Barnadagur

Barnadagur

Kannski er helförin stærsta dæmið um glæpaverk af þessu tagi. Kannski eru mörg slík í gangi enn. Hversvegna fær Mugabe enn að ráða? Hversvegna falla milljónir í hungsneyðum í Afríkuríkjum. Hversvegna getur ekki orðið friður milli Palestínu og Ísrael?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Kæri söfnuður.

Jólahaldið setur svip sinn á dagana þó að helgasti tími jólahátíðarinnar sé að baki. Við komum saman í kirkjunni á fjórða degi jóla og fögnum komu frelsarans. Eða hvað?

Hversu miklu máli skiptir það í raun og veru hinn almenna mann í þessu landi og í þessari kirkju, það sem er megininntak jólaboðskaparins: Yður er í dag frelsari fæddur!

Það væntir enginn frelsara nema sá sem er í þörf fyrir hann. Er þörf?

Það fjölgar þeim sem halda jól án trúarlegs innihalds, í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem ekki tilheyra trúarsamfélagi. Þau eru væntanlega ekki heldur að leita að frelsararanum Jesú Kristi eða hlusta eftir boðskap um hann.

En hvað með þau sem tilheyra hinu kristna samfélagi, óháð því hvort böndin eru sterk eða veik? Ef jólin eru bara þægileg stemming í stutta stund fengin með því að hverfa frá hinum ytri aðstæðum, eða horfa burt frá þeim, og horfast ekki í augu við raunveruleikann, þá eru jólin blekking og tálsýn. Þá eru þau ekki hátíð trúarinnar, nema þá þeirra trúar sem kalla mætti með réttu ópíum fyrir fólkið. Og hverskonar hátíð er það?

Þegar þeir hinir vísu kirkjuleiðtogar völdu dagana kringum vetrarsólhvörf til að minnast fæðingar Jesúbarnsins, sem vel að merkja var ekki fyrr en háfri fjórðu öld eftir að kristin kirkja varð til, þá voru þeir ekki með það í huga að lesa skyldi guðspjallsfráögninina um fæðinguna marga daga í röð, heldur skyldi einmitt vegna innihalds þeirrar frasagnar um fæðingu frelsara heimsins, minnast þess inn í hvaða heim frelsarinn var fæddur og hvað það er sem hann frelsar frá og frelsar til.

Það er auðvitað ekki hlutverk þessarar predikunar að spilla gleðinni yfir hinu hugljúfa og fallega í jólaboðskapnum, en það hlýtur að vera hlutverk hennar að hleypa að þeim skilaboðum til safnaðarins sem dagarnir geyma samkvæmt ritningunni.

Þess vegna verður að benda á að þó að sönnu sé sunnudagur milli jóla og nýárs í dag, og að lesa beri hið fallega guðspjall um Símeon, þegar þau mættu í musterið Jósef og María með Jesúbarnið og hittu hann, og að þetta sé samkvæmt þeirri lestraskrá sem kirkjunni ber að fara eftir, eins og öðrum skyldum kirkjum, þá er það nú þannig, kæri söfnuður, að strangt til tekið er þetta guðspjallið fyrir kyndilmessu, sem er eins og allir vita 2. febrúar, nefnilega 40 dögum eftir jól, því að María átti þá fyrst erindi í musterið þegar hinir 40 hreinsunardagar hennar voru á enda. Samkvæmt lögmálinu.

En ástæðan fyrir því að þetta er lesið nú, er auðvitað sú að hinir vísu kirkjufeður voru ekki endilega að hugsa um tímaröð í þessu efni, ekki fekar en að reyna að finna út hvenær nákvæmlega á árinu Jesús væri fæddur, eða hvaða ár. Það skiptir auðvitað trúarlega séð, ekki miklu máli þó að það hafi verið til dæmis 17.júní árið sjö, fyrir Krist. Það höfðu svosem komið fram tillögur,eins og til dæmis að minnast fæðingarinnar í maí, eða bara sama dag og hann dó.

Það sem skiptir máli að þeirra mati eins og okkar er að frelsarinn fæddist á jörðu.

Það sem fyrst og fremst er hugsað um þegar þetta guðspjall er valið eru áramótin framundan, að hið gamla mætir hinu nýja, í Símeoni og Jesú Kristi. Gamla Testamentið og Nýja Testamentið mætast. Í yfirfærðri merkingu mætast gamalt og nýtt við hver áramót.

En, það verður þó að taka fram að víða var það svo að ekki mátti lesa þetta guðspjall fyrr en á morgun, 29. desember, til þess að glata ekki boðskap dagsins í dag.

Því að í dag, 28.desember er Barnadagurinn.

