing hefur heyrt svo mörg já að enginn getur talið þau nema Guð. Já, er ekki löng setning, en getur þó verið merkasta og afdrifaríkasta setning í ævi manns.

Og nú eru komnir hingað gestir. Kæri söfnuður. Hvort það voru notuð færri orð í ungdæmi mínu en nú er, veit ég ekki. Hitt veit ég að maður tók betur eftir því sem sagt var þá en nú.

Og hefði nú verið sagt á þeim dögum: Það eru komnir gestir, þá var það mjög merkilegur boðskapur og maður varð spenntur að sjá hverir það voru og heyra hvað þeir höfðu að segja. Jafnvel reyndi maður að halda sér vakandi frameftir til að missa ekki af neinu.

Nú eru komnir gestir í Þingvallakirkju, og við viljum taka vel á móti þeim. Samt getum við ekki gefið þeim kaffi þó að því hafi eiginlega verið lofað í fyrra, og það hefði líka verið efnt ef ekki hefði verið skipt um húsbónda í ríkisstjórninni og presturinn hafi ekki komist til þess að sækja um það til nýja forsætisráðherrans eins og til hins gamla, sem var búinn að lofa því að opna bæinn eins og hann gerði hér á páskum, og Guð blessi hann fyrir það.

Það er náttúrulega dálítið merkilegt að sóknarpresturinn á Þingvöllum eigi það undir náð forsætisráðherra hverju sinni hvort hann getur gefið kaffi í prestsbústaðnum eða ekki. Um það viljum við ekki ræða frekar, en ég bið ykkur afsökunar á því vegna þess að við sem erum hér að störfum erum í mikilli þakkarskuld við þau sem vilja koma til okkar og leggja okkur lið í kirkjustarfinu eins og þið gerið í dag, og syngið fyrir englana og með okkur hinum. Guð laun fyrir það.

Ég tek sérstaklega fram að það var ekki ég sem valdi guðspjall dagsins. Það var valið fyrir þennan dag fjórum öldum áður en kristni kom í landið. Þetta segi ég til þess að þið áttið ykkur á því að hér er ekki verið að ræða sérstaklega um Furugerðiskórinn eða annað fólk frá þeim stað, þegar talað er um flísina og bjálkann, eða annað því líkt.

En áminningar um orð og notkun þeirra gilda fyrir okkur öll. Það vissi líka skáldið Einar Benediktsson, sem hvílir hér fyrir austan kirkjuna.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka.

Kannski er engum manni gefið meira vald en vald orðanna.

Guðspjallið í dag kveikir margar og margslungnar hugleiðingar um orð. Til dæmis um orðið réttsýni. Það er auðvitað ekki síst vegna þess að þar er að finna orð Jesú um flísina og bjálkann. Ég giska á að fáar setningar sem hafðar eru eftir honum séu fleirum kunnar eða meira notaðar en þessi:

Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Guðspjallið er óvenjulegt að því leiti að það myndar ekki samhengi í frásögn heldur er það sett saman úr nokkrum setningum úr munni Jesú Krists. Samhengi þeirra er óbeint, en sérhver þeirra myndi nægja til þess að vera tilefni predikunar og umhugsunar.

Lexía og pistill dagsins eru af sama toga. Þetta er dagur heilræðanna.

Það væri auðvitað nærtækast að taka þann hluta sem svona vel er þekktur eins og þetta með flísina og bjálkann og gera það út frá hugmyndum um réttsýni yfirleitt. En hið sameiginlega upphaf guðspjallsins felst í inngangsorðum þess (v.36). Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. Hér má visa í aldeilis prýðilegt viðtal við Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón í einhverju blaðanna í gær eða fyrradag, sem er frábær útlegging á þessum texta.

