Að skoða hug sinn að kveldi dags

Að skoða hug sinn að kveldi dags

Gott er að gefa sér tóm til þess að kvöldi dags að skoða hug sinn og horfa yfir gengin spor. Og minnast þess að Guð sem vakir yfir og elskar skynjar hugrenningar okkar og heyrir andvörp okkar. Hér eru nokkrar spurningar sem gott getur verið að spyrja sjálfan sig.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
18. mars 2009

– spegill huga og sálar

Hverjum og einum er hollt og gott að skoða hug sinn og horfast í augu við sjálfan sig. Sjálfsrannsókn, syndajátning, skriftir, allt er þetta mikilvægir þættir í trúarlífi kristinna manna. Það er að játa syndir sínar og þiggja fyrirgefningu Guðs.

Að játa synd sína er ekki að leitast við að fá Guð til að skipta um skoðun eða breyta áliti hans á sér eða biðja hann að fyrirgefa. Heldur það að þakka fyrir kærleika hans og fyrirgefningu. Við erum að þakka Guði fyrir það, að allt frá móðurlífi hafa augu hans séð okkur og elska hans umvafið okkur. Hann elskar okkur að fyrra bragði. Við gleymum því svo gjarna. Þegar við játum syndir okkar erum við því að breyta afstöðu okkar til hans, og um leið til náungans. Í hugarfylgsnum dylst svo oft meir og minna ómeðvituð sektarkennd, tilfinning fyrir því sem mistókst, vitund um vanrækslu eða brot gegn öðrum. Og slíkar kenndir grafa um sig og verða beiskja, kaldhæðni og hjartakul. Þakklætið, auðmýktin, tilfinningin fyrir því sem við þiggjum og njótum af Guði, lífinu og samferðarfólki, er blessun og heilsubót líkama og sál. Það vermir, glæðir og lýsir upp hjarta og huga, og leynir sér ekki í viðmóti og verkum.

Gott er að gefa sér tóm til þess að kvöldi dags að skoða hug sinn og horfa yfir gengin spor. Og minnast þess að Guð sem vakir yfir og elskar skynjar hugrenningar okkar og heyrir andvörp okkar. Hér eru nokkrar spurningar sem gott getur verið að spyrja sjálfan sig.

Hvaða drauma skóp ég í nótt?

Við hvað dvöldu augu mín í dag?

Hvað sá ég ekki?

Hvar var ég særður, án þess að eftir væri tekið?

Hvað lærði ég í dag?

Hvað las ég í dag?

Hvaða nýjar hugsanir vitjuðu mín?

Hvaða breytingum veitti ég athygli hjá þeim sem nálægt mér voru?

Hverja vanrækti ég?

Í hverju vanrækti ég sjálfan mig?

Hverju byrjaði ég á sem getur varað?

Hvernig voru samræður mínar?

Hvað gerði ég í dag fyrir þau fátæku og einmana?

Minntist ég hinna látnu í dag?

Hvar gat ég tekið áhættu hins nýja og annars konar?

Hvar leyfði ég mér að þiggja umhyggju?

Með hverjum fann ég sem mér liði best?

Hvað snart mig í dag? Hversu djúp spor markaði það í mig?

Hver sá mig í dag?

Hvað vitjaði mín í dag frá liðnum dögum og ókomnum?

Hvað forðaðist ég í dag?

Þegar alls þessa er gætt – til hvers var mér gefinn þessi dagur?

John O´Donohue