Jólaguðspjallið kynnir frelsara heimsins fyrir heiminum, það er lesið á jóladag. Strax á annan jóladag er allt annað stef ríkjandi. Þá er Stefánsdagur. Þá er minnst hins fyrsta manns sem var myrtur vegna þess að hann játaði trú á Jesú Krist. Daginn eftir er dagur Jóhannesar postula, og guðspjallamanns. Hann sem var hinn trúfasti vottur sannleikans.

Og svo kemur dagurinn í dag, þegar þess er minnst hvernig heimurinn holdgerður í Herodesi konungi lét drepa öll börn í Betlehem tveggja ára og yngri til þess að tryggja að Jesúbarninu yrði fyrirkomið. Og það er alveg stórundarlegt að þessa dags skuli ekki minnst í kirkjunum. Það er eins og hver annar pempíugangur að vilja ekki tala um barnamorðin í Betlehem, af því það sé svo ljótur texti, þegar það er daglegt brauð að börn séu drepinn í Betlehem og við lesum það í blöðunum eins og sjálfsagða hluti!

Herodes gat auðvitað ekki skilið neina konungstign nema að pólitískum skilningi, og nýfæddur konungur var ógn við veldi hans og því bar að ryðja þeirri ógn úr vegi. Barnamorðin í Betlehem eru stöðug áminning um öll þau börn stór og smá sem rutt er úr vegi vegna þess að þau eru ógn við veldi einhvers þess sem setja vill sig í sæti Guðs. Þess vegna má aldrei gleyma þessum degi. Kannski er helförin stærsta dæmið um glæpaverk af þessu tagi. Kannski eru mörg slík í gangi enn. Hversvegna fær Mugabe enn að ráða? Hversvegna falla milljónir í hungsneyðum í Afríkuríkjum. Hversvegna getur ekki orðið friður milli Palestínu og Ísrael?

Barnadagurinn sýnir okkur í allri sinni skelfingu þann heim sem frelsarinn er fæddur inn í og hversvegna við þurfum svona mikið á frelsaranum að halda.

Barnadagurin minnir okkur á öll þau pólitísku morð sem hafa verið framin, og á þau sem eru í sárum eftir það. Barnadagurinn minnir á sorg þeirra.

Barnadagurinn í ár ætti einnig að minna á 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Allir menn. Segir þar.

Barnadagurinn minnir á öll börnin sem eru óvelkomin í þennan heim, og eiga engan að, alast jafnvel upp eins og dýr í búri á sértstökum stofnunum, eða alast upp á götunni, og eiga þar það eina markmið fyrir daginn að geta andað að sér óþverra sem eyðileggur hverja skýra hugsun, og líkamsstarfsemi þeirra, og fellir þau flest fyrir tólf ára aldur.

Og dagurinn minnir á börnin sem aldrei fá að fæðast af því að þeim er eytt í móðurkviði. Það eru börnin sem í nútímanum mætti kalla óhreinu börnin hennar Evu, af því að það má ekki tala um þau til þess að særa ekki tilfinningar þeirra mæðra sem farið hafa í fóstureyðingu.

Við ættum að skammast okkar fyrir að hugsa ekki betur um þær mæður sem gengist hafa undir fóstureyðingu, og það má alveg einu gilda af hvaða ástæðu það var.

Það eru særðar mæður, sem flestrar hverjar búa við innri sorg sem enginn talar um. Og þær eru margar. Rakel grætur börnin sín. Segir Jeremía spámaður af öðru tilefni. Það var hermt upp á barnamorðin í Betlehem. Það má hafa það oftar í huga.

Sem Heródes er heimurinn, svo herradóm hann elskar sinn, að sakleysið og sannleikann hann sviptir lífi, nær sem kann, og til þess vald sitt viðhaldist, hann vill, ef gæti, deyða Krist. (Sb. 570)

Kæri söfnuður.

Styrkur kristinnar trúar birtist í því að þora að játa trúna andspænis öllu því óréttlæti, hörmungum, sjúkdómum og erfiðleikum sem mannlegt líf stendur frammi fyrir á öllum tímum. Líka á jólunum. Við hliðina á því blikna jafnvel þau vandamál sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir þessa dagana.

Styrkur kristinnar trúar felst einnig í því að gleyma sér ekki yfir þvi eða í því að sökkva sér niður í íhugun hins illa og mislukkaða.

En kristindómurinn er ekki afbrigði af bjartsýni. Kristindómurinn er björt sýn á heiminn vegna þess að hann kennir sig til frelsararans og trúir á hann.

Um þetta vitna jólasálmarnir sem við höfum sungið þessi jól eins og ótal sinnum áður.

Líkast til er elsti jólasaálmurinn, eða í það minnsta brot af honum í fyrra bréfi Páls til Timoteusar (nánar tiltekið í 3.16). Þetta vers endórómar í pistlinum sem við heyrðum úr Hebreabréfinu.

Það er ástæða til að dvelja stuttlega við hann einmitt á þessum tíma þegar jólabjarmninn minnkar, og sjónin skerpist á ný.

Í nýjustu þýðingu Biblíunnar hljóðar þetta jólavers svona:

Og víst er leyndardómur trúarinnar mikill: Hann birtist í manni, sannaðist í anda, opinber englum, var boðaður þjóðum, trúað í heimi, hafinn upp í dýrð.

Það eru að sjálfsögðu til margar mismunandi útgáfur á þessu versi eftir biblíuþýðingum og eftir tungumálum. Til dæmis þessi:

Kunngjörður er hinn mikli leyndardómur trúarinnar. sem birtist í holdi, var réttlættur í anda, varð sýnilegur englum, boðaður þjóðum trúað í heimi og hafinn upp í dýrð

Sannarlega er leyndardómur trúarinnar mikill. Hér segir að það sé beinlínis hluti játningar okkar að við viðurkennum að trúin sé leyndardómur og að inntak trúarinnar sé leyndardómur.

Þetta ljóð, er í eðli sínu einungis ein tilvísunarsetning um leyndardóm trúarinnar og álykta má að sá sem vísað er til sé Jesús Kristur. Í eldri þýðingum á íslensku stendur þess vegna stundum: Guð birtist í holdi.

Í hinni listrænu uppbyggingu þessa sálmvers er jarðneskt og himneskt parað saman.

Megin stefið er tenging himins og jarðar, hins sýnilega og ósýnilega.Það er eining Guðs og manns. Rétt eins og Valdimar Briem kenndi okkur að syngja í sálminum: Í dag er glatt í döprum hjörtum.

Hér, hjá honum, eru líka þrjú pör hins himneska og jarðneska:

Sá Guð, er hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær. Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum, sá Guð, er öll á himins hnoss, :,: varð hold á jörð og býr með oss. :,:

Jólaversið í bréfinu til Tímoteusar segir: Hann sem tók á sig mannlegt hold og var lagður í jötu lítið barn, var réttlættur í heilögum anda að vera Sonur Guðs. Hann sem englarnir á himnum sáu ,var predikaður á jörðu. Það var trúað á hann í heiminum, og hann var hafinn upp til dýrðar Guðs á himnum.

Með öðrum orðum: Guð birtist í holdi, hann er boðaður með þjóðum og trúað í heimi.

Guð stígur út úr þokunni eins og í ljóði Hjartar Pálssonar um mynd Nínu yfir altari Skálholtsdómkirkju: Stígur út úr þokunni, stígur fram úr skýinu, sveipaður litum sakleysis, birtu og vonar.

Hinn huldi Guð sviptir hulunni af, hinn ósýnilegi verður sýnilegur. Leyndardómur allra leyndarmála er opinberaður. Og, af því að Guð birtist, er ekki lengur hægt að tala um hinn mikla óþekkta Guð, sem við vitum ekkert um og getum ekkert sagt um, Frá því að hann hinn ósynilegi birtist í holdi , þorum við og vogum við að tala um Guð sem vill að við, börn hans leitum hans og leitum til hans og vill að hann finnist. Það er fyrsta merking þessa vers og jólaatburðarins sjálfs. Hinn huldi Guð er ekki lengur hulinn Guð.

Holdið sem hann birtist í er hvorki það hold sem er andstaðan við andann, holdið sem girnist gegn andanum, eins og ritningin segir, né heldur það hold sem merkir hinn spillta og umsnúna heim, heldur er það hinn líkamlegi veruleiki; mannlegt form og snið.

En um leið hluti alls hins skapaða holds á jörð.

Og það er svolítið vandræðalegt ef ekki má lengur nota orðið hold um það sem er hold. Maður er of þröngt hugtak, þótt það eigi við þegar sagt er: Orðið varð hold og hann bjó með oss. Guð varð maður.

Leyndardómur trúarinnar er ekki óhlutbundin hugmynd, og ekki spekikenning í ritverki heldur er það mynd Guðs í raunverulegri persónu:

Hann var í jötu lagður lágt. Hann var lítið barn með bleyju.

Nafn hans er boðað öllum þjóðum og á hann er trúað í allri veröld, öllum heimi. Því að gjörvallur heimurinn er þátttakaandi í þessum atburði sem snertir hann allan. Þó jafnvel hans eigin menn taki ekki við honum.

Birtingarmynd jólanna í lífi okkar og fjölmargra annarra er vonandi friðsæl og kyrrlát og andlega nærandi, en erindi jólanna hrífur okkur burt þaðan. Guð birtist í holdi til þess að tekið verði á móti honum með opnum hjörtum og huga svo að heimurinn megi umbreytast og frelsast fyrir hann, frá myrkri til ljóss, frá ranglæti til réttlætis, frá illsku til gæsku. Til eilífs lífs, inni í dauðanum miðjum.

Það er hinn mikli leyndardómur trúarinnar. Það er erindi jólanna.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum anda um aldir alda. Amen.