Lærisveinar Jesú Krists áttu forðum ekki aðeins það sem þjónaði líkamlegri heilsu þeirra og velferð sameiginlegt, heldur var hið sameiginlega fyrst og fremst hið nýja réttlæti þeirra sem játast Kristi. Og það höfum við flest eða öll gert í fermingunni. Að taka við þessu réttlæti þýðir að komast til skilnings á því að tengslin milli manna, milli einstaklinga, það er sambandið milli fólks inbyrðis sé þar með komið á annað og æðra stig. Þegar samband við Guð kemst á hefur um leið orðið til samband við annað fólk. Með vissum hætti má segja að guðspjallið sé einskonar útlegging á því hvernig kærleikurinn til Guðs og til náungans fellur saman í eitt. Hin nýja veröld lærisveinanna, innihald og veruleiki köllunar þeirra er tilvist Guðs og vera hans. Ekki þeirra eigin tilvist. Lærisveinar eru börn Guðs. Þannig upplifa þeir sig. Á öllum tímum. Þannig vilja þeir lifa og starfa. Ekkert er sterkara eða kraftmeira til að sýna að þeir eru börn Guðs en miskunnsemin. Hún er fullkomleiki Guðs. (sbr. Mt. 5.48 ) Hún er uppfylling orða Jesú er hann segir: Verið þér því fullkomnir eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Miskunnsemin sem hér er talað um er lifandi veruleiki og möguleiki. Í miskunnseminni fylgja lærisveinarnir föðurnum og verða honum líkir. Í miskunnseminni.

Kæri söfnuður. Á þessum stað í predikuninni er nauðsynlegt að minna á orðin í trúarjátningunni: Ég trúi á samfélag heilagra. Einkenni þess samfélags er að það er samfélag um hið heilaga. Það sem helgar það er Guð sjálfur og nálægð hans. Í ljósi hans sjáum við helst og fremst hver við erum. Það er alls ekki víst að það sem við sjálf sjáum og vitum um okkur sé fullnægjandi eða endanlegt. Ekki frekar en við sjáum tilvist englanna.

Við erum minnt á það á vísum stað í hinni helgu bók að við séum nú ekki öll stórættuð, vitur eða máttug eða framúrskarandi á einhvern hátt. Samt lifum við hvert og eitt merkilegu lífi og enginn annar lifir því sama. Þegar þú sérð líf þitt í samhengi við miskunnsemi Guðs þá sérðu fyrst hvað það er stórkostlegt.

Það sem er hinn drífandi kraftur kristinnar miskunnsemi er ekki aðeins sýnin á hina mannlegu neyð sem birtist í þúsundfaldri mynd og brennandi ósk um að geta að minnsta kosti létt þá neyð í smávægilegum mæli, heldur er það vissan um miskunnsemi Guðs og eigin reynsla af henni.

Aðeins jafn lengi og þetta samhengi miskunnarinnar milli Guðs og manns er lifandi er miskunnsemin æðri allri náttúrulegri góðvild og miklu æðri en hverskyns nytjasjónarmið sem nú um stundir virðast ráða för í samfélaginu.

Miskunnsemi mannanna sem byggir á miskunnsemi Guðs eitthvað allt annað en hin almenna félagslega þjónusta samfélagsins, þó að hún sé frábær þar sem hún er veitt og að hrósa beri þeim sem hana veita og hana styðja. Miskunnsemi Guðs er gjöf hans sem hann gefur af mildi sinni. Hún stendur ekki í neinu samhengi við hið mannlega skipulag opinberrar þjónustu ríkis og bæjar, hún veit ekkert um virði eða verðgildi, um virðingu mannanna, framkomu þeirra og hegðun. Hún er sprottin af kærleika Guðs og horfir dýpra. Kærleikur Guðs sér manneskjuna eins og hún er í sínu innsta eðli og kjarna, og trúir á þann kjarna sem getur umbreytt öllu til góðs, vegna þess að hann er fæddur af anda hans.

Og þá má líka koma til baka til textans um flísina og bjálkann. Ekkert er verra og ekkert hindrar meir miskunn Guðs að starfi en sú tilhneiging okkar að dæma samferðafólk okkar eða mannfólkið yfirleitt, vegna þess að með því lokum við okkur fyrir miskunn hans. Leiðsögnin sem við gætum og getum veitt hvert öðru verður að taka mið af miskunn Guðs en ekki okkar eigin mati á verðleikum annarra eða okkar eigin. Það er þungamiðja guðspjallsins á þessum degi.

Guðspjallið er sem sagt fyrst og fremst heilræði Jesú sjálfs til okkar sem viljum fylgja honum í lífi okkar og trú. Það fjallar ekki um einhverja óskilgreinda hina, á löngu liðinni tíð. Það talar beint við þig og mig: Lifðu í miskunnsemi Guðs og dæmdu ekki.

Í einföldustu mynd sinni segir textinn: Hugsaðu áður en þú talar